<$BlogRSDUrl$>

31 október 2006


Ég mun segja frekari tíðindi af kettinum. En ekki í dag.

Nú ber það nefnilega helst til tíðinda að herdeildir mínar á írsku vígvöllunum hafa reitt til síns nýjasta höggs. Ég mæli einnig sérstaklega með hlekknum frá stríðsherrunum mínum yfir til Mings hins miskunnarlausa. Þar er sko skemmtilegasta ljóðasíða internetsins.

Segi og skrifa:

Skemmtilegasta. Ljóðasíða. Internetsins.
by Hr. Pez

29 október 2006


Fundin. Allt er gott sem endar vel.
by Hr. Pez

27 október 2006


Ja sjaldan er ein báran stök. Frúin hringdi í mig í gær og sagði mér að kötturinn væri horfinn. Það er ómögulegt, sagði ég. Þetta er inniköttur sem hefur ekki farið lengra en út á svalir á þriðju hæð (þegar veður leyfir) síðan við fluttum í Grafarvoginn. Og var reyndar orðin hálfgerður inniköttur fyrir - henni líkaði ekkert alltof vel við heiminn þarna úti, jafnvel þótt hún kæmist út til að skoða hann.

En reyndin er þessi. Hún er horfin. Gufuð upp. Jörðin búin að gleypa hana. Ekki einu sinni brosið eftir. Möguleikarnir eru þrír:
1) Hún gæti hafa sloppið fram á gang meðan ég skrapp að ná í dagblöðin í gærmorgun. Og þaðan út um útidyrnar seinna um daginn án þess að nokkur hafi tekið eftir henni. Ólíklegt.
2) Hún gæti hafa sloppið út á svalir í gær þegar Logi var settur út í vagninn. Og stokkið þaðan niður þrjár hæðir. Enn ólíklegra.
3) Hún gæti verið inni í skáp eða undir einhvurslags mublu. Ólíklegast af öllu, þarsem ekki hefur heyrst múkk í henni í vel á annan sólarhring núna. Nema hitt komi í ljós, að við finnum hana þá fyrst þegar hún fer að lykta.

Þetta. Er. Óskiljanlegt.

Hún var ekki einusinni með ól um hálsinn. Þess þurfti ekki. Hún fór aldrei út.

Allavega. Ef þú ert að þvælast í Grafarvogi og rekst á lítinn, feitan, gráan kött sem lítur nokkurnveginn svona út (ekki alveg samt (nefni sérstaklega að hún hefur hvíta skellu vinstra megin á snoppunni) - ég er ekki með rafræna mynd af henni við höndina) þá má viðkomandi... tjah... bara gleyma því. Þú nærð henni aldrei, held ég. Hún er fælin. Hún fælist... allt.

Þetta er hálfvonlaust eitthvað.

Annars skilst að það sé einhverslags alþjóðlegur bangsadagur í dag. Eygló með glænýja sendingu af böngsum á bókasafninu sínu og Hrefna átti að gjöra svo vel að mæta með bangsa í skólann í morgun. Í tengslum við það rakst ég á frétt um bangsavígin miklu sem voru framin í Englandi núna síðsumars.

Á dögum sem þessum kætir mann alltaf ofurlítið að geta lesið um ófarir annarra.
by Hr. Pez

26 október 2006


Svarið við nóvembergetrauninni er: Kettir.

Dora Maar lét Picasso mála af sér fræga mynd með ketti.
Charles Perrault er höfundur ævintýrisins um stígvélaða köttinn.
Thomas J. Woodward, betur þekktur undir nafninu Tom Jones, söng "Hvað er títt, kisulóra."
Cioacchino Rossini samdi Kattadúettinn.
Erwin Schrödinger er höfundur þversagnarinnar um köttinn sem er bæði dauður og lifandi.
Jón Helgason orti ljóðið "Á afmæli kattarins" (Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul...)

Ætli ég hafi náð þessu?
by Hr. Pez

25 október 2006


Sorgarfréttir: Hún Gotta er dauð, blessuð kerlingin. Karl faðir minn gróf hana frammi í Reit í fyrradag. Stelpurnar fengu fréttirnar undir kvöldið í gær. Ég var því miður fjarri þegar það var en þær ku víst hafa tekið því af karlmennsku. Við Una ræddum þetta svo aðeins í morgun. Henni þótti þetta eðlilega mikil tíðindi.

Nú er tómlegt í Bakkahlíðinni og foreldrum mínum ku þykja skrýtið að heyra kvikindið ekki lengur bægslast frammi í þvottahúsi. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hundleysisástand vari lengi.

Ég man að foreldrar mínir eignuðust Gottu um svipað leyti og við Árný byrjuðum saman. Svona líður tíminn. Í denn tíð var Gotta fjörmikill svartur Labradorhvolpur. Undir það síðasta var hún afgamalt skar og skildi við södd lífdaga.

Þannig gengur það.

--Þannig gengur það.

Smá fróðleiksmoli að síðustu: Ef ég man rétt þá hét hún í höfuðið á bátnum sem flutti fyrstu hreindýrin til Íslands. Síðar var sá bátur fyrsti róðrarbáturinn sem faðir minn var munstraður á sem ungur maður.
by Hr. Pez

24 október 2006


Og í því rifjast upp fyrir mér þegar ég horfði með honum Pétri bró á Careless Whisper vídeóið í Poppkorni RÚV um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Og þar sem við horfðum á George Michael eigra innan um lagnet, talíur og hampreipi í uppdigtuðum netaskúr hversu mikil blessun það yrði ef hann myndi nú hengja sig í einhverjum af þessum köðlum.

Já, það er slembigefið eitís rívæval í spilastokkinum mínum þessa stundina. Nú er það Hold Me Now með Skafta og Skapta.

Annars hálfgerð synd hvað hann virðist vera að fara illa útúr hampinum í seinni tíð, strákurinn. Það vill segja, George Michael, vitaskuld.
by Hr. Pez


Æ, er þá ekki Tondeleió búin að gefa upp öndina á tölvuöld. Það var skammlíft gaman.

Ekki það að neinn þurfi að undra: Það er lítið fútt í því að viðra skoðanir sínar á internetinu ef sá eini sem nennir að lesa þig er einhver gráhærð pungrotta í Grafarvoginum.
by Hr. Pez

23 október 2006


Gunnar er enn heill heilsu


gegnsýrð af ófrjósemi!

(athugasemdin á við um efni sem flokkast sem
krabbameinsvaldandi
stökkbreytivaldandi
hafa skaðleg áhrif á æxlun
stefna skal að því að efni sem eru framandi í umhverfinu
skaðleg mönnum og náttúrunni
verði ekki til staðar í framtíðinni)

þegar ég stóð á ganginum á slysadeildinni
horfði inn í stofuna
þar sem hann lá meðvitundarlaus
að berjast við ófrjósemi
bíða eftir að fara ekki
bara til að verða fyrir vonbrigðum--

sterkt eitur
gæti verið lífrænt leysiefni
eða hættulegt heilsu
í tengslum við efnið
hættulegt umhverfinu
ertandi
hættulegt magn
af efnafræðilega óstöðugum efnum
í hættulegum styrkleika

hættu!

vá ég vildi ekki hitta
alvöru frjálshyggjumann
að þínu skapi
þú kveikir í húðæxli
á gasgrilli drauma þinna
þú dælir paraffínolíu
í pípulagnirnar mínar

(persónuhlífar ófullnægjandi
efnið getur ert
skaðlegt vatnalífverum
skaðleg langtímaáhrif
á lífríki í vatni)

þar liggur
slefandi gallalausi séfferhundurinn
í steranautinu:

ég er farinn að drekka meira kaffi
stórhættulegt
sé ekki fram á að geta staðið mig
í frænkuhlutverkinu
by Hr. Pez

20 október 2006


Það eru rólegheit á blogginu mínu þessa vikuna. Enda allt brjálað að gera í raunheiminum.

Komið aftur á mánudaginn þegar ég fagna Móldeginum með birtingu efnafræðiljóðsins "Gunnar er enn heill heilsu."

Þangað til þá, góða helgi.
by Hr. Pez

18 október 2006


Líf okkar er eitt samfellt vandamál. Og því skal kannski engan undra að auglýsendur keppast hver um annan þveran að bjóða okkur lausnir á hverjum þeim vandamálum sem geta plagað okkur. Okkur eru boðnar hugbúnaðarlausnir, samskiptalausnir, samgöngulausnir, fjármálalausnir, hreinlætislausnir, rýmislausnir og jafnvel veislulausnir. Auglýsingalausnir, en ekki hvað. Fyrirtækjalausnir og einstaklingslausnir. Eða einstaklingsmiðaðar lausnir, svo ég komi því nú rétt út úr mér. Heildrænar lausnir fyrir aðila á sviði einstaklingsviðskipta í þarfamiðaðri bankaþjónustu.

Þó fannst konunni minni steininn taka svo hressilega úr að hún varð að hnippa í mig þegar hún sá auglýsingu frá búð hér í bæ sem selur rúm, dýnur, kodda, áklæði og annað fyrir svefnmiðaða einstaklinga. Þar var vitaskuld verið að auglýsa svefnlausnir.

Svefnlausnir. Ef það er ekki orð dagsins.
by Hr. Pez

17 október 2006


Ég var að taka eftir því að nú hafa öll ljóðin sem ég hef plantað á ljóð.is hlotið þá upphefð að vera ljóð dagsins. Og skentileg tilviljun: ljóð dagsins í dag heitir einmitt í höfuðið á vinnustaðnum mínum. Gamanaððí.

Í tengslum við það er rétt að vara strax við Móldeginum (takk Valli) á mánudaginn næsta. Ég mun að sjálfsögðu birta hérna frumsamið ljóð um efnafræði (eins og própónentarnir stinga m.a. uppá) og mana alla sem vettlingi geta valdið að gera slíkt hið sama. Upp með skriffærin. Allir með.
by Hr. Pez

13 október 2006


Kalt mat: 10-15 pistla- og greinahöfundar í íslenskum blöðum sem ekki nokkur maður les. Kalt mat á sömu tölu fyrir íslenska bloggheima fæst með því að margfalda með respektífu invers hlutfalli stærðar blaðamannastéttarinnar og íslensku þjóðarinnar allrar: svona umþaðbil fimmþúsund bloggarar sem skrifa útí tómið, ef mér skjöplast ekki.

Að því sögðu vil ég benda á manneskju sem ég þekki hvorki haus né sporð á en sem mér finnst vera bestast varðveittasta bloggleyndarmál síðasta mánaðar.

Og má vera að hún kunni mér litlar þakkir fyrir athyglina.
by Hr. Pez

12 október 2006


Mæli dagsins eru með Rósmarínklippingunni.

Una var með hitavelling á sunnudaginn var og tók upp á ýmsu skemmtilegu sér til dundurs í vanráðinu. Toppnum var náð þegar hún læddist með skæri inn á baðherbergið og náði af sér, já, toppnum. Uppúr helginni fór hún á hárgreiðslustofu til frekari lagfæringa af höndum fagmanna. Og kom heim með þessa líka ofsasætu Rósmarínklippingu. Akkúrat svona lítur hún út í dag.

Svo sæt. Svo sæt.
by Hr. Pez

11 október 2006


Ég man eftir Helgu Kvam að norðan. Hún er þar enn í dag. Og tekur góðar myndir. Ég mæli með Mynd-á-dag verkefninu hennar. Það er nú á sínum tvöhundruðátttugastaogsjötta degi. Ansi hreint magnað.
by Hr. Pez

10 október 2006


Einhverra hluta vegna dauðlangar mig til að mæla með myndinni Running Scared. Það eru einhverjar vikur eða mánuðir síðan við sáum hana en mig langar enn til að segja þetta. Ég veit ekki alveg af hverju (og eins og sést af hlekknum eru nógu margir ósammála mér) - þetta er í sjálfu sér ósköp ómerkileg B-mynd. Ég held að málið sé að hún er einmitt ómerkileg B-mynd í bestu merkingu þeirra orða. Eða nei, hún er of vel skrifuð til þess. Of vel leikin (já ég veit hún er með Paul "2F2F" Walker - ég er ekki að grínast). Vel gerð. Hún er úlfur í sauðargæru. Og inniheldur einhvern þann óhugnanlegasta millikafla sem ég hef séð í nokkurri kvikmynd fyrr eða síðar.

Hún kemst því miður ekki inn á topp-þrjú listann minn yfir bestu ómerkilegu B-myndir sem ég hef nokkrusinni séð, en hún yrði pottþétt inni á topp tíu.
by Hr. Pez

06 október 2006


Stórfrétt dagsins: Annálar ólíklegra rannsókna hafa tilkynnt um handhafa IgNóbel-verðlaunanna árið 2006. Smellið og lesið um rannsóknir sem fá okkur til að hlæja. Og síðan að hugsa.

Við fyrstu sýn virðist mér þau öll vera yfirmáta verðskulduð:

Fuglafræði: Af hverju fá spætur ekki hausverk?
Næringarfræði: Fyrir vísindaleg sönnun á því að skítabjöllur séu matvandar
Friðarverðlaunin: Fyrir hina mjög svo þörfu hljóðrænu unglingafælu
Hljóðfræði: Hvað nákvæmlega er svona óþolandi við hljóðið í nöglum sem skrapast yfir skólatöflu?
Stærðfræði: Fyrir mat á það hve margar myndir þarf að taka af hópi fólks þannig að enginn sé með lokuð augu
Bókmenntir: Fyrir alhliða samantekt á afleiðingum þess að hagnýta yfirmáta upphafið orðfæri án tillits til þarfagreiningar á lestraraðilum með það fyrir augum að sýna fram á skaðsemi þess að nota löng orð að óþörfu
Læknisfræði: Fyrir lækningu á hiksta með endaþarmsnuddi
Efnafræði: Fyrir rannsóknir á hljóðhraða í osti
Líffræði: Fyrir samanburð á áhrifum osta- og táfýlu á kvenkyns moskítóflugur.

Lesið, hlæjið og hugsið.
by Hr. Pez

05 október 2006


Rétt er að minna á seinni flutning þess mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld klukkan níu. Frá einum Guðbrandi og niðrúr við innganginn (auk þess sem bæði gul og græn áskriftarkort eru í fullu gildi).
by Hr. Pez

04 október 2006


Ég bara stenst ekki mátið.

Mér finnst snillingurinn hann Vallitralli hjassarass tvímælalaust eiga brandara dagsins í þessu kommenti hérna.

Þeir sem þekkja mig vita sem er að ég nota sum orð sem byrja á S af meiri hófsemi en önnur. Og af meiri hófsemi en aðrir.
by Hr. Pez


Þetta er ekki færsla um bloggstríð. Þarafleiðandi er þetta augljóslega færsla um bloggstríð, þar sem það að segjast ekki vera að tala um bloggstríð er ekkert annað en að tala um þau.

Ræt?

---

Með orðum Hallgeirs Maack: Hverjum er ekki sama.

---

Fyrri sýningin gekk ljómandi vel í gær. Nokkrir einþáttungar þóttu mér svo magnaðir að jaðraði við trúarreynslu: ég bara varð að komast heim og byrja að skrifa leikrit. "Ég vil geta gert svona," hugsaði ég. Sat við vel framyfir miðnættið og ruddi út blaðsíðu eftir blaðsíðu eftir...

Allavega.

Þegar ég leit yfir næturverkið sá ég að það var gott. Ég hef ekki verið svona ánægður með nokkuð sem ég hef reynt að skrifa í eitt og hálft ár. Og ég gladdist.

Reyndar hef ég ekkert skrifað af viti í eitt og hálft ár. Bött ðets bísæds ðö pojnt.

Það stefnir í góða mætingu annað kvöld (bæði í fjölda og, ööh, gæðum), svo ég hlakka til. Þetta verður rosalegt. Rosalegt.
by Hr. Pez

03 október 2006


Auk þess vil ég minna á þetta mánaðarlega í kvöld. Í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan níu.
by Hr. Pez
Mér tókst að muna eftir því í morgun hvaða dagur er í dag: Dagur Svalborgarhnútsins. Svo nú er ég með bindi í vinnunni.

Verst að enn eina ferðina tókst mér að gleyma alþjóðlega sjóræningjatalsmátadeginum. Og degi íslenskrar fyndni. Enn eina ferðina.

Skrambans.

Næst á dagskrá verður að rembast við að muna handklæðadaginn á vori komanda.
by Hr. Pez


Við höfum verið blekkt!

Mikið rosalega brá mér þegar ég horfði með dætrum mínum á gömlu, góðu, svart/hvítu uppsetninguna á Karíusi og Baktusi á afmælisdegi sjónvarpsins á laugardaginn var. Uppsetningin var slungin öllum sömu töfrum og í minningunni. Og Skúli Helga sýndi þann stjörnuleik sem mig minnti. En sjokkið kom við að uppgötva að þeir bræður segja ekkert "Ekki gera eins og mamma þín segir Jens!"

Nei. Alveg satt. Ég hélt að það dytti af mér andlitið.

Þeir segja: "GERÐU EKKI EINS OG MAMMA ÞÍN SEGIR JENS!"

Hvernig gat þetta gerst? Hvað er orðið af heiminum? Er ekkert öruggt lengur?

Æ, mig auman.
by Hr. Pez

02 október 2006


Auk þess má tína til orð vikunnar sem leið: "Forensic Computer Scientists."

Sei nó mor.
by Hr. Pez


Það bar helst til tíðinda um helgina að ég léttsauð gráfíkjur og lagði í púrtvín.

Langar einhvern í desert?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com