<$BlogRSDUrl$>

29 september 2006


Hálfa myrkrastundin í gærkveldi var geðþekk. Við hjónin slökktum ljósin og opnuðum út á svalir. Heyrðum "VÁÁÁ" í unglingunum sem ráfuðu um hverfið með vasaljós þegar götuljósin slokknuðu. Samt dró næsta lítið niður í menguninni: Kveikt á ríflega öðruhverju svalaljósi í næstu húsum og bílar að leggja og taka af stað frá stæðunum í grennd. Við horfðum fyrst á hina meintu myrkvun í sjónvarpinu. Það var svo "meira ekta svoleiðis," eins og skáldið sagði. Sáum viðtal við Andra Snæ gegnum innrauða linsu: "Maður á nú eftir að venjast þessu." Svo slökktum við á því líka. Kveiktum á útvarpinu. Og slökktum. Fórum út á svalir og mændum upp í appelsínugula skýjahuluna. "Jú þarna uppámilli. Sjáðu. Fjórar stjörnur. Nei fimm. Horfðu til hliðar við þær, þá sérðu, voða daufar." Fórum inn. Lokuðum. Sátum í stofusófanum í rökkrinu og pískruðum hálfum hljóðum. Þögðum. Pískruðum. Þögðum. Ég missti af götuljósunum kvikna aftur; alltíeinu voru þau bara þarna. "Litlu munaði," sagði músin.

Það var kósí. Það var næs. Maður ætti að gera meira af þessu: að slökkva á öllu heima hjá sér, bara til að njóta myrkursins innan eigin veggja. Líma svarta plastpoka á rúðurnar eins og Hakinn gerði á Nýja Garði forðum daga.

---

Þegar ég bjó á Nýja Garði kom fyrir að ljósin í sturtuklefanum voru óvart slökkt utan af gangi meðan ég var í sturtu. Það var niðamyrkur. Ekki handa sinna skil. Stundum kallaði ég fram og bað um að kveikja. Sjaldnast nennti ég því. Það var eitthvað óútskýranlega þægilegt við að standa undir rennandi vatninu í kolniðamyrkri. Sjá hvorki sjálfan sig né nokkuð annað. Það kom fyrir að ég sleppti að kveikja ljósið áður en ég fór inn og læsti að mér. Tróð handklæði uppað þröskuldinum. Einusinni rak einhver sig í takkann frammi og kveikti. Ég gekk ekki það langt að kalla fram og biðja um að slökkva aftur.

Þetta er ábyggilega eitthvað mjög freudískt: Vatnið og myrkrið. Leitin að móðurkviði eða eitthvað. Vottever: Vott. Eilíft.

---

Púff. Slakaðu á í táknrænunni hérna maður.

---

Ástæðuna fyrir Magnatoppnum má finna hér og líka hér (með mynd): Ég leik gamla geit í einþáttungi í dagskrá Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum á þriðjudags- og fimmtudagskvöldið í næstu viku. Allir hvattir til að mæta, vitaskuld.

---

Þegar ég gekk upp landganginn yfir Mýrina hans Ólafs í morgun var ég rétt á eftir einum úr lögfræðingateymi fyrirtækisins. Hann var með þykkan skjalabunka í úttroðinni möppu undir handarkrikanum; hafði greinilega þurft að taka vinnuna heim með sér. Í smástund langaði mig til að spyrja hann hvort ekki hefði verið sniðugra að afrita þetta fargan bara á harðan disk og taka með sér heim. Ég er ekki viss um að honum hefði þótt það fyndið.

---

Meistari, hvernig fannst þér semíkomman?
by Hr. Pez

28 september 2006Svona lít ég út. Svartklæddur og kominn með Magnatopp á hökuna (læt reyndar vera með flugugleraugun). Mér líður ekki alveg nógu vel með toppinn. Sérstaklega í ljósi áletrunarinnar á brjósti mér. Yfirlýsing um ástandið í þjóðfélaginu í dag snúin upp í sjálfhæðinn brandara. Ég er gangandi ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl.

Ég á mér reyndar afsökun. Ég hef málsvörn. Og ég mun eyða á hana fleiri orðum seinna. Þetta er ein hálfkveðin vísa sem ég mun andskotast til að botna innan nokkurra daga.
by Hr. Pez

27 september 2006


Auk þess vil ég nefna að ég heyrði einhverja auglýsingu í útvarpinu áðan sem laumaði að fólki að klæðast svörtu á morgun, vegna þess að tappinn verður settur í.

Mér þótti það ágæt hugmynd. Skrapp í búð og keypti mér svartar buxur. Bolurinn reyndar ekki alsvartur - það er á honum áletrun. Mér finnst "Fólk er fífl" eiga ljómandi vel við í tilefni dagsins.
by Hr. Pez


Ja þau tíðkast nú hin breiðu spjótin. Og atgeirinn heima og sárt leikinn Sámur fóstri og ég veit ekki hvað.

Það vita það ekki ganske margir en þessi síða á nafn sitt að þakka einum af þeim fimm fyrrverandi starfsmönnum Íslenskrar Erfðagreiningar sem nú er verið að lögbanna úti í Fíladelfíu. Sú saga er löng og konvolúteruð og dvelur um stund bæði við skotleiki á internetinu og mann sama nafni í Cohenbræðramyndinni The Big Lebowski.

Og hef ég ekki fleiri orð yfir þessu máli öllu. Í það minnsta ekki í bili.
by Hr. Pez

26 september 2006


Á leið heim síðdegis í gær tók ég eftir tveimur húfuklæddum ungum mönnum sem vöppuðu um á hljóðmöninni við Egilshöllina. Þeir fóru hægt yfir, horfðu með einurð og festu á íslenska jörð, og annað veifið var eins og annar þeirra beygði sig niður eftir einhverju og kallaði eftir félaga sínum. Svo lásu þeir grasið í sameiningu.

Ég hefði svoleiðis getað svarið að þeir voru að tína sveppi. Bara verst að það er hvorki kúalubbum né furusveppum fyrir að fara þarna hjá Egilshöllinni. Þeir vita vonandi hvað þeir eru að gera, strákarnir...

...en voðalega gaman annars að ungdómurinn skuli vera svona áhugasamur um náttúruna og lífheiminn í umhverfi sínu. Ég hef engar áhyggjur af framtíð þessa lands ef þetta er kynslóðin sem erfa mun heiminn.
by Hr. Pez

23 september 2006


Orð dagsins er tvímælalaust kakkalakkafaraldurshætta.

Kakkalakkafaraldurshætta.

Ég mátti bara til með að koma því að.
by Hr. Pez

22 september 2006


Í dag læt ég duga að plögga Tregavöttin.
Hlustið og njótið.
Eður ei.

Ég er til vitnis.
by Hr. Pez

21 september 2006


Einhverjir hafa verið að ergja sig yfir hugmyndum Jónínu Bjartmarz um að flytja Náttúrufræðistofnun og Náttúrugripasafnið á Keflavíkurflugvöll.

Mér finnst þetta frábær hugmynd.

Það er nú orðinn dágóður tími síðan ég las Draumalandið. En ef ég man rétt þá eyddi Andri Snær þar tölverðu púðri í að velta upp ýmsum skemmtilegum möguleikum sem hægt yrði að koma í framkvæmd á Miðnesheiði þegar herinn færi. Það var augljóst á máli hans að listinn var ekki tæmandi; hann var ekki einusinni tæmanlegur.

Að taka Náttúrufræðistofnun og Náttúrugripasafn úr sínum niðurdrepandi rottuholum við Hlemm og gefa hvártveggju allt það rými sem þarf úti á Miðnesheiði finnst mér vera besta hugmynd sem ég hef heyrt í tengslum við brotthvarf hersins frá upphafi umræðna um herlaust Ísland. Það vita allir sem vilja að Náttúrugripasafnið er ömurlega í sveit sett þar sem það er. Áratugum saman erum við búin að barma okkur yfir því hversu illa sé komið fyrir því. Og Náttúrufræðistofnun. Ég hef komið inn á Náttúrufræðistofnun. Þeir geta notað plássið þar líka, krakkarnir.

Það á að reisa "þekkingarþorp" í Vatnsmýrinni. Troða niður "upplýsingarhverfi" í Kópavogi. "Fræðasetri" að Hvammi í Dölum (nei reyndar ekki, en samt...). Og á meðan bíður allt þetta rými eftir að verða tekið í notkun fyrir eitthvað séníalt. Algjörlega brilljant. Hví ekki að nota akkúrat þetta tækifæri til að veita Náttúruminjasafninu sömu yfirhalningu og Þjóðminjasafnið fékk fyrir nokkrum árum? Í nánast hvert einasta skipti sem ég fer til útlanda reyni ég að snapa uppi náttúruminjasafnið á staðnum og sjá hvernig útlendingurinn gerir þetta. En ég hef aldrei komið á Náttúruminjasafnið við Hlemm. Ég bara get ekki hugsað mér að leggja það á mig. Ég skammast mín dálítið fyrir að hafa ekki farið, en ekki nándar nærri jafn mikið og ég óttast að ég myndi skammast mín sem Íslendingur fyrir lífsreynsluna ef ég færi.

Hugsið ykkur túrismann. Ég sé fyrir mér vísinda- og fræðahring um Suðurnesin sem yrði engu ómerkari en "Gullni Hringurinn" (sic) um Suðurlandið: Það yrði stoppað að sjávarsetrinu í Sandgerði og fræðst um lífríki sjávarins. Svo yrði brennt upp á Keflavíkurflugvöll til að skoða nýtt og stórglæsilegt Icelandic Natural History Museum. Með í hringnum væru, til dæmis, hverasvæðin við Reykjanesið eða Krísuvík. Það væri hægt að benda á náttúruperluna í Straumstjörnum í Straumsvík: einu ferskvatnstjarnirnar á vesturhveli jarðar þar sem gætir sjávarfalla. Það yrði stoppað hjá brúnni milli heimsálfanna (eins ómerkilegt gimmikk og það annars er, þá svíngengur það í túrhestana). Og svo yrði náttúrulega farið í sund, annað hvort í The Blue Lagoon eða í "Vatnagarðslífsreynslunni" í Keflavík.

Það eina er að ég er dálítið gáttaður á að þessi frábæra hugmynd skuli koma úr herbúðum Framsóknar, af öllum stöðum. Sennilega höfum við Jónína bara verið að lesa sömu bækurnar upp á síðkastið.

En það gildir einu hvaðan gott kemur. Mér finnst við ættum að stökkva á þetta.
by Hr. Pez

20 september 2006


Ég hef fylgst með fréttum af valdaráni hersins í Tælandi.

Ég get ekki að því gert: Það er eitthvað næstum því sætt við land þar sem leikreglur valdaráns eru svo skýrar að meiraðsegja undirleikurinn er fyrirfram gefinn.

"Næst mun sinfóníuhljómsveit ríkisútvarpsins leika valdaránskonsert fyrir þríhorn og pípuorgel eftir Plúmp, ópus 32."

Valdaránstónlist. Orð dagsins.

---

Annað orð dagsins: Frumtvíkímblöðungar.

Já, ef ég vissi þetta einhverntíma fyrir, þá var ég búinn að gleyma því: Lítill hluti dulfrævinga (magnólíur, lárviður og nokkrar tegundir í viðbót) fellur utanvið hina hefðbundnu skiptingu blómplantna í ein- og tvíkímblöðunga. Erettekki merkilegt.

---

Bíllinn okkar var á verkstæði yfir nóttina. Einhver aftursætispúki kveikti á dyraljósinu afturí í fyrrakvöld. Ekki var nóg með að bíllinn væri straumlaus þegar við vöknuðum í gærmorgun, heldur hrundi blessað nýmóðins tölvukerfið þegar rafmagnið tæmdist af geyminum. Það þurfti að draga bílinn niður í umboð til að "ríbútta."

Þar fór tuttugogfimmþúsundkall í eitthvað sem í þá gömlu góðu daga var hægt að leysa með startköplunum einum saman. Vill einhver selja okkur Lödu Sport? Fólksvagenrúgbrauð? Trabant?

Púff.

Hálfasnalegt annars að ekki sé hægt að hanna bíla eins og fartölvur og GSM-síma: að hugbúnaðurinn fari í neyðarlokun áður en allt er búið úr batteríinu.

---

Á leiðinni heim með strætó stóð ég með þeirri yngri á Hlemmi þegar Eyþór Arnalds skokkaði hjá á stuttbuxum og strigaskóm. Hann leit ósköp vel út karlinn, fyrir utan baugana. Mér skilst að hann hafi lést um einhverja tugi kílóa síðan í vor sem leið. Ég bíð spenntur eftir Séð-og-heyrt fyrirsögninni: "Ökuleyfismissirinn það besta sem hefur komið fyrir mig! Sjáið myndirnar! Fyrir! Eftir!"
by Hr. Pez

19 september 2006


Ég var að keyra í bæinn onúr Grafarvoginum um kvöldmatarleytið einn ofur venjulegan vikudag. Rétt ofan við Ártúnsbrekkubrúnina færði ég mig yfir á vinstri akrein til að síga framúr einum sem skömmu seinna beygði svo upp rampinn uppá brúna við Húsgagnahöllina. Annars var hvergi bíll í sjónmáli. Ég lá uppundir níutíu - gætti þess að halda mig ekki hærra yfir leyfilegum hámarkshraða en svo að hettumáfinum þætti ekki taka því, jafnvel þótt hann vakti oní Elliðaárdalnum. Í versta falli slyppi ég með "jæja væni minn, hvað á þetta nú að þýða."

Í því sem ég ek undir Ártúnshöfðabrúna tek ég eftir að í baksýnisspegilinn er skyndilega kominn sportlega vaxinn bíll. Með sportlega vaxinn ökumann við stýrið. Það var eitthvað óþreyjufullt við svipinn á kauða - honum fannst ég vera fyrir sér.

Sem ég var.

Og hann blikkaði mig. Bað mig sumsé með atferlistáknmáli ökutækja allranáðarsamlegast að vera ekki fyrir sér - ég ætti að drulla mér frá. Svo ég færði mig yfir á hægri akrein og horfði á hann þruma á undan mér niður Ártúnsbrekkuna, sennilega eitthvað yfir hundraðinu.

Í smástund var ég argur og forviða yfir aksturslaginu á ungdómnum í dag: Hvað er þetta að gera með próf á drápstæki og svona. Svo hugsaði ég að kannski væri hann bara að flýta sér útaf einhverri voða góðri ástæðu - kannski lá honum lífið á. Ég vissi það ekki. Ég gat ekki dæmt um það.

Það sem ég gat dæmt um var það hvernig hann tók framúr mér. Hann hefði getað lagst á flautuna fyrir aftan mig. Hann hefði getað tekið framúr mér hægra (les: öfugu) megin og jafnvel steytt hnefann í áttina að mér í leiðinni. En nei, hann blikkaði á mig háuljósunum í tvígang: "Þú ert fyrir mér. Þú hefur ekkert að gera hérna vinstra megin væni minn." Sem var alveg rétt hjá honum: ég lúrði á vinstri akrein meðan sú hægri var alveg marauð. Reyndar ekki nema örfáar sekúndur, en samt.

Svo eftir á að hyggja var ég bara dálítið ánægður með hann strákinn. Óskaði honum allra heilla í hverjum þeim erindum sem hann átti.

Leiðin var greið alla leið vesturúr.
by Hr. Pez

18 september 2006


Sú eldri varð sex ára í gær. Af því tilefni var bekkjarsystrum hennar öllum boðið í pizzupartí, köku og létta og skemmtilega leiki undir kvöldmatinn í gær. Öllum sautján með tölu. Það var... púff.

Ég veit hvernig helvíti lítur út og ég hef upplifað tvær klukkustundir af eilífri pínu hinna fordæmdu.

Ég hef glímt við djöfulinn. Hann er klæddur í fagurrauðan smástelpukímónó og hefur tuttugu höfuð sem öll eru bláeyg, brosandi með sítt ljóst englahár. Hann greip um mig fjörutíu litlum skúffukökuötuðum krumlum og öskraði "ÉG VIL FÁ PIZZUNA MÍNA BARA MEÐ OSTEEEEH! GEFÐU MÉR PEZ Á KÖKUNA MÍNAH!!! GEFÐU MÉR PEEEEEZ!!! RÍFÐANA!!! RÍFÐANAAAAA!!!!!"

Ojæja. Bjarta hliðin er sú að það brotnaði að minnsta kosti ekkert. Og kötturinn hlýtur að þora fram undan sófanum einhverntíma.
by Hr. Pez

15 september 2006


Orð dagsins er: Loftrastarbókmenntir.

Í dag uppgötvaði ég sumsé bókmenntageira sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til. Þessi uppgötvun kom uppúr því að lungu internetsins bentu mér á bók sem ég gæti haft áhuga á, byggt á fyrri kaupum.

Ég er dálítið svag fyrir henni þessari, ég verð bara að játa það...
by Hr. Pez

14 september 2006


Það er kennitölusöfnun í gangi á internetinu í dag. Mér finnst þessi mun geðþekkari en margar aðrar, þarsem sá sem skrifar undir skorar ekki á nokkurn mann að gera neitt. Nema sjálfan sig.

Það kann ég að meta: þannig verða bestu breytingarnar.
by Hr. Pez

13 september 2006


Ég er búinn að vera með lagið Headspin með rokkgerpinu Lúkasi á heilanum í allan dag. Samt vakti ég ekki eftir þættinum í nótt sem leið, frekar en fyrri þriðjudagskvöld. Geri bara ráð fyrir maraþonsyrpu í kvöld.

En allavega. Alltsýnisthringsnúast. Ég held nebblega að nú loks sé mér að takast að pota Leave them all behind með Ride í staðinn. Og er það vel.
by Hr. Pez


Ýmsir hafa verið að velta fyrir sér því þegar Kastljósið sýndi upptöku úr öryggismyndavél á mánudagskvöldið var: af unglingsstrák sem lagði öryggisvörð á bensínstöð rýtingi í bakið.

Ég spurði sjálfan mig að því undir téðum Kastljóssþætti hvort mér þætti þetta bara allt í lagi. Ég læt vera með myndbirtingar úr öryggismyndavélum af fólki sem "lögreglan óskar eftir að veiti aðstoð" (nudge nudge) í óupplýstum sakamálum. En við einmitt þessa myndbirtingu stakk mig þetta tvennt: aðdragandi og framkvæmd hnífsstungu voru sýnd í sjónvarpi allra landsmanna, hnífsstungu þar sem gerendur voru þegar búnir að gefa sig fram við lögreglu. Málið fastaðþví upplýst. Hvert var fréttamatið sem lá að baki sýningu myndskeiðsins? Hverju erum við nær við að sjá nákvæmlega hvernig öryggisvörður í Breiðholti var rekinn rýtingi í bakið?

Ég ræddi þetta við konuna mína og hún benti mér á að þetta hefði jú verið í stærra samhengi: að búið var að beina Kastljósinu að daglegu amstri lögreglumanna í Reykjavík alla helgina. Fyrir rest fannst mér að það væri kannski hægt að sjá í gegnum fingur sér með þetta eins og á stóð. En ég var samt með hálfgert óbragð í munninum yfir þessu. Það er auðvelt að verða hált á svellinu í grennd við svonalagað.
by Hr. Pez

11 september 2006


Helst í fréttum: Hann Logi litli var skírður á laugardaginn var.
by Hr. Pez

06 september 2006


Annar í vinnu og lífið farið að ganga sinn vanagang.

Það var eitthvað sætt sem ég ætlaði að blogga um fjölskylduna. Svo gleymdi ég því.

Í staðinn bendi ég á eitt alsvalasta lag þarsíðasta áratugar, Babytalk með byttunum í Lush, á topp fimm hjá Doktornum þessa vikuna (með fleiru góðgæti). Ég man enn þegar ég gróf þröngskífuna Scar uppúr pappakassa á utanhússútsölu KEA í Hafnarstrætinu vorið '91 og festi mér fyrir... hvað, hundraðkall? Tvöhundruð? Varð djúpt snortinn og hef ekki jafnað mig á þessu bandi síðan ég blastaði Babytalk úr græjunum stóru systur í fyrsta skipti fyrir fimmtán árum.

Hljómsveitin hætti fyrir nokkru í kjölfar þess að trommarinn svipti sig lífi. Síðan þá veit ég að önnur söngkonan stofnaði hljómsveitina Sing-Sing og er enn að. Hvað Miki Berenyi (sú japanska) gerir núna hef ég ekki hugmynd um. En öfundaraugu blína til doktorsins fyrir að geta kallað sig fyrrverandi pennavin hennar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com