<$BlogRSDUrl$>

31 maí 2006


Hápunktar Færeyjaferðarinnar um helgina:
- Náttúrulega höfnin í Gjögt
- Gömlu húsin á Tinganesi
- Cippo Sport Café
- Fjöldasöngurinn eftir lokun á Café Natur
- Vellukkaðir tónleikar á sunnudeginum (með óvæntri upptroðslu léttsveitar úr Silfri Egils)
- Að bragða skerpukjöt í þjóðlega kvöldmatnum
- Sagnadans í gamalli stofu með hóp af Færeyingum, ógleymanleg lífsreynsla
- Gangan úr Þórshöfn yfir í Kirkjubæ á mánudagsmorgninum

Lágpunktar Færeyjaferðarinnar um helgina:
- Klukkutíma bið eftir engu (sem þó var allan tímann alveg að fara að gerast) á róðrarhátíðinni við höfnina í Klakksvík
- Restaurant Merlot (skemmdur matur, skemmd þjónusta)
- Forföll færeyska kammerkórsins Tarira sem átti að halda tónleikana með okkur en afboðaði vegna jarðarfarar með sólarhrings fyrirvara
- Bragðið af skerpukjöti. Og söltuðu hvalrengi (hrognin, lifrarkássan og harðfiskurinn voru þó ljómandi góð).

Í það heila tekið stórvel heppnuð kórferð og frábær endir á vetrarstarfinu. Það verða allir að koma til Færeyja minnst einu sinni um ævina. Og mig langar strax aftur. Á Ólafsvöku.

Og það er ekki fullreynt með skerpukjötið ennþá - ég skal komast upp á lag með það.
by Hr. Pez

26 maí 2006


Það var hringt í mig úr leikskólanum í morgun: Hrefna var með gat á hausnum eftir að hafa fengið grjót í ennið. Ég fór með hana í leigubíl upp á slysavarðstofu (henni fannst mikið sport að fara í leigubíl - alltaf gaman að prófa svonalagað í fyrsta skipti þótt kringumstæðurnar séu ekki þær skemmtilegustu) þar sem saumuð voru í hana tvö spor.

Hún stóð sig eins og hetja. Ég á varla orð til að lýsa hörkunni og dugnaðinum í stelpunni.

Núna er hún heima með móður sinni - henni var lofað súkkulaðikexi eftir spítalaferðina og hún er eflaust búin að taka það út. Verst að hún missir af sundtímanum sínum núna síðdegis. En hún verður fær í flest klórblandað vatn strax eftir helgi.


Í gær bar helst til tíðinda að stigagangurinn tók sig saman, ruttaði út úr hjóla- og dótageymslunum og málaði geymslusvæðið í kjallaranum hátt og lágt, í hólf og gólf. Góða skapið réði ríkjum og verk unnust fljótt, vel og í miklu bróðerni. Þetta var eins og í hinum bestu ódýru dagsápum.

(Graaannaaar, allir þurfa góða graaaannaaaaa...)

Allt kláraðist (og meira til) nema seinni umferðin af lakki á gólfið - hún verður tekin í kvöld. En þá verð ég staddur í Færeyjum.
by Hr. Pez

24 maí 2006


Ég er frík.

Ég hef tekið saman þær niðurstöður sem komnar eru nú þegar í kommentakerfið við síðustu færslu, um það með hvaða fingri fólk kjósi að smella (þegar það smellir fingrum vitaskuld - einhverjir misskildu spurninguna annaðhvort óvart eða viljandi og féllu þeirra atkvæði dauð og ómerk) og bætti þar ofaná niðurstöðum sambærilegrar könnunar sem ég gerði á nokkrum vinnufélögum mínum. Í þeim tilvikum þar sem fólk sagðist geta smellt á fleiri en einn veg var þeirra besta eða uppáhalds fingrasmelliaðferð látin ráða.

Niðurstöður voru sem hér segir.

Þátt tóku 17 manns, í sameinuðu úrtaki (ekki reyndist marktækur munur á milli sýna). Þaraf voru 13 (76%) sem sögðust bestir í að smella með löngutöng. Af hinum kusu 2 baugfingur (12%) og 2 litlaputta (12%).

Sjálfur er ég einn af þeim fáu sem kjósa helst að smella með baugfingri. Ég get líka smellt með löngutöng en það er mun aumingjalegra. Alltþartil nú hef ég haldið að flestum væri farið líkt og mér - mér finnst svo miklu muna á aðferðunum tveimur að ég tók sem gefið að mannskepnan væri frá náttúrunnar hendi anatómískt betur gerð til að smella með baugfingri en löngutöng. En þessar niðurstöður benda ótvírætt til annars.

Óvæntasta niðurstaða þessarar könnunar er þó það velmerkjanlega hlutfall fólks sem kýs að smella með litlafingri. Eiginlega mesta furða að enginn hafi komið fram sem segist smella best með vísifingri (á eitthvað annað en tölvumúsina sína, þeas).

En sumsé, ég er frík. Ég er meðlimur minnihlutahóps.
by Hr. Pez

23 maí 2006


Smá skoðanakönnun:

Með hvaða fingri smellirðu?

Svör óskast í kommentakerfi.
by Hr. Pez


Morrissey í Júróvisjón!
by Hr. Pez

22 maí 2006


Toppurinn á laugardeginum voru tónleikar búlgverska kvennakórsins Angelite í Hallgrímskirkju. Þegar kórtónlist er vel sungin er ekki til magnaðri tónlistarupplifun í veröldinni. Og Angelite held ég hljóti að vera besti einhver kvennakór í heimi.

Kvöldið var jú skemmtilegt líka. Úrslitin komu yfirmáta ánægjulega á óvart (ég sagði að þeir myndu gera það!) og áttatíu prósenta skorið vel viðunandi þessfyrirutan (flaskaði á Armeníu og Írlandi fyrir Makedóníu og Króatíu).

Undir miðnæturstundina leit ég í kveðjupartíið hans Jóhannesar Skírara. Þar var glatt á hjalla. Rúmenskur vinnufélagi minn átti þó ekki orð yfir vanþóknun sína á úrslitum kvöldsins. Höfðu allir aðrir af því allnokkurt gaman.
by Hr. Pez

20 maí 2006


Hvað get ég sagt. Við lifum í sanngjörnum heimi.
by Hr. Pez

19 maí 2006


Bloggari dauðans er með skarpa analísu á því hversvegna Silvía Nóttar komst ekki áfram í gærkveldi. Ég held sveimérþá að hann hitti naglann á höfuðið.
by Hr. Pez


Góður dagur maður.

Ég vaknaði uppúr klukkan fimm í morgun og gekk á Keili með Magnúsi, Böðvari vini okkar og fleirum í boði Ferðafélags Íslands. Var kominn í vinnuna um tíuleytið. Í hádeginu fór deildin út að borða á Þrjá Frakka til að kveðja Fransmanninn Jóhannes Skírara (sem ég braut tennurnar í hérna um árið) þar sem hann heldur eftir helgi á fjarlægar slóðir til annarra starfa. Á eftir fer ég með stelpunum í sund. Og svo munum við hjónin hafa það notalegt saman í kvöld - amma og afi í Vættaborgum hafa óskað eftir kompaníi til gistingar.

Rúmenía, Grikkland og Bosnía/Hersegóvína munu bítast um sigurinn annað kvöld. Bæði Finnland og Litháen (sem unnu mig í lið með sér í gærkveldi) munu koma á óvart. Lögin frá Svíðþjóð (því miður já), Rússlandi, Króatíu, Úkraínu og Makedóníu verða þarna einhversstaðar ofarlega líka. Og köllum það topp tíu.

Auk þess: Ekki missa af lögunum frá Noregi, Moldavíu og Lettlandi. Evróvisjónklassík, hvert á sinn hátt.
by Hr. Pez

18 maí 2006


Við lifum í sanngjörnum heimi. Það gekk eftir að litháensku flippararnir stælu tíunda sætinu af henni Silvíu. Mér fannst þeir alveg eiga það skilið - fannst þeir þrælskemmtilegir. Játa meiraðsegja fúslega uppá mig að hafa kosið þá sjálfur.

Annars vel viðunandi að hafa grísað á sjö af tíu: Karóla sneri á hana Kate Ryan og írsku rólegheitin fóru inn í staðinn fyrir slóvenska stuðið.

En Silvía? Mér fannst hún fín. Ég hafði gaman af henni. Þetta var góður djókur sem margir náðu. Og nú er hann búinn.

Eða ekki...
by Hr. Pez


Kvöldið í kvöld verður skemmtilegt á að horfa. Mér sýnist allt stefna í það.

En hvernig fer þetta svo?

Bosnía/Hersegóvína er algjörlega garanteruð áfram - það er útilokað að balkneska rómantíkin klikki. Finnsku skrímslarokkararinir eiga líka að vera nokkuð öruggir með þetta - þótt ég sjái nú ekki í hendi mér að Evróvisjón verði í Helsinki árið 2007 ætti finnska númerið að hafa næga sérstöðu og költstatus til að verða meðal 10 efstu í kvöld.

Evróruslið er enn það sterkt að ég held að nokkur lög úr þeim skólanum ættu að komast áfram. Hún Tina Karol ku vera að gera góða hluti fyrir Úkraínu og fer nokkuð örugglega áfram. Hún er líka svo mikill, öh, listamaður. Sennilega munu lögin frá Tyrklandi, Belgíu, Makedóníu og Slóveníu komast áfram líka. Dima Bilan er nokkuð öruggur áfram með sitt rússneska pródúsentapopp. Og ég gæti alveg trúað armenska númerinu til að koma á óvart.

Það er eitt risastórt spurningamerki hvernig henni Silvíu Nótt verður tekið. Hún gæti átt eftir að taka kvöldið með trompi. En hún gæti líka lent í sextánda sæti. Samt, með henni er ég kominn með lista yfir þau tíu lönd sem ég spái áfram eftir kvöldið. Þótt svo fari ekki verð ég samt yfir mig ánægður ef númerið verður annaðhvort a) skemmtilegt eða b) risavaxnasta fíaskó sem sögur fara af frá upphafi. Hvorttveggja í senn er líka ánægjulegur möguleiki.

Maður þarf ekki að lifa í voninni. En stundum er það bara skemmtilegra svoleiðis.

Ég vek athygli á að sænsku drottningarnar tvær eru úti í kuldanum. Ég held að Karóla verði Selma ársins. Og Sandra Oxenryd mun ekki ná að abba sér og Eistlandi yfir á laugardagskvöldið (Er riffið ekki alveg örugglega úr "Does your mother know?" Eða er þetta kannski "Voulez-Vous" riffið á helmingi minni hraða?). Önnur hvor þeirra gæti þó sloppið inn á kostnað einhvers úr evróruslpakkanum (nema Úkraínu).

Mér finnst írska lagið hreinasta hörmung. En hann Bwian gæti samt stolist inn á kostnað einhverra af sætu strákunum (Armeníu eða Slóveníu), sérstaklega ef evróvisjónömmurnar nenna að hringja inn og senda SMS. Hann er alveghreint right up their alley. Svo hugsa ég til þess með skelfingu að það er ekki útilokað að kýpverska bimbóið komist áfram.

Aðrir held ég að geti bara fengið sér rettu og gleymt þessu.

Sérstök persónuleg uppáhöld sem komast pottþétt ekki áfram en sem enginn ætti að missa af eru frá Andorra, Albaníu og Litháen. Ef hin íturvaxna Jennifer syngur í roðagyllta korselettinu er ég alvarlega að íhuga að taka upp á víðgesjón fyrir sjálfan mig. Það stefnir í að hinn albanski Luiz Ejlli verði svo hallærislegur að það verði dýrðlega krúttlegt. Og litháenska númerið held ég í alvöru að verði mjög skemmtilegt (og flott í tauinu): í sanngjörnum heimi væri möguleiki að LT United gæti stolið húmorsætinu af henni Silvíu.

Annað er frá því að vera afskaplega óinteressant og lítt spennandi pissupásupopp (Portúgal, Holland, Mónakó) yfir í það að vera svo slæmt að það væri glæpur gegn lágmenningunni að missa af því (Pólland, Búlgaría, Hvíta Rússland).

Og þá er það upptalið.
by Hr. Pez

15 maí 2006


Förum mjög hratt yfir sögu með það sem er í vændum á úrslitakvöldinu.

Mér fannst lettneska a-capella bojbandið afskaplega sætt og bersnki sjarminn fleytti því yfir hnökra í vókalíseringum. Ég er yfir mig hrifinn af blúgrass í Evróvisjón, svona sem konsepti, en fannst þýska númerið ekki gera það aaalveg nógu skemmtilega. Hvorki norska né danska lagið er þess legt að ég nenni að láta það fara í taugarnar á mér, ósköp meinlaust sosum. Króatísku pinnahælarnir eru stórskemmtilegir, groddalegheit og gaman. Rúmenía sendir evrórusl - vel pródúserað evrórusl af bestu gerð, en rusl samt sem áður. Frakkland heldur uppteknum hætti með að senda gufuþvegna moðsöngva sem mér er einhvernveginn ósköp vel við, ólíkt öllum öðrum. Ég tala ekki vel um gríska lagið - ósköp vel gert sosum en mér finnst þetta lag vera nákvæmlega eins og eitthvað sem ég kem ekki fyrir mig...

Annað er hrein hörmung (Sviss, Moldavía, helvítis hræsnisfulli friðarsöngurinn frá Ísrael, Tómatsósusystur, Malta) og breska framlagið sýnu verst.
by Hr. Pez

12 maí 2006


Hvað varðar Evróvisjón þá er Sigmar Guðmunds kominn til Atenu. Ég fylgist spenntur með framhaldinu.
by Hr. Pez


Í veikindunum um daginn kom ég mér loksins til að horfa á þá ágætu mynd, M eftir Fritz Lang.

Það var eitthvað mjög uggvekjandi við Peter Lorre í titilhlutverkinu sem ég kom ekki alveg fyrir mig til að byrja með (fyrir utan að hann var stjörnuleikari). Svo áttaði ég mig á að það hafði eitthvað að gera með hendurnar á honum - þær voru óvenju þykkar, kubbslegar og kjötmiklar. En það var samt ekki bara það, og ekki heldur hvernig þær mjókkuðu fram á kjúkurnar, eða hvernig hann hélt þeim út eins og klóm í dramatískustu atriðunum...

Svo small það.

Fyrst gat ég ekki betur séð en allir fingurnir á honum væru jafnlangir. En nánari skoðun leiðir í ljós að þeir fjórir sem standa fram úr greipinni snúa öfugt, ef svo má segja: Baugfingur er lengstur. Langatöng og litliputti eru svipuð að lengd. Og vísifingur er áberandi stystur, litlu lengri en þumallinn.

Ég á bágt með að ímynda mér mikið óhugnanlegri líkamlegan effekt. Nema ef vera skyldi að hann væri jafnvígur á hægri og vinstri.
by Hr. Pez


Ég vil benda þeim sem ekki hafa litið þangað nú þegar að tékka á tíuþúsund tregavöttum. Ljóðið er alive and well í Tungubökkum.
by Hr. Pez

11 maí 2006


10: Muzica Ortodoxa Bizantina - ???

Rúmenskur vinnufélagi minn rétti mér fyrr í vor heimabrenndan disk með rúmenskum karlakór að syngja ortódox-kirkjutónlist. Engar upplýsingar um lög eða flytjendur nema þessi þrjú orð: "Muzica Ortodoxa Bizantina." En þetta er gríðarlega falleg tónlist. Dálítið eins og karlkyns útgáfan af búlgarska kvennakórnum Angelite (sem við hjónin erum einmitt að fara að sjá um aðra helgi) þótt útsetningar séu allar einfaldari og tónninn dulmagnaðri.

Þetta er tíunda lagið af diskinum og tíunda lagið af listanum, og lýkur hér iPod-bloggi.
by Hr. Pez


9: Antony & The Johnsons - For Today I'm a Boy

Fyrst þegar ég heyrði þetta lag skildi ég ekki alveg útaf hverju öll þessi læti voru. Og skil það ekki alveg ennþá. Nú eigum við blessaðan diskinn og höfum séð hann Antony á tónleikum í tvígang og mér finnst hann... frábær. En þetta lag hefur samt aldrei verið í tiltakanlegu uppáhaldi hjá mér.
by Hr. Pez


8: Mugison - I Want You

Mugison getur verið afar svalur. Ég get ekki sagt að mér finnist Mugimama is this monkeymusic vera ein samfelld snilld frá upphafi til enda. En þetta er samt helvíti flott lag hjá honum stráknum.
by Hr. Pez


7: Emilíana Torrini - Tomorrow

Kóver á lagi úr Bugsy Malone. Ég hef reyndar aldrei verið neitt yfir mig hrifinn af Croucie D'ou La - bara fundist hann svona la-la. En hann er samt þarna inni.
by Hr. Pez


6: Bleikar mussur - Ég pant vera Ameríka

Obbosí. Þetta var alveg óvart.

Þess má geta að nafnið á hljómsveitinni er ekki rétt.

En ég er alltaf jafnánægður með þetta.
by Hr. Pez


5: Jablkon - Chmury

Yndislegir tékkneskir rugludallar sem ég sá á bakstrætisknæpu í Dyflinni haustið 1993 með Adda Arngríms og Frosta. Spiluðu á klassíska gítara, þvottabretti, hrossabresti og önnur heimatilbúin skrapatól. Trommarinn í þessari hljómsveit er sá trommuleikari sem mest líkist Dýra í öllum heiminum.Við kröfðumst þess að fá diskana okkar áritaða og linntum ekki látum fyrr en við höfðum ruðst baksviðs og inná greyin karlana þar sem þeir sátu í mestu makindum og slöppuðu af yfir bjór og sígó. Þeir tóku okkur vel.

Þetta lag er af hinum yndislega diski, Baba Aga.

Hljómsveitin ku enn vera starfandi.
by Hr. Pez


4: The Blue Nile - Stay

Fyrsta lagið á B-hlið plötunnar A Walk Across the Rooftops, sem kom út... 1983, minnir mig. Fyrsta plata þessarar annars alltof vanvirku hljómsveitar. Hljómurinn vitaskuld afskaplega eitís, enda um að ræða gáfumannapopp frá þeim tíma þegar gáfumannapopp var aðalmálið. En tónlistin lifir.
by Hr. Pez


3: Roger Whittaker - Elizabeth Serenade

Af hinni yndislegu plötu The Greatest Hits of Roger Whittaker Live.

Já ég veit.

Roger karlinn er flautuþyrill af guðs náð og sýnir það og sannar í þessu geðþekka lagi. Öll lögin á þessum diski byrja á töluðu intrói þar sem hann spjallar við públíkúm um næsta lag, sem gefur þessu öllu ótvírætt "personal touch."
by Hr. Pez


2: Throwing Muses - Soap and Water

Grófur og groddalegur alt-köndrírokkari af hálfskífunni The Fat Skier. Aðdáun mín á þessu bandi er kunn fyrir.
by Hr. Pez


1: Pixies - Ed is Dead

Lag af C'mon Pilgrim, demóteipi sem (skv þjóðsögunni) var það fyrsta sem skátarnir á hinu goðsagnakennda útgáfufyrirtæki 4AD heyrðu og urðu svo impóneraðir að það var gefið út óbreytt. Yndislegt lag, eins og öll af sömu plötu.
by Hr. Pez


Ég sá um daginn hjá Oddi að menn hafa stokkað upp lögin á iPodinum sínum og svo skrifað um 10 fyrstu lögin sem koma upp. Ég ætti að vita betur en svo að gera þetta, þar sem einhverjir eiga ábyggilega eftir að gera grín að mér og mínum breiða tónlistarsmekk. En ég læt slag standa. Þetta verður bloggað á rauntíma.
by Hr. Pez


Ég get ekki að því gert en mér finnst Essó-fíaskóið í gær vera fyndnasta Silvíu-Nóttar-grín frá upphafi. Í hvert skipti sem ég sé fyrir mér hana Ólafíu Hrönn trúðmálaða að skattyrðast við greyin grátandi litlu börnin fer ég að flissa eins og fáráðlingur. Þetta var fínasta stund Silvíu Nóttar frá upphafi.
by Hr. Pez

10 maí 2006


Svo má ég til að benda á að hægt er að nálgast nokkra evróvisjónsgullmola í Gvendarbrunninum.
by Hr. Pez


Ég er búinn að tjá mig nóg um hana Karólu. Eistneski Abba/köndríbræðingurinn er skárri, en ekki svo miklu nemi. Ég er sennilega einn af fáum utan Eystrasaltslandanna sem finnst litháenska lagið ekki algjör hörmung; það bjagar mig kannski eitthvað hvað mér fannst þeir fínir í tauinu strákarnir, feitir hnútar og svona. En Portúgal er búið að glata plottinu endanlega - þar er þjóð sem mætti fara að slá öllu upp í grín og kæruleysi. Bosníska lagið er kannski ekki alveg sami smellur og Lane Moje var um árið, en velkominn entrans samt sem áður.

Silvía Nótt er hafin yfir mína gagnrýni.
by Hr. Pez

09 maí 2006


Fúlir dagar. Ég hef legið veikur síðan á laugardag - og það ekki einu sinni með neitt merkilegt, bara hausverk og velling uppundir 39. Svo frúin tók móður sína með í leikhús á sunnudagskvöldið.

Ég mun skrifa eitthvað komprehensíft um síðasta forkeppnispekingaþáttinn síðar í vikunni, og jafnvel próspektíft um undanúrslitin öll. Læt mér nægja sem stendur að benda á að eitís-fílingurinn í yfirmáta sænska laginu hennar Karólu er svo alltgegnumsýrandi að viðlagið er sláandi líkt júrósmellinum hans Eyva frá 1987, Norðurljós:


Við norðurljós (við norðurljós)
Með nýja rós (með nýja rós)
Ó ástin mín (úúúúúú)
Með epli og vín (úúúúúú)
Við örkum heim til þín... (aaaaaaa)Nei andskotakornið. Þarna hlýt ég að hafa farið yfir strikið.
by Hr. Pez

05 maí 2006


Svo horfir sem muni rætast úr símamálum er líður á næstu viku - ég lagðist í innkaup á internetinu. Í sömu rafrænu búðarferð skellti ég mér á tvo miða á lokasýningu Eldhúss eftir máli á sunnudagskvöldið kemur.

Svo það er leikhús þrjú kvöld í röð þessa helgina fyrir okkur hjónin, ýmist sitt í hvoru lagi eða saman.
by Hr. Pez


Tölum aðeins um Evróvisjón.

Ég sá spekingaþáttinn á laugardagskvöldið var og ögn aftur til upprifjunar eftir miðnættið í gærkveldi. Vitaskuld bar finnska framlagið af sem gull af eir. Þessutan fær tyrkneska framlagið prik frá mér, í það minnsta ef það verður sungið á frummálinu á keppniskvöldinu (það er þó langtífrá besta lag sem ég veit leggja viðlagið undir að hrópa SUPERSTAR! SUPERSTAR! SUPERSTAR! ad nauseam). Rússneski gulldrengurinn skorar feitt hjá mér fyrir slepjulegustu sítt-að-aftan klippingu vestan Úralfjalla. En lagið þótti mér lítt spennandi, sem og þau frá Mónakó (þótt hann Albert prins hafi engu gleymt í því hvernig velja skal sætar stelpur), Úkraínu (dittó til þesslenska ríkisútvarpsins), Makedóníu (dittó) og Hollandi (etc). Um pólska framlagið get ég ekki talað öðruvísi en illa.

Það úkraínska er þó ótvírætt þeirrar náttúru að auðvelt er að fá reffrengen á heilann. Sem telst bæði kostur og galli.

Aldrei þessu vant held ég að Finnar eigi séns (þótt þeir séu enganveginn öruggir) til að komast uppúr undanrásum. Tyrkneska og úkraínska lagið koma líka sterklega til greina. Ég þarf að hlusta betur á makedónska lagið til að gera upp hug minn með möguleika þess (en man að ég fékk vægan snert af samnefndu heilkenni strax við fyrstu hlustun). Og ef engir fleiri sætir strákar koma fram í þættinum á morgun á hann Dima Bilan alveg sæmilegan séns í þetta líka, strákurinn.
by Hr. Pez


Ég vil biðja þá vini mína, kunningja og ættingja afsökunar sem hafa reynt án árangurs að hringja í gemsann minn uppá síðkastið. Ég týndi honum nefnilega fyrir mánuði síðan (á leið í páskafrí á Akureyri) og var latur við að láta fólk vita af því.

Þetta stendur til bóta á allranæstu dögum, ég lofa því.
by Hr. Pez


Svo er hver að verða síðastur að sjá hina stórgóðu sýningu Draumasmiðjunnar í Hafnarfjarðaleikhúsinu, Viðtalið. Annað kvöld verður allra síðasta sýning.

Í framhjáhlaupi vil ég nefna að mér finnst ljósvakamiðlunum til háborinnar skammar hversu þeir hafa hunsað þessa sýningu, borið saman við ágæt viðbrögð kollega þeirra á dagblöðunum. Ég reisi hér með rafræna níðstöng menningarþáttum ljósvakamiðla 365 og RÚV til hneisu:


/\_/
/. . /
(.. /
===
||
||
||
||
by Hr. Pez


Einþáttungurinn Kratavar verður fyrstur á svið á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu í kvöld klukkan sjö. Miðaverð er þús isk og ég get vottað að í það minnsta fjórðungur af prógramminu verður ljómandi skemmtan.
by Hr. Pez


Í dag ætla ég að setja persónulegt met í fjölda bloggfærslna á einum degi.

Að fyrra bragði set ég mér það skilyrði að allar þurfa þær að vera um eitthvað.

Nema kannski þessi hérna.
by Hr. Pez

03 maí 2006


Tips fyrir umferðarhnútinn:

Margir bílstjórar eiga í vandræðum með það hvað þeir eiga að gera þegar þeir lenda í "hægri-réttar pattstöðu," það vill segja, þegar bílar mætast á gatnamótum þar sem hægri rétturinn gildir og enginn tekur af skarið.

Hér er hugmynd: Gerið það sama og tíðkast þegar tvær bifreiðar mætast við einbreiða brú: notið stöðuljósin. Þá getur sá sem hefur ykkur á hægri hönd tekið af stað óhræddur og stíflan greiðist réttsælis.

Það fer dult. En ég er mjög góður bílstjóri. Einhver sá besti sem ég veit, satt að segja.
by Hr. Pez

02 maí 2006


"Our goal was simply to push back self-imposed limits on expression that seemed to be closing in tighter."
- Flemming Rose, ritstjóri Jótlandspóstsins í Washington Post, nítjánda febrúar síðastliðinn.


Sjálfsritskoðun. Orð sem var mjög í umræðunni fyrir nokkrum vikum og mánuðum. En nú er öllum orðið sama aftur.

Það hversu hörð við erum við sjálf okkur dæmist vitaskuld ekki af því hversu auðvelt við eigum með að níðast á launhelgum annars fólks. Heldur af því hversu órög við erum að níða launhelgar okkar sjálfra.

Svo í kjölfar moldviðrisins fyrir margt löngu í kringum Múhameðsmyndir Jótlandspóstsins (sem ég er deildra meininga um sjálfur, sé punktana beggja vegna borðs og togast dáldið á milli þeirra) fór ég að hugsa: Hvað er mér tabú?

Sá sem vill í alvörunni gera tilraun í sjálfsritskoðun ætti í upphafi ekki að gera hana á neinu öðru en því sem honum sjálfum er heilagt. Þetta ætti að vera nokkurs konar "fyrsta fasa" tilraun. Í framhaldi af því gæti viðkomandi kannski farið að æfa sig í rétti sínum til að gera grín að öðru fólki.

Svo ég spurði sjálfan mig: Er til nokkurt það tákn svo heilagt að ég gæti hneykslast ef það yrði svívirt? Það má ekki vera hvað sem er - táknið sjálft verður að vera virðislaust í sjálfu sér. Verknaðurinn verður að vera skaðlaus í þeim skilningi að ekkert líf ber skaða af. Engar peningalegar eignir (a.m.k. ekki verulegar) mættu spillast við gjörninginn. Þetta útilokar tildæmis myndbirtingu barnakláms í fjölmiðlum, einsog Eiríkur Örn Norðdahl ræddi í grein sinni um málfrelsið og Gunnar í Krossinum. Þetta útilokar skemmdir á táknrænum byggingum eða listaverkum sem eru tákn í sjálfu sér: Hallgrímskirkju. Útilegumanninum. Standmyndinni af Óla Thors við Tjarnargötuna (þótt það yrði reyndar mikil guðsblessun ef einhver tæki sig til og bræddi þann dómadagshrylling í tannfyllingar).

En hérna er eitthvað að potast: We might be on to something.

Við erum jú dálítið svag fyrir þjóðernisstoltinu.

Reykjavík Grapevine gerði á sínum tíma mun athyglisverðari tilraun með málfrelsið en Jótlandspósturinn nokkru sinni, þegar það birti mynd af þeldökkri fjallblökkukonu á forsíðu sinni. Íslenska þjóðdansafélagið og aðrir þúfnapálar supu hveljur og þær raddir heyrðust í fúlustu alvöru að "svona gerði maður ekki!" Þetta væri til háborinnar skammar.

Muniði þetta ekki?

En þetta er nú samt hálfgert súkkat: Hin meinta árás á þetta tákn íslensks þjóðernisstolt var jú gerð af "aðkomumönnum," þetta var nú varla tilraun með sjálfsritskoðun þannig. Undir vissu sjónarhorni lenti þessi tilraun á bási með Múhameðsmyndunum.

En athyglisverð tilraun engu að síður.

Hvað annað er hægt að gera? Hvurt annað tákn er okkur heilagt?

Íslenski fáninn?

Ég man enn þegar það birtust myndir í vikunni eftir upphaf seinna Íraksstríðs, af ungmennum að brenna íslenska fánann á Ráðhústorginu í Köben: Mér leið dálítið eins og ég hefði verið kýldur í magann.

Af hverju? Nú er í sjálfu sér ekkert ólöglegt við að brenna íslenska fánann. Ekki nóg með það: Samkvæmt sautjándu grein reglugerðar um notkun og meðferð þjóðfána Íslendinga ("Reglur fánanum til verndar") er til dæmis helber skylda hvers þjóðrækins Íslendings að brenna íslenska fánann, ef hann hefur spillst svo að ekki verður annað að gert.

Eftir því sem ég kemst næst.

Gerum núna dálitla Gedankenexperiment:

Hver sá sem reddar sér krambúleruðu eintaki af íslenska fánanum getur í raun farið með hann á einhvern góðan stað undir berum himni (tjah, til dæmis Austurvöll), úðað yfir hann grillkveikilegi og kveikt í öllu heila klabbinu á almannafæri. Þetta þyrfti ekki að vera nein óvirðing við fánann þannig lagað og því ekki ólöglegt: Skemmdir fánar skulu brennast. Um leið er notað tækifærið til að gera athyglisverða tilraun með sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi. Sumum fyndist kannski hálffurðulegt að gera tilraun með rétt sinn til að segja ekki neitt. En það er engu síður nauðsynlegt en að kanna réttinn til að segja það sem brýtur í bága við almannasamþykki - ef þú mátt ekki segja hluti án inntaks, afhverju ættirðu þá von á að mega segja það sem fer fyrir brjóstið á öðru fólki?

Þá er það spurningin: Ef maður léti boð út ganga að á þessum eða hinum tímanum ætli einn eða fleiri að mæta á opinberan stað og brenna íslenska fánann, myndi það vekja viðbrögð?

Kannski hneykslun einhverra. Reiði jafnvel? Ég er heldur ekki sannfærður um að lögreglan myndi láta uppátækið afskiptalaust ef hún hefði veður af því. Og það athyglisverða var að um leið og ég fór að hugsa um þetta sem eitthvað sem hægt væri að gera, að það væri hægt að tala um þetta í einhverju meira en djóki, þá fór ég um leið að ritskoða sjálfan mig: "Nei maður gerir ekki svona er það," spurði ég mig. "Einhverjir myndu ábyggilega vilja kæra mann eða eitthvað, hringja í mann um nætur og hafa í hótunum."

Samt ekki eins og ég óttaðist að æstur múgur færi að grýta byggingar eða neitt. Ekki svoleiðis, við gerum ekki þannig. Allavega ekki síðustu sextíu árin.

En ég fann það á sjálfum mér að ég var ragur við að viðra þessa hugdettu. Ég tvísté með hana í nokkrar vikur og var loks nærri búinn að gleyma henni. Sem segir mér allavega eitthvað um sjálfan mig, þótt ekki sé nema.

En hér er hún komin. Sem leiðir að minni seinni spurn:

Myndir þú, fyrir tilraun í tjáningarfrelsi og sjálfsritskoðun, vera til í að brenna íslenska fánann?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com