<$BlogRSDUrl$>

31 janúar 2006


Bleikar mussur eru dottnar út af forsíðunni hjá rokk.is og eru komnar niður í 19. sæti í sinni fjórðu viku á niðurhalslista (3 -> 7 -> 9 -> 19). "Ég pant vera Ameríka" verður væntanlega horfið í rykmekki tímans í næstu viku.

Það gerist afturámóti sífellt líklegra að við komum saman aftur og gerum eitthvað meira. Það verður þá eftir umþaðbil hálfanannan mánuð. Gaman að því.
by Hr. Pez

30 janúar 2006


Í gær gerði ég aðra tilraun mína til að komast á Snæfellsjökul. Ekki gekk það eftir. Sjö úr deildinni fóru rúntinn með fyrrverandi starfsmanni sem er í heimsókn á landinu þessa dagana. Verst var að aðstoðarforstjórinn á deildinni veiktist og er frá vinnu í dag.

Vonandi að honum skáni sem fyrst.

Ég held ég láti vera að tjá mig um laugardagskvöldið. Í staðinn ætla ég að gera tilraun með týpógrafískt blogg í restina:

__
(oo)
||
by Hr. Pez

27 janúar 2006


Tíðindalítil vika á enda runnin. Nóg við að vera í deidjobbinu og hugðarefnin sitja á hakanum.

Og þó.

Kóræfingin á þriðjudagskvöldið var skemmtileg. Ég og GEN vorum skikkaðir í sóló í einu verkinu sem frumflutt verður á tónleikunum eftir eina og hálfa viku, sem leiddi til þess að Bjössi Bassi var sjanghæjaður í sólóið sem losnaði (láttekkisona Björn, þig langaði víst til þess!).

Þetta verður stórskemmtilegt verk. Og, sýnist mér, býsna flottir tónleikar.

Stelpurnar eru á einhverju mótþróaskeiði þessa dagana. Það verður að siða það úr þeim með öllum tiltækum ráðum.

Ég átti skemmtilegar samræður við vinnufélagana í einu hádeginu núna fyrr í vikunni. Það var verið að ræða laugardagskvöldið síðasta (í tengslum við Evróvisjónkeppnina). Þá tók samtalið þessa stefnu:

HP: "...Annars verð ég nú að deila með ykkur hvað ég átti yndislegt kvöld þarna á laugardaginn."
Vinnufélagar: "Nú, hvað gerðirðu?"
HP: "Bara, ég var heima með konunni, við áttum indæla kvöldstund saman."
VF: "Er það já...?"
HP: "Já. Við prófuðum nefnilega dálítið sem við höfðum aldrei gert áður."
VF: "!!!"

Það vill segja, skyndilega litu allir á mig stórum augum og virtust bíða í óttablandinni þögn eftir því hvað ég segði næst. Sem var lýsing á því hvernig við gáfum stelpunum mat við þeirra hæfi um kvöldmatarleytið og leyfðum þeim síðan að vaka yfir Evróvisjón. Svo meðan ég kom þeim í rúmið og Spaugstofan malaði inni í stofu eldaði frúin dýrindis folaldasteik og við hjónin áttum okkur rómantíska kvöldstund við kertaljós, tvö saman í eldhúsinu. Sátum og spjölluðum fram á miðnæturstundina og fórum þá að hátta.

Indælt kvöld. Við ætlum að gera þetta aftur.

Einhverra hluta vegna kvörtuðu vinnufélagarnir hástöfum yfir sögunni. Fannst hún ekki alveg standa undir væntingum.

Svona lið.
by Hr. Pez

25 janúar 2006


Sorgarfrétt dagsins er um leið sú kaldhæðnasta, þegar maður tekur eftir nafninu á síðasta verkefni leikarans.
by Hr. Pez

23 janúar 2006


Já ég hefði getað bætt við að samtölin eru ekki eins vel skrifuð og þau eru leikin. Þess fyrir utan eru þetta fínir þættir.

Það kemur vonandi skýring á því áður en yfir lýkur hvernig stendur á titlinum. Það þarf mjög góða afsökun til að standa undir honum.

Ha, söngvakeppnin?

Ég var yfir mig hrifinn af henni Regínu. Að horfa og hlusta á hana var uppgötvun, hugljómun. Ég hafði ekki hugmynd um að hún gæti þetta. Þá á ég ekki einungis við þessa ómennsku tóna sem hún fór uppá undir restina (hversu lengst uppí rassgati var þetta eiginlega?!), heldur bara yfirhöfuð nákvæman og fágaðan flutning á laginu öllu.

Svo er hún líka gullfalleg kona.

Lagið þótti mér líka alveghreint ágætt; keltneski blærinn kom smekklega út, sérstaklega í viðlaginu.

Svo ég fari líka yfir það hvað mér fannst um hin lögin, þá vil ég segja
by Hr. Pez

20 janúar 2006


Tölum um sjónvarp.

Stórviðburður helgarinnar verður vitaskuld fyrsti forkeppnisþátturinn í Evróvisjón annað kvöld. Ég er beggja blands með það hvort ég eigi að tjá mig um entransana. Kannski ég einskorði mig við að tala um þau lög sem mig langar að tala vel um. Kannski ég láti vera að segja nokkuð.

Og kannski það komi í sama stað niður.

Að fyrra bragði ætla ég þó að minnsta kosti að tala vel um hann Hallgrím Óskars, blessaðan. Ég óska honum alls hins besta. Þeir sem furða sig á því hverju það sætir geta leitað að skýringunni á nýju heimasíðunni hans.

Svo er það sunnudagskvöld og AAAAALLIR LIIIIITIR HAAAAAAFSINS ERU KAAAAALDIR!!! Mér finnst einhvern veginn að það þurfi Helga Skúlason til að fara með svona dramatík. Arnar Jónsson myndi kannski sleppa, en helst þyrfti að vekja hann Helga upp frá dauðum, ef vel ætti að vera.

En þættirnir, hvernig líkar svo herranum, skyldirðu spyrja?

Tja bara dável, reyndar. Þetta er ágætlega intressant. Fyrsti þátturinn var að vísu ekki eins spennandi og mér þótti hann áhugaverður. Og ekki eins vel leikinn og mér þótti hann spennandi.

Spennandi: Threshold á Skjá einum á mánudagskvöldum. Ég húkkaðist með sökku og allt inn í fyrsta þáttinn á mánudagskvöldið var. Þetta minnti mig hvað eftir annað á gömlu góðu X-files dagana, þegar sú sería var uppá sitt besta.

Frekjan verður að tékka á þessum þáttum. Henni myndi ábyggilega þykja dvergurinn bæði sætur og sjarmerandi.
by Hr. Pez

19 janúar 2006


Fyrirtækið fékk starfsmannatilboð í LASIcK augnaðgerðir núna fyrr í vikunni. Ég get ekki að því gert - mér finnst laseraðgerðir á augum alveghreint skelfilega ógnvekjandi tilhugsun. Það þarf eitthvað meira til en kostatilboð uppá einungis kvartmilljón (spesjal offer for jú mæ frend) til að leyfa fólki að krukka í augun á mér með leysigeislum. Ég fæ hroll við tilhugsunina. Og óþægindatak í hnakkann. Ég efast meiraðsegja um að ég myndi fara í svonalagað þótt mér yrði borgað fyrir það í hundraðþúsundköllum.

En það er náttúrulega bara ég.

Annað í fréttum: "Ég pant vera Ameríka" sígur ögn á vinsældalista vikunnar á rokk.is. En hitt er gaman að lagið var leikið í útvarpsþætti Dr. Gunna, "Doktor Doktor," á sunnudaginn var. Áhugasamir geta nútildags nálgast þáttinn á netinu ef þeir vilja.
by Hr. Pez

18 janúar 2006


Orð dagsins:

glussi, -a K 1 Seigfljótandi vökvi, notaður til margs konar iðnaðar (C3H5OH3). 2 (slangur) E-ð að gera með rokktónlist.

Kannast lesendur við ofangreint orð í seinni merkingunni? Ef svo er, geta þeir þá útlistað skýringuna eitthvað nánar fyrir mér, afgömlum karlfauskinum?
by Hr. Pez

17 janúar 2006


Stundum sýti ég það að geta ekki kommenterað hjá Bloggara Dauðans. Tildæmis í dag, þegar mig langaði að spyrja hann undir hvaða sjónarhorni Simon Mawer lendi í hóp með merkilegustu höfundum liðinnar aldar.

Ég hef lesið bók eftir þennan Mawer og er til í að lána hana hverjum sem vill. Hún hafði margt sér til ágætis. En ég set hana kannski ekki á bekk með stórvirkjum bókmenntasögunnar af tuttugustu öld.

Allavega. Mig myndi langa til að spyrja.
by Hr. Pez

16 janúar 2006


Ég hef ekki frá mörgu að segja.

Þegar þjóðfélagið logar og allir virðast vera að springa úr skoðunum á einhverju hitamálinu hendir mig vanalegast annað hvort af tvennu:

1) Ég kemst að akkúrat öfugri niðurstöðu.
2) Mig setur hljóðan.

Fyrir viku gerðist hið fyrra, þegar allir voru að hneykslast á Quentin Tarantino. Svo gerðist hið síðara, þegar næsta hitamál brast á með látum.

Ég ætla að sitja á mínum skoðunum þaraðlútandi, en vil þó benda á að stöku rödd skynseminnar hefur gert vart við sig innámilli á internetinu.

Annars var helgin ágæt: Við hjónin fórum í æfingabúðir með kórnum. Þetta stefnir í þrælspennandi tónleika.

Kannski meir um það síðar.
by Hr. Pez

12 janúar 2006


Gleðifrétt dagsins: Magnús og Brynhildur urðu þrjú upp úr hádeginu.

Hamingjuóskir.
by Hr. Pez

10 janúar 2006


Það var lagið!

Bleikar mussur stökkva beint inn í þriðja sætið á vinsælda/niðurhalslista rokk.is með páerpoppsmellinn "Ég pant vera Ameríka!"

Ekki slæmt. Hreint ekki slæmt.
by Hr. Pez

09 janúar 2006


Eruði hálfvitar?! Er ekki allt í lagi heima hjá ykkur?!!!

Bandarískur kvikmyndaleikstjóri og -framleiðandi kom í heimsókn upp á skerið í tvígang á síðasta ári og eyddi hér áramótunum í góðum fíling og félagsskap. Íslendingar virtust almennt afskaplega upp með sér og stoltir yfir því ástfóstri sem Tarantínó virtist hafa tekið landi og þjóð. Svo líða nokkrir dagar og hann skýtur upp kollinum í spjallþætti vestanhafs og deilir þessari reynslu sinni með samlöndum sínum, svona eins og hún kom honum sjálfum fyrir sjónir. Og þá ætlar allt vitlaust að verða. Grey strákurinn er sakaður um pungrembu, kvenfyrirlitningu og gott ef ekki samsæri með FL Group og Svanhildi Hólm Valsdóttur um að hvetja til skipulagðra kynlífsferðalaga uppá klakann. Og það sem verst er af öllu: hann er lýstur sekur um slæma landkynningu. Það er bara dörtí víkend ollóveragen.

Exkjús mí.

Maðurinn kom hingað fyrir orð og tilstilli vinar síns og félaga með litlar hugmyndir um það hvers væri von. Hann var á leið til landsins þaðan sem Svartidauði kom, allt annað var bónus. Og hann var svo ánægður með dvölina að hann ákvað að koma að vörmu spori aftur og slá upp kvikmyndapartíi fyrir þá sem langaði. Og öðru af hefðbundna taginu á Rex á nýársnótt. Bara af því hann fílaði landið. Liðið sem hann hitti og svona.

Só far só gúdd.

En bojóboj, svo opnar maðurinn á sér trantinn og tjáir sig um reynsluna, alveghreint í sjöunda himni með þetta alltsaman. Ælovitt. Og þakið fýkur af íslensku þjóðinni í vanþóknan.

Sem leiðir talið að upphafsorðunum. Hvað í anskotanum kemur ykkur eiginlega við þótt Quentin Tarantino deili því með Ammríku að hann hafi verið í alveg ógeðslega skemmtilegu áramótapartýi? Hvað varðar ykkur um það?

Vots itt tú jú?!

Má maður ekki lengur segja sínar ferðasögur í friði fyrir þurrkuntulegu mussuliði beggja kynja? Hvað hefur eiginlega breyst síðan Damon Albarn var rifinn upp á sjálfsvorkennandi þunglyndisrassgatinu sínu og dreginn í partý á Kaffibarnum fyrir tíu árum? Hvar voru hneykslunarraddirnar þegar hann "Deimon okkar" sagði NME og Melody Maker að skemmtilegustu partý í heimi væru haldin í Reykjavík?

Förum aðeins yfir sönnunargögnin.

QT lýsir því að hann hafi verið að tala við íslenska stelpu sem sagðist skammast sín fyrir það hvað kynsystur hennar væru miklar fyllibyttur og slæmar með víni þegar ein Reykjavíkurmærin gengur hjá og fellur kylliflöt á andlitið fyrir framan nefið á þeim. Dregur einhver í efa að nokkuð eins og þetta geti hafa átt sér stað í nýárssamkvæmi í miðbæ Reykjavíkur? Haldiði virkilega að hann hafi þurft að smyrja á í lýsingunum?

Ég minni á að um svipað leyti og þessi vanþóknunarumræða stóð sem hæst birtist myndasería í DV (þar sem ekki fór minnst fyrir hneyksluninni á honum Tarantínó greyinu) af konum og körlum í drukknum fjöldaslagsmálum á Hótel Íslandi á nýársnótt. Og einni aumkvunarverðri stúlku sem virtist hafa ælt oní glasið sitt. Og svo drepist oní það alltsaman.

Eru Íslendingar ekki sjálfum sér verstir?

Hvað sagði hann fleira? Jú, þetta: "Íslendingar drekka oftast mjög mikið en á gamlárskvöldi missa þeir gjörsamlega stjórn á sér og þá sérstaklega konurnar. Þær verða alveg geðveikar og drekka heil ósköp."

Já ókei, hann tekur sérstaklega fram hvað sér hafi þótt um kvenfólkið. Só vott? Hann er gagnkynhneigður karlmaður á besta aldri sem stendur slétt á sama um það hvernig drukknir karlmenn hegða sér í fjarlægum löndum. Við skulum lýsa hann sekan um að vera Kani: Hann virðist ekki vanur því að konur séu þær sjálfar. Löndur hans eru kannski of uppteknar við að horfa á Batchelorinn og Swaninn og Opruh Winfrey og prísa sig sælar yfir því hvað þær hafi það gott, really, til að geta leyft sér að standa uppá borðum og öskra hvenær þetta helvítis partý ætli eiginlega að fara að byrja hédna?!!!

Þeim leyfist greinilega ekki að gera slíkt í Ameríku. Sem leiðir af sér tvær spurningar:

1) Gefur það okkur ástæðu til að hengja Quentin Tarantino í hæsta gálga?
2) Rétt upp hend sem vill skipta.

Eins og hann spurði sig sjálfur: "Hvar hef ég eiginlega verið allt mitt líf?" Svarið við þessari spurningu útskýrir margt af því sem hann lét útúr sér: Svona kom Ísland frægum Bandaríkjamanni fyrir sjónir. Er einhver undrandi?

Really?

Líka þetta: Hann er greinilega ekki aðeins að lýsa því sem hann sá sjálfur. Hann er einnig að deila með öðrum þeirri mynd sem Íslendingar hafa af sjálfum sér. Hinn almenni Íslendingur, sá sem mannar sig upp í að spjalla við Quentint Tarantino og deila með honum áliti sínu á landi og þjóð í gúddí fíling á gamlárskvöldi. Frá hverjum hefur maðurinn það sem hann viðrar eins og viðtekna skoðun, að Íslendingar drekki oftast mjög mikið? Frá Hannesi Smárasyni? Svanhildi Hólm Valsdóttur? Ferðamálaráði? Ópru Vinfrí?

Sjálfum sér verstir, anyone?

Gett óver itt. Manninum er fullfrjálst að tjá sig um reynslu sína eins og hann sjálfur kýs. Það er ekki eins og hann sé á launum hjá Ferðamálaráði. Ef hann nennir ekki að tala um að hann hafi farið upp á jökul á vélsleða þá er það hans mál. Einskis annars. Og þegar bent er á að hann hafi ekki minnst á það einu orði ber það ekki vitni um vanþakklæti hans, heldur hrokann og yfirlætið í okkur sjálfum.

Allir þeir sem hafa hneykslast yfir þessum ummælum Íslandsvinarins, upphátt eða í hljóði, eru hér með lýstir dómadags ekkisens lúðar.

Ekkisens, eins og í ekki-sens: Þið bara meikið ekki sens!

Eruði virkilega að meina þetta?! Eruði hálfvitar?!!!
by Hr. Pez

06 janúar 2006


Gjafir dagsins, í tímaröð:
1) Bók og snyrtivörur fyrir nútímamanninn, frá konu minni og dætrum
2) 450 ml gjöf frá mér til Blóðbankans
3) Gamla góða kaffið snúið aftur í mötuneytinu, í staðinn fyrir ódrekkandi hroðann sem var í boði síðustu vikur og þartil í gær

Ég er svo lánsamur!
by Hr. Pez

05 janúar 2006


Bleikar mussur - fyrsti kafli: Evróvisjónævintýrið

Nokkrum sinnum gegnum tíðina hef ég viðrað það álit mitt að það yrði Evróvisjónsöngvakeppninni til framdráttar að fá meira rokk í hana. Svo rammt kvað að þessu á haustdögum sem leið að ég ákvað að grípa til minna eigin ráða þegar tilkynnt var um forkeppnina fyrir árið 2006 og hóaði saman nokkrum vinum mínum og kunningjum, frá fornu fari og nýju, til að æfa og taka upp svona eins og eitt stykki entrans. Allir voru með aðra hluti á sinni könnu og tími var skorinn við nögl. Við komum saman þrisvar, kannski fjórum sinnum, part úr miðvikudagskvöldi (einu kvöldin sem allir voru lausir) og skelltum okkur svo í stúdíó sunnudaginn þrettánda nóvember. Það var byrjað að stilla upp um hádegisbilið og höfundurinn labbaði út með mix undir kvöldmat.

Ekki gekk eftir að við kæmumst inn í 24 laga hópinn. En þetta var gaman. Og sömuleiðis gaman að eiga afraksturinn í útgáfu sem hljómar satt að segja enn betur en sú sem var búin að sveima um í hausnum á mér í nokkur ár. Og fyrir vikið er núna hægt að leyfa öðrum að njóta útkomunnar.

Þetta var mikið einvalalið sem ég fékk með mér og smellpassaði í prósjektið. Allir hljómsveitarmeðlimir höfðu nóg að gera fyrir, en eitthvað er þó búið að rotta sig saman eftirá og ræða um að gaman gæti verið að gera eitthvað annað og meira síðar. Við sjáum til með það.

Nafnið á hljómsveitina er komið frá fyrrverandi trommuleikara hennar (sem þessa daga sýnir ánægjuleg merki um að rumska úr bloggdái).

Dömur mínar og herrar, ég býð ykkur: Bleikar mussur - Ég pant vera Ameríka. Þeim sem líst þannig á er frjálst að láta berast.
by Hr. Pez

04 janúar 2006


Hurru. Höldum áfram með temað: Bloggleikir sem allir eru löngu búnir að útjaska en ég hummaði fram af mér þartil núna.

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og…

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
7. Ef þú lest þetta verðurðu að setja þetta á bloggið þitt!
by Hr. Pez

02 janúar 2006


Kitli-kitli: Ekkert verra en hvað annað að byrja nýtt ár á einhverjum af öllum þeim bloggleikjum sem maður hummaði fram af sér í fyrra. Ég held að ég hafi reyndar sloppið við að láta kitla mig (enda gekk það æði sem hæst meðan ég var í bloggpásu) en ef ég hefði, þá eftirfarandi. Það má þess vegna líta á síðasta listann sem áramótaheitin mín, rétt eins og hvað annað.

7 hlutir sem ég get:
1. Hnýtt Svalborgarhnútinn
2. Fundið álpappírsbragð af hnífapörum
3. Snúið upp á tunguna í mér til hægri og vinstri (og gert rennu)
4. Hreyft æðarnar á handarbökunum á mér
5. Skrifað skammlausan texta
6. Barið saman kveðskap
7. Sungið

7 hlutir sem ég get ekki:
1. Snert nefbroddinn með tungunni
2. Kreppt hægri litlafingur (og haldið baugfingri beinum um leið)
3. Spilað á Digeridoo
4. Sagt fyndinn brandara
5. Lyft 50 kg í bekkpressu
6. Staðið á höndum
7. Blakað eyrunum

7 atriði sem ég segi oft:
1. "Heyrðu..."
2. "Ljómandi."
3. "Mjólllkh!" (við dætur mínar)
4. "Líf. Dauði." (þegar ég held að enginn heyri til)
5. "Æ helvítis."
6. "Liiitl."
7. "Allavega..."

7 gallar í fari mínu sem ég á erfitt með að forðast:
1. Að fresta hlutum fram úr hófi
2. Gleymska
3. Óþarfa kvíði og áhyggjur
4. Sterk tilhneiging til að vera úti á þekju
5. Sinnuleysi
6. Losti (dauðasyndin mín)
7. Sjálfsprottnir aulabrandarar

7 konur sem mér hafa fundist fallegar (fyrir utan maka):
1. Rachel Weisz
2. Ashley Jensen
3. Janeane Garofalo
4. Fairuza Balk
5. Gina Gershon
6. Mena Suvari
7. Kate Winslet

7 hljómsveitir sem ég hlusta á og einkenna mig sem manneskju:
1. Throwing Muses
2. Lush
3. My Bloody Valentine
4. The Blue Nile
5. Bauhaus
6. Sigur Rós
7. Pixies

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. Skrifa bókina sem kölluð verður "Íslenski Da Vinci lykillinn fyrir unglinga"
2. Semja fyndna íslenska gamanþætti fyrir sjónvarp
3. Búa til jólalag
4. Eignast skyrtu með pinnagötum á kraganum
5. Lyfta 50 kg í bekkpressu
6. Ná að spila á Digeridoo
7. Ná sáttum við sjálfan mig og aðra

Nú var enginn sem kitlaði mig (held ég). Svo ég kitla engan sérstakan í staðinn. En ef einhver les þetta sem varð ekki fyrir kitli á sínum tíma (og sem langar til) þá má viðkomandi líta svo á að ég hafi kitlað hann/hana.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com