<$BlogRSDUrl$>

06 september 2005


Nú get ég aldeilis neimdroppað.

Við buðum Gneistanum og spúsu hans í fiskibollur á sunnudagskvöldið var og horfðum í framhaldinu með þeim á forkeppnina í PPPP. Við sáum Siggu og Unni leggja Lummurnar naumlega, við þriðju brúði. Ég varð afar undrandi þegar frúin rifjaði upp fyrir mér fyrstu kynni mín af téðri Unni (sem ég þekkti reyndar hvorki þá né nú): þegar ég fékk ljóð frá henni til umsagnar, þá ungri og saklausri sveitastúlku á mölinni, með það fyrir augum hvort hentaði til útgáfu í sjöunda hefti neðanratsjárbókmenntatímaritsins Andblæs, fyrir átta árum. Þessu var ég alveg búinn að gleyma.

Allaveganna. Á leið heim með strætó eftir buxnakaupin í gær sá ég einn ógurlegan Vantrúarbola tilsýndar, þar sem hann beið í stóískri ró eftir einhverjum öðrum strætó en mínum. Ég þekki hann ekkert heldur.

Og í morgun, í því sem ég gekk framhjá Norræna Húsinu á leið til vinnu, gat ég ekki betur séð en treflum vafin frekja strunsaði í veg fyrir mig og stefndi í átt til Háskólans. Hana hef ég þó hitt og talað við í eigin persónu, þótt fartin á henni í morgun hafi verið slík að ekki hafi staðið vel á fyrir svoleiðislagað.

Buxurnar voru annars fínar, þetta eina par sem ég keypti. Ég er í þeim núna. Sakna þess einna helst að hafa ekki veskið í hægri vasanum. Það er í óhreina tauinu.

Ég gleymdi farsímanum reyndar líka. Það var ágætt.

Sem minnir mig á að ég átti ágætt símtal við mann sem var einusinni með mér í menntaskóla meðan ég gekk úr vinnunni oní bæ í gær. Og rakst á annan slíkan meðan ég beið eftir hraðleiðinni í Grafarvog í gjólunni á Lækjartorgi.

Það voru hvártveggju ánægjulegar samræður.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com