<$BlogRSDUrl$>

31 ágúst 2005


Þessi var léttur. Það virðist vera ansi margt sem ég kann að meta þótt fáir aðrir geri það. Hér eru tíu dæmi af handahófi:

1) Kús-kús.
- Ég gæti fyllt listann með þeim mat sem ég kann vel að éta en enginn í kringum mig. Kús-kús stendur uppúr.
2) Goth.
- Ég hef alltaf verið svag fyrir tónlistinni. Og tískan er dáldið krúttleg líka, þótt hún henti mér ekki hvunndags.
3) Strætó.
- Konseptið sem slíkt, og líka
4) Nýja leiðakerfið.
- Það er margt gott við það. Það á eftir að batna enn frekar þegar vankantarnir sníðast af því.
5) Dauði.
- Þessi sem vitjar okkar allra, einhverntíma. Það er eitthvað mjög fallegt við hann.
6) Íslenskt eldhús.
- Grófhakkaðir hrossasperðlar eru herramannsmatur. Einnig sigin grásleppa. Og Þorrinn rúlar. Feitt.
7) Íslensk fyndni.
- Sem minnir mig á að endurvekja dag íslenskrar fyndni. Synd að hann skyldi detta uppfyrir síðast.
8) Jón Leifs.
9) Ferskeytlur og alþýðukveðskapur.
10) Kórtónlist.

Ég er að velta fyrir mér þremur listum í viðbót, fyrst ég er að þessu: það sem mér finnst jafn ömurlegt og öllum öðrum; það sem mér finnst jafn sætt og öllum öðrum, og tíu umdeildir hlutir sem ég veit ekki hvort ég á að elska eða hata. En ég þarf kannski að liggja aðeins meira yfir þeim.
by Hr. Pez

30 ágúst 2005


Ég hef aldrei lagt í vana minn að búa til lista fyrir bloggið mitt. En það er aldrei of seint að byrja. Og kjörið tækifæri þá loks þegar maður hefur engar skárri hugmyndir. Svo ég ákvað að stela hugmynd sem ég sá annarsstaðar og setja saman lista yfir það sem ég þoli hvað síst, af því sem flestum öðrum finnst þolanlegt. Þetta er sennilega ekki tæmandi listi, bara svona það sem kom fyrst upp í hugann. Ég þurfti reyndar að streða dálítið til að fylla tuginn, svo kannski yrði hann ekkert mikið lengri en þetta. Nóg um það.

Tíu hlutir sem flestum finnst í góðu lagi en mér finnst lítið til koma (í engri sérstakri röð):

1) Myndir sem byggja á atburðum sem gerðust í alvörunni.
- Based on a True Story. *Brrrrr*
2) Snilld.
- Það vill segja, orðið. Ofnotkunin reið þessari merkingarlausu hörmung í gröfina.
3) Kvenspæjarastofa númer eitt.
- Hún bara greip mig ekki. Því miður.
4) Jeppar.
- Og þeir sem kaupa þá, auðvitað.
5) Fólk sem krefst harðari refsinga við glæpum.
- Bæði almennt (engar undantekningar), en sérstaklega hvað varðar
6) Dauðarefsingar.
- Meira umburðarlyndi getur af sér öruggara þjóðfélag. Ef einhverjir eru ósammála þarf að berja það úr þeim.
7) Þágufallssýki.
8) Njú-Metall.
9) Linmælgi.
10) Fólk með Sirrý.

Að lokum vil vekja sérstaka athygli á fjarveru Hér og nú, Séð og heyrt og Megasar af listanum. Þau komust sko ekki nálægt.

Á morgun: tíu hlutir sem ég held uppá, hvað sem hver segir. Bara svona til mótvægis.
by Hr. Pez

26 ágúst 2005


Mig dreymdi Shelley Long í nótt. Ég man ekkert meira úr draumförum næturinnar en akkúrat þetta: ég sá haf af fólki og eina andlitið sem ég greindi í þrönginni var Shelley Long. Hún brosti.

Atarna er tákn sem vantar í draumráðningabækur.

Annars er ég í ljómandi góðu skapi í dag. Ég fékk svo góðar fréttir í vinnunni í morgun að ég tók nokkur dansspor við sjálfan mig á leiðinni niður að kaffivélinni. Ekkert sem ætti að hafa áhrif á gengi fyrirtækisins á hlutabréfamarkaði (það vill segja, fréttirnar, ekki dansinn), bara góðar fréttir fyrir sjálfan mig.

Ögn síðra er að ég verð grasekkill síðar í dag: frúin er á leið til Færeyja með kvöldvélinni og verður í tæpa viku.

Það er ekkert í sjónvarpinu. Ekkert. Naðanaðanaða. Nema mér skilst að ein ljótasta mynd allra tíma sé í kassanum annað kvöld.

Ég sá þó Skrúbb í gær. Þótt þættirnir séu ekki nándar nærri eins beittir og í upphafi eru þeir samt ennþá það eina sem horfandi er á í sjónvarpinu þessa mánuðina. Við hjónin erum farin að taka víðgesjón fimm til sex kvöld í viku. Í fyrrakvöld sáum við Finding Neverland, sem var ágæt, en fölnaði þó í samanburðinum við Hótel Rúanda, sem við sáum kvöldið þar áður.

Það er mynd sem allir ættu að sjá. Segja svo, "Þetta er skelfilegt," og halda áfram að borða kvöldmatinn sinn.
by Hr. Pez

24 ágúst 2005


Mér flaug í hug að Fréttablaðið væri kannski að klikka á að vinna vinnuna sína, þegar ég las forsíðufyrirsagnir dagsins yfir súrmjólkinni í morgun: "Erfitt reynist að ráða stuðningsfulltrúa við frístundaheimili borgarinnar: Ofvirk börn þurfa að bíða lengur."

Það fyrsta sem mér datt í hug var nefnilega að kannski liði grey börnunum bara eins og þau þyrftu að bíða lengur. Ofvirk börn væru jú ekki þessi þolinmóða týpa.

Í tengdum fréttum finnst mér furðulegt að DV hafi enn ekki bent á dálítið í dálkinum sínum, "Þeir eru skyldir." Það eru kannski ekki margir sem vita það, en Orri Páll Dýrason, trommuleikari Sigur Rósar, á ekki langt að sækja hæfileikana. Faðir hans átti nefnilega farsælan feril sem trommari í Hljómsveit Dr. Tanna, Rafmagnaðri upplausn (Dr. Tooth's Electric Mayhem), á áttunda áratug liðinnar aldar.

Ég held ég sé bara í ágætu skapi í dag.
by Hr. Pez

23 ágúst 2005


Mos Def. Mér finnst Mos Def flottur. Ég hef ekkert heyrt af tónlistinni, en ég hef séð hann leika í nokkrum myndum, nú síðast í gærkveldi í Veiðimanninum.

Ég á enn eftir að sjá hann standa sig neitt minna en mjög vel.

Og myndin var góð.

Við hjónin höfum annars séð nokkrar víðgesjónsmyndir í og eftir sumarleyfi. Vélamaðurinn var ágætur, og sérstaklega var hrein hörmung að sjá Christian Bale - hann var óhugnanlega sannfærandi í hlutverki manns sem hafði hvorki étið né sofið í eitt ár samfleytt.

Annars get ég ekki sagt nema gott eitt um þær myndir sem við höfum séð. Tuttugogeitt gramm var ágæt. Þorpið var mun betri en ég átti von á. Ég hafði heyrt misjafnar sögur af myndinni, en ég á bágt með að skilja af hverju.

Heimur undirdjúpanna með augum Steve Zissou kemst næst því að vera vonbrigði, af þeim sem ég man eftir að hafa séð síðustu mánuðina. En samt varla. Kærulaus húmor fór góðan spöl með að bæta upp fyrir vafrandi söguþráð, ómarkvissa framvindu og höktandi tempó. Og það er alltaf gaman að heyra Starálfinn.

Ég myndi blogga um sjónvarp ef ég horfði á það. Jú, það er einn þáttur. Við hjónin gerum okkar besta til að missa ekki af Skrúbbi á fimmtudagskvöldum.

Samt missti ég af honum síðast.
by Hr. Pez

19 ágúst 2005


Nokkur orð í viðbót um bílabænina hans afa Hjörvars - svo allt sé á tæru.

Hvorki ég né nokkur annar ber kala til nokkurs manns yfir þessu. Þarna virðist í öllum tilvikum hafa verið á ferð hið indælasta fólk, sem einfaldlega vissi ekki betur. Fólki finnst þetta falleg bæn og vill leyfa öðrum að njóta hennar. Allir hafa þegið með þökkum að fá loks að vita hver væri höfundur hennar.

Auðvitað viljum við ekki hindra nokkurn mann í því að fara með þessa vísu. Þvert á móti; við viljum endilega sjá hana fara sem víðast. En okkur er umhugað um þetta tvennt: að rétt sé farið með vísuna og höfund hennar.

Nokkrar leiðréttingar og viðbætur:

Konunni fyrir vestan varð víst svo mikið um tíðindin að hún hætti framleiðslunni oltúgeðer. Því miður segi ég - mér finnst hún mætti gjarnan byrja aftur. Einhvernveginn þarf að koma í umferð réttri útgáfu og höfundi.

Félag aldraðra á Selfossi hafði engin bein afskipti af dreifingu bænarinnar - hún virðist bara hafa verið í umferð á meðal nokkurra félagsmeðlima sem þótti vísan falleg. Og frændi minn formaðurinn (sem ég sá síðast á ættarmóti á Hólum í Hjaltadal fyrir átta eða níu árum) er systursonur afa. Og mikill indælis kall, enda af góðu fólki kominn.

Afi ók ekki um á Landróver. Hann átti nefnilega þennan forláta Dodds Vípon, sem ekki var einusinni moldargulur, heldur fölblár. Kannski var ég að rugla saman við Landróverinn í Kárdalstungu í Vatnsdal, sem hristist með mig, afa og Þolla frænda upp eftir heiðum í girðingarvinnu eitt sumarið í upphafi níunda áratugarins. Í lok eins vinnudagsins, uppi á háheiðinni, uppgötvuðum við að bremsurnar í jeppanum væru farnar. Heimferðin eftir, með öllum sínum hliðum og bröttu brekkum. Ég man enn hvernig Landróverinn vældi niður síðustu brekkuna í fyrsta gír í lága drifinu, meðan ég þurfti að stökkva út úr honum á ferð og hlaupa eins og fætur toguðu á undan honum niðreftir til að opna hliðið við brekkufótinn í tæka tíð.

Svona svíkur minnið mann. Og kannski ekki svo skrítið: Þegar ég var orðinn nógu gamall til að mér væri treystandi í langferðirnar með afa var hann kominn á Suzuki.

Eða var það Subaru? Rétt í þessu var ég að fá póst frá móður minni, þar sem meðal annars er þessi ágæta saga hérna:

Síðasti bíllinn hans var lítill fjórhjóladrifinn Subaru. Á þeim bíl var hann þegar hann fór fram hjá stórum fjallabíl með hóp ferðamanna við jökulkvísl eina á Sprengisandi. Bílstjórinn og leiðsögumaðurinn stóðu við kvíslina og spáðu í vaðið, þótti áin ekki árennileg og veltu fyrir sér áhættunni við að fara á ská ofan við brotið eða bara beint af augum. Þar sem þeir stóðu þarna sáu þeir lítinn Subaru koma á fleygiferð, bílstjórinn sýndist vera lítill karl, með mórauðan hatt á höfði. Ekki stoppaði karl er hann kom að jökulkvíslinni, hægði að vísu aðeins á sér en skellti sér síðan útí flauminn, þræddi bestu leiðina ofan við brotið og yfir komst hann þótt Subaruinn væri ansi djúpsigldur. Karlinn og Subaruinn hurfu síðan með það sama í rykmekki. Eftir stóðu bílstjóri og leiðsögumaður, agndofa og orðlausir. Þeir hefðu eftir á að hyggja alveg þegið ráð hjá sér reyndari manni áður þeir legðu í kvíslina.

Þessi saga hefur aldrei verið skráð en Jónas Sigurjónsson á Akureyri var í rútunni og sá hvað gerðist, hann kann þessa sögu vel. Einar Guðmann var hins vegar í bílnum með afa þínum og hann kann þessa sögu líka, mig minnir að hann hafi einhverntíma sagt frá svipnum sem hann sá á andlitum þeirra er stóðu á bakkanum.


En þetta var nú útúrdúr. Og ég verð enda seint talinn hafa mikið vit á jeppum og stórum bílum.

Að lokum má geta þess að útgáfan sem afi lét dreifa í sjoppurnar fyrir norðan var skrautrituð af bróðurdóttur hans, Guðrúnu Jónsdóttur, húsfreyju í Villingadal. Og þá fer þetta að verða upptalið.
by Hr. Pez

18 ágúst 2005


Ég heiti í höfuðið á móðurafa mínum, Angantý Hjörvari Hjálmarssyni, kennara og bónda frá Syðri-Villingadal í Eyjafirði. Það eru orðin sjö ár síðan hann skildi við.

Æskuheimili afa míns heitins var afskekktur torfbær í grösugum afdal fram til sveita, umluktum háum fjöllum og hólar byrgðu dalsmynnið. Það var langt á milli bæja í þá daga, og þar sem maður er jú manns gaman og (setjið inn klisju að eigin vali) þá var kvöldum oft eytt við kveðskap og skáldskaparmál. Svo afi og alsystkin hans þrjú fengu öll bragfræðina í blóðið með móðurmjólkinni.

Svo liðu ár. Það kom rafmagn. Það komu ísskápar. Þvottavélar. Útvarpsviðtæki. Og bílar.

Á fullorðinsárum setti afi minn saman eina litla ferðabæn, til að hafa í bílnum sínum meðan hann ók af einum stað á annan. Oft upp um fjöll og firnindi. Lengi framan af var bænin bara vélrituð á lítinn miða og límd í mælaborðið eða á hanskahólfið með glæru bókaplasti. Síðar - eftir að hann hafði um nokkurt skeið mátt þola ágang fólks sem vildi sjálft fá eintak af bæninni í sinn eigin bíl - sá hann til þess að bænin var prentuð á sjálflímandi miða sem voru svo seldir í bensínsjoppum á Norðurlandi (og e.t.v. víðar). Við hjónin eigum dálítinn bunka af þessum miðum ennþá, ofaní kassa. Verst er hvað límið tollir illa á vínylnum, svo enn er full þörf á að skella glæra bókaplastinu yfir kveðskapinn.

Nema hvað.

Í gærkvöldi var ég að tala í síma við ástsæla móður mína. Hún tjáði mér það að vitlaus útgáfa af þessari bæn hefði um nokkurt skeið verið í umferð á Suðurlandi, auðkennd með undirskriftinni Höf.ók. Það kvæði svo rammt að þessu að kona ein á Vesturlandi málaði og skreytti ósköp fallega platta með vitlausri og höfundarlausri útgáfu af bæninni og seldi þeim sem vildu kaupa.

Höf.ók.

Það reiddi mig að heyra þetta. Eflaust álíka mikið og móður mína sjálfa þegar henni bárust fréttirnar af skrautplöttunum að vestan til að byrja með. Hún hafði samband við téða konu, sem var miður sín við að heyra þetta, og hefur gert hlé á framleiðslunni. Hjá henni frétti móðir mín að vísan væri í umferð á Suðurlandi í þessari vitlausu útgáfu, höfundarlaus, í dreifingu félags aldraðra á Selfossi. Svo hún hafði samband við formann félagsins, sem vildi svo hlálega/skemmtilega til að er náskyldur honum afa - því er stolið úr mér hvort afi hafi verið móðurbróðir hans eða föðurbróðir (en hálfbróðir, svo allt sé sem réttast). Það var sama sagan af þeim bænum, bara enn meira svoleiðis. Hann var víst alveg í rusli yfir þessu, greyið karlinn.

Af þessu tilefni þykir mér nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi.

Þessi bæn er eftir afa minn Hjörvar. Það er eitt sem er mikilvægt að komi fram. Í öðru lagi skiptir miklu máli að rétt sé farið með bænina. Í þriðja lagi hvílir á henni höfundarréttur.

Höf.ók.

Fjölskyldu minni finnst algjört lágmark að þeir sem sjá sér eiginhag í því að selja þessa bæn, í hvaða útgáfu sem það kann að vera, láti að minnsta kosti ígildi höfundarlauna (hvaða hraksmán sem þau nú annars eru - ég veit það ekki) renna í þágu góðs málefnis. Eigendur höfundarréttar hafa ekki fundað formlega um þetta mál, en þó hefur kviknað þeirra á milli sú hugmynd að rétt væri að láta Landsbjörgu njóta þessa. Afi var alla tíð mikill jeppakarl; árum og áratugum áður en þótti móðins að eiga jeppa ók hann um á gömlum, moldargulum Landrover. Þegar fór að bera á ríkisbubbajeppum var karlinn skiptur yfir í fjórhjóladrifna Suzuki, og fór þannig allra sinna ferða. Ef eitthvað hefði útaf borið hefði það verið verk Landsbjargar (eða forvera hennar) að ná honum úr ógöngunum.

En í eitt skipti fyrir öll, til þeirra sem málið varðar og reka hér inn nefið, þá er bílabænin hans afa Hjörvars svona:

Blessaðu, Drottinn, bílinn minn,
bjargaðu mér frá skaða,
lát mig velja veginn þinn
og vera á réttum hraða.


Akið á guðs vegum elskurnar, og ef þið sjáið þessa vísu einhversstaðar (sérstaklega ef hún er með orðinu láttu í staðinn fyrir lát í upphafi þriðju línu) þá leiðréttið og vekið athygli á að höfundur hennar er kunnur. Hann hét Angantýr Hjörvar Hjálmarsson (1919-1998). Hann hafði fangamarkið A.H.H.
by Hr. Pez

17 ágúst 2005


Við fengum matargesti í gærkveldi: Hr. T og Halldór, okkar ágætu vini. Kvöldstundin var ánægjuleg en kannski ekki til mikilla frásagna (skýringin á bloggleti Tampsins reyndist ekki einusinni vera sú augljósa), nema af því að Torfinn kom færandi hendi með geisladisk með hljómsveitinni Drums and Tuba (the name says it all) og bókina Stiff: The Curious Lives of Human Cadavers, eftir Mary Roach. Hann segir mér að sú bók sé ekki aðeins mikill skemmtilestur, heldur spilli hitt ekki fyrir hvað hún sé fróðleg, og um afar skemmtilegt viðfangsefni.

Ég bíð spenntur eftir að byrja á henni.
by Hr. Pez

16 ágúst 2005


Í spjalli við vinnufélagana yfir morgunkaffinu fleygði ég inn í umræðuna eftirfarandi tilvitnun:
This is this. This ain't something else. This. Is this.
Og það fallega var að hún meikaði fullkominn sens, það var ekki eins og ég væri að troða henni milli suðurveggjanna á samræminu. Þetta var akkúrat það rétta til að segja á þessum stað í spjallinu. Því til sönnunar: Samræðurnar héldu áfram í beinu framhaldi, og beindust inn á einhverjar allt aðrar brautir, eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Þannig gengur það, þegar allt gengur eins og það á að ganga.

Svo lauk þessu á annarri tilvitnun, ekki síðri, en ekki jafn beintengdri (enda ekki úr mínum eigin inséníala tranti):
Romani Ite Domum!

Eftir að ég settist við tölvuna rakst ég á blogg úti í heimi sem virðist hefja hverja færslu dagsins á tilvitnun í kvikmynd, og hvenær sé rétt að nota hana í samræðum. Þetta þykir mér góð og þörf hugmynd.

P.S. Sá sem veit hvaða hljómsveit samplaði tilvitnunina sem minnst var á í upphafi, og í hvaða lagi frá níunda áratugnum, á skilið að fá viðurkenningu frá mér.
by Hr. Pez

15 ágúst 2005


Kannski ætti maður að tjá sig um ástandið í þjóðfélaginu (b.f. ýmist "þjó-félaginu" eða "þjóf-félaginu," eftir því hvernig fólk hneigist) í dag. Einhvern daginn. En sá dagur er ekki í dag.

Kannski verður sá dagur í dag dagurinn á morgun. Kannski dagurinn þar á eftir. Kannski bara ei meir - þetta gerist ekki oft, að ég þori að tjá mig um þjóðmálin. Í það minnsta ekki í dag.

Í dag er dagur fyrir fréttir af fjölskyldunni, nánar tiltekið einum litlum sjúkum púka sem lagðist í morgun undir hnífinn í fyrsta sinn á sinni tveggja ára æfi og lét fjarlægja úr sér nefkirtlana. Sjálfur var ég fjarverandi, en frúin hermdi mér að sú litla hefði staðið sig eins og hetja.

Það virtist tölvert af henni dregið þegar ég skutlaðist með þær mæðgur heim í hádeginu.

Svo á eftir fer ég og næ í þá eldri á leikskólann - dagurinn í dag sá fyrsti eftir sumarfrí frá þeim bænum. Hún var búin að fá alveg yfrið nóg af því að hanga með hyskinu og lét síðustu dagana móðan mása um það hversu mjög hún saknaði vinkvenna sinna af leikskólanum.

Svo það verður gaman að heyra í henni hljóðið á eftir.
by Hr. Pez

12 ágúst 2005


Gullfallegt veður í dag. Af því tilefni hyggst ég veita einum ógæfunnar ölmusumanni beiningar og bjóða honum uppá rjúkandi kaffibolla í lok vinnudags.

Fyrsta vinnuvika haustsins hefur annars farið hægt af stað; það er eins og ég sé varla hrokkinn í gírinn ennþá. Enda er enn eitthvað útistandandi af þeim vinnufélögum sem halda mér hvað helst við efnið dagsdaglega.

Þetta er allt að koma.

Pælingum gærdagsins hefur verið fleygt í rafrænt rusl í bili. Þetta er líka ágætt svona. Annað sem þó þótti gefa betri raun fer einnig lægra en áður.

Og lýkur þá dylgjum dagsins, og öllum þeirra hálfkveðnu vísum.
by Hr. Pez

11 ágúst 2005


(Einfaldur má vera ánægður
fyrst talinn er löstur að vera tvöfaldur.
)

Í tengslum við færslu sem ég las (hjá manni sem gladdi mig að sjá aftur í bloggheimum eftir langa fjarveru) fór ég að velta fyrir mér eftirfarandi:

Af hverju er sagt um fólk að það sé fábjánar?

Ég á við, bjáni, sko, það er sá sem er vitlaus, ekki satt? Svo fábjáni, hlýtur það ekki að vera sá sem er bjáni í fáu? Væri það í sjálfu sér ekki bara nokkuð vel af sér vikið? Nema náttúrulega viðkomandi sé þess meiri bjáni í því fáa sem hann tekur sér fyrir hendur, nái óviðjafnanlegum hæðum í sérhæfðum bjánaskap...

(Einn fjölómenntaður maður
var margfáfróður.
Vissi ekkert um æðri plöntur
en allt um lággróður.
)

Mér finnst ég einmitt alltaf vera að gera eitthvað bjánalegt - það fer um mig bjánahrollur yfir ýmsu sem ég stend sjálfan mig að, nánast upp á dag hvern. Ég læt út úr mér einhverja bévaða vitleysu. Ég þegi þegar snappí kommbökkin ættu að flæða í logagylltum kvóteringum útum trantinn á mér (L'esprit de l'escargot, anyone?). Ég frem fáránleg umhverfishryðjuverk með útlimunum á mér án þess að fá við neitt ráðið. Ég segi skelfilega mislukkaða brandara (sem ég nota bene veit vanalega fyrir að ógnar míkrókosmískum heimsfrið að láta heyrast upphátt). Og stundum stend ég mig að því að vera bara nautslegur durtur við þá sem eru mér næstir.

Sumsé: Oft finnst mér ég vera soddan margbjáni.

---

Ákvað, fyrst ég minntist á það, að þreifa mig áfram með bloggerkommentin. Sjáum hvað setur.

---

Tékkaði annars nokkur á hljóðskránum hennar Natalie í gær? Var þetta nokkru skárra en það leit út fyrir að vera?
by Hr. Pez

10 ágúst 2005


Listamaður dagsins er Natalie Curtis. Mér sýnist sem hún sé ágætlega lunkinn ljósmyndari, þótt ég sé kannski ekki eins útviklaður í myndlæsi og Úlfhildur Dags myndi vilja binda í námskrá á grunnskólastigi. Ég er því miður ekki í aðstöðu til að hlusta á hljóðlistaverkin, þótt líkur bendi til að mér þættu þau síðri:

Hljóðlistaverk eitt: HURÐ
Hljóðlistaverk tvö: HILLA

Komm on. Við hve miklu getur óuppdreginn helmút eins og ég búist, ég meina, í alvörunni? Það getur vísast varla verið verra en sú skelfing sem manni dettur í hug við titlana.

En ættarmótið leynir sér ekki á stelpunni, og vonandi að hún hafi ekki fengið sama skammt af lyndisfari föður síns og hún virðist hafa fengið af hæfileikum og útliti.
by Hr. Pez

09 ágúst 2005


Fríinu er lokið. Mig langar ekki neitt sérstaklega til að tala um það. Ekki fyrir það að það hafi ekki verið ánægjulegt. Þvert á móti. Mér fyndist það bara eitthvað svo tepokalegt.

Læt þó getið að fríinu lauk með hinum fínasta ruslatunnuendi: Magnús dró mig með sér að hitta Einar vin okkar Hafberg upp úr kvöldmatnum í gærkveldi og við drukkum bjór og spiluðum ballskák fram yfir miðnættið. Svo tók vinnan aftur við í morgun.

Kannski ég rekji sumarfríið bara afturábak, lið fyrir lið, eftir því sem ég nenni.

Mér er farið að lítast ágætlega á þetta kommentakerfi sem bloggerinn býður uppá og margir hafa notað lengi sér til ánægju (eða óþæginda, í einhverjum sjálfhælnum tilvikum). Mig langar dálítið að skipta því út fyrir geislabaugsskannið en hef ekki fundið út hvernig ég kem því fyrir án þess að gjörbylta öðru útliti á síðunni. Því nenni ég síður - hef ekki gert það nema einu sinni áður og er ágætlega sáttur við hlutina eins og þeir eru, takk fyrir.

Hef annars veitt því athygli að þeir sem nota frasann "þú sýnir þroskamerki" í rökræðum við aðra eru upp til hópa rindlar og vonlaus merkikerti.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com