<$BlogRSDUrl$>

30 júní 2005


Já sumsé, ég hef fyrir því öruggar innanbúðarheimildir að ég eigi afurð í vikublaðinu Birtu sem mun fylgja Fréttablaðinu á morgun. Ég ætla að láta vera að útlista hvusslags og af hvaða tilefni, auk sögunnar af því hvernig þetta kom til alltsaman, þangað til ég hef séð þetta sjálfur á morgun, svart á hvítu. Og í lit.

Látum ekki fara á milli mála að ég er ljómandi góðu skapi í dag. Got some money in my khakis and I know I'm gonna spend it right. Í kvöld fáum við fullt af gestum í mat, og svo verður hópferð á Duran Duran í Egilshöll. Gott að vera í göngufæri frá stórviðburðunum.

Þetta bar brátt að, hvað mig varðaði. Magnús hafði samband við mig um helgina og sagðist eiga ónýttan miða þar sem kærastan kæmist ekki með honum. Svo ég sagðist bara glaður slást með í för og vera tíkin hans. Það verður eflaust gaman að sjá þá, fauskana. En ég er ekki síður spenntur fyrir því að sjá hvernig Leaves gera sig á tónleikum. Ég held mér lítist ágætlega á það sem ég hef heyrt af nýju plötunni þeirra.

Ég ætla ekki að vera með neina nostalgíu hérna, í tilefni dagsins. Á sínum tíma nennti ég hvorki að æsa mig yfir Wham né Duran Duran, en þótti sem hvorir hefðu til síns ágætis nokkuð. Sjálfur var ég þá byrjaður að laumast í plötusafn stóra bróður, og því hallari undir meira obskúr bönd en jafnaldrarnir: furðulegar óþekktar hljómsveitir eins og Talking Heads, Prefab Sprout og B52's.

Og hver man sosum eftir þeim í dag.
by Hr. Pez

29 júní 2005


Mikið rosalega er ég farinn að hlakka til þess þegar föstudagurinn kemur með Fréttablaðinu.

Meir um það síðar.
by Hr. Pez

28 júní 2005


This just in: Ég rambaði fyrir tilviljun á glænýja grein um íslenska fæðingarorlofskerfið (og það danska) á BBC. Ég hefði viljað sjá meira um það hvaða "benefits to society" sérfræðingarnir hafi getað neglt niður með tölfræðinni. En greinin er þessutan ágæt lesning.
by Hr. Pez


Ættarmótið var geðþekkt: þótt það að hanga með frúarslektinu sé kannski ekki orðabókarskilgreiningin á hipp og kúl þá er þetta upp til hópa ágætt fólk sem er erfitt að láta sér leiðast með. Það var vel mætt; meir að segja mætti einn ættleggurinn komplett þrátt fyrir að afinn í fjölskyldunni hefði dáið í vikunni áður. Og höfðu allir af mótinu mikla skemmtan.

Eitt situr þó í mér. Á laugardagsmorgninum var farið í "skemmtilegan kynningarleik" (ég ætla ekki að gera grín hér og nú - þessi færsla er um annað) sem gekk út á að fólk úr aðskildum leggjum ættarinnar rottaði sig saman í fimm til átta manna hópa og kynnti sig og ræddist við, milli þess sem forláta bjöllu var hringt til að láta fólk vita hvenær skyldi hætta að tala og fara að leita, eða öfugt.

Þar sem ég stóð í einum slíkum hóp var eitthvað við það hvernig yngri dóttir mín rellaði í fangi mér, auk þess sem einhver sagðist eiga heima í Noregi sem varð til þess að ég fór að hugsa eitthvað annað; mér datt eitthvað heimskulegt í hug um Norðmenn og svo skellti ég uppúr. Ekki yfir neinu sérstöku. Ég var bara í ágætu skapi.

Þá áttaði ég mig á því, um leið og ég tók eftir að allir í hópnum störðu á mig forviða, að þá var tengdafaðir minn nýbúinn að votta samúð sína einni af tengdadætrum mannsins sem um var getið hér að framan.

Ég þagði það sem eftir var af þeirri sessjón, og sagði reyndar eins lítið og ég gat tölvert fram eftir degi. Og fór hjá mér í hvert skipti sem ég sá konuna það sem eftir var helgar. Einhvernveginn er ekki hægt að biðjast afsökunar á svonalöguðu. Maður verður bara að þegja, láta lítið fyrir sér fara og vona að hægt sé að láta eins og þetta hafi aldrei gerst.

Lexía helgarinnar: Aðgát skal höfð.
by Hr. Pez

24 júní 2005


Gleðifrétt dagsins (3): Ég er farinn á ættarmót.
by Hr. Pez


Gleðifrétt dagsins (2): Frúin snoðaði á mér kollinn í gærkveldi.

Mikið rosalega er gott að vera laus við þennan lubba. Ég var orðinn leiður á honum.
by Hr. Pez


Gleðifrétt dagsins: Hrafn Gunnlaugsson lýsir yfir í viðtali við Blaðið í dag að hann sé hættur að gera kvikmyndir.

Tungur knívur atarna.
by Hr. Pez

23 júní 2005


Ja hvur greifinginn.

Það er deginum ljósara að ég er ekki langskólagenginn í enskri málfræði. Og ekki einu sinni lestur á gervöllum ævintýrum Lísu í Undralandi dugði til að koma mér í skilning um hvað væri að ræða. Þegar ég hugsa út í það þá held ég meiraðsegja að þeim hinum sömu ævintýrum sé að kenna um þennan misskilning minn. Rosalega hef ég lesið hann Carroll carlinn vitlaust. Eins og hann útskýrði þetta vel.

Ég var sumsé að reka mig á að það sem ég hélt að kallaðist apóstrófa er bara hreint ekki kallað apóstrófa, heldur þetta hérna:

'

Sem hvurt mannsbarn veit vitask... auðvitað að heitir úrfellingarmerki.

Ojæja. Svo lengi lærir sem lifir.

En hvað þá með þetta hérna:

...

Hvað ætli þetta sé þá kallað? Á hvaða tungumáli sem er?
by Hr. Pez


Eftir minn síðasta póst rifjuðust upp fyrir mér varnaðarorðin, að maður skyldi æ vera vakandi yfir ofnotkun á uppáhaldsorðum og dálætisfrösum. Ég tók nefnilega eftir því að ég var búinn að nota orðið vitaskuld í misgáfulegum samhengjum í síðustu þremur færslum.

Sem gerir þessa að þeirri fjórðu í röð.

Jæja, nú verð ég að fara að passa mig á þessu. Nema ég leggi upp í vitaskuldarmaraðon og sjái hversu lengi ég held út að troða því inn í færslurnar mínar...

- Hvaðan kom hún eiginlega þessi apóstrófa? Ég hef aldrei gert mikið af því að nota svoleiðislagað. Hvað heitir hún eiginlega á íslensku? ... Þrípunktur?

Annað í fréttum er það að ég er hreint afskaplega hrifinn af alaskalúpínunni sem umvefur holtin sem við keyrum yfir á leið okkar að heiman upp á Vesturlandsveg á hverjum virkum morgni.

Alaskalúpínan er fallegt blóm og gagnlegt. Lifandi, ljóstillífandi og niturbindandi þjóðráð.

Nú er löngu búið að yrkja hin fegurstu ljóð um brekkusóley og eyrarrós. Afhverju er ekkert skáldið búið að taka sig til og yrkja óð um alaskalúpínuna?

Mér er minnisstætt þegar ég vann um sumar sem fötu- og línumaður á Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar fyrir allmörgum árum og arkaði upp heiðarnar við ónefnda á í Húnaþingi með forstöðumanninum.

"Sjáðu hvað þetta er alltsaman snautt hérna," sagði yfirmaður minn og göngufélagi og bandaði hendi yfir flögin og mosaþemburnar með stöku geldingahnappi og lambagrasaþúfu. "Hugsaðu þér hversu miklu meira líf væri í jarðveginum ef einhver tæki sig til og plantaði lúpínu hérna upp eftir öllu. Og hugsaðu þér muninn fyrir ána maður - það þrífst varla neitt í þessari hörmung, þessari rennandi eyðimörk."

Og ég tek bara undir með honum: Skítt með verndun óspjallaðrar náttúru - hún er víðasthvar óbyrja hvort eð er. Pöntum okkur frekar lúpínu á línuna.
by Hr. Pez

22 júní 2005


Þá skal ekki hægt að neita því lengur: Ég er listamaður af alþjóðlegu kalíberi. Það hlýtur að vera satt, fyrst það stendur á internetinu.

Ég er vitaskuld ennþá svekktur út í hann Hallgrím, að hann skuli hafa tekið einhverja stelpuskjátu frá Húsavík fram yfir mig í Evróvisjón þarna um árið.

En lífið heldur áfram: ég ber engan kala til stráksins, þrátt fyrir að leiðir okkar hafi skilist vegna tónlistarlegs ágreinings.
by Hr. Pez

21 júní 2005


Ég get ekki að því gert: mér finnst dálítið fyndið, þrátt fyrir fréttir dagsins, að kardínálinn á Filipseyjum hafi heitið Sin. En vitaskuld ekki nema á engilsaxnesku.

Annars tókst mér að gleyma að minnast á það í gær hvað frúin tók sig vel út í sjónvarpinu á föstudagskvöldið. Ég varð bara skotinn í henni, að sjá hana þarna á skjánum. Og alltaf jafn sætt að sjá hana sletta táknmáli meðan hún talar.
by Hr. Pez

20 júní 2005


Sautjándi júní var vitaskuld fínn líka. Hápunkturinn fyrir stelpurnar var þegar ég tók mynd af þeim í fanginu á Skoppu og Skrýtlu.
by Hr. Pez


Í tilefni af sex ára brúðkaupsafmæli okkar hjóna í gær fékk ég heimsendan frægan listamann og söngvaskáld til að kyrja okkur í eigin persónu við ómþýðan gítarundirleik rómantíska söngva í rúmið...

Nei, guð forði frúnni frá þeirri martröð.

En blómvöndurinn sem ég stalst til að panta handa henni kom á tilsettum tíma og stóð heima að rétt í þann mund kom frúin á fætur, mátulega til að taka á móti sendingunni.

Kvöldið áður var ég yfir mig hræddur að óvænti parturinn af ánægjunni færi til ónýtis: Við fengum Óla og Eygló í heimsókn og meðan við vorum úti að kasta frisbídiski með eldri dóttur minni asnaðist ég til að segja honum Óla að ég hefði verið í grennd við Hagkaup í Spönginni þegar Á móti sól tróð þar upp með harmkvælum. Í téð skipti var ég þar sumsé einn með sjálfum mér, að laumast í blómabúðina sem stendur þar steinsnar frá.

Svo þegar frúin fór að tala um það yfir kvöldmatnum að við hefðum öll verið í þessum sömu Hagkaupum og sníkt þar fríar pylsur og horkók uppúr hádeginu spratt út á mér kaldur sviti þegar Óli spurði hvað henni hefði þá fundist um performansinn hjá Á móti sól. "Nei blessaður, við vorum löngu farin áður en þeir byrjuðu," svaraði frúin. Og eftir þögn sem mér fannst sem varði heila eilífð leiddist talið að einhverju öðru.

Við spiluðum annars herkænskuspil fram á rauða nótt, og höfðu allir af því allnokkurt gaman. Herkænska er þó kannski ekki mín sterkasta hlið, eins og sannast af ofangreindu dæmi.

Ég eyddi bróðurpartinum af síðdegi gærdagsins í sjósundferð með Magnúsi, Ása og Smára nokkrum Tarfi. Þessi ferð var í alla staði mun ánægjulegri en sú fyrsta og vellíðanin sem streymdi um kroppinn á eftir illlýsanleg. Það vill segja, fyrst (á leiðinni ofaní) streymdi ekkert um kroppinn annað en hreinræktað panikk. Svo var það doði (þær fimmtán mínútur sem maður var úti). Þá óstöðvandi skjálftar (þegar uppúr var komið og á leiðinni í heita pottinn í Sundlaug Seltjarnarness). En svo var líka eins og blessuð skepnan skildi.

Svo kom Magnús í heimsókn um kvöldmatarleytið og snæddi með okkur flatböku. Hann færði okkur ánægjulegar fréttir af sjálfum sér. Þegar hann var farinn áttum við hjónin notalega kvöldstund við bóklestur og ýmst spjall. Stelpurnar sofandi: Sú eldri á grænt eyra en hin á grasserandi. Svo við hjónin skiptumst á um að sitja yfir þeirri yngri heimavið í dag.
by Hr. Pez

16 júní 2005


Þetta er allt annað líf!

Hausinn á mér er að minnsta kosti blessunarlega laus við hörmungarnar sem dundu á honum í gær.

Nú glymur í honum "Sveittur í strigaskóm," með Bleiku böstunum.

Og þó er ég hvorki neitt tiltakanlega sveittur (í það minnsta ekki líkamlega) né í strigaskóm.

Sei. Nó. Mor.
by Hr. Pez


Hver hefði trúað þessu.

Tema vikunnar náði dramatískum hápunkti í gær:

Ég kom við í búðinni á leið úr vinnu. Keypti mér eitthvað.

En hver ætli hafi nú verið þarnæsti maður fyrir framan mig í röðinni við kassann?

Enginn annar.

Þetta var rosalegt. Rosalegt.

Hvað gerir maður nú? Treður hann kannski upp einhversstaðar á morgun? Yrði maður þá ekki að fara að sjá hann?
by Hr. Pez

15 júní 2005


Temavika síðunnar heldur áfram: Það er bara eins og allir séu að skrifa um Megas þessa dagana.
by Hr. Pez


Sólin skín, fuglarnir syngja og ég er í stuttbuxum í vinnunni. Þetta gerir daginn í dag að góðum degi í minni bók (þótt ég sverji ekki fyrir bækur vinnufélagana sem þurfa að horfa upp á loðna spóaleggina á mér).

Ekki alveg eins gott er að ég er í allan morgun búinn að vera með tvö lög á heilanum til skiptis: Menningarrúnkið Í vesturbænum og svissnesku Evróvisjónhörmungina Celebrate.

Þá þægi ég nú frekar eitthvað með Megasi.

Nóg um það. Ég er farinn út í sólskinið. Ég ætla að gefa blóð og kaupa miða á tónleikana með Anthony and the Johnsons, ef þeir séu ennþá til í 12 tónum.
by Hr. Pez

14 júní 2005


Orð dagsins er tvímælalaust Menningarrúnk. Eins og í: "[O]ftast hafa lagagerðir ljóða [Steins Steinars] vissulega verið menningarrúnk."

Orð dagsins er í boði Gambrans.
by Hr. Pez


Vá maður. Bara tekinn í bakaríið af ekki ómerkari manni en Orra Harðar í kommentunum eftir færslu gærdagsins.

Ég er dáldið upp með mér.

Hvað gekk mér til? Er nema von að spurt sé. Ég spyr mig að því sjálfur, konfrontasjónsfóbinn sem ég er.

Látum samt ekki liggja milli hluta að auðvitað hef ég gaman af laginu um hann Jónas. Maður þarf að vera húmorslaust viðrini og himpigimp til að hafa það ekki. Og upphafslínurnar sem ég tíndi til eru ósköp hnyttilegar og allt það. En þær gera sig ekki alminlega nema í söng.

Allt sem ég vildi sagt hafa er að þetta á við um marga af textum Megasar: þeim fer best að vera sungnir. Þetta er líkastil það sem átt er við með kategóríuheitinu söngvaskáld, með áherslu á söngva.

Þeir eru til sem stika flórsteina borgarinnar og halda því fram fullum fetum að Megas eigi skilið að teljast þjóðskáld til jafns við, tjah, Tómas, eða Stein, eða Þorstein frá Hamri. Jónas Hallgrímsson. Ég ræddi við einn slíkan í gær, áður en ég dreit færsluna. Sá kunni níðkvæðið um hann Jónas utantextablaðs. Hann flutti það fyrir mig. Hann er einn af þeim sem finnst sjaldnast mikið koma til lagasmíðanna hjá Megasi, en finnst það allt í lagi því hann er svo Mikið Skáld. Hans líkar eru þeir sem mér finnst mega slá utanundir með orðum eins og þeim sem opnuðu færsluna í gær. Þetta er það sem ég vil mótmæla þegar ég segi: Það eru lagasmíðar Megasar sem fá okkur til að veita ljóðum hans eftirtekt. Og fyrirgefa honum hnökrana sem hlaupa annað veifið á kveðskaparþráðinn.

Það þarf ekki að leita lengi að ljóðum eftir Megas sem gera sig vel á prenti og í upplestri, svo allrar sanngirni sé gætt. Ég gæti nefnt eftirfarandi erindi úr Tveimur stjörnum, sem föður mínum, til dæmis, finnst með fegurstu ljóðlínum sem hann veit (og hann er yfir meðallagi lesinn í arfinum, karlinn):

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.


Það þarf ekki að eyða orðum á hugsunina bak við textann - mann verkjar í hjartað bara við lesturinn. Mig langar að vekja athygli á höfuðstafaleysinu og því hvernig hver lína er stuðluð þess í stað. Óvenjulegt, já. En gott og gilt, og gerir sig vel. En gleymum ekki að það sem gerir hvað mest fyrir þessar línur er lagið sem þær eru sungnar við. Þeim er ætlað að vera sungnar. Þetta er söngtexti. Ekki gleyma að gefa gömlum manni kredit fyrir lagasmíðarnar.

Vonandi er honum Orra (sem ég vil óska alls velfarnaðar á þeim vegi sem hann er að byrja að feta) rórra við þessi orð mín en áður. Ég ætlaði mér ekki þá dul að gera nokkrum manni gramt í geði.

Ég get ekki ímyndað mér að maður af Megasar kalíberi reki hér inn nefið að jafnaði. Og ég á bágt með að trúa að hann myndi kippa sér nokkuð upp við orð mín frá í gær, jafnvel þótt svo væri, eða þykja sem þau vægju á nokkurn hátt að listrænum heiðri hans. En ef einhver veit til þess að hann Magnús blessaður hafi lesið þessi orð mín og sárnað þau, þá má sá hinn sami bera honum beiðni mína til velvirðingar.

P.S. Ég hef farið á tónleika með Megasi. Og mér fannst hann spila ágætlega á gítar. Betur en ég.
by Hr. Pez

13 júní 2005


Megas er lélegt ljóðskáld.

Þetta er ekki bara eitthvað sem mér finnst. Þetta er staðreynd.

Tökum dæmi.

Eitthvert ástsælasta kvæði Megasar er um Jónas Hallgrímsson, og er af hans fyrstu og samnefndu plötu, ef minnið svíkur mig ekki. Þetta ljóð ku vera í miklu uppáhaldi hjá mörgum, og hefur það vissulega með sér að þar er sparkað allhressilega í punginn á mýtunni; dregin er upp öllu ógeðfelldari mynd af þjóðskáldinu en broddborgurum finnst þægilegt, þeim sem vitna í Jónas á tyllidögum íslenskrar tungu.

Gott og vel. Framtakið má þykja skemmtilegt og sniðugt, og hugmyndin gerir sig skemmtilega í dægurlagatexta á þrjátíu ára gamalli vínylplötu. En þetta er nú dáldið klénn kveðskapur:

Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas
og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu.
Mamma komdu ekki nálægt með nefið þitt fína.
Það er nálykt af honum, þú gætir fengið klígju.


Sá sem prófar að lesa þetta upphátt, án gítarundirleiksins, hann hlýtur að taka eftir því hvað rímið milli annars og fjórða vísuorðs gerir sig hörmulega. Áherslan sem verður að leggja í "BrasilÍÍÍu" þegar sungið er verður enn kauðskari en ella þegar ljóðið er mælt af munni fram. Ljóðlínan fellur um sjálfa sig.

Þetta er kvæði sem margir myndu eflaust tína til sem dæmi um það að Megas væri gott ljóðskáld. En það er það ekki. Og hann er það nú varla heldur. Þetta er ofsalega sniðugt og svona. Og eflaust fyndið að hlusta á sönginn í partíum í denn. En ekki merkileg ljóðlist, er það nokkuð?

Nú er þetta er maðurinn sem gerði Bubba að stuðla- og höfuðstafanotandi söngvaskáldi. Þjóðin getur þakkað honum fyrir það (*hóst*). En kannski þarf nú sosum engan snilling í fræðunum til að kenna vinum sínum hvað sé rangt við að ríma "þér" við "með."

Bara svona sem dæmi.

Ég hef heyrt einhverja halda því á lofti að þeim þyki Megas ekki neitt sérstakur lagasmiður; það séu ljóðin sem geri hann að Listamanni. Ég myndi vilja halda fram hinu gagnstæða: Ef ekki væri fyrir lagasmíðarnar, þá þætti hann ekki par merkilegt ljóðskáld. Íslenska þjóðin getur óskað sjálfri sér til hamingju með það að hafa veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2000 manni sem hefur unnið það helst sér til ágætis að geta spilað á gítar.
by Hr. Pez

12 júní 2005


Ég leit við á Kaffi Espressó í Spönginni í hádeginu á laugardaginn. Að sjálfsögðu gat ég ekki annað en fengið mér espressó, fyrst staðurinn þorði að nefna sig eftir drykknum. Hann reyndist ljómandi fínn alveghreint, sterkur og heitur. Besti espressó sem ég hef fengið í borginni.

Þar hafiði það, bévítans miðbæjarrotturnar ykkar!
by Hr. Pez

09 júní 2005


Eftir vinnu fer ég og undirrita afsalið að gamla húsinu. Svo það styttist í að við verðum búin að rjúfa tengslin við höfuðborgina.

Svo verð ég vitaskuld að muna að Sjást með henni Silvíu Nótt í kvöld.
by Hr. Pez

07 júní 2005


Hvernig er það, er nokkur sá veitingastaður eða kaffihús hér í borg með þeim göldrum gerður að geta serverað bolla af espressó sem er enn yfir stofuhita eftir labbitúrinn frá maskínunni að borðinu þar sem maður situr? Með nokkurra mánaða millibili tek ég sénsinn og prófa á nýjum stað, en hef alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Alltaf skal það vera orðið hlandvolgt áður en bollinn er lagður fyrir framan mig.

Hvar, ó, hvar!
by Hr. Pez


Athyglisverð frétt í sjónvarpsfréttum í gærkveldi, þar sem tilkynnt var upp til hverra Íslendingar litu. Úrtakið var spurt: "Hvaða núlifandi konu/karl, hvar sem er í heiminum, sem þú hefur heyrt eða lesið um, metur þú mest?"

Vigdís Finnboga burstaði kvennaflokkinn, með tæpum fjörutíu prósentum atkvæða. Næst var Móðir Teresa með rúm fimm prósent, og þar á eftir komu minni spákonur eins og Hillarí Klinton, Margrét Tatsér, Ópra Vinnfrí og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Nelson Mandela bar höfuð og herðar yfir kynbræður sína, með eitthvað um tuttugu prósent, minnir mig. Fjandvinirnir Davíð Odds og Ólafur Ragnar fengu átta og sex prósent í annað og þriðja. En fjórða sætið þótti mér sérdeilis athyglisvert, og er ástæða þess að ég eyði á þetta orðum. Sá núlifandi karlmaður sem lenti í fjórða sæti í þessari könnun var enginn annar en Mahatma Gandí, frelsari og friðarleiðtogi Indverja um miðja síðustu öld.

Sem leiðir óhjákvæmilega til spurningarinnar: Í hvaða sæti lenti Elvis?
by Hr. Pez

03 júní 2005


Strákarnir í Oasis virðast hafa fundið gömlu taktana á nýju plötunni sinni, segja fróðir. Og það gleður mig að sjá að hann Liam okkar hefur greinilega engu gleymt. Það þarf sko enginn að leggja honum orð í munn.

Sjálfan langar mig samt mun meira í þessa hérna. Hún Stína mín kann víst enn að rokka, segja fróðir. Fengið að láni úr ágætum dómi á Pitchfork Media:

Lyrics you expect from a Kristin Hersh record:

Last-gasp nymphomania
Somehow de-sexualized
I'm gonna wash that man right out of my head
And soap him into my eyes


Lyrics you might not expect from a Kristin Hersh record:

You know what?
Shut the fuck up!


Þetta þætti mér gaman að heyra.
by Hr. Pez


Ný íslensk sjónvarpsstjarna er fædd.

Ég keypti Moggann í gær á leið heim úr vinnu. Rak augun í viðtal við stelpuskjátu sem nefnist Silvía Nótt, og sá fljótt að þarna færi greinilega mikill talent sem vert væri að gefa gaum. Og ekki varð hrifning mín minni í gærkveldi, þegar hún debútteraði með þáttinn sinn, Sjáumst með Silvíu Nótt, á Skjá einum. Stúlkan sú er augljóslega fædd til að vera í sjónvarpi. Myndavélin gælir við hana. Og öfugt. Hæfileikar hennar til að ná góðu sambandi við viðmælendur sína og draga fram það besta í þeim eru aðdáunarverðir - sjálfur Ágúst Ólafur ("... hjá Vinstri-grænum, ógeðslega klár ...") varð að smjöri í höndum hennar. Hún er greinilega ekki feimin við að kafa ofan í myrkviði undirheima Reykjavíkur (les: Kolaportið, "... fullt af ógeðslegu fólki ...") í leit sinni að kýlum til að stinga. Og heimspekilegar hugleiðingar hennar í innskotum milli atriða gerðu mig höggdofa. Hvar væri ég til dæmis í dag, ef konan mín hefði verið búin að kynna sér speki Silvíu Nætur þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir henni? Hvað ef hún hefði gert sér ljóst að strákar eru í alvörunni eins og föt? Hvað ef hún hefði haldið kassakvittuninni svo hún gæti skilað?!

Heimsmynd mín mun aldrei verða söm. Og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að sjá næsta þátt af Sjáumst með Silvíu Nótt.
by Hr. Pez

01 júní 2005


Ég gekk yfir Vatnsmýrina eftir vinnu í gær, til að taka strætó við Félagsstofnun Stúdenta. Þar sem ég var að kjaga eftir skeljasandsslóða við Hringbrautina keyrði framhjá mér pikköppbíll með tveimur vegavinnumönnum. Þeir voru afskaplega verktakalegir tilsýndar. Ekki nóg með það, heldur fékk ég ekki betur séð en sjálfur Bjössi bassi sæti þarna í farþegasætinu (eða keyrði hann kannski? - ég sá hann ekki nema í sjónhendingu, þegar ég leit upp úr bókinni). Og eitt örlítið augnablik leið mér eins og ég væri á gangi í Borgarnesi, sem er mjög skrýtið, þar sem ég hef aldrei átt þar heima, þótt mig rámi reyndar í að hann Bjössi hafi unnið þar eitthvað í vegagerðinni fyrir mörgum árum, þegar konan mín var yngismær í Nesinu.

Mér leið dálítið eins og ég væri með deisjavú, nema akkúrat öfugt. Mér fannst eins og ég væri að upplifa eitthvað sem einhver annar hefði upplifað einhvern tímann áður. Og ég hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gerast næst. Enda gerðist sosum ekkert: bíllinn ók hjá og ég hélt áfram að lesa á leið minni út á stoppistöð.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com