<$BlogRSDUrl$>

30 maí 2005


Flutt inn. Allt í standi, en að vísu að stórum hluta ennþá oní kössum. Við erum sem stendur að skoða hvernig við leysum hillumál í stofunni.

Ef hægt væri að eiga of mikið af bókum, þá ættum við alltof mikið af bókum. En þetta er jú svo vistvænt og gott til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum. Það þarf að binda allt þetta kolefni með einhverjum ráðum.
by Hr. Pez

27 maí 2005


Ég er búinn að vera með skerta tilfinningu í hægri þumalgómi síðan ég eyddi mánudagskvöldinu í að mylja steinflísar með töng. Ég veit að blöðrurnar í lófanum munu hverfa. En ég vona að tilfinningin í þumlinum komi aftur. Ég sakna hennar.

Annars hefur allt gengið sæmilega, við klárum að leggja og lakka eldhúsgólfið í kvöld, og flytjum loks inn í nýja húsið á morgun.
by Hr. Pez

26 maí 2005


Við hættum snemma í íbúðinni í gærkvöldi, fljótlega upp úr klukkan tíu. Ég gerði mér góðar vonir um að geta einu sinni farið snemma að sofa og náð fullum svefni yfir nóttina, en svo lentu þau plön öll í uppnámi þegar ég datt inní þátt um Brian Wilson og gerð plötunnar Smile á RÚV. Það var heillandi áhorfs. Maður fékk reyndar á tilfinninguna að kannski væri verið að gera minna úr hlutverki hressilegrar dópneyslu í því hvernig fór með plötuna í fyrstu atrennu en efni stóðu til. En sagan af því þegar þráðurinn var tekinn upp á ný 35 árum seinna var heillandi á að horfa. Greinilegt að þetta var allt annað en létt verk fyrir karlinn, þjakaðan af áralöngu þunglyndi, kvíðaköstum og vonbrigðum yfir því hvernig fór í fyrstu atrennu. Að sjá hann til augnanna þar sem hann sat og svitnaði í litlum stól útí horni fyrir frumflutninginn var átakanlegt. Og greinilegt þegar Sir Paul McCartney kom og tók í spaðann á honum að hann langaði mest til að grafa sig oní holu einhversstaðar.

Kvíði er ekkert grín.

Þetta var sumsé hið fínasta drama, að sjá karlkvölina fá uppreisn æru eftir öll þessi ár. Og diskurinn er alveghreint skítsæmilegur, svo ég kveði ekki fastar að orði.
by Hr. Pez

25 maí 2005


Ég er með kúlu á enninu: Mér tókst að ganga á ljósastaur í gærmorgun. Og það ekkert smá: glymurinn buldi um nágrennið.

Ótrúlegt en satt var ég ekki að lesa bók á göngu minni, eins og ég geri oft. Eina stundina var hann bara ekki þarna. Svo skall hann á enni mér.
by Hr. Pez

24 maí 2005


Já það fór ekki svo fyrir rest að ég kæmist ekki á tónleikana með Huun Huur Tu. Við komum að norðan undir kvöldmat á annan í hvítasunnu, svo ég hafði góðan tíma til að renna niður á Nasa og rifja upp gömul kynni við þá, strákana. Tónleikarnir voru ágætir, þótt þeir hafi ekki jafnast á við minninguna um það þegar ég sá þá troða upp sumarið 1996 með frægasta kvennakór Búlgaríu við Ales Stenar á Skáni. Þá var gaman: veðrið lék við gesti á þessum útitónleikum, sólin skein framan af og léttur landsynningur þegar kvöldaði. Ég mætti á staðinn vegna fyrri hrifningar minnar á kvennakór Ríkissjónvarpsins í Sofíu, en það voru Huun Huur Tu sem voru komu mér á óvart. Þeir voru vitaskuld góðir þarna á Nasa líka, en ég var ekki eins dáleiddur og ég var forðum daga. Þetta var meira svona... heimilislegt.

Ég keypti ljómandi góðan disk með þeim á Nasa: Altay Sayan Tandy-Uula, þar sem rétt mátulegum skammti af elektróník er skellt oní kaupið. Ég lagði ekki alveg í að kaupa teknórímixdiskinn með þeim sem var þarna líka til sölu, en þessi er búinn að vera á stöðugu rennsli í nýja bílnum okkar síðan ég keypti hann.

Við erum búin að mála allt í nýju íbúðinni, og bárum inn úr gámnum á sunnudagskvöldið var. Þá er bara eftir að skipta um gólfefni í eldhúsinu og kaupa nýju kojurnar fyrir stelpurnar, og allt fer að verða til reiðu fyrir að flytja inn. Ætli það verði ekki á fimmtudaginn?
by Hr. Pez

23 maí 2005


Sjötíu prósent skor og allir sáttir. Sigurvegari kvöldsins skiljanlegur, þótt hann hafi ekki verið í uppáhaldi á þessum bænum. Ég var öldungis úti að skíta með árangur Þýskalands og Spánar (note to self: aldrei spá neinum af risunum fjórum velgengni nokkru sinni framar). Króatíu vantaði bara herslumuninn í slagnum um tíunda sætið við Danmörku/Noreg. Bæðevei fannst mér bara ánægjulegt að sjá hvað honum Kobba Svæstrúp gekk vel - þeir voru sætir strákarnir. Og ligeglad. Ég er gáttaður sem aldrei fyrr á velgengni Möltu, en er ögn sáttari en áður við frammistöðu Ísraels. Ég er meiraðsegja farinn að muna lagið (og jafnvel fá á heilann), og finnst það ekki þess vert að láta fara í taugarnar á sér.

Ég fann þarna undir restina á bloggtörninni fyrir dálítilli Evróvisjónsþreytu. Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessu að ári í óbreyttri mynd. En ef loksins! loksins! yrði forat aftur hér heima (eins og fingrabrúðan hefur gefið í skyn), þá myndi mig eflaust langa til að tjá mig eitthvað um það. Bara vonandi að einhverjir rokkarar myndu þá senda inn. Sem flestir. Jan Mayen? Jakobínarína? Brúðarbandið? Hraun? Tony Blair?

Og látum við þá lokið Evróvisjónsþönkum í bili. Næst: góðir tónleikar (og diskur), auk annarra tíðinda.
by Hr. Pez

20 maí 2005


Jæja, þá fer þessu að ljúka (það styttist í þessu Ágúst minn). Við hjónin vorum á fullu við að sprunguhreinsa og sparsla í nýju íbúðinni í gærkvöldi, og horfðum á undanúrslitin með öðru auganu í tólftommusjónvarpinu sem við erum með í láni frá tengdó. Svo athyglin á atburðum kvöldsins var kannski ekki alveg hundrað prósent.

En hver verður nú samkeppnin um fyrsta sætið við hana Selmu annað kvöld?

Gríska laginu er spáð mikilli velgengni í ár, og eftir að hafa séð vídeóið nokkrum sinnum skil ég það svosem alveg: Þarna kraumar hitinn sem er svo sárlega fjarverandi úr laginu frá Kýpur. Mér þykir lagið ósköp ómerkilegt, svona útaffyrirsig, en hún Helena Paparizou og meðreiðarteymið gætu samt gert heilmikið fyrir það á sviði. Sjáum til.

Rússneska lagið finnst mér nett hallærislegt í ár, en á krúttlegri máta en hörmungin sem kom frá þeim í fyrra. Það skásta við hana Natölju er viðlagið, en þegar ég heyri bassann í því fer ég alltaf að raula "Smells like teen spirit."

Hallærislegheitin ríða líka röftum í laginu frá Bosníu/Hersegóvínu, en krúttfaktorinn er kýldur upp til jafns. Mér finnst Abba-stælingin hjá Feminnem ljómandi skemmtileg, og dittó um innræktuðu Evróvisjón-vísanirnar. Hvernig er hægt að hafa nokkuð á móti svonalöguðu. Svo er ein þeirra tvífari hennar Regínu bakraddasöngkonu.

Ég þoli ekki franskar ballöður. Þær voru tvær á undanúrslitunum (frá Belgíu og Mónakó) og því ágætt að fá í staðinn meinlaust franskt gellupopp á úrslitakvöldinu. Mér finnst þetta ágætt lag hjá henni Ortal, þótt ég telji útilokað að það eigi eftir að gera neinar gloríur á úrslitakvöldinu.

Þá er ég búinn að renna yfir lögin sem debúttera á morgun. Þar við bætast Ungverjaland, Rúmenía, Noregur, Moldavía, Ísrael, Danmörk, Makedónía, Króatía, Sviss og Lettland. Skorið mitt er 70% eftir undanúrslitin: mér skjátlaðist með Slóveníu (dálítið óvænt) og Pólland (ekki eins óvænt), en í staðinn koma inn Ísrael (býsna óvænt), Danmörk (dittó) og Makedónía (hvað er í gangi hérna?!). Önnur lög stóðu sig eins og við var að búast, nema ungverska frammistaðan olli mér vonbrigðum, lettnesku strákarnir voru viðbjóðslega mikil krútt, og rúmensku krakkarnir í Lúsifer og Kerfi komu mun betur út en ég átti von á: slípirokkasólóið var býsna svalt á sviðinu.

Svo hvernig fer þetta? Keppnin er mun opnari en í fyrra, þar sem nánast var bókað að Rúslana myndi taka þetta. Hjarta mitt er með Sviss, Noregi, Moldavíu og já, jafnvel Þýskalandi (raðað eftir líkindum). Það vantar meira rokk í keppnina, svo öll viðleitni í þá veru væri vel þegin. Annars gæti hvað sem er unnið þetta, nema makedónska lagið. Grikkland og Króatía eru sérdeilis sterkir kandídatar. Svo ef ég tíni til Spán, S&S, Rúmeníu og Lettland, þá er ég kominn með spá fyrir topp tíu.

Svo vonar maður náttúrulega innst inni að Selma taki þetta bara. Það gæti gerst, á góðum degi.
by Hr. Pez

19 maí 2005


Vitiði hvað ég er heppinn? Ég man ekki tómatsósulagið, þetta sem tröllreið öldum ljósvakans fyrir tveimur árum. Ekki misskilja mig: ég man alveg eftir því, þaðvillsegja, að það var mjög vinsælt, einhverra hluta vegna. En ég man ekki hvernig það var. Þó rámar mig í að það hafi verið eitthvað svipað spænska evróvisjónlaginu í ár, því með systrunum í Son de sol. Þær fara ekkert tiltakanlega í taugarnar á mér - það er í laginu sól og hiti og gott skap og kæruleysi. Meinlaust lag þykir mér, sem á eflaust eftir að standa sig skammlaust á sviði og í stigagjöf á laugardagskvöldið.

Nú hef ég ekkert á móti strákaböndum, svona þannig. Ég á meiraðsegja Greatest Hits diskinn með Take That - keypti hann af fúsum og frjálsum vilja og hlusta stundum á hann ótilneyddur. En þau strákabönd sem villast inn í Evróvisjónkeppnina finnst mér upptilhópa ömurleg. Nema reyndar júgóslavnesku guttarnir í ár, sem er ekki nóg með að gætu allir verið veggspjaldadúkkur fyrir herralínuna frá No Name Cosmetics (ef hún væri til), heldur syngja bara alveghreint ágætt lag. Kannski er það symfóníska útfærslan. Kannski er það fiðlusólóið sem einn þeirra tekur um miðbikið (vá! hann kann í alvörunni á hljóðfæri!). Kannski er það 7/4 takturinn. Mér finnst bara allt við þetta lag hreint afskaplega geðþekkt.

Sem er meira en ég get sagt um sænska framlagið. Kannski ég hafi sem fæst orð um það og skrúfi úrdráttinn upp í ellefu: mér finnst hann Martin Stenmarck varla vera með eitt af skemmtilegustu lögunum í keppninni. Og ég ræð fólki frá að veðja aleigunni á Las Vegas í ár.

Mér finnst úkraínska lagið dálítið sætt. Sætt en mislukkað. Þeir eru svo sannarlega jollý, strákarnir í Greenjolly. Og grænir, greyin. Ojæja. Þeir geta þá alltaf fagnað frelsinu, hvað sem líður árangrinum í Evróvisjón.

Ég er dálítið skotinn í þýska laginu í ár. Mér skilst að sama teymi standi á bakvið þýska númerið og það svissneska. Hér tekst sæmilega upp einnig, en þetta er meira svona út í eitís leðurklætt þýskt M.O.R. svuntuþeysapopp, meðan Vanilluninjurnar voru meira útí Heart-systur og Suzi Quatro. Mér varð hugsað til þýðversku stallsystranna Söndru og Nenu, frá því forðum daga þegar tónlist var góð, þótt hún væri léleg. Hún Gracia stendur alveg undir nafni, fyrir mína parta.

Næst á dagskrá er svo að njóta kvöldsins í kvöld. Engar frekari áhyggjur af laugardagskvöldinu fyrr en á morgun.
by Hr. Pez


Gagnslausi fróðleiksmoli dagsins: Bassaleikarinn í Vanilla Ninja, Triinu Kivilaan, er fædd og uppalin í bænum Viljandi.

Ég læt ekkert hafa eftir mér um átfittið sem hún Selma mun trýðast í kvöld.
by Hr. Pez

18 maí 2005


Humm. Enginn tími fyrir neitt svona í dag. Vonandi að úr rætist á morgun og hinn.
by Hr. Pez

17 maí 2005


Vorum fyrir norðan um helgina og sáum þar spekingaþáttinn á laugardagskvöldið. Litlu munaði reyndar að við misstum af honum, þar sem maður var orðinn of fastur í því að fyrst þyrfti að drepa tímann við eitthvað annað meðan Gísli Marteinn og Spaugstofan lykju sér af. Þó stilltum við okkur inn rétt í þann mund sem byrjað var að fjalla um breska lagið, svo þetta slapp fyrir horn allt saman.

Breska lagið já. Hvílík hörmung. Hugmyndin er sosum góð: fá girnilega krakka til að skekja sig undir nýmóðins bhangra-takti. Og það besta sem ég get sagt um flutninginn er að mér sýndist hún Javine svona nokkurn veginn halda takti. Bara verst að hún gat engan veginn haldið lagi. Hvað þá haldið fötum - það var einna helst þegar geirvartan á henni hoppaði upp úr kjólgopanum um miðbikið sem eitthvað við númerið got ready to "Touch my fire." Ég mun horfa af athygli á flutninginn á laugardagskvöldið. En ef þetta verður ekki alger endurtekning á Jemini-hrakförunum, þá þykir mér allavega ólíklegt að Stóra-Bretland ríði hneggjandi Flosa Ólafssyni frá keppninni í ár.

Maltneska númerið fær prik hjá mér fyrir málmstautinn. Auk þess sem hún Chiara getur sosum sungið stelpan. En mikið óskaplega var lagið leiðinlegt (og ef ekki stolið, þá uppælt og endurunnið). Samt held ég að því eigi eftir að farnast ágætlega - það virðist alveg sama hvaða sveppasýkta hrat Malta sendir í Evróvisjón, þeim farnast vanalega ágætlega án minna heillaóska.

Vanalegast hef ég verið hrifinn af tyrknesku evróvisjónlögunum, svona frekar en hitt. En út af vananum bregður í þetta skiptið: hún Gülseren (Gulla Sörensen?) gerði ekki neitt fyrir mig. Þetta er kjörið dæmi um það að það er ekki nóg að vera með etnísku tilburðina, trumburnar og magadansinn á hreinu. Það er allt til einskis ef laginu er ekki viðbjargandi til að byrja með. Ekki einusinni þótt heilalausum viðlagsfrasa sé fleygt með oní kaupið. "Rimi rimi ley?!" Komm on maður.

Albanska framlagið var ekki alslæmt. Það er náttúrulega til mikils mælst að fylla útí skóna hennar Ansésu frá því í fyrra. Og hún Ledína Celo nær rétt svo að tylla tánum oní hælkappann. Lagið er að vísu ekkert alltof eftirminnilegt, og fer á sama reikning og ég talaði um í tengslum við tyrkneska framlagið. En þó er auðveldara að kaupa sig inná gleðina í þessu öllu saman, og fiðlustelpurnar í snípsíðu blúndugardínunum gera mikið fyrir flutninginn.

Það kemur að þeim tímapunkti í lífi hvers manns að hann fær upp í kok á öllum þessum etnísku dansnauðgunum í Evróvisjón, með sínum sveittu loðinbörðum, glimmerklæddu gassafrenjum og frussandi vatni meðan húðirnar eru rassskelltar. Nú er ég sennilega meira fyrir þjóðlega danstakta en næsti meðalmaður. En meðan Konstantínos hristi á sér bossann og gaulaði "Éla Éla" fékk ég bara nóg. Ég afbar ekki meir, ekki meir.

Þetta er ástæðan á drættinum á fyrstu færslu minni eftir helgi: ég varð að slá þetta inn með annarri hendi eftir að hafa nagað hina af mér við olnboga undir þessum kýpverska hryllingi. Blessunarlega geri ég ráð fyrir að hún verði vaxin aftur fyrir morgundaginn, svo frekari tafir ættu ekki að verða á Evróvisjónbloggfærslum að sinni. Annar skammtur úrslitakvöldsins kemur á morgun, og sá síðastisísti á fimmtudag. Það verður ekki seinna vænna, enda undanúrslitin þá um kvöldið, og föstudagurinn mun fara í samantekt eftir það og lokaundirbúning fyrir úrslitin.

Fullt að frétta úr daglega lífinu, en það verður að sitja á hakanum að tala um það, enda miklu meira gaman að blogga um hluti sem skipta engu máli.
by Hr. Pez

12 maí 2005


Og hvernig fer þetta svo alltsaman á fimmtudagskvöldinu eftir viku?

Ég held að fimm lög séu tiltölulega örugg með að komast áfram. Eða í það minnsta þætti mér það alveghreint skelfilegur og óskiljanlegur missir ef svo mikið sem eitt þeirra yrði útundan. Af minni alkunnu svartsýni þykir mér ekkert voðalega líklegt að hún Selma reddi okkur gestgjafahlutverkinu að ári. En ég held við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvort hún kemst á úrslitakvöldið - þetta er tiltölulega skotheld formúla hjá henni. Ungverjaland og Króatía fara líka örugga formúluleið og tefla bæði fram þjóðlegu og geðþekku poppi með viðlögum sem er auðvelt að fá á heilann. Norsku ellibelgirnir í Wig Wam taka þetta á kraftinum og leikgleðinni - þeir eru Alf Poier ársins. Og (þetta er kannski langsóttasta giskið) moldversku strákarnir í Stobb sí Stúbb kalla ekki allt ömmu sína nema það berji bumbur, og eru bara of skemmtilega hallærislegir til að sitja eftir. Þeir verða Albanía ársins.

Þá vandast málið örlítið. Útlitið er ekki alveg eins bjart fyrir pólsku sígaunana, en ég vona það besta fyrir þeirra hönd - mér finnst þeir eiga það skilið. Mér finnst Ómar hinn slóvenski ekki eins afleitur og sumum öðrum, og tel hann eiga góðan séns í topp tíu, ekki hvað síst með balkanblokkina á bakvið sig. Það er pláss fyrir eitt (og aðeins eitt) eistneskt stúlknaband, og ég held að það verði Vanilla Ninja með svissneska lagið sitt (frekar en Suntribe-sorinn). Það er rokk í þeim, stelpunum, og kominn tími til eftir langt hlé að fá aftur á sviðið gerðarlega söngkonu með málmstaut í meltingarveginum. Svo fylli ég topp tíu með lettneska friðardúóinu og brjóstunum á hinni rúmensku Luminitu Anghel. Hvorugt lagið er í neitt sérstöku uppáhaldi hjá mér; mér finnst þau bara sigurstranglegust af þeim sem eru það ekki.

Ef einhver af ofangreindum löndum komast ekki áfram, þá er tónleysan frá Hvíta-Rússlandi líkleg til að skjóta sér inn (og þá líklegast á kostnað Pólverja), þótt ekki væri nema fyrir glæpsamlega smitandi viðlag. Möguleikar annarra landa eru frá því að vera litlir, en ánægjulegir ef af yrði (Danmörk, Austurríki), gegnum hverjum-er-ekki-sama kategóríuna (Búlgaría, Finnland, Makedónía, Mónakó, Holland) yfir í það að vera of skelfilegir til að hugsa til enda (Írland og... öhh, já. Írland) og þaðan útí það að fyrr mundi botnfrjósa í helvíti (Andorra, Belgía, Ísrael, Portúgal, Litháen).

Og læt ég það duga um þessi mál fram í næstu viku.
by Hr. Pez


Ég var skriðinn upp í rúm í gestaherberginu í gærkveldi þegar frúin mætti askvaðandi í gættina og pískraði eins hátt og hún þorði án þess að vekja dæturnar að "þátturinn með henni Svansý [væri] að byrja." Nú vitaskuld varð maður að tékka á því hvað allt fjaðrafokið átti að fyrirstilla og dró sjálfan sig fram í sófa til að góna á herlegheitin.

Og ég verð bara að segja það alveg eins og er: mér er fyrirmunað að skilja hvaða stormur þetta var í vatnsglasinu um daginn. Mér fannst hún Svansý standa sig með stakri prýði, vera "landi og þjóð til sóma" (Oh, brother), og koma bara mjög skemmtilega fyrir. Ef einhver ætti að skammast sín fyrir þá mynd sem var dregin upp af Íslandi í þessum Ópruþætti þá væri það sá sem (d)reit hörmungina sem hún Þórunn var látin fara með í intróinu. Ekki svo mjög um skemmtanagleðina (þótt ég hafi vissulega ygglt mig yfir Party Capital hæpinu) heldur miklu frekar yfir skáldskapnum um það að hægt væri að finna jökla, fossa, eldfjöll og leðjuspúandi hveri "right next to each other," og allt fyrirfyndist þetta í sama bakgarði og Bláa Lónið, þar sem allir Íslendingar böðuðu sig á hverjum degi, enda var varla hægt að skilja hana öðruvísi en svo að það væri eina sundlaugin á gervöllu landinu. Þætti sem var ætlað að fræða banderískar húsmæður um það hvernig lífið væri fyrir íslenskar stallsystur þeirra (og aðrar, víðar um heim) var snúið upp í snautlegt auglýsingamyndband fyrir Icelandair Group Inc.

Gimja breik, for kræng át lád.

En framkoman var Svansý til sóma. Hún dró úr frekar en að bæta í, og kom vel fyrir í alla staði.
by Hr. Pez

11 maí 2005


Ekki var ég neitt voðalega hrifinn af Stoppinu hans Ómars Nafla frá Slóveníu. Ekki svona framan af (hvað er annars málið með allt þetta vatn í myndböndunum í ár? Já, ég veit, það þýðir bara eitt. En samt, öllu má nú ofgera...). En mér fannst það nú snöggtum skána í seinni helmingnum, þegar Muse-gítarriffið kikkaði inn í viðlaginu. Síðan dalaði álitið ögn aftur þegar feita kerlingin fór að garga yfir honum Ómari í blárestina. Í það heila tekið er ég beggja blands í áliti mínu, þótt eftir standi þetta: Mér þótti þetta ekki alslæmt. Og það eru mörg lög önnur sem mér þætti verra að sjá fljóta yfir á laugardagskvöldið.

Baaauuuninn maður. Stadigt ligeglad, hva? Jújú, hann Jakob Sveistrúp er ofsasætur strákur, og lagið óskaplega geðþekkt, með sínum netta sumarreggípoppfíling (ég fer alltaf að raula Sunshine Reggae þegar ég heyri það, ef einhver man eftir því blasti úr fortíðinni). En við Kobbi erum samt ekki alveg að tala saman (svo); það er eitthvað í beinunum á mér sem segir að Danir sitji eftir með sárt ennið í ár, þrátt fyrir garanteruð tíu eða tólf stig frá mörlandanum. Fílgúdd-elementið er ekki alveg nógu sterkt til að vega það mikið upp á móti líeglað-faktornum að einhverjir nenni að kjósa þá. Farvel, min ven, farvel.

Þá er bara komið að lokalaginu. Aldrei hef ég verið hrifinn af pólsku lögunum í Evróvisjón. Ekki fyrr en nú. Sígaunapolkinn þeirra Ívans og Delfinns er svo svakalega út úr kú miðað við allt annað sem er í gangi í þessari keppni að ég hreinlega get ekki annað en hrifist af því. Mér finnst þeir mjög flottir strákarnir, og vona svo sannarlega að pólska lagið komist áfram í úrslitakeppnina. Meiri rauðar skyrtur með hárlausum bringum! Meiri támjóa dansskó og svartar buxur með útvíkkandi skálmum! Meiri greddu! Meiri ástríður!

Ekki veit ég hvort Pólverjar eru jafn fordómafullir gagnvart sígaunum og grannar þeirra í Tékklandi, þarsem annarhver maður er sannfærður um það að bévítans tatararnir sé eintómur óþjóðalýður að náttúru og upplagi sem steli öllu steini léttara ef af þeim sé litið. Ég segi það fyrir mig, ef svo ólíklega vildi til að pólsku sígaunarnir stælu sigrinum í ár, þá yrði ég hæstánægður.

Og þannig var það nú. Sennilega er best að ég komi með einhverja lokasamantekt og spádóma fyrir forkeppnina einhverntíma fyrir helgina (ásamt með kannski einhverjum tepokum úr daglega lífinu), svo ég hafi tímann fyrir mér með það að rýna í lögin sem debúttera á úrslitakvöldinu í byrjun næstu viku. Sjáum hvað setur.
by Hr. Pez

10 maí 2005


Ég er búinn að vera með króatíska lagið á heilanum meira og minna síðan ég heyrði það fyrst. Sem er ótvírætt merki um að það eigi að vera öruggt með sæti í úrslitunum. Balkan-andinn svífur yfir laglínum (og glerkúplum) og etnísku hljóðfærin ríða röftum. Formúlan er örugg og getur ekki klikkað. Mér þykir lagið ekki alveg eins gott og það er sigurstranglegt, en býsna gott engu að síður. Hann Bóris á eflaust eftir að komast langt á Lado-hagkerfinu sínu.

Ég á mjög erfitt með að ákveða mig hvað mér finnst um búlgörsku öngstrætisstrákana í Kaffe. Það var ekkert beinlínis vont við þetta hjá þeim. Bara... óinteressant. Það vantaði svo sárlega eitthvað páer í þetta númer að þeir voru eiginlega meira svona De-Kaffe. Mér þykir yfirmáta líklegt að þessir súkkulaðihúðuðu kaffibaunadrengir verði skildir eftir úti í rigningunni eftir undanúrslitakvöldið.

Álit mitt á írska framlaginu er hins vegar skýrt. Hvílík hörmung. Írar stefna hraðbyri í að fá sinn skammt af Jeminneini-bömmernum. Hálfgerð synd, því þessir krakkar virðast vera vænstu skinn. Ætli þau hafi taugar í grjótharðan veruleikann, þessi grey? Eru ekki einhver aldurstakmörk á keppendum í Evróvisjón? - Lillabró McCaul virtist ekki sprottin grön, og ekki einusinni trúlegt að fjölskyldustellið sé gengið niður. Púff. Á maður virkilega að trúa því að þessir krakkar geti frætt públíkúm um leyndardóma ástarinnar? ("Love can make you happy, Love can make you cry...") Svo tók steininn fyrst úr með yfirmáta hallærislegu Riverdance millispili. Gimja breik krakkar mínir. Gimja pissubreik.

Eða nei annars, allt við þetta lag er svo vont að það er algjört skylduáhorf - þetta er núllstillingin sem allir verða að sjá til að meta hin lögin útfrá.
by Hr. Pez

09 maí 2005


Jæja já. Þá liggur fyrir hver samkeppnin verður á undanúrslitakvöldinu. Ekki get ég sagt að ég skjálfi á beinunum fyrir hönd hennar "Selmu okkar."

Mikið hefur verið rætt um makedóníska heilkennið undanfarin ár: Þá vægu geðröskun sem hlýst af því að verða of samdauna Evróvisjónkeppninni, þannig að manni þykir sem öll lögin séu góð, og jafnvel sigurstrangleg. Meir að segja lagið frá Makedóníu. Í ár skal ég sko hundur heita ef ég spái makedónska laginu "Make my day" einhverju slíku. Þetta er afspyrnuvont Evrórusl sem er ekki einu sinni viðbjargandi með silfurklæddum graðkerlingum í snípsíðum pilsum. Myndbandið var reyndar býsna fyndið á að horfa, sérstaklega sú súrrealíska upplifun að hlusta á enska textann á sándtrakkinu meðan tónleikaperformansinn var greinilega á móðurmálinu. Ilty Ebni. Hann Harrý karlinn orðaði það best, og rétt að gefa honum lokaorðin um hann Martin Vucic: "Go ahead, punk."

Þrátt fyrir öll rök í alheiminum, þá er ég dáldið skotinn í laginu frá Andorra. Já alltílæ, lagið er afskaplega óinteressant. Auk þess sem Andorra virðist hafa spanderað einu söngkonunni undir fertugu í gervöllum dalnum á keppnina í fyrra. Og Marian van de Wal myndi nú seint vinna fegurðarsamkeppni eldri borgara (kannski The Swan, ég veit það ekki - horfi ekki á þá). En ég held að "skiptir-ekki-máli-að-vinna-heldur-að-vera-með" ungmennafélagsandinn í því hvernig andorrska (?) þjóðin nálgast keppnina sé að hlaupa með mig í gönur. Eða það að sungið er á frummálinu katalónsku. Já, ég skil alla þá sem segja að hver lína hljómi sem meiri tungubrjótur en sú næsta á undan. En mér finnst þetta bara rosalega flott mál. Með öllum sínum andlitsgeiflum og kokskrolluðu errum. Samt, lets feis itt, þetta verður í allraneðstu sætunum, hvað sem ég segi.

Keppnin í ár skartar ekki einni, heldur tveimur eistneskum stúlknahljómsveitum. Og sú skárri þeirra keppir fyrir Sviss. Vanilla Ninja er tvímælalaust svalasta hljómsveitarnafnið í keppninni í ár, og fyrir það skora þær telpurnar strax slatta hjá mér. Og það er eitthvað við flutninginn, eins og hann leit út á laugardagskvöldið, sem fær mig til að finnast sem þetta sé minna "manúfaktúrerað" en gengur og gerist með unglingahljómsveitirnar í dag - mér fannst þær meir að segja svolítið flottar. Það er dálítið rokk í því hvernig þær bera sig, stelpurnar. Lagið er kannski ekki meira en skítsæmilegt, en það sat þó í skallanum á mér eftir fyrstu hlustun. Ég spái því að það sé pláss fyrir eitt og aðeins eitt eistneskt stúlknaband í úrslitunum í ár. Og að það verði ekki frá Eistlandi.
by Hr. Pez

06 maí 2005


ÉG Á AFMÆLI Í DAG!

Og það ekkert smá. Í tilefni af því að ég fæddist þann sjötta janúar árið 1972 og er því nákvæmlega aldarþriðjungsgamall í dag, eða þrjátíu og þriggja og eins þriðja ára, þá skrapp ég í hádeginu og keypti í dálitla afmælisveislu handa vinnufélögunum með kaffinu. Alveg síðan ég hélt upp á tuttugu og fimm ára, eða aldarfjórðungsafmælið, hefur mig langað til að gera eitthvað sérstakt þennan dag. Lengi framan af langaði mig helst til að bjóða í risastóra veislu, með leigðum sal og boðskortum og alles. En svo settu flutningarnir strik í reikninginn, og ég varð að skala þetta aðeins niður. Við munum þó eflaust halda sameiginlegt innflutnings- og afmælispartí við fyrsta hentuga tækifæri, fyrir vini og vandamenn.

Talandi um flutninga: Fyrri hálfleik er lokið, við erum orðin lögformlega heimilislaust gámafólk, og lifum inni á gafli hjá tengdaforeldrum mínum næstu tvær vikurnar. Í tilefni dagsins í dag, þess að flutningum var lokið og að við höfum núna barnapíur uppá hvurt einasta kvöld, þá fórum við í bíó í gærkveldi með vinum okkar, á Hitchhiker's Guide to the Galaxy (mig langar að þýða þetta, en það er eitthvað stirt við Vegahandbók puttaferðalangsins um Vetrarbrautina). Hún er í þremur orðum sagt alveg hreint ágæt, og gerir bókinni sóma til. Frúin hafði ekki lesið bókina (eða byrjað einhvern tíma og fundist óspennandi) en skemmti sér hið allrabesta, eins og við öll.

Ég var um daginn búinn að fá leið á hringitóninum sem ég hafði notað frá upphafi vega: Spinal Meningitis (got me down), eftir sprelligosana í Ween, og gerði í framhaldinu tilraunir með nokkur Pixies-gítarsóló í staðinn. Ekkert þeirra vakti stormandi lukku hjá samferðafólkinu, og sjálfum þótti mér gemsinn vandræðalega frenetískur þegar hann fór í gang, miðað við súbversífa djókið í fyrri hringitóni. Svo hitti ég á hið eina rétta þegar ég prófaði flautusólóið í þessum gullvæga seventís diskómola. Hann Van McCoy karlinn átti einmitt sama afmælisdag og ég, og hlýtur að vera svalasti frægi maðurinn sem deilir með mér afmæli.

En ekki í dag samt. Aldarþriðjungsafmælið í dag á ég einn. Þess má að lokum geta að ég kann þurrkuntunum á Fréttablaðinu litlar þakkir (les: skammir í brók) fyrir að neita fullum fretum að birta tilkynningu um þetta merka stórafmæli mitt í Afmælisdálkinum sínum. Og ég sem var meiraðsegja búinn að semja tilkynninguna og alltsaman:

Hjörvar Pétursson, líffræðingur í Reykjavík, er aldarþriðjungsgamall í dag. Hann verður að heiman á afmælisdaginn.

Rúðustrikuðu rottuhalar. Annars má geta þess að þetta er í fyrsta skipti sem ég læt þess opinskátt getið nákvæmlega hver ég er á þessu bloggi. Það hefur í sjálfu sér aldrei verið leyndarmál, og eflaust á flestra vitorði. En nú á það sumsé aldrei að þurfa að fara á milli mála lengur. Þetta er ég.
by Hr. Pez

04 maí 2005


Brjóst.

Það er það sem situr hvað helst eftir af rúmenska númerinu, brjóstin á Lúminítu Anghel. Púff. Unglingahljómsveitin Sistem lék undir á nýmóðins svuntuþeysa og hljóðsmala. Ég er búinn að brenna mig á því einu sinni áður að afskrifa Rúmeníu fyrirfram, svo ég ætti kannski að spara stóru orðin. En ég get ekki sagt að ég hafi verið yfir mig impóneraður. Evróruslið gengur víst samt alltaf jafn vel í pöpulinn. Og teknóið ratar til sinna (ég dansa alltaf færri og færri takta...).

Húrra fyrir þeim sem syngja á óskiljanlegu tungumáli! Er til flottari titill á lagi en "Forogj világ?" Nema kannski "Hölgyem, felkérhetem egy táncra?" Eða "Megnézed a bélyeggyûjteményem?" Hvað um það, þá var ég yfir mig hrifinn af ungverska númerinu (þrátt fyrir að etnópoppnálgunin jaðraði á köflum við nábít af sigurlaginu hennar Rúslönu í fyrra). Atriðið stefnir í að geta verið í svalari kantinum, og lagið sjálft er bara hreint býsna settlegt, með sínum dynjandi rytmum og pentatónísku vísunum í þjóðlagastemminguna, þrátt fyrir að nanana-ið eigi eflaust eftir að verða dáldið þreytandi við síendurtekna hlustun. Þetta er eitt af mínum allramestu uppáhaldslögum í ár, svo lengi sem krakkarnir í NOX standa við að syngja það á ungversku. Annað væri vitaskuld skandall.

Sem er annað en hægt er að segja um frændur þeirra Finna. Eða, um Geir Rönning öllu heldur, sem er ekki einu sinni Finni, heldur bara sjálfhælinn Nojaraskratti og hrukkudýr par excellence. Geiri karlinn syngur væmna, asnalega og auðgleymda melódíu með afdönkuðum friðartexta og obblígat hækkun um hálfan. Út af sviðinu með þig þarna, ljóti strákur. Skottastu aftur oní olíuborholuna sem þú skreiðst uppúr.

Og látum við það gott heita af Evróvisjónsmálum þessa vikuna. Á föstudaginn verða mikil tímamót í lífi mínu, og mun ég annars vegar blogga um þau, og hins vegar segja af nýjustu tíðindum úr daglega lífinu.
by Hr. Pez

03 maí 2005


Af hverju komu Belgar ekki til okkar? Af hverju lærir fólk ekki af reynslunni?

Væ, ó, væææ!

Það þýðir ekkert að senda Jónsa með páerballöðu í Evróvisjón. Sama hvað hann syngur vel. Sama hvað jakkinn er hvítur. Og sama hvað hann þenur á sér bláæðarnar á hálsinum þegar hann hittir á háu tónana. Þetta bara þýðir ekki. Við erum búin að prófa það. Af hverju komu Belgar ekki til okkar?

Eistarnir kunna þetta hinsvegar: Senda bara fjórar, nei fimm skríkjandi smástelpur (er tilviljun að minnst er á Spice strax í fyrstu línunni?) sem garga lagleysu yfir hægðatepptum Katarina-And-The-Waves trommutakti með athyglisbrest. Sjálfum finnst mér eistneska lagið í ár þeirra lélegasta frá upphafi. Ég hef undantekningarlaust verið hrifinn af eistnesku lögunum í gegnum tíðina. Þetta framlag kemst til dæmis ekki í hálfkvisti við lagið í fyrra. En því gæti samt átt eftir að vegna betur. Sorglegt en satt. Foreldrar: hafið rítalínið við hendina.

Ég hef tjáð mig áður um norsku glysbyltinguna í ár, og hef ekki miklu við að bæta. Yndislegur entrans. Það hefur lengi vantað meira rokk í þessa keppni. Og eitís-glimmerrokk er sko aldeilis skárra en ekkert.
by Hr. Pez

02 maí 2005


Við tókum okkur langt kvöldverðarhlé frá flutningum á laugardagskvöldið til að horfa á annan skammtinn af Evróvisjónlögum. Í það heila tekið leist mér mun betur á þennan pakka en þann síðasta - það lifnar yfir keppninni um miðbikið.

Hún "Selma okkar" verður sú tíunda í röðinni, og ef ég á að segja alveg eins og er, þá er ég bara töluvert bjartsýnn fyrir hennar hönd. Það má eitthvað mikið klikka ef hún á ekki eftir að fljúga inn í úrslitin.

Meðal annarra orða.

Eftir því sem ég sé þetta myndband við íslenska lagið oftar fer ég smám saman að botna betur í því. Strax við frumflutning gerði ég mér ljóst að þetta væri einhver svona "ástarörvar-í-hjarta" pæling, en ég fékk hana einhvern veginn ekki alveg til að ganga upp. Af hverju var hún alltaf að skjóta úr þessari löngu fjarlægð? Af hverju þurfti hún að brölta yfir hús- og bílþök til þess að komast í glatað færi við skotmarkið? Af hverju var hún svona glötuð skytta? Og, mikilvægasta spurningin af öllum: Af hverju tók nefnt skotmark ekki eftir því þegar örvar flugu tvist og bast í kring, hvað þá þegar þær mölvuðu glugga- og bílrúður með tilheyrandi látum?

Svo small þetta þarna á laugardagskvöldið (svona er maður tregur): Þetta er vitaskuld allegóría um það hve hin venjulega kona er glötuð í þeirri skotíþrótt sem það er að ná sér í þann karlmann sem hana langar.

Karlmenn eru, upp til hópa, einfaldar skepnur. Þeir taka mjög illa eftir nettum undirfótargjöfum. Þeir pæla voða lítið í því hver heilsar þeim á förnum vegi. Hvort þetta eða hitt skóparið passar betur við dragtina. Hverjar verða að gera hvað og hvar um næstu helgi. Usw. Allir þessir litlu hlutir, þessi fyrirhafnarmiklu "settöpp" fyrir skot úr fjarlægð (með tilheyrandi príli í glatað skotfæri), þau bara virka ekki. Það á ekkert að vera að dansa í kringum þetta neitt; það eina sem gengur er að stökkva bara beint í veg fyrir kauða og láta vaða í brjóstið á honum. Það er það eina sem þeir taka eftir helvískir.

(...cue Högni sjúkraþjálfari...)

Enda sást það á svipnum á stráknum í vídeóinu að loksins tókst þetta hjá henni Selmu fyrir rest: Lokasvipurinn á honum með örina í brjóstinu er hreinn og ómengaður ástarbrími. Eða eitthvað.

Og læt ég það duga í dag.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com