<$BlogRSDUrl$>

29 apríl 2005


Nú er ég búinn að gera tvær tilraunir til að hlusta á ísraelska Evróvisjónlagið í ár, og það bara situr ekkert eftir. Shtúmp. Naða naða naða. Söngkonan er ósköp snoppufríð, og getur nokkurn veginn haldið lagi, en lagið heldur ekki vatni. Það er í svona tilvikum sem er afsakanlegt að syngja á ensku: ef lagið er óintressant, þá er alltaf hægt að endurtaka nógu banal frasa nógu oft í viðlaginu, og þá kannski festist hann í hausnum á nógu mörgum enskuskiljandi sálum. En ég man ekki neitt, ekki neitt, nema það að þetta var sosum sæt stelpa, og í lélegri upplausninni á internet-myndbandinu var erfitt að greina nákvæmlega hversu fleginn húðlitaði kjóllinn hennar var. Það væri kannski besti sénsinn fyrir hana Sirrí Mæm-on úr þessu: að taka bara Mandó á þetta (sbr. gríska lagið 2003). Nógu erfitt á Ísrael uppdráttar í keppninni samt.

Item að syngja á ensku: Það er þá allavega nokkuð sem hin hvít-rússneska Angelíka Agúrbasj gerir rétt. Ef ég vil muna lagið hennar (sem er vissulega stórt ef), þá þarf ég ekki annað en rifja upp titilinn og viðlagsopnarann (sem fölnar þó við hlið línunnar, "It's no sin, it's no crime, that I want you mine...") og júróbassinn brestur af stað í hausnum á mér: "Loooov mí túnææææææt!" Bara verst hvað hún er afleit söngkona stelpan: þetta er hreinasta hörmung.

Hin hollenska Glenna Greys má þó eiga það: hún getur sungið. Eða sonaaaa. Borið samanvið. En lagið er bara svo afspyrnuleiðinlegt.

Svo það er víst bara gult spjald á línuna. Nei andskotakornið: Rautt á hana Angelíku.

Vonandi fæ ég svo eitthvað almennilegt að kjamsa á í næsta þætti; þetta er óttaleg lognmolla búin að vera það sem af er. Það er reyndar ekkert alltof víst að ég nái að horfa á sjónvarpið annað kvöld: Helgin mun fara í að flytja út í gám, eins og áður var getið. En það verða einhver ráð.
by Hr. Pez

28 apríl 2005


Enn á ég eftir að rifja upp með sjálfum mér lokaskammtinn frá síðasta laugardagskvöldi. Enda er sosum nóg gáfulegra við tímann að gera þessa dagana.

Það sér fyrir endann á kjallaramálum: Múrarar koma til að skoða hvað gera þarf á eftir. Þetta verður naumt, að koma öllu í stand í tæka tíð.

Um helgina fáum við okkur gám og berum út í hann. Svo höfum við kvöldin þar á eftir til að þrífa (og ganga frá kjallaranum). Þar á eftir er ein og hálf vika í afhendingu á nýju íbúðinni, og einhver kvöld þar á eftir munu fara í að mála og (etv) korkleggja. Sennilega verða þetta í allt þrjár vikur sem við munum búa inni á gafli hjá tengdó.

Mikið verður gott þegar þetta verður búið.

Afsakið útúrdúrinn. Næst mun ég fjalla um eitthvað sem skiptir mig engu máli.
by Hr. Pez

27 apríl 2005


Það er alltaf hægt að hafa gaman að því þegar ný lönd senda sitt fyrsta framlag í Evróvisjón. Þau eiga til að vera svo skelfilega út á þekju að jafnast á við hið besta bíó. Frá seinni árum koma frumraunir Albaníu, Rúmeníu og Úkraínu strax upp í hugann. Og ef leitað er lengra aftur má benda á að ekki þarf að leita út fyrir landsteinana fyrir dæmi um det samme. Hið undarlega er að oft gefur hallærissjarminn ágætis útkomu í stigagjöfinni, þótt ekki hafi það átt við í tilviki Icy-tríósins í denn.

Sem minnir mig á.

Það er ótvíræður sjarmi yfir fyrsta framlagi Moldavíu til Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva. Og nokk fátt hallærislegt við það finnst mér, ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst þetta bara alveghreint stórskemmtilegt lag sem sker sig hressilega úr restinni. Textinn er stórfyndinn (að vísu mikinnpart vegna ofangreinds hallæris), strákarnir í Stobb sí Stúbb eru hver öðrum hressari, og flottust af öllum er amman sjálf, sú sem lemur húðirnar. Ég ætla sko rétt að vona að hún stígi á stokk í Kíev - númerið væri ekki svipur hjá sjón án hennar. Eiturgrænn áframtakki með húrrahrópum og fótastappi (Bravó! Höfundinn! Höfundinn!): Berðu bévaðar húðirnar gamla kerlingarskrukka! Berðu þær eins og þú sért amma andskotans!!!

Lettneska lagið var afskaplega sætt hjá þeim strákunum, en var alveg laust við að grípa mig. Ég veit að það er fullt af fólki þarna úti sem finnst þetta besta ballaðan í ár, og kannski er hún það: ég hef ekki heyrt öll lögin ennþá. En ég var ekkert yfir mig impóneraður. Mér leið dáldið eins og ég væri að horfa á austantjaldsbojbandútgáfu af "Rock'n'Roll Kids" viðbjóðnum sem vann fyrir Írland eitt sinn fyrir langalöngu. Einnig minnti þetta mig óþægilega á hörmungina sem kom frá Hollandi í fyrra. Og kannski situr um of í mér að ég man eftir öðrum af þessum strákum (þeim sem er eins og barnsrassútgáfa af Helga úr Íslensku Íðilkeppninni) úr "Hello from Mars" hrakförunum fyrir tveimur árum (Angel-fíaskói þeirra í Lettlandi). Gult gult gult.

Svo er það Mónakó. Hvað er hægt að segja. Afskaplega sætt sosum (bæði lagið og sprundið) og dáldið rómó að heyra svona symfóníumonsterútsetningu eins og þær voru bestar í gamladaga. En, æhj, taktu bara gult númer og farðu í röðina væna.

Ég hringlaði aftur í mottói síðunnar, svo nú er það ögn betur eigandi við það sem hæst verður á baugi hérna næstu vikurnar. Þetta er bein tilvitnun í moldóvska lagið, einn af mörgum gullmolum.

Ég verð að rifja sjálfur upp lög þeirra sem eftir eru frá síðasta laugardagskvöldi áður en ég tjái mig næst - ég er búinn að steingleyma þeim öllum. Sem segir eitthvað um frammistöðuna, finnst mér. Framtíðin er gul.
by Hr. Pez

26 apríl 2005


Ekki seinna vænna að fara að byrja á þessu.

Ég var fjarri góðu gamni þegar "spekingar spjalla" þátturinn var sýndur á laugardagskvöldið var - ég var á árshátíð. Góðu heilli tók frúin herlegheitin upp fyrir mig. Sænski sjarminn á formattinu vinnur á, og ég stóð mig að því að sakna rauðu, gulu og grænu takkanna sem spekingarnir gátu valið um í fyrra. Miklu meira fútt í því en einhverri horngrýtis stigagjöf. Þess fyrir utan fannst mér innsenda efnið ekki upp á marga fiska og ef ekki væri fyrir þessa ljósu punkta sem maður lifir fyrir væri ekki upp á mikið að halda.

Nóg um það.

Ég vissi ekki hvað ég ætti að halda um austurríska lagið. Að stærstum hluta finnst mér þetta ljómandi góð hugmynd: harmónikka, alpajóðl og Týrólatrompettar er nokkuð sem er furðulegt að Austurríkismenn hafi ekki fattað að senda inn áður. Og sungið af gerðarlegri frojlæn í mjaltakonuátfitti. Hvað getur eiginlega klikkað? Jú, þetta: Hversvegna í ósköpunum syngja þau þetta á ensku?! Það er herfilegasta stílbrot sem frést hefur af norðan Alpafjalla í háa herrans tíð! Hvernig gátu þau klúðrað þessu?! Ég er hræddur um að það fari fyrir þeim eins og gamla fólkinu hennar Brýnhildar: Deyja til hægri. Og deyja til vinstri. Gulur takki (Djeeisp!).

Svo komu Lára og Lauslátungarnir frá Litháen með afskaplega óinteressant Svíapopp. Voðalega dautt númer. Rauður takki (Búúú! Útaf með dómarann!).

Og hvað er hægt að gera við Portúgal? Hvenær ætla þau að ná plottinu? Alltof mikið af ósamstæðum hlutum að gerast í þessu lagi: þetta er ofnbakaður hafragrautur með súpujurtum og afgöngum af steiktum saltfiski. Og hvusslags hallærisnafn er 2B eiginlega á grúppunni?! Ég er hræddur um að það verði Not2B fyrir þau í ár. Rauður takki.

Ekki fer þetta vel af stað. En kannski rofar til í næstu umfjöllun, þar sem rætt verður um moldóvska, lettneska og mónakóska framlagið. Og kannski ekki.

Áhugasömum (og öðrum fríkum) er svo bent á heitustu staðina fyrir keppnina í ár: Bloggið Daníels Freys og íslensku aðdáendasíðuna Helgu Hinriks, auk sjálfrar heimasíðu keppninnar (þar sem hægt er að horfa á vídeóin og hlæja að textunum) og annars evróvisjónbloggs sem ég þekki hvorki haus né sporð á þessutan.
by Hr. Pez

25 apríl 2005


Að maður skuli geta gleymt svonalöguðu. Eins og Gísli Marteinn orðaði það í Riga fyrir tveimur árum:

Við erum búnir að fylgjast með æfingum í dag, og þegar maður hlustar svona mikið á þessi lög, fer manni að finnst nær öll þeirra góð. Logi var t.d. að enda við að segja við mig hvað Bosníska lagið væri gott. Ég held hann sé kominn með Makedóníu-heilkennið en það gengur útá að þegar manni er farið að finnast Mekedóníska (svo) lagið gott, þá á maður að fara að koma sér heim.


Þá er það komið á hreint.
by Hr. Pez


Bara svona rétt áður en við byrjum: Man einhver hérna inni hvað átt var við með Makedóníu-heilkenninu? Ég er alveg búinn að steingleyma því...
by Hr. Pez

22 apríl 2005


Sannleikurinn hefur enga þýðingu.

Jamm, við fórum í bíó í gærkvöldi, við hjónin. Og í tilefni af því að það er nokkuð sem við höfum ekki gert hér í henni Reykjavík síðan í desember 2003, og þar sem IIFF 2005 er enn á fullu, stokkfull af sjaldséðum gimsteinum í kvikmyndasorpinu, þá fórum við að sjálfsögðu á splunkunýja risavaxna banderíska spennumynd með Nicole Kidman og Sean Penn.

Klippt á: miðaldra norðlensk hjón sem standa við miðasöluna í Kringlubíói.

Miðasölustúlka: Gersovel. Næsti gersovel?
Frú: Já halló, ég ætla að fá fjóra miða á "Túlkinn."
M: Haa?
F: Fjóra miða á "Túlkinn," takk.
M: Hvað segiru?
F: Fjóra miða á "Túlkinn." TÚLLLKINNN!
M: (starir í forundran)
Herra: Fyrirgefðu fröken, en það sem frúin er að reyna að segja er að við viljum fá fjóra miða á "Ðííí Ennntaaapwetaaah," eða "Túhlhl-ginn," eins og þið segið hérna fyrir sunnan.
M: Já, ógei, þa gera þrjúsundotvöndruð.
H&F: Takk fyrir.
M: Gersovel. Næsti gersovel?

Trú storí.

Myndin kom mér annars skemmtilega á óvart: Þetta er mjög. Góð. Mynd. Smávægilegir hnökrar í handritsframvindu og klisjur í persónusköpun fyrirgefast vegna frábærlega vel skrifaðra samtala og vellukkaðrar sívaxandi dramatískrar lágspennu, auk þess hvernig myndin kemur til skila sterkum mórölskum boðskap (og óvenjulegum, úr þessari áttinni) án þess að leysast upp í væmnar siðapredikanir.

Ég var svo ánægður með Túlllkinn að ég skipti út fyrra mottói síðunnar fyrir eina af fjöldamörgum minnisstæðum tilvitnunum úr henni.

Og já, gleðilegt sumar, bæðövei.
by Hr. Pez

19 apríl 2005


Byrjum á að óska til hamingju með daginn.

Einnig vil ég, í tilefni af því að ekki eru nema tveir dagar til sumars (ég heyrði spóa vella í Vatnsmýrinni í morgun), segja að mér finnst Wulff og Morgenthaler venju fremur fyndnir í dag.

Þess fyrir utan er ég í betra skapi yfir kjallaranum í dag en í gær. Við tókum upp hellurnar á stéttinni fyrir framan á laugardaginn, dúklögðum og drenuðum. Og ég fæ ekki betur séð en það hafi virkað laglega: vatnsborðið hefur lækkað jafnt og þétt frá því á sunnudagskvöldi, þrátt fyrir stanslausar beljandi rigningar frá því á laugardaginn. Maður er jafnvel farinn að vona að þetta verði bara allt í lagi.

Frúin mætti á okkar fyrsta húsfund á nýja staðnum í gærkveldi. Þetta virðast vera ágætis nágrannar (og blessunarlega starfandi húsfélag).

Slæmar fréttir sem ég fékk í vinnunni í gær reyndust hreint ekki svo slæmar þegar upp var staðið og aðeins búið að pústa. Vitaskuld allt á örsmáum skala miðað við heildarmyndina hvort eð er, svo hverjum er ekki sama.

Svo, fínn dagur, í það heila tekið.
by Hr. Pez

18 apríl 2005


Helgin var ágæt: Upptökur á laugardagsmorgninum gengu vel og töfrabrögðin vöktu stormandi lukku á Listahátíð um kvöldið. Ég held að meira að segja frúin hafi sannfærst.

Á móti kemur að kjallarinn er á floti sem aldrei fyrr og enn óvíst hvort erfiði helgarinnar hafi breytt nokkru þar um. Þetta verður tæpt: það eru innan við þrjár vikur þar til við flytjum.
by Hr. Pez

15 apríl 2005


Hápunktur vikunnar var þriðjudagskvöldið, þegar sú eldri tróð upp á balletsýningu í Borgarleikhúsinu. Það var sætt. En mikið óskaplega gekk það nærri henni: hún var alveg í rusli eftir sýninguna greyið.

Morgundagurinn verður helgaður kórnum: upptökur á spunaverki í fyrramálið og Listahátíð um kvöldið, þar sem allir þurfa að mæta með skemmtiatriði. Sjálfur er ég að hugsa um að fremja töfrabrögð.

Með hnífapörum og álpappír.
by Hr. Pez

13 apríl 2005


Nemo saltat sobrius,
nisi forte insanit.
Magnus?
by Hr. Pez

11 apríl 2005


Ég uppgötvaði dálítið merkilegt um daginn. Nefnilega, hvaða tilgangslausa hæfileika ég er gæddur sem er ekki á færi hvers sem er:

Ég finn það á bragðinu af hnífapörum hvort það er búið að nudda þeim við álpappír.

Þetta er minn ofurmannlegi eiginleiki, mitt Superpower. Ekki slæmt, þótt ég segi sjálfur frá.

Ég hef vitað af þessu allt frá barnæsku, en aldrei fært það í tal við nokkurn mann. Ekki það að mér hafi þótt þetta neitt til að skammast sín fyrir - ég hef bara alltaf haldið að svona væru allir, að það væri ekkert skrítið við þetta.

Svo buðum við Magnúsi í mat um daginn og ég nefndi þetta í framhjáhlaupi við eitthvað.

Ég vissi ekki hvert þau ætluðu, konan mín og Magnús. Þau hlógu að mér; þeim fannst þetta svo fáránleg vitleysa. Auðvitað fyndi enginn á bragðinu hvort hnífapörin hefðu komið við álpappír eða ekki. Hvaða rugl þetta væri eiginlega í mér.

En það finnst. Ég finn það. Ég get sýnt fram á það með kontróleruðum, vísindalegum tilraunum, með yfir 95% marktækni. Það kemur af þeim nístandi, málmkennt óbragð sem fer í mínar fínustu taugar.

Ég náði nánast að sannfæra Magnús með einfaldaðri pilot-stúdíu. Aflið dugði reyndar ekki nema til 67% marktækni. En niðurstaðan var ótvíræð, ég segi það fyrir mig.

Frúin hlær samt ennþá að vitleysunni í mér.

Ætli ég sé sá eini sem er svona?

Svona lagaðir eiginleikar leynast eflaust víða og finnst mörgum fátt um: þetta sýnir bara að við erum ekki öll steypt í sama mótið. Til er fólk sem finnur bragðið af aspartam, til dæmis af Coke Light. Ég er ekki einn af þeim - ég finn sáralítinn mun á því og venjulegu kóki. Ég hef ekki hugmynd um hvernig aspartam er öðruvísi á bragðið en sykur. En ég er samt ekkert að rengja fólk sem segist finna muninn. Það væri kannski jafnvel hægt að kenna mér það, svona eins og sumir fara á rauðvínsnámskeið.

Ég ætti kannski bara að starta námskeiði í hnífaparasmökkun?
by Hr. Pez

07 apríl 2005


Það er athyglisverð frétt á moggavefnum um rannsókn á meintum tengslum ofbeldishneigðar barna við það hve mikið þau horfa á sjónvarp. Það sem reynt er að spila upp þar er að sjálfsögðu sú flokkslína að of mikið sjónvarpsgláp geri börnin okkar að ofbeldisseggjum. En það athyglisverðasta finnst mér vera að samanburðarhópurinn í þessari rannsókn virtist geta horft á sjónvarp í allt að þrjár klukkustundir á dag, án þess að það ýtti undir ofbeldishneigð barnanna svo neinu næmi.

Þrjár! Klukkustundir! Á dag!

Og ég sem hafði áhyggjur af því hvort sú eldri okkar horfði of mikið á sjónvarpið - mér sýnist að dagsmeðaltalið hennar yfir vikuna sé á bilinu einn til einn og hálfur tími, topps.

Krakkar sem horfa á sjónvarpið fimm tíma á dag - það er varla mikill tími til að eiga samskipti við foreldra sína þess fyrir utan, er það nokkuð? Held nú varla. Gæti jafnvel trúað að veslings krakkarnir snúi sér að sjónvarpinu fyrir það eitt að foreldrar þeirra gefa sér ekki tímann til að tala við þau.

Mér sýnist augljós túlkun á þessum niðurstöðum nefnilega vera að krökkkum sé fyrst og fremst nauðsynlegt að eiga í samskiptum við foreldra sína (les: þau séu alin upp) í að minnsta kosti tvær klukkustundir á dag, að meðaltali, og það hversu mikið þau horfi á sjónvarpið þess fyrir utan skipti bara hreint anskotann engu máli.

Svo ég snúi útúr frægu slógani: Sjónvarp skemmir ekki börn! Foreldrar skemma börn!

Eða ögn skár orðað: Það er ekkert til sem heitir of mikið sjónvarpsgláp. Bara of lítið uppeldi.
by Hr. Pez

06 apríl 2005


Ég ætlaði nú að þegja yfir Evróvisjón þartil vertíðin kæmist á fullt. En ég bara get ekki orða bundist.

Alltof lengi hefur sítt-að-aftan, spandexklætt og galvaníserað iðnaðarrokk verið útlægt úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva! En það er ei meir! Yfir tuttugu ára langri eyðimerkurgöngu iðnaðarrokks er nú loks lokið! Síðasta vígið er fallið! Evróvisjón er komin með báða fætur kyrfilega inn í níunda áratuginn!

Ég er sumsé kominn með nýtt lag á heilann, og það ekki af lakara tæinu. Rétt í þessu heyrði ég norska Evróvisjónlagið í ár: "In my Dreams," með krydd-drengjunum í Wig Wam.

Þarna fara greinilega miklir músikantar. Torfinn má sko alls ekki missa af þessu. Ekki spillir svo fyrir að einhverjir þeirra hafa brýnt rokk-klærnar í norsku ofurgrúppunni "Arsch" með ekki ómerkari manni en Eric Hawk.

Ég hef ekki heyrt svona skemmtilegan metal áratugum saman, og slíkar og þvílíkar textasmíðar hafa ekki sést síðan A-ha hurfu af vinsældalistunum:

Come on, come on, come on
Love is all over me...


Húrra fyrir Wig Wam strákunum: Teeny, Sporty, Glam og Flash!

Heja Norge!
by Hr. Pez


Nú sýnist mér sem Brokkólífjölskyldan hafi fundið skemmtilega óvænta lausn fyrir næsta Bond. Ég hef nánast ekkert séð með þessum Daníel, rétt rámar í hann úr bæði Grafarræningjanum og Leiðinni til glötunar (hann fór alveg framhjá mér í Elísabetu). En eitthvað segir mér að þetta verði allt í lagi.
by Hr. Pez


Stamos Undura.
Mena Dio Sole Vita.
Sole Vita.


Nú er ég búinn að vera með þetta á heilanum í allan morgun, þökk sé vélum þessa manns á kóræfingu í gærkvöldi.

Dyggur lesandi benti mér annars á að það sé ein sýning eftir enn á Svikunum, á laugardagskvöldið kemur. Ég mæli eindregið með að tékka á þessu. Miðaldra húsfrúm er bent á að þetta gefur kjörið tækifæri til að góna á loðna bringuna á Hilmi Snæ Guðnasyni. Menn í minni stöðu geta svo dáðst að stinnum rassinum á Hönsu.

Svo er hann Ingvar víst þarna líka. En það er nú bara svo hægt sé að kalla þetta leikhús.
by Hr. Pez

04 apríl 2005


Þetta var góð helgi, og laugardagskvöldið var toppurinn.
Í tilefni af afmælinu í síðustu viku skildum við stelpurnar eftir hjá tengdó, fórum út að borða, í leikhús, og eyddum svo nóttinni á hóteli úti í bæ.

Það var ljúft.

Leikritið var frábært - Svik eftir Harold Pinter í Borgarleikhúsinu. Blessunarlega miklu minna drama en ég óttaðist, samtölin leiftrandi góð og leikurinn alveg hreint ágætur hjá þeim Ingvari, Hilmi og Hönsu. Ekki það að við getum mælt með því við nokkurn mann: síðasta sýning var í gærkveldi.
by Hr. Pez

01 apríl 2005


Svo vil ég endilega hvetja fólk til að skoða þessa mynd. Ef horft er á hana nógu lengi og af nægri einbeitingu má sjá einhyrning í skógarrjóðri.
by Hr. Pez


Í tilefni dagsins má ég til með að lýsa yfir því að ég mun eiga sjúkrahúsróman í Smásagnablaði Nýs Lífs sem kemur út á sumri komanda. Það verða náttúrulega allir að stökkva á það og festa sér eintak um leið og það kemur út.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com