<$BlogRSDUrl$>

31 mars 2005


Ég er dálítið hugsi yfir síðustu fréttum af sölu Símans.

Svona segir til dæmis í Fréttablaðinu í dag: "Ákvörðun um hvernig staðið verður að sölu Símans verður tekin á allra næstu dögum, að sögn Davíðs Oddssonar utanríksiráðherra [svo] sem fundaði með Halldóri Ásgrímssyni um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í gær."

Nú hef ég ekki mikið vit á stjórnmálum. Svo mér þætti ósköp vænt um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvað í ósköpunum utanríkisráðherra er að vilja upp á dekk í sölumálum Símans. Heyrir þetta ekki undir viðskiptaráðherra? Af hverju situr hann ekki fundi um þetta? Af hverju mælir utanríkisráðherra fyrir þessum málum í fjölmiðlum? Og af hverju spyrja íslenskir fjölmiðlar hann ekki, með fullri virðingu, hvað þetta komi honum eiginlega við?

Ég bara skil þetta ekki.
by Hr. Pez

30 mars 2005


Þrítugasta mars árið nítjánhundruð níutíu og fimm bauð ég stúlku í bíó, að sjá rómantísku gamanmyndina Pappírsmassadiktur (Pulp Fiction). Ég var búinn að sjá myndina einu sinni áður og vissi því að það var sólíd stefnumótaskemmtun. Reyndar varð stúlkan sjálf að punga út fyrir miðum og í sjoppunni oní okkur bæði, þar sem ég var hvorki með peningaseðla né tékkhefti þegar til kom.

Svo mjög heillaði ég hana upp úr skónum þetta kvöld að daginn eftir tók hún mig með sér við þrítugasta mann upp í Borgarnes og kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Og höfum við átt okkur óslitna sögu síðan.

Til hamingju með daginn ástin mín. Og takk fyrir þessi fyrstu ár okkar tíu.
by Hr. Pez

29 mars 2005


Tepokar, tepokar og enn meiri tepokar.

Páskarnir voru ágætir, við vorum bara hér í bænum. Frúin þurfti að vinna svolítið og ég líka. Við gældum við að ganga á Keili á laugardeginum en leist ekki á blikuna er til kom. Svo við eyddum slatta af dögunum hjá tengdó, sem var ágætt.

Sú eldri er að verða mikill listaaðdáandi. Um páskasunnuhelgina spurðum við hana hvað hún vildi gera, og hún sagðist vilja skoða myndir. Svo við fórum með hana á Listasafn Íslands. Hún hafði mest gaman af skúlptúrunum, og einnig vatnslistaverkinu hennar Rúrí, þótt hún væri líka pínu hrædd við það.

Á laugardaginn var, þegar við höfðum blásið af Keilisferð, þá spurðum við hana hvað hún vildi. Hún sagðist vilja skoða myndastyttur. Fara í garð þar sem væru myndastyttur. Svo við fórum í garðinn við safn Einars Jónssonar og skoðuðum stytturnar við Hallgrímskirkju í leiðinni. Litum við í Húsdýragarðinum á bakaleiðinni.

Kannski hana langi næst til að fara á Nýlistasafnið. Eða á tónleika með Atón-hópnum.

Talandi um tepoka. Einu sinni rapporteraði ég hér reglulega hvaða bækur ég hefði verið að lesa og hvernig mér hefði fundist. Þau blogg eru nú komin á annan vettvang og lokaðri, og hafa verið þar um nokkurt skeið. Mér finnst það ágætt. Það er kannski helst að ég ætti að halda áfram bifflíubloggunum sem ég var með hérna einu sinni fyrir löngu. En ég held að enginn hafi haft gaman af þeim nema sú gamla, hvort eð var.
by Hr. Pez

24 mars 2005


Ég er búinn að vera djúpt hugsi yfir brandara sem ég heyrði í gær. Milli þess sem ég flissa eins og fáviti. Eru til metafýsískir brandarar? Ef svo, þá er þetta dæmi um hann:

Einu sinni var brandari.
Sem var að fara yfir götu.
Þá kom bíll og keyrði yfir hann.
Og þá var brandarinn búinn.


Þegar fjögurra ára dóttir mín sagði mér hann í gær, þá sagðist hún hafa búið hann til sjálf. Ég dró það stórlega í efa. En ef satt er, þá hlýtur hún að eiga bjarta framtíð fyrir sér í póststrúktúralískri textagreiningu.

Eða eitthvað.
by Hr. Pez

23 mars 2005


Já alveg rétt, hvernig gat ég gleymt þessu: Hann spurði mig í hvaða skóla ég væri. Ég svaraði því til að ég væri nú bara aðili vinnumarkaðarins. Og varð ekki meira úr þeim spekúlasjónum.
by Hr. Pez


Á Hlemmi í morgun tók mig tali maður sem vildi forvitnast um hvað ég væri að lesa. Ég fræddi hann á því: Vetrarferðina eftir Ólaf Gunnarsson. Þá spurði hann mig hvort ég hefði lesið Belladonna-skjalið, eins mikill bókamaður og ég augljóslega væri. Ég játti því. Þá fræddi hann mig í löngu máli um það að sú bók væri ekki aðeins alveghreint frábær, heldur ofaníkaupið öll byggð á sönnum atburðum; þetta hefði allt saman meira og minna átt sér stað í alvörunni. Það stæði meiraðsegja utan á bókarkápunni; hann hefði lesið það. Svo ræddum við það um stund hve merkilegur andskoti þetta væri.

Að lokum kvaddi hann og sagði mér að halda áfram lestrinum. Sér fyndist Ólafur Jóhann vera alveghreint frábær höfundur.
by Hr. Pez

21 mars 2005


Já nú styttist í það lasm. Ekki nema rétt rúmir tveir mánuðir til stefnu, og vinningsframlag Íslendinga kynnt til sögunnar hjá Gísla Marteini á laugardagskvöldið var.

Liiitl.

Nú skilst mér að útlendum gúrúum í bransanum þyki alltaf sérdeilis spennandi að heyra hvað Ísland sendi til leiks í Evróvisjón, því það sé alltaf svo allt öðruvísi en það sem allir aðrir eru að gera. Sem ætti að koma okkur á óvart, þar sem mér finnst við alltaf (eða, með einni undantekningu) vera að reyna að "hitta inn í formúluna." Þetta er keppni. Og litla Ísland er að þessu til að vinna, ekki til að vera skemmtilega öðruvísi en hinir.

Og það leynir sér ekki að í ár á að vinna - formúlan er tekin með trompi. Etnísku balkanáhrifunum fleygt yfir sveittasta júrótrassbítið (fáðu þér sopa af Eurozade elskan) og föngulegur hópur af stúlkum sendur utan með henni Selmu til að skekja sig undir áhrifskaflanum í sólóinu.

Svo hvernig finnst mér, hafi nokkur áhuga? Nú hef ég ekki heyrt þetta lag nema tvisvar, og ekkert af samkeppninni, en þetta á eflaust eftir að standa sig skammlaust. Jafnvel fara á úrslitakvöldið, ef vel kemur út. Þetta verður varla neitt Angel-fíaskó. En ég efast um að hún Selma endurtaki leikinn frá því síðast.

En allar svona pælingar ættu vitaskuld að bíða þess að maður heyri allt hitt. Og sjái. Meira um það þegar þar að kemur.
by Hr. Pez

18 mars 2005


Eins gott að gleyma svo ekki að afmælisbarn dagsins er móðir mín elskuleg, hún er sextug í dag. Af því tilefni eru þau gömlu stungin af til Kanarí og dvelja þar í góðu yfirlæti á afmælisdaginn og yfir páskana.
by Hr. Pez


Langt síðan ég hef verið með svona: þetta próf er ekkert að skafa utan af hlutunum, og sýnist mér auk þess hitta naglann á höfuðið. Gaman að þessu.

You are pretentious and overly sensitive and
probably want to pursue some utterly useless
and impractical course of studies. You also
think you have artistic talents. Your best bet
is to teach and give lectures to others with
the same pretentions.


The Online Career Advisor
brought to you by Quizilla
by Hr. Pez


Ég get ekki að því gert, en alltaf þegar ég sé þetta geislandi bros á Hildi Völu Íðildúllu, þá dettur mér í hug Jack Nicholson í hlutverki Jókersins. Ég ræð bara ekki við þetta.
by Hr. Pez

17 mars 2005


Hlemmraunasaga - síðari hluti

Ég var sumsé nýkominn inn í hlýjuna, með það sem kallast mannaskítsglott á smettinu. Fyrir ókunnuga, þá er það náskylt því glotti sem kennt er við Sólheima í Grímsnesi, og sem ég er frægur fyrir að skarta í tíma og ótíma.

Nóg um það.

Gengur þá ekki rösklega í átt að mér einkennisklæddur eldri maður og spyr mig hvort mér hafi þótt þetta fyndið strákur, að ráðast svona á bilaðar dyrnar. Hvort ég bæri enga virðingu fyrir almannaeignum, ódannaði vandræðapésinn sem ég væri. Ég svaraði sem var, að ég hefði bara viljað komast inn í hlýjuna. Ég hefði reynt að vekja á mér athygli með því að banka á glerið (sem strangt til tekið var að færa í stílinn) og þegar þolinmæði mína hefði þrotið hefði ég gripið til eigin ráða. Þá skammaði hann mig fyrir að taka ekki mark á skiltinu sem segði að dyrnar væru bilaðar. Hann benti á skiltið, sem reyndist vera A4-blað sem á var skrifað akkúrat það, að dyrnar væru bilaðar. Þá benti ég honum á að ég hefði haft takmörkuð not af skiltinu, enda var það límt á innri dyrnar innanverðar, og var þeim einum til gagns sem voru á leið út í kuldann. Þá fussaði hann eitthvað oní kjöltuna, eflaust eitthvað um virðingarleysi ungdómsins í dag fyrir almannaeignum og sér eldra og reyndara fólki; ég greindi ekki orðaskil þar sem hann ákvað um leið að gefast upp á mér og vafraði í burtu.

Ég leit á stráklinginn sem var mér samferða inn um gættina; hann yppti öxlum og hristi hausinn yfir karlinum. Ranghvolfdi í sér augunum. Við sameinuðumst í þögulli vandlætingu á vitleysisganginum á gamla fólkinu í dag. Svo dró ég kiljureyfara upp úr vasa og tyllti mér niður í rólegheitum. Fór að bíða eftir strætó. Eftir nokkrar setningar leit ég upp og tók eftir að svo virtist sem þetta upphlaup mitt hefði haft óvæntar afleiðingar, þar sem allt í einu var fólk farið að streyma inn og út um dyrnar eins og ekkert væri, og þær opnuðust og lokuðust með ómþýðum almannaeignarskruðningum eins og þær hefðu aldrei gert neitt annað. Það var eins og bara hefði þurft að ýta þeim í gang. Einhver var búinn að rífa blaðsnepilinn af innri hurðinni.

"Hei þú," hrópaði einhver, og ég leit upp. Það var einn af úlpuklæddu innangarðsmönnunum á Hlemmi að kalla á konu sem sat á næsta bekk við mig. "Sá ég þig ekki í sjónvarpinu í gær?"
"Ha mig," svaraði konan, felmtri slegin.
"Já, varstu ekki að setja upp eitthvað leikrit?"
"Nei biddu fyrir þér, það hefur verið einhver annar."

Ég hvarf aftur inn í bókina. Skömmu seinna kom fimman, eins og áætlað var. Á stéttinni fyrir utan, meðan ég beið eftir að röðin á undan mér tíndist inn um harmónikkugættina, þá leit ég til baka í gegnum sjálfvirku glerhurðina. Einkennisklæddi eldri maðurinn hallaði sér upp að millivegg og gjóaði illskulega að mér augunum. Ég rétti úr mér og reyndi meðan ég horfðist í augu við hann að hrópa í hljóði með öllu mínu fasi: Ég er ungur maður sem er ánægður með sjálfan sig! Ég er stoltur af mínu ofurlitla andfélagslega frumhlaupi!

Svo steig ég upp í strætó og hélt til vinnu.
by Hr. Pez

16 mars 2005


Hlemmraunasaga - fyrri hluti

Ég lenti í því í gærmorgun að sjálfvirku glerdyrnar á Hlemmi opnuðust ekki þegar ég gekk á þær. Óþolandi þegar nemarnir nema mann ekki hugsaði ég, veifaði stundarkorn höndum og gekk aftur á glerið. Þá tók ég nokkur skref aftur, leit í kringum mig og fékk samúðarfullt augnaráð frá undirleitum menntaskólastrák sem stóð glænæpulegur útundir vegg með öll einkenni þess að hafa lent í því sama og gefist upp.

Samúðarfullt eða ekki, það er eitthvað ósjálfrátt pínlegt við að lenda í svonalöguðu meðan horft er á mann. Og enn pínlegra að játa sig sigraðan og gefast upp. Svo ég gekk upp að dyrunum, reyndi árangurslaust að smeygja fingrum í falsið, og þegar ég leit inn í hlýjuna og sá fólkið sitja þar, upptekið af sjálfu sér, þá fann einhvern framandi fítonskraft renna á mig um leið og ég barði báðum hnefum kröftuglega í glerið. Gott ef ég öskraði ekki einhvern andskotann líka.

Dyrnar héldu áfram að láta sér standa á sama. Og gervallur heimurinn líka, fyrir utan renglulega menntaskólastrákinn sem fylgdist með af sívaxandi áhuga.

Ég get andskotakornið ekki gefist upp núna.

Svo ég gerði aðra tilraun til að smeygja fingrunum í falsið, og þegar ég fann það ganga betur en í fyrra skiptið glennti ég dyrnar í sundur, ýtti þeim alla leið aftur þangað sem þær áttu heima helvískar, og gekk inn í hlýjuna með sigurbros á vör. Ég leit við og horfðist í augu við mjóslegna táninginn um leið og hann læddist inn á eftir mér. Þú ert ekki með öllum mjalla, en ég er ánægður með þig, sá ég að hann hugsaði, um leið og hann strauk sultardropa úr nefinu.

Mig grunar að ég hafi verið með það sem er kallað mannaskítsglott á andlitinu.

Lýkur hér fyrri hluta Hlemmraunasögu.
by Hr. Pez

15 mars 2005


Hafís herjar á norðurstrandir. Ekki sá nógu vel út úr kófinu í Húnavatnssýslum til að við gætum greint fjandann í mynni Húnaflóa á leið heim á sunnudaginn var.

Ferðin norður var annars ljúf. Við hittum fjölskyldu mína. Við fórum í afmæli heim til kisumömmunnar. Við sáum talandi páfagauk í Blómavali.

En hvað, ekkert meira um landsmálin? Hefurðu ekkert lengur að segja strákur?

Hvað er hægt að segja. Ég ræddi síðustu tíðindi úr útvarpshúsinu fjálglega við föður minn yfir viskíglasi á laugardagskvöldið. Sú var tíðin að ég nennti að æsa mig yfir dónaskapnum í landsherrum af báðum kynjum. Hrópaði "Hvað halda þau að við séum?!" Komst svo með reynslunni að því að þau halda ekki neitt um það - þau vita það fullvel. Þess vegna eiga þau eftir að komast upp með þetta eins og allt annað. Tvöföld gjöf á garðann á hverju kvöldi, klukkan sex og sjö. Rekið í réttirnar með fjögurra ára millibili. Og sláturtíð í kjölfarið. Kynt upp í kjötkötlunum.

Ætli það sé tilviljun að það munar bara einum staf á orðunum rola og rolla?

Móðir mín fékk þó plús í kladdann hjá mér þegar ég komst að því að hún væri búin að segja sig úr Framsóknarflokknum, á gamals aldri. Mín bara með steitment.

Feitt respekt til gömlu.
by Hr. Pez

14 mars 2005


Mánudagar eru yndislegir.
by Hr. Pez

11 mars 2005


Dave Allen dottinn frá blessaður karlinn, sé ég í fréttum. Ein af mínum fyrstu minningum hafði að gera með að sitja fyrir framan imbann og horfa á "karlinn í stólnum," eins og hann var kallaður í þá daga.

Kjallarinn er ógeðslegur - minnir í augnablikinu á þetta hér meistaraverk kvikmyndasögunnar, sem ég fór að sjá á miðnætursýningu í Borgarbíói í góðra vina hópi fyrir tæpum fimmtán árum.

Um tíma í gær leit tæpt út með norðurferðina, en það er allt komið á lygnan sjó í dag. Framundan er kyrrlát kvöldstund með sofandi mæðgur í farþegasætunum; ég einn með launhálum þjóðveginum (þótt líti vel út í augnablikinu) og gömlu Sundays- og R.E.M.-spólunum mínum í tækinu. Þær mixaði ég á sínum tíma, braut upp lagaröð af mikilli þrautseigju og þolinmæði þannig að aldrei skeikaði meira en nokkrum sekúndum með það að tónlistin fyllti teipið.

Sólin kom á loft á leið minni í vinnuna í morgun. Þetta gerist hratt þessa dagana - það eru ekki nema örfáar vikur síðan ekki var lesbjart á morgungöngunni yfir Vatnsmýrina frá strætóskýlinu við B.S.Í.

Vatnsmýrin var falleg í nöpru sólskininu í morgun. Og lyktarlaus. Oft liggur yfir henni megn stybba af flugvélabensíni; stundum berst hún inn um gluggana alla leið hingað inn að skrifborðinu mínu.

Í gærmorgun lyktaði Vatnsmýrin hins vegar af hráum, söxuðum lauk, einhverra hluta vegna.

Það er nú ekki það sem maður kallar ilminn af sigri í morgunsárið.
by Hr. Pez

10 mars 2005


Það er eitthvað ekki með felldu í kjallaranum okkar.

Fyrir nokkrum misserum var grafið upp úr kjallaranum í lengjunni og skólpið endurnýjað. Og sitthvað fleira. Nóg um það hér, ég bloggaði ábyggilega um það á sínum tíma.

Um daginn tókum við hjónin eftir raka í þvottahúsveggnum niðri við gólf á einum stað í kjallaranum. Síðan þá hefur verið brjáluð traffík í kjallarann hjá okkur, tryggingamenn og píparar að grafast (í orðsins fyllstu merkingu) fyrir um hvað sé eiginlega á seyði þarna (og við sem vorum nýbúin að flísaleggja það sem á að verða nýja baðherbergið í kjallaranum).

Lengi vel fannst ekkert - píparinn skildi ekkert í þessu. Svo var það nú í morgun að hann gróf niður á litla tjörn undir kjallaragólfinu okkar. Honum varð svo mikið um fundinn að hann kom hlaupandi upp stigann og hrópaði að frúnni þegar hann mætti henni (and I quote): "Það er eitthvað að! Það er eitthvað mikið að!"

Frúin var komin á fremsta hlunn með að spyrja hann: "Geturðu lagað það?" en sat á strák sínum.

Og þannig standa mál í augnablikinu.

P.S. Sennilega er þetta ekki fyndið nema fyrir þá sem horfa á RÚV fyrir allar aldir á laugardagsmorgnum.
by Hr. Pez

09 mars 2005


Viltu kaupa páskamjóóólk!
Viltu kaupa páskamjóóólk!
Það kostar ekki neitt að kaup'anaaa!
Viltu kaupa páskamjóóólk!


Við feðgin sáumst höstla ókeypis páskamjólk í mjólkurkælinum í Nettó í kvöldfréttum RÚV núna áðan. Það gerist ekki ódýrara en ókeypis.

Annars er ég einn heima í kvöld - frúin er veðurteppt norður á Akureyri yfir nóttina. Svo stefnir reyndar í að við förum þangað öll um helgina.
by Hr. Pez

08 mars 2005


Nú gengur þetta ekki lengur.

Ég verð að fara að drífa mig í klippingu. Annað hvort það, eða þá að safna mottu, kaupa mér notaðan Chevrolet Camaro með ónýtu pústkerfi og fara að ganga í netabol. Eða stuttermabol með áletruninni "I'm with Detlef Schrempf."

Hvort ætti ég að gera?

Ákvarðanir ákvarðanir...
by Hr. Pez

07 mars 2005


Ég gæfi mikið fyrir að sjá aftur gömlu "Rískúbbar" auglýsinguna.

Nei, kannski ekki svo mikið. En mig langar að sjá hana aftur.
by Hr. Pez

04 mars 2005


Slökum aðeins á núna - það er föstudagur.

Í feita tónlistarpakkanum sem Amazon sendi mér um daginn var meðal annars platan sem um árabil var hinn heilagi kaleikur poppsins: Smile með Brian Wilson. Ég er búinn að renna honum nokkrum sinnum og er mjög sáttur við hann.

Áður var ég búinn að heyra ýmsar þjóðsögur um þessa týndu plötu, þar á meðal söguna um lagið "Fire," sem Wilson fékk strengjasveit til að spila með brunaliðshatta á hausnum meðan hann kveikti eld í ruslafötu á miðju gólfinu. Allt fyrir réttu stemminguna.

Stuttu eftir þetta átti hann að hafa misst vitið.

Í endanlegri mynd kallast þetta lag "Mrs. O'Leary's Cow." Ég hafði áður rekist á téða kú í Far Side safni eftir Gary Larson, í sex ramma teiknimyndasögu sem var titluð "The life and times of Lulu, Mrs. O'Leary's ill fated cow" (en systursaga hennar man ég að kallaðist "The life and times of baby Jessica"). Þetta var mikil sorgarsaga: kýrin Lúlú afrekaði meðal annars að hrasa um stein, velta mjólkurfötu um koll og kveikja í hlöðu.

Þegar ég rakst á þetta lag eftir Brian Wilson langaði mig allt í einu að grafast fyrir um það hvað þessi óheillakýr hefði haft á samviskunni. Sem leiddi til þess að ég fræddist um brunann mikla í Síkagó í október árið 1871. Það var fróðlegur lestur, sérstaklega það að sagan um að kýrin hennar frú O'Leary hefði orsakað brunann með því að velta lampa um koll væri borgarþjóðsaga.

Svo nú veit ég það.

P.S. Við leit mína að upplýsingum rakst ég líka á þessa skondnu villumeldingu.
by Hr. Pez

02 mars 2005


Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.
Mín geðprúða frú er á Akureyri að vinna.
Hún á það til að færast mikið í fang.
- Mér finnst sem ég hafi sjálfur nægu að sinna.

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.
Geðveikur köttur á dópi og vafinn á fæti.
Ég stelpurnar annast. Á mánudag buðum við Mang-
a í mat. Hann er með DVD-mynda-blæti.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com