<$BlogRSDUrl$>

28 febrúar 2005


Ég er með góðar fréttir, og ég er með slæmar fréttir.

Góðu tíðindin eru þau að kattarræksnið skilaði sér heim í gærkveldi, allt sundurbitið og tætingslegt eftir vikufjarvist. Hún er núna í aðgerð uppi á dýraspítala og við megum ná í hana síðdegis.

Það á ekki fyrir henni að liggja að vera útiköttur. Hún er bara ekki með það í spilunum.

Nóg um það í bili.

Vondu fréttirnar hafa að gera með Tónleika Ársins: Túvönsku ropsöngvagúrúarnir í Huun-Huur-Tu munu halda tónleika á Listahátíð fimmtánda og sextánda maí.

Sem er mikill fengur, svo hver eru eiginlega ótíðindin, skyldirðu spyrja?

Jú, ekki nema þau að þetta er um Hvítasunnuhelgina. Og þá helgi verð ég stökk norður á Akureyri í fermingarveislu.

Æ hvur grefillinn.

Ég er að vísu blessunarlega búinn að sjá þá á tónleikum einu sinni nú þegar. Og á kannski eftir að segja betur frá því seinna. En ef ég yrði í bænum um Hvítasunnuna myndi ég fara að sjá þá aftur: þetta er nokkuð sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Ég tók eftir að Dr. Gunni býður upp á lag með þeim á topp 5 listanum frá síðasta sunnudegi. Tékkið á því og hrífist.
by Hr. Pez

25 febrúar 2005


Ein stelpan í vinnunni minni lítur nákvæmlega eins út og Birgittu Haukdal dúkkan (eða Rut Reginalds dúkkan, einsog einhver vildi meina). Ég var bara að átta mig á þessu. Skrítið, þar sem dúkkan kom á markað fyrir þremur mánuðum. Ég var næstum búinn að gleyma henni.

Þetta er, að ég held, ágætis stelpa; ég kenndi henni lífmælingar fyrir mörgum mörgum árum. Eins og nokkrum öðrum hér innan veggja (og utan). Og blessunarlega er hún heldur fagurlegar sköpuð en dúkkan, þrátt fyrir líkindin.

Talandi um það, þá held ég að þjóðin eigi eftir að taka hann Kidda Jóa Konn í sátt aftur, eftir fíaskóin hans fyrir síðustu jól. Hann á eftir að verða elskaður á ný, sanniði til. Ég held að það séu ekki nema svona fimm til tíu ár í það.

Já, ég held ég spái því bara.

Ég spái því.
by Hr. Pez

24 febrúar 2005


Kattarskömmin er horfin eina ferðina enn. Við höfum hvorki séð af henni tangur né tetur síðan á sunnudag.

Í hvert einasta skipti sem þetta gerist hugsar maður jæja, nú sjáum við hana aldrei aftur. Og þá skilar hún sér vanalega daginn eftir.

Sjáum til hvort svo fari núna. Sjálfur er ég ekkert alltof viss.

Sem minnir mig á að einhver var að segja mér um daginn af kettlingafullri læðu sem þyrfti að koma af sér ungum úr goti í maí eða júní, rétt eftir að við verðum flutt á nýja staðinn. Ég man bara ómögulega hver það var.

Hver var þetta nú aftur?

Ó, minni!
by Hr. Pez

23 febrúar 2005


Look at the morning people
Going to work and fading away...

High með The Blue Nile er ágætur diskur. Kannski ekki þeirra besti, að vísu. Og kannski frekar þvert á móti, þeirra lakasti til þessa. En hvað segir maður við Leónardó þegar hann sýnir manni nýjustu myndina sína á eftir Mónu Lísu? Eða við Einar Má þegar hann kemur með nýja bók til að fylgja eftir Englunum og ættarsögutrílógíunni sinni?

"Veistu, sko, þetta er mjög flott hjá þér, en þú ert nú samt ekki alveg að ná að toppa þig, hérna, er það nokkuð?"

Þetta er góður diskur. Þeir eru góðir, strákarnir. Ég er að hlusta á þá núna. Ég sakna hvað helst lags númer tvö á B-hlið. En þess fyrir utan er hann allt sem ég vonaðist eftir, eftir átta ára bið frá því síðast.
Og þar áður.
Og þar næst á undan.
by Hr. Pez

22 febrúar 2005


Hjáh, pfúff, afsakið þetta.

Ég hef verið vakinn og sofinn það sem af er viku að undirbúa kynningu í vinnunni sem ég var með áðan. Ég skar óþarfa eins og blogg við nögl og var að lokum á fótum til að ganga þrjú í nótt sem leið við að ganga frá þessu - ég vildi vera viss um að vel til tækist, þar sem mér finnst sem ég hafi þjáðst óhóflega af gys- og klaufaveiki (foot-in-mouth disease) á þeim fundum sem ég hef tekið þátt í upp á síðkastið.

Enda fór þetta allt saman ljómandi vel.

Hádegismaturinn á sunnudaginn tókst ljómandi vel líka. Gunnararnir mættu með fjölskyldurnar (Karen er orðin býsna framsett af tvíburunum) upp úr tólf og Eddi og P.J dröttuðust skelþunnir og illa sofnir innum gættina hálftíma síðar. Mjólkurgrautur, súrmatur, flatbrauð, kaffi og pönnukökur. Góður sunnudagur.

Við tókum Wicker Park á stafræmu á laugardagskvöldið. Hún var öðruvísi en ég bjóst við, meiri rómans og minni erótískur spennutryllingur, en þó ágæt. Alveg hreint ágæt.

Og þar hafiði það.
by Hr. Pez

18 febrúar 2005


Í upphafi árs 1994 byrjaði ég í Háskólakórnum, eftir það sem mætti kalla stormasaman kafla í lífi mínu. Þar var fyrir, ásamt með fleirum vitaskuld, sú sem fimmtán mánuðum síðar átti eftir að verða kærastan mín. Og áfram þann veg til dagsins í dag, eiginkona og tveggja barna móðir.

Þetta er ekki sagan af okkur.

Því þar var einnig maður sem kallaðist Pétur Jón, fullu nafni Peter John Buchan, eða P.J. (framb. Pídjei). Kanadískur háskólanemi með tenórbarka úr gulli. Eins og hjartað (ooooh, en sætt). Hann náði mjög góðu valdi á íslenskunni og var farinn að tala hana reiprennandi hreimlaust þegar hann hvarf aftur af landi brott. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn aftur, síðast sumarið 2001, þegar hann hélt hér upp á þrítugsafmæli sitt með gömlum vinum. Við hjónin keyptum handa honum afmælisgjöf á sínum tíma, en fórumst á mis við hann og gjöfin hefur nú beðið uppi í hillu í hvað, þrjú og hálft ár.

Þangað til í fyrrakvöld. Þá hringir drengurinn í mig um kvöldmatarleytið meðan frúin er að vinna og lætur það uppi að hann sé á landinu, og muni taka þátt í Vetrarhátíðinni sem sett var í gær.

Takið eftir því hvernig hann er kynntur í hlekknum sem "vestur-íslenski tenórinn" Peter John Buchan.

Sem hann er. Hann er eins íslenskur og flatkökur með hangikjeti.

Hvað um það, hann lætur vita af því að hann sé að stefna saman nokkrum gömlum vinum að hittast á knæpu niðri í bæ seinna um kvöldið. Svo að sjálfsögðu reddaði ég pössun og dreif frúna aftur út um dyrnar þegar hún dröslaðist úrvinda inn um dyragættina.

Það voru ánægjulegir endurfundir, að sjá hann aftur. Og loks gátum við afhent honum gjöfina. Enn talar hann sprokið eins og hann hafi aldrei gert annað - til þess var tekið að hann var sá við borðið sem sletti minnst á framandi tungum.

Á sunnudaginn kemur sami félagsskapur saman aftur í eldhúsinu hjá okkur, í mjólkurgraut og súrt slátur, fyrrnefnt flatbrauð með hangikjeti, pönnukökur og kaffi.

Það verður glatt á hjalla.
by Hr. Pez

17 febrúar 2005


Við hjónin hittum í gærkvöldi, ásamt með fleirum, gamlan og góðan vin sem við höfðum ekki séð lengi. Ég skrifa meira um þetta þegar betur stendur á, til dæmis á morgun, en þangað til er hérna textinn að lagi sem ég raulaði í gærkvöldi, með þessum gamla vini og þremur öðrum, í fyrsta skipti í fjöldamörg ár:

Við syngjum yfirleitt um djúpa ást
Alsæluna þá sem aldrei brást
Oftast milli manns
Og meyjar sem er hans
Fátt er yndislegra við að fást (er við að fááást)...

En til er ástúð gulli betri, kenndin sú er góð,
Nú göfgan syngjum móður-ástaróð (móður-ástaróóóð):

Aldrei grýta hnífum í þá gömlu
Það gæti hennar ævi stytt úr hömlu
Og ekki skjóta hana á
Eða beinin brjóta smá
Eða hárið skera af og skinnið flá.

Það er rangt að rífa út hennar iður
Sú ráðagerð er ekki góður siður.
Það sleppur hana að slá,
-Slíkt kann væntumþykju að tjá
En bannað er að búta hana niður.
by Hr. Pez

15 febrúar 2005


Það verður frí frá kóræfingum í kvöld, eftir stíft prógramm síðustu vikna. Svo byrjum við eftir viku að æfa fyrir upptökur á Lincoln-messunni sem við frumfluttum í nóvember sem leið.

En sumsé, það verður rólegt þriðjudagskvöld í kvöld, aldrei þessu vant. Eflaust verður horft á Kapphlaupið Rosalega. Ég sá glefsur úr síðasta þætti á sunnudaginn var (undir pönnukökukaffi - frúin svo myndarleg) og sýndist sem Gulstakkur og frú væru endanlega að tapa glórunni. Það gæti orðið fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir þeim í kvöld.

Og hvur veit, ég skrifa kannski stafkrók eða tvo. Sem yrði stafkrók eða tveimur meira en afköstin hafa verið síðasta mánuðinn.

Obbosí já, svo það gleymist ekki: Una lenti víst í smávægilegu óhappi á leikskólanum í gær. En olnboganum á henni var kippt aftur í liðinn og þegar við Hrefna komum heim úr ballett um sexleytið var eins og ekkert hefði gerst. Svo mætti hún vitaskuld hress og spræk aftur á leikskólann í morgun.

Hart í þessu.
by Hr. Pez

14 febrúar 2005


Í dag er góður dagur. Þeir sem vilja lesa eintómt svartagallsraus og mánudagsleiðindi geta gjört svo vel að hundskast eikkurt annað.

Ég er nýr maður. Ég byrjaði daginn á því að raka af mér munnkragann sem safnast hafði framan í mig síðasta mánuðinn. Og er svo sætur og krúttlegur fyrir vikið.

Ég er ekki alveg nógu gamall fyrir þetta ennþá.

Annars komu Ljúfan og Leibbalingur í ánægjulega heimsókn á föstudagskvöldið: járnbrautarslys og Íslensku Íðilkeppnina. Á laugardeginum voru stórtónleikarnir. Það var mikill taugatitringur á þeim fyrri, en þeir sluppu þó til. Á þeim seinni small allt og þeir urðu algjört dúndur, eins og vonir stóðu til. Mogginn mætti á þá fyrri en Víðsjá á þá seinni, svo ég mun sniðganga Morgunblaðið í vikunni en hlusta af athygli á Víðsjá á eftir.

Í gær fórum við feðgin í bíó, á stórmyndina Fríllinn. Í þetta sinn tókst mér að halda aftur af tárunum, ólíkt því þegar við fórum saman á Stórmynd Grísla þarna um árið. Um kvöldið kom Magnús í heimsókn, og snæddi með okkur kjúklingauppskrift.

En myndin var ágæt. Það er eitthvað við Bangsímon sem veldur því (ef maður sé í réttum félagsskap) að maður verður aftur barn við að horfa á hann. Það er yndisleg tilfinning, ef maður leyfir sér að njóta hennar.
by Hr. Pez

11 febrúar 2005


Ég var að spjalla við vinnufélaga minn um daginn um bóklestur Íslendinga. Hann hélt því fram að mörgum væri þannig farið að lesa ekki bækur af því að þeir snobbuðu um of fyrir bóklestri, þeim fyndist það svo göfug iðja.

"Neh," sagði ég. "Láttu ekki svona. Það er ekkert vit í þessu hjá þér."

Jú, hélt hann áfram. Og útskýrði að til væru þeir sem fyndist bóklestur verðskulda andakt: maður ætti ekki að lesa neitt annað en bókmenntir. Það væru bara plebbar sem læsu einhverja skitna kiljureyfara. Og þar sem saman færi þetta viðhorf og lítil löngun til að lesa "fínni bækur" væri útkoman sú að fólk af þessu tæinu læsi bara ekki neitt yfir höfuð.

"Heyrðu, jú þetta er sennilega rétt hjá þér," sagði ég, og var skyndilega kominn alfarið á hans band. Því allt í einu gerði ég mér ljóst að akkúrat úr þessari áttinni kæmi eflaust stór hluti af þeim hulduher sem gleypir í sig metsölubækur eins og Da Vinci lykilinn, Belladonnaskjalið, Dumasarfélagið og þess háttar (allar þessar "bókmenntalegu spennusögur"), en les annars ekki stafkrók þess fyrir utan. Þetta eru reyfarar, svo það er gaman að lesa þá. En um leið er hægt að telja sjálfum sér trú um að maður sé að lesa alvöru bókmenntir.

Hversu oft hef ég ekki heyrt þetta: "nei ég les voða lítið af bókum en ég las hana þarna davinsílykilinn."

Ég hef furðað mig dálítið á þessu. Því ólíklegasta fólk hefur leitað í rann okkar hjóna síðasta árið og spurt hvort við gætum ekki lánað því Da Vinci lykilinn (ágætis fólk í flesta staði, fyrir utan að vera með þeim ósköpum gert að fussa oní kjöltuna þegar talið berst að bóklestri). Og við svarað nei, við bara eigum hana ekki og höfum ekki lesið hana. "Nú," er þá horft á okkur stórum augum, "en þið eruð svo mikið bókafólk."

Oh, brother.

En nú skil ég loksins hvernig á þessu stendur. Og líður strax miklu betur.
by Hr. Pez

10 febrúar 2005


Googlewhackblatt er skemmtilegt hugtak, og stendur fyrir þau orð sem gefa eina og nákvæmlega eina leitarniðurstöðu þegar maður gúglar. Ég hef vitað af þessu fyrirbæri í nokkurn tíma núna, og taldi víst að slík orð væru vandfundin. En svo ákvað ég að gera nokkrar tilraunir, og innan fimm mínútna var ég strax kominn með eitt. Vandamálið við að finna Googlewhackblatt er náttúrulega ekki síður að ef það er tilkynnt á síðu sem tengd er Google-maskínunni, þá hættir orðið um leið að vera Googlewhackblatt, þar sem innan skamms eru þá komnar tvær leitarniðurstöður. Svo ég ætla að prófa að tilkynna fundinn svona, með bilum á milli:

h - y - p - o - e - r - g - o - n - o - m - i - c

Ef ergónómíugúrúinn í Íþöku (eða nokkur annar) getur útskýrt fyrir mér hvað þetta þýðir, þá væri ég afspyrnu þakklátur.
(breytt 15. febrúar Hr. Pez)
by Hr. Pez

09 febrúar 2005


Annars fóru stelpurnar grímuklæddar á leikskólann í morgun, eins og fleiri (en þó ekki allir, sýndist mér). Sú eldri í indjánakjól, og sú yngri í heimasaumuðu Línu Langsokks-átfitti frá Fríðu frænku (Halló Fríða!). Og voru hæstánægðar með.

En ólíkt því sem var í fyrra (og jafnan áður) hef ég ekki séð eina einustu hræðu gera tilraun til að syngja fyrir nammi hérna niðri í anddyri. Kannski var "Allt nammi búið" miðanum skellt út í glugga strax í gærkvöldi, ég veit það ekki. Ég var svo syfjandalegur þegar ég drattaðist inn í morgun að ég tók ekkert eftir neinu í kringum mig.

En það er nú sosum ekkert nýtt, hugsa þá eflaust einhverjir sem þekkja mig.
by Hr. Pez


Vinnufélagi minn einn var að vafra um fasteignavef New York Times um daginn (ég spurði hann ekki af hverju), og rakst á fimmtíu fermetra CoOp-íbúð til sölu á besta stað á Manhattan. Á litlar þrjátíuogátta kúlur.

Ég flautaði.

En svo hugsaði ég mig um: þetta er í sjálfu sér ekki nema svona kannski rétt rúmlega þrefalt það fermetraverð sem er í gangi í Reykjavík í dag, allavega það sem viðgengst í "betri" hverfum bæjarins. Og ég er nú ekki meiri borgarrotta en svo að ég held að það sé nú eitthvað örlítið meira en þrisvar sinnum flottara að eiga heima á besta stað á Manhattan, heldur en á besta stað í hundraðogeinum.

Svo sennilega eru þetta bara kjarakaup, fyrir þá sem það hentar, og geta ofaníkaupið séð af fimmtíuþúsund á mánuði í hússjóð. Sjálfur segi ég pass, enda hæstánægður með að vera á leið uppí Grafarvoginn.
by Hr. Pez

08 febrúar 2005


Sumt fólk er loðið um lófana. Það má kannski segja um okkur hjónin þessa dagana, stund og stund, þegar heilu og hálfu millurnar flakka milli bankareikninga frá degi til dags í tengslum við íbúðakaup. En þegar moldviðrinu lýkur verðum við eflaust jafn krúkk og við vorum fyrir.

Hinu er ekki að neita að ég er loðinn um munninn. Þegar flensan lagði mig í kör fyrir þremur vikum var í upphafi heil vika sem maður hafði sig ekki einu sinni í sturtu nema á nokkurra daga fresti, hvað þá að maður nennti að raka sig. Svo kom í heimsókn ljósmyndari sem tók myndir af íbúðinni okkar til að setja á internetið. Og til að vera ekki alveg eins og tröll úr urð dregið varð ég nú aðeins að sjæna mig upp, en skildi eftir afahring um munninn og hökuna. Ég sór þess dýran eið að ég skyldi ekki raka hann af aftur fyrr en ég væri orðinn fullfrískur. Og hann er þarna enn.

Sú eldri sættir sig við hann, en finnst samt að ég ætti ekki að safna skeggi í alvörunni fyrr en ég verð afi.

Og kannski ég geri það bara. Skegg er gaman, ef maður nennir því.
by Hr. Pez

07 febrúar 2005


Mætti á laugardaginn var á fyrstu kóræfinguna í hvað... þrjár vikur. Eða eitthvað. Var reyndar duglegur að æfa mig heima í veikindunum. En samt var ekki seinna vænna að fara að mæta, þar sem tónleikarnir verða nú á laugardaginn.

Og það ekkert smá.

Kórinn minn mun flytja, með Háskólakórnum, Diddú og undirleik, hið illflokkanlega og stórskemmtilega stykki African Sanctus, eftir David Fanshawe.

Fanshawe þessi ferðaðist vítt og breitt um vatnasvæði Nílar um og uppúr 1970 og safnaði upptökum af tónlistarflutningi innfæddra, jafnt træbal dönsum sem kyrjunum til bæna í moskunni í Kaíró. Svo samdi hann latneska messu kringum herlegheitin, þar sem kór og sópran syngjast á við orgínal upptökur af segulbandi (eða geisladiski, eins og þessi nýmóðins tækni er orðin í dag).

Tónskáldið mætir sjálft á staðinn fyrir helgina. Hann heldur tölu í upphafi tónleika og bregður upp litskyggnum af ferðum sínum (eða kannski verður hann með þær í svona nýmóðins kjöltutölvu, eins og er orðið svo algengt í dag). Svo sér hann sjálfur um píanósóló í einum kaflanum.

Það fyrsta sem ég heyrði af þessu verki var þegar tveir kaflar úr því voru fluttir á ólympíumótinu í kórsöng í Bremen í sumar sem leið. Ég heillaðist strax af því. Hrifningin minnkaði ekki við að taka þátt í að setja það upp.

Þetta stefnir í að verða alveg rosalegt.

Tónleikarnir verða tvennir, klukkan þrjú og sex, í Neskirkju á laugardaginn kemur, tólfta febrúar. Áhugasömum er bent á að missa ekki af Mósaík annað kvöld, þar sem sungið verður sýnishorn. Það gefur nokkra hugmynd um það hvernig þetta verður.
by Hr. Pez

04 febrúar 2005


Hélt mig heimavið síðustu tvo daga í von um að ná að hrista þetta endanlega af mér. Sveimérþá ef það tókst ekki.

Um hvað er annars hægt að tala? Sjónvarp? Reynum það.

Við hjónin gerðum þau afdrifaríku mistök að horfa á breska læknaþáttinn eftir tíufréttirnar í gærkveldi. Mannamein. Mistök segi ég, því nú er maður tilneyddur að fylgjast með seríunni til enda - þetta eru hættulega ávanabindandi þættir. Undirferli, framhjáhald, læknamistök og baktjaldamakk. Undir samfarasenunni sýttum við það að bandaríska bráðavaktargengið væri alltof teprulegt til að segja frá eins og bresku starfssystkinin.

Og þá fór ég allt í einu að hugsa um Bollywood. Ætli feimnin í frásagnarmátanum þar sé einskorðuð við kossa? Eða ætli hún eigi líka við blóð og líkamsmeiðingar? Þá þætti mér athyglisvert að sjá þátt úr indverskri læknaseríu: Fertugu fórnarlambi úr bílslysi er skellt inn á skurðstofu, læknirinn biður um hníf númer fjögur og skipar fyrir um barkaþræðingu, og svo fara allir að syngja og dansa.

Það gæti verið gaman að horfa á.

Svo var ég að hugsa um að skrifa eitthvað um ædolið - við erum víst sek um að hafa horft á það frá upphafi Vetrargarðsþáttanna. En ekki núna.
by Hr. Pez

01 febrúar 2005


Stóru atburðirnir já. Það vill nefnilega svo til að meðan ég lá í flensunni, þá stóðum við hjónin í fasteignaviðskiptum. Seldum ofan af okkur og keyptum uppi í Grafarvogi. Á mánudeginum áður en ég lagðist (en þegar ég fann á mér að það var að byrja) fórum við og skoðuðum þessa fínu blokkaríbúð í Víkurhverfinu. Og leist strax mjög vel á. Frúin fór aftur og skoðaði með tengdapabba. Svo skrifaði ég uppá framsal þegar ég var í hvað mestu óráði: Konan mín hefur umboð mitt til að gera hvað sem hún vill. Svo hún fór og gerði tilboð í okkar nafni. Sem var tekið, með ýmsum lagfæringum. Þetta gerðist á fimm dögum. Sem við áttum eftir að uppgötva að er langur tími í fasteignaviðskiptum í dag.

Á föstudagsmorguninn var fór íbúðin okkar á sölu. Í lok dags höfðu sjö "aðiljar" komið að skoða, og þar af tveir gert tilboð. Hún var seld fyrir hádegi á laugardegi.

Já, þetta gengur hratt fyrir sig.

Annars er ég allur að skríða saman, þótt ég sé stíflaðri en Blanda og mælist enn með einhverjar kommur þegar ég skríð uppí rúm á kvöldin.

Þetta kemur allt saman, þetta kemur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com