<$BlogRSDUrl$>

31 janúar 2005


Loksins loksins er ég snúinn aftur til vinnu. Kannski ekki alveg kominn aftur í toppform, en þó skárri en ég hef verið. Og fjórum kílóum léttari.

Ég mun aldrei aldrei framar slá hendinni á móti frírri bólusetningu þegar hjúkkurnar mæta á vinnustaðinn. Aldrei framar.
by Hr. Pez

25 janúar 2005


Ég fékk heimsókn á sjúkrabeð í gær.

Nei, ég fékk vitjun!

Og vitrun!

Vinur minn, dr. Orri Ingþórsson, kom og tók á mér hús! Til að létta mér lundina!

Hann er besti vinur minn!!! (*sniff*, *snörl*)

Og vitrunin er vitaskuld sú að það eru bestu vinirnir sem fá mann til að langa til að vera eins góður vinur og þeir eru sjálfir.
by Hr. Pez

24 janúar 2005


*Hrummfh*

Annars eiga stórir atburðir sér stað, þrátt fyrir ástandið. Ég nenni bara ekki að blogga um þá núna.
by Hr. Pez

20 janúar 2005


Sú yngri stendur fyrir framan mig með húfuna öfuga á hausnum og kápuna sína í útréttum höndum að mér.

"Jáen Una mín, pabbi má ekki fara út."

Það er fúlt að vera veikur. Ekkert smá litl ódjissla fúlt.

Og hummm. Það er ekkert meira um það að segja.
by Hr. Pez

18 janúar 2005


Æjæjæ. En óheppin.

Listagyðjan mín hún Kristín á ekki sjö dagana sæla eins og er. Erfitt að kenna nokkru öðru um en kaldhæðni örlaganna að vera nýbúin að stofna hljómsveit með nafni sem mætti þýða sem Fimmtán metra flóðbylgja á þessum síðustu og verstu.

Annars bíð ég spenntur eftir frumrauninni - hún berst mér í pósti öðru hvoru megin við mánaðamótin. Og svo kemur fyrsta stóra platan seinna á árinu.

Í öðrum fréttum: Afmælisbarn dagsins í dag er rithöfundurinn og fílósófinn Robert Anton Wilson. Hann er sjötíuogþriggja ára í dag, ef hann er á lífi. Yfirlýsing mánaðarins er frá honum komin.

Þess fyrir utan er ég ekki alveg eins hress og í gær: hangi heimavið með þeirri yngri og læt lítið fyrir mér fara. Kjöltra oní kjöltuna.
by Hr. Pez

17 janúar 2005


Ég held ég sé að verða veikur. En intressant. Ætla þó að þræla mér með frúnni upp í Grafarvog að skoða íbúð á eftir, þegar ég verð búinn í vinnunni.

Maturinn í gærkvöldi var góður. Og kompaníið skemmtilegt. Orri og Þóra koma með fjölskyldu í mat núna seinna í vikunni, og svo eru þau farin.

Einhvern tíma mun ég hafa eitthvað innblásið og/eða hnyttið að segja hérna. En ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Þangað til verður þetta hvunndagslegur sparðatíningur.

Hér eftir sem hingað til.
by Hr. Pez

16 janúar 2005


Þættinum barst fyrirspurn um orðið stafræma:

Stafræma.

Dyggur lesandi kannaðist við orðið í merkingunni stafræn myndræma, ellegar það sem upp á enskuna kallast DVD. Það er samhljóma skilningi þáttarstjórnanda á orðinu.

Reyndar gengu plönin ekki alveg eftir: Stóra systir mín leit við með fjölskyldu sinni upp úr kvöldmatnum (allir í bænum maður). Dætur hennar voru guðslifandifegnar þegar þær fréttu að við værum með Stöð tvö, enda höfðu þær óttast að þær myndu missa af fyrsta úrslitaþættinum í Ædólinu. Sem var það sem horft var á. Og var ágætt líka, enda í góðu kompaníi.

Í gær hékk ég niðrí bæ með dr. Orra, sem senn hverfur til Noregs. Um kvöldið var risafjölskyldukvöldverður hjá brósabró, afi og amma í Bakkahlíð með öllum sínum afkomendum.

Það var ánægjuleg kvöldstund.

Við frúin horfðum á seinni myndina um Löru Croft eftir að heim var komið. Meira djes ruslið sem hún er maður.
by Hr. Pez

14 janúar 2005


Ágætis helgi í uppsiglingu. Foreldrar mínir á leið í bæinn, sem mun gleðja stelpurnar. Þeir munu passa á sunnudagskvöldið, þegar okkur er boðið í mat hjá vinafólki. Í kvöld kemur Magnús og mallar oní okkur. Stafræma í eftirmat.

Þetta leggst allt ljómandi vel í mig.
by Hr. Pez

13 janúar 2005


Jæja, þá er rokkið nánast horfið af öldum ljósvakans.

Í árdaga hrósaði ég Skonrokki. Festi það í minnið á útvarpinu í bílnum. Svo fór sjarminn smám saman af því að hlusta á sveitt typpafýlurokk æsku minnar. Eftir nokkra mánuði fleygði ég því úr minninu og setti X-ið í staðinn, eins og verið hafði áður. Þar var oft hægt að hlusta á tvö, þrjú lög í röð áður en brast á með einhverju steingeldu njú-metal.

Nú er svo komið að framsæknasta tónlistarstöðin í íslensku útvarpi er Rás 1.

Já. Rás eitt.

Hlaupanótan (mánudaga til fimmtudaga milli fjögur- og fimmfrétta) er orðinn einn af mínum uppáhaldsútvarpsþáttum. Þar er spiluð flottasta tónlistin í íslensku útvarpi í dag. Í gær var leikið úr verkinu Rhythm Science eftir DJ Spooky, og John Zorn tróð upp með alternative-klezmer hljómsveit sinni Masada. Í dag fær Hlaupanótan í heimsókn ekki ómerkara kollektíf en Stilluppsteypu, þar sem leikin verða lög af nýjustu afurð sveitarinnar. Ég ætla að hlusta.
by Hr. Pez

12 janúar 2005


Ég efast. Þess vegna er ég kannski ekki.
by Hr. Pez

11 janúar 2005


Það situr í mér dálítið sem ég sá í fréttum um daginn. Í tengslum við hörmungarnar við Indlandshaf.

Það er margt athyglisvert sem mætti skrifa um þessar hamfarir, um fréttaflutning af þeim og það hópefli meðal fólks víða um heim sem spratt af honum. En ég ætla að dvelja við annað, enda annað fólk búið að segja það sem mestu máli skiptir nú þegar, og sumt af því betur en ég myndi gera.

Í upphafi árs barst andlátsfrétt af Susan Sontag, bandarískum rithöfundi og samfélagsrýni. Ég veit nánast ekkert um hana, nema það sem ég las í grein um hana sem birtist í Lesbók Moggans af því tilefni. En mér sýnist sem ég ætti kannski að kynna mér sitthvað sem hún hafði að segja, sérstaklega um fréttaljósmyndun og túlkun. Ég held mér þætti það áhugavert. En þetta var nú hálfpartinn útúrdúr.

Það sem situr í mér er fréttamyndskeið sem birt var í fréttum RÚV (og eflaust víðar) undir lok síðustu viku, þegar bráðum tvær vikur voru liðnar frá jarðskjálftanum við Súmötru. Það sýndi flóðbylgjuna koma að landi, einhvers staðar við Tælandsstrendur, og úti á fjörunni sat maður (eða lá, man það ekki). Flóðbylgjan kom æðandi að, maðurinn stóð upp, og þegar hún var komin nánast alveg upp að honum sneri hann sér til lands og virtist reyna að hlaupa af stað. Nokkur skref, áður en hvítfyssandi veggurinn gleypti hann.

Við fengum að sjá þetta sýnt hægt. Með rauðum hring dregnum utan um manninn, svo ekki færi milli mála. Þulurinn sagði eitthvað í líkingu við það hvað þetta "sýndi þá ógnarkrafta" sem þarna væru á ferðinni. Hvort það var fréttnæmið við myndskeiðið veit ég ekki. Ég dreg það í efa. En það sem ég hugsaði í orðastað fréttamannsins var þetta:

"Sjáiði. Þarna er maður að deyja. Djöfull er þetta rosalegt maður."

Og mér fannst þetta rosalegt. Ég horfði á. En um leið fannst mér þetta eitthvað svo klámfengið: ég kom ekki auga á fréttina í þessu. Það var orðið svo langt um liðið frá þessum atburðum að ljósvakinn var þegar mettaður af myndum sem sýndu hafið ganga á land og eira engu á leið sinni. Fréttamyndir "núsins" sýndu þá eyðileggingu sem það skildi eftir sig, og hvernig gengi að koma hlutum í samt lag aftur. "Mannlegar áhugasögur" af "bræðrum okkar" frá öðrum vestrænum ríkjum.

Í fyrsta skipti sem ég sá myndir af flóðbylgjunni gapti ég í vantrú og furðu. Ég fékk ekki nóg: ég leitaði uppi myndir af henni, sat dolfallinn yfir eyðileggingunni og horfði. Leitaði mér upplýsinga um það hvaða kraftar væru að verki. Hvað hefði gerst. Svo fékk ég nóg af því. Eflaust var fleirum farið eins og mér, þegar "fréttin" var birt í síðustu viku. Ég hef orðið í gæsalöppum, því í huga mér var ekkert fréttnæmt við þetta myndskeið. Eini tilgangurinn með að sýna það var að leyfa alþjóð að horfa á mann deyja.

Ég var saddur. Ég fann ekkert bærast með mér, ekki óhug, ekki einu sinni samúð með manninum í rauða hringnum. Bara ógleði.
by Hr. Pez

09 janúar 2005


Já það þurfti hvorki meira né minna en starfsmann alþingis til að ráða gátuna: Viskí er dregið af forna skosk-gelíska orðinu "uisge beatha," sem útleggst sem "vatn lífsins," eða "aqua vitae" á latínu. Ákavíti. Eins og það sem kemur til okkar frá Álaborg.

Verðlaunadiskurinn er hvorki meira né minna en Hjörturinn skiptir um dvalarstað, þar sem Rússíbanarnir, Diddú, Jóel Páls, Sigrún Eðvalds og kammerkórinn Vox Academica flytja tónlist Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við ljóð Ísaks Harðarsonar. Þessi diskur er svo sannarlega ekkert slor, enda tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004.

Ef sigurvegarinn er af einhverjum ástæðum ekki sáttur við verðlaunin, þá getur hann skipt honum út fyrir hvað sem er úr eftirfarandi safni:

Where you been með bandarísku gítarrokksveitinni Dinosaur Jr.
Songs of Africa (& other favourites) með suður-afríska piltakórnum Kearsney College Choir (sem vann Ólympíumótið í kórsöng í Brimaborg sumarið 2004, í flutningi á þjóðlegri tónlist).
Engelbert Humperdinck & The Royal Philharmonic Orchestra: Live at The Royal Albert Hall.
Leningrad Cowboys: Live in Prowinzz.
Myndir á sýningu eftir Modest Mussorgsky, í flutningi evrópsku fílharmóníuhljómsveitarinnar.
No turning back með gulldrengnum Páli Rósinkrans.
In Gorbachev we trust með stuðboltunum í The Shamen.
The best of Sixties (það vill segja hljómsveitin, ekki áratugurinn).

Allt klassískir hágæðadiskar líka, eins og gefur að skilja. Hver á sinn hátt. Ég var með tvo diska í viðbót í bakhöndinni, en þeir eiga ekki skilið að vera nefndir í sömu andrá og þeir sem ég rakti hér að ofan.

Svo er ég að hugsa um að veita konu að nafni Erna Erlings aukaverðlaun fyrir besta giskið. Hún getur valið sér disk að eigin vali af listanum að ofan, no strings attached (eða tvo, ef hún vill fórna Hirtinum).

Erna, láttu mig vita, annað hvort í kommentum eða tölvupósti. Hægt er að ná í mig sem hjorvar hjá decode punktur is. Svo sendi ég þetta um hæl.

Ef einhverja fleiri langar í Hjörtinn, þá væri mér sönn ánægja að skaffa hann á mjög góðum kjörum.
by Hr. Pez

07 janúar 2005


(Sennilega er þetta alltof erfitt hjá mér.)

Fólk er greinilega ekki alveg að kveikja á þessu. Svo ég reyni að skýra málið ögn frekar þá eru bæði Álaborg og skosku hálöndin þekkt fyrir eitthvað sem hægt er að lýsa með sama orðinu á ástkæra ylhýra, þótt leiðin að orðinu sé heldur krókóttari frá landi Skota en Jóta (aldrei mun mér gleymast (þótt það sé málinu annars óviðkomandi) að Skoti er eina orðið sem brýtur sk-regluna um stóran og lítinn staf). Og gormurinn sem kom við sögu í athugasemdum gengur víst í daglegu tali fagmanna undir nafninu "ormur."

Eins og áður er getið eru öll hjálpartæki leyfð við úrlausnina, vefræn sem tréræn.

Í boði eru tónlistarverðlaun: Sá sem rambar á svarið getur valið úr fríðum bunka geisladiska sem ég mun þylja yfir viðkomandi eftir að úrslit liggja fyrir.
by Hr. Pez

06 janúar 2005


AFMÆLISGETRAUN!

Ég reif mig upp fyrir allar aldir í morgun (meðan allir aðrir á heimilinu voru enn í fastasvefni) og var kominn í vinnuna rétt upp úr sjö. Og þar var ég búinn að sitja, pikkandi við skjáinn í rúman klukkutíma, þegar ég gerði mér skyndilega grein fyrir því hvaða dagur er í dag. Sjötti janúar. Þrettándinn. Síðasti dagur jóla. Dagurinn sem piparkökuhús æsku minnar voru moluð í smátt og étin.

Ég er orðinn þremur árum betri en þrítugur.

Þegar ég sneri heim aftur um tíuleytið var ég leystur inn með ekki einni gjöf eða tveimur, ekki þremur, heldur fjórum gjöfum frá frú minni og dætrum, takk fyrir. Þar af tveimur sem sú eldri hafði pakkað inn upp á sitt eindæmi. Þarna var bindisnæla fyrir snyrtipinnann í mér, til þokkabótar skreytt í stíl við eyrnalokkana sem við feðginin gáfum frúnni í jólagjöf um daginn. Og þarna var ekki ein og ekki tvær, heldur þrjár bækur, þar af þær tvær sem ég átti eftir að festa mér af topp þrjú óskalistanum fyrir jólin: Sólskinsfólkið eftir Steinar Braga og Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson. Auk þess fékk ég eina bók í viðbót, sem ég læt ekki uppi hver er um sinn, þar sem hún veitti mér hugmynd að getraun í tilefni dagsins (sjá neðst).

Svo var ég að fá böggul að norðan með póstinum (hann kom með afmælið til mín, til mín, til mííín), en ég opna hann ekki fyrr en ég verð kominn heim aftur á eftir. Auk alls þessa ákvað ég að gefa sjálfum mér tónlistargjöf: feitan pakka frá Amazon með My Bloody Valentine, 50ft Wave, The Blue Nile og Brian Wilson. Ég hlakka svo til.

Þá er loksins komið að getrauninni, sem er ekki aðeins haldin í tilefni af afmæli dagsins, heldur einnig fyrir það að í gær voru liðin akkúrat tvö ár síðan ég byrjaði að blogga. Hún er svona:

Hvað á Álaborg hin jóska skylt með skosku hálöndunum?

Spurt er um eitt einasta íslenskt orð, en lausnin telst ekki gild nema rökstuðningur fylgi. Veitt verða annað hvort tónlistar- eða bókaverðlaun (eftir samkomulagi) fyrir rétt svar.

(Sennilega er þetta alltof létt hjá mér.)
by Hr. Pez

05 janúar 2005


Veikindi á heimilinu enn og aftur: báðar stelpurnar heima í dag (bara sú eldri í gær og fyrradag). Það er samt ekki að sjá á þeim; þær kenna sér einskis meins, vill bara svo til að þær eru með 38° hita. Ég var heima með þeim yfir miðjan daginn og fylltist grunsemdum um að hitamælirinn væri eitthvað bilaður - þær voru svo fjallhressar og fínar. Ekki minnkuðu grunsemdirnar þegar hann mældi mig sjálfan með 38.0°C sömuleiðis. Þó sannfærði ég mig fyrir rest um að mælirinn væri réttur og klínískt séð ætti ég að vera veikur, samkvæmt honum.

Svo kom frúin heim og við skiptum: ég fór aftur í vinnuna, og hér er ég nú, fjallhress og fínn. Frúin reyndi að leggja mig í bólið áður en ég fór, en ég streittist við.

Ég kenni mér nefnilega einskis meins, vill bara svo til að ég er með 38° hita. Furðulegt apparat þessi líkami maður.
by Hr. Pez

04 janúar 2005


Noh. Bara snjóflóð hjá frændfólki mínu í Kárdalstungu. Og rafstöðin ónýt.

Rafstöðin stendur niðri í Vaglagili, nokkuð upp með dalnum. Spurning hvort flóðið hafi komið úr austurhlíðinni, eða eitthvað farið af stað í gilinu sjálfu. Ég var oft í sveit í Kárdalstungu sem strákur, part og part úr sumri. Dvaldist þar oft með afa mínum og nafna, einmitt þegar verið var að reisa rafstöðina og leggja stokkana fyrir hana. Og svo var girðingavinna uppi á heiði. Mig minnir að Þolli frændi hafi verið með okkur líka. Eitt skiptið voru bremsurnar farnar úr Landróvernum svo ég varð að hlaupa á undan meðan jeppinn vældi ofan brekkurnar í fyrsta, til að opna afréttarhliðið í hlíðinni ofan við bæinn áður en Landróverinn stímaði á það. Svo varð ég að skottast heim sjálfur, síðasta spölinn.

Gott að enginn var í rafstöðinni þegar hún fór. Sjálft íbúðarhúsið er uppi á tungunni í miðjum dalnum, og jafnlítil hætta á ofanflóði og neðan-, þar sem það stendur.

Við fjölskyldan ætluðum að renna þarna frameftir á suðurleið eitthvert skiptið síðasta sumar, en þá svaraði ekki þegar við hringdum á undan okkur utan úr Húnaþingi. Árið þar áður rúntuðum við Vatnsdalshringinn í sömu erindagjörðum, en þá var heldur enginn heima. Vonandi hittist betur á ef við reynum í þriðja skiptið nú í ár.
by Hr. Pez

03 janúar 2005


Hvað er þetta maður.

Áramótin voru ánægjuleg, og var fagnað með hefðbundnu sniði. Þótt þeim væri fagnað úti á landi (les: Grafarvogi) þá gistum við ekki nema eina nótt í þetta skiptið. Persónulega fannst mér ekki hvað síst gaman að bondast við mág minn yfir konjakki, bjór og kúbönskum vindli fram á fjórða tímann á nýársmorgun. Eftir að allir aðrir voru farnir að sofa og við búnir að fá nóg af Robba Villjamms, þá renndum við okkur í vínýlsafnið og hlustuðum á Blow Monkeys og Style Council. Svo fann ég Giant Steps með Boo Radleys í geisladiskarekkanum og tók af máginum loforð um það að hann skyldi kynna sér það meistaraverk ögn betur þegar af honum rynni.

Jól og áramót annars tíðindalítil. Tölvert spilað í Vættaborgunum yfir hátíðirnar.

Heitstrengingar síðustu áramóta tókust alveg sæmilega, annað árið í röð. Svo ég prófa þetta einu sinni enn. En læt ekkert uppi - þetta er bara fyrir sjálfan mig.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com