<$BlogRSDUrl$>

29 desember 2004


Jæja, þetta fer að verða ágætt.

Þótt jólahelgin sé liðin og minn búinn að vera í vinnunni á þriðja dag þá eru samt ennþá jólin. Við fjölskyldan förum í einkusslags jólaboð upp úr fjögur, hjá Ellu frænku minni, og upp úr klukkan sex höldum við þaðan á jólaskautaball fyrirtækisins, með jólasveinum og jólapizzuveislu.

Aðfangadagskvöld var ágætt. Ég eignaðist bæði rauðvínskaröflu og Heimkomu hilmis. Kvöldið var þó fyrst og fremst sönnun þess að fjölskyldumeðlimir okkar frúrinnar reka fæstir inn nefið á þetta setur hérna, enda fengum við bæði Leysingja sakanna og Óvissa tíma dauðans í jólagjöf. Við erum búin að skipta leysingjunum út fyrir Kleifarvatn. En kannski gefum við honum Þráni breik. Auk þessa fengum við Belladonna-skjalið.

Ég fékk líka Bítlaávarpið og Svartur á leik, sem ég er einmitt að lesa núna. Hún er öðruvísi en fyrri verk höfundar. Ég er enn sem komið er beggja blands í áliti mínu á því hvernig til tókst. Ég er þó ekki nema tæplega hálfnaður og fráleitt búinn að fullmóta mér skoðun ennþá.

Fyrst og fremst var þetta náttúrulega hátíð barnanna. Á tengdaheimilinu ríkir sá sérstæði siður að lesa jólakortin á undan því að gjafirnar eru opnaðar. "Á mínu æskuheimili tíðkaðist að börnin væru pyntuð með glóandi töngum," sagði ég ekki við tengdapabba. Ekki frekar en áður. En Hrefna blessunin stóð sig eins og hetja. Sú litla var ekki alveg með á nótunum framan af, en hún var fljót á bragðið sýndist mér. Ég var nýbúinn að plægja í gegnum kortabunkann og enn með borðið fullt af óopnuðum gjöfum fyrir framan mig þegar allt var horfið undan trénu og stelpurnar farnar að rífast um járnbrautarlestarnar og pleimódótið sín á milli.

Sumsé, eins og áður var getið eyddum við jólunum með tengdaforeldrum mínum. Og eins og skyldan býður þegar haldið er út á land (les: í Grafarvog) þá fer maður ekki þangað fyrir minna en að gista í tvær nætur. Kötturinn var enn á lífi þegar við komum heim, þótt hún væri greinilega fyrir nokkru búin með allan þurrmat, vatn og jólatúnfiskinn sem við skildum eftir handa henni á aðfangadag.

Og þá er farið að styttast í áramótin.
by Hr. Pez

23 desember 2004


Það lá við hreinræktuðum Þorláksmessupanikk þegar ég frétti um kaffileytið í gær að höfuð fyrirtækisins er búið að leggja blátt bann við því að skata verði nokkru sinni framar elduð í sínum húsum á Þollák. Skyndilega stóð ég uppi án hinnar ómissandi opnunar á jólahátíðinni. En svo reddaðist það sosum: ég bjallaði í mág minn, sem ætlar að grípa mig með sér í skötuveislu í miðbænum undir hádegið.

Svo koma jólin bara á morgun maður. Vá.

Ég vil óska öllum þeim sem þekkja mig (þótt ekki sé nema á tölvuöld) gleðilegrar hátíðar. Ég mun eflaust færa eitthvað inn í næstu viku, svo ég dreg árnaðaróskirnar eitthvað ögn lengur.

Ég ætla núna að fremja mikla höfuðsynd, nefnilega að snúa aftur með gamalt efni - jólaleikrit sem ég samdi í upphafi árs og birti hér þá. Til réttlætingar hef ég tvennt: Þá voru nú ekki jólin, auk þess sem einhverjir eiga eflaust eftir að sjá þetta - gestahópurinn er eitthvað örlítið stærri í dag en í gær.

Svo með jólakveðjum kemur hér önnur prentun af jólaleikritinu, sem áður var nafnlaust, en hefur nú hlotið titilinn:

"JÓLANNA ÓVISSI TÍMI"

Maður: Heyrðu elskan, við verðum að fara með strákinn til læknis eins og skot.
Kona: Nú, hvað kom fyrir?
M: Æ hann stakk sig víst á notaðri sprautunál.
K: Nú?! Hvar komst hann í svoleiðis?
M: Nú bara hérna inni á stofugólfi; hún var undir jólatrénu.
K: Æ bévað vesen. Mér datt í hug að svona myndi fara þegar við keyptum þetta asskollans jólatré.
M: Já, ég veit. Það er verst með þetta eiturlyfjagreni hvað því helst illa á nálunum.
K: Jamm. Við skulum muna það næst að halda okkur bara við furuna.

TJALDIÐ
by Hr. Pez

22 desember 2004


Kannske hef ég bara svona saurugan hugsunarhátt. En úðen tvívl finnst mér þetta vera erótískasta bókarkápan fyrir þessi jól. Ég geri mér ljóst að þetta á vísast að vera táknmynd fyrir baráttuna fyrir lífinu, eitthvað svoleiðis. Og er það raunar, hreint býsna vel lukkuð. En samt fer ég alltaf að hugsa eitthvað dónalegt þegar ég sé hana.

Bókin sjálf? Eflaust allrar athygli verð. En sem stendur er alltof margt annað með hærri forgang á náttborðið mitt.
by Hr. Pez

21 desember 2004


Mér er minnisstætt viðtal við Nick Cave sem ég las einu sinni í tónlistartímariti. Þar var hann m.a. spurður út í það hvernig á því stæði að þótt hann hefði marga fjöruna sopið í viðskiptum sínum við og með fíkniefni, þá hefði hann aldrei tjáð sig um reynslu sína eftir að hann "hætti í ruglinu." Hvernig á því stæði að hann, sem uppþurrkaður djönkí úr "harðri neyslu" hefði aldrei lagt sinn túkall á vogarskálarnar í stríðinu við eiturlyfjadjöfulinn.

Hann svaraði eitthvað í þá veruna að ástæða þess að hann þegði væri sú að hann hefði sosum ekki mikið neikvætt um reynslu sína af eiturlyfjum að segja. Hann hefði lengstaf skemmt sér ljómandi vel í ruglinu en svo hefði bara komið að þeim tímapunkti þegar hann varð að hætta þessari vitleysu. En fyrst þú spurðir, þá verð ég bara að segja alveg eins og er: ég hafði mjög gaman af því að dópa, sagði hann. Fyrir mitt leyti. Ekki ætla ég að fara að ljúga að þér.

Og hví færir undirritaður þetta í tal? Jú, nú er víst verið að dissa dúlluna hann Robba minn Vilhjálms fyrir að láta út úr sér eitthvað svipað. Og það þótt hann reyni að tína til neikvæðu hliðarnar fyrir sitt leyti og vari fólk við því að gjálífið fari illa með línurnar.

Ekki það að mér sé ekki sama. Þetta votviðri úr vatnsglasinu á eflaust eftir að hrökkva af honum eins og vatn af gæs. En finnst fólki kannski í alvörunni að þeir einir megi tjá sig opinberlega um fíkniefni sem finni þeim allt til foráttu?

Það er til fólk sem hefur ekki svo neikvæða reynslu af fíkniefnum. Hvað á það að gera þegar á það er gengið? Ljúga?

Gett óver itt: Ef pöpullinn vill ekki fá heiðarleg svör þá á hann ekkert með það að spyrja.
by Hr. Pez

20 desember 2004


Tröll hirði allt jólastress.

Við gerðum hreint hátt og lágt í gær. Skrifuðum síðustu jólakortin í gærkvöldi (fyrir utan kannski eitt eða tvö). Jólatré höggvið uppi í Hvalfirði á laugardaginn var, sem bíður nú úti á palli eftir að vera dregið inn á Þollák. Allar jólagjafir löngu komnar á þurrt (eða það er allavega flokkslínan). Ég er búinn að skrifa upp innkaupalistann fyrir saltfiskveisluna á Þorláksmessukvöld.

Við höfum skapað okkur þá hefð að bjóða tengdafjölskyldunni í mat á Þorláksmessukvöld. Ég elda saltfisk og gellur (þau stræka því miður á skötuna). Þó er möguleiki í stöðunni að núna skipti ég gellunum út fyrir eitthvað annað. Ef einhver á skemmtilega og framandi fiskiuppskrift sem hægt er að hafa í forrétt á undan saltfiski má láta mig vita. Tengdaslektið er opið fyrir öllu nema skötu.

Ég hef litlar áhyggjur: Skötuna fæ ég í vinnunni. Nema öllum verði gefið frí á Þollák vegna þess hvað jólahelgin er ónýt. Það er ólíklegt, en þó ekki alveg útilokað. Og þá verður tekist á við það er þar að kemur.

Sko mig: ég hef meiri áhyggjur af Þorláksmessu en jólunum sjálfum. Hátíð út af fyrir sig.

Þorláksmessustress, anyone?
by Hr. Pez

17 desember 2004


Hér er ballöðutexti úr handraðanum (syngist við On Top of Old Smokey):

Á alhvítri Esju
ég ást mína leit.
Hún elskar mig ekki
því eg er úr sveit.

Ég þetta ei þoli.
Ó! Þrá mín er slík.
Hún syrgir mig sárt er
þeir slæða mitt lík.

*) Þetta er frá dögum mínum í Barbershop-kvintettinum "Út af laginu." Við áttum nótur að "Fram í heiðanna ró" úr syrpu með tveimur öðrum C&W stöndurdum, Gömlu Reykjarhyrnu og einu öðru sem ég er búinn að gleyma. Okkur langaði að geta sungið syrpuna alla á íslensku, en þýðingar mínar á henni náðu aldrei lengra en þetta - þá var sjálfhætt. Fyrir kvintettinn voru samdir tveir ágætir textar sem sungnir voru opinberlega, við góðan orðstír (orðstí?): "Aldrei grýta hnífum í þá gömlu" (Gunnar Jakob Briem) og "Ástin fyrir sínum sér" (Undirritaður/GJB).
by Hr. Pez

16 desember 2004


Ég er búinn að bæta nokkrum hlekkjum í keðjugengið - fólki sem ég þekki mismikið (og jafnvel ekki neitt) en hef gaman af að tékka á annað veifið. Einnig ákvað ég að bæta loks við vísindaflokki í tenglasafnið - svo ég gæti alls samræmis milli minna daglegu áhugamála. Ágætt að gera þetta núna, fyrst New Scientist var að taka upp nýtt útlit (sem ég er reyndar ekki alveg búinn að taka í sátt ennþá).
by Hr. Pez

14 desember 2004


Ég sé út um gluggann þar sem ég horfi yfir skálana við Reykjavíkurflugvöll að þar stendur rella með einkennisstafina TF-BEZ. Það þykir mér svalt nafn á flugvél.
by Hr. Pez

13 desember 2004


Una dóttir mín datt niður stigann í gær. Ofan af efri hæð. Niður allar tólf tröppurnar. Alla leið.

Plink. Plonk. Plank.

Ég hef aldrei fengið jafnmikið áfall nokkru sinni á ævinni.

Ég var að klára að klæða hana Unu (17 mán) í náttfötin inni í stelpnaherbergi (þær byrjuðu að sofa saman í herbergi fyrir uþb viku síðan). Konan mín var niðri í eldhúsi að vaska upp eftir kvöldmatinn. Hrefna (4) kom upp stigann þegar jóladagatalið var búið í sjónvarpinu til að fara á klósettið. Hún opnaði hliðið fyrir stiganum, kom upp á skörina og lokaði því aftur á eftir sér. Krækti hakinu. Þegar ég var búinn að klæða Unu í náttfötin setti ég hana á gólfið og fór inn á baðherbergi til móts við næsta kvöldverk. Eins og svo oft áður. Í því sem ég bý mig undir það ("jæja ertu búin?") heyri ég skarkala utan af gangi.

Ég gægist fram og sé að Una hefur náð að lyfta króknum úr hakinu og vegur salt á loftskörinni. Hún styður sig óstyrkri hendi við hliðið sem löturhægt lætur undan og sveiflast út yfir stigann.

Ég hleyp til og öskra þegar ég sé hana steypast fram af. Hún veltur niður fjórar tröppur og rekst utan í blómapottinn með júkkunni (Yucca elephantipes) sem hefur smátt og smátt verið að veslast upp hjá okkur síðustu árin. Í smástund vona ég að það dugi til að stöðva fallið. Ég er fyrir miðjum stigaganginum og fórna höndum þegar ég sé að potturinn veltur af stað undan henni. Ég öskra aftur. Mold flæðir niður eftir öllu. Una heldur áfram að taka kollhnísa niður tröppurnar.

Plink. Plonk. Plank.

Það flæðir mold út um allt og dóttir mín veltur niður síðustu tröppurnar í faðmlögum við júkkuna. Tilsýndar er hún ekki nema aflvana tuskudúkka í klóm þyngdaraflsins.

Plink. Plonk. Plank.

Svo staðnæmist hún á stigapallinum fyrir neðan og liggur þar á grúfu, þögul og kyrr. Ég er kominn í efstu tröppurnar og öskra í þriðja skipti. Ég sé konuna mína koma hlaupandi utan úr eldhúsi og þrífa hreyfingarlausan búkinn upp í fang sér.

Þá byrjar stelpan að gráta. Aldrei nokkru sinni hef ég verið jafnfeginn að heyra barnsgrát.

Konan mín sest með stelpuna í stofusófann. Hún er útötuð í mold og volar með skeifu á munni og tár í augum. Það sést strax í þessum augum að hún er ómeidd - ótrúlegt en satt. Þetta er sami svipur og kemur á hana þegar hún dettur á rassinn við að príla upp á stól.

Ég veð moldina upp stigann aftur. Sú eldri situr enn á klósettinu: "búin." Ég segi henni hvað gerðist, reyni að vera eins yfirvegaður í rómnum og ég get, en hendurnar skjálfa meðan þær skeina. "Ja þetta var nú meira ævintýrið," leggur hún til málanna. Ég tek undir.

Svo koma þrif og skipti á náttfötum. Háttatími. Júkkan fer í ruslið. Ég lít til með stelpunni inni í rúmi annað veifið, allt þar til við hjónin skríðum sjálf í kojs seinna um kvöldið.

Hún svaf svo vært.
Það sem hún svaf vært.
by Hr. Pez

10 desember 2004


Hvað langar mig í í jólagjöf?

Það er nú sitthvað. Snyrtipinnalegar og metrósexúal flíkur koma alltaf til greina - sérstaklega ef það tengist bindismenningu. Ég sýti mjög að eiga ekki rauðvínskaröflu sem passar við kjallarann minn. Þetta er það sem ég man eftir úr lífstíls-geiranum.

Í skemmtunar-geiranum er útvíkkaði og óútkomni DVD-diskurinn með Hilmir snýr heim efst á blaði. En ég held ég þurfi nú ekki að hafa miklar áhyggjur af að missa af honum. Tveir geisladiskar koma strax upp í hugann: High með The Blue Nile og Smile með Brian Wilson. Og Popppunktsspilið - að sjálfsögðu. Svo gæti reyndar farið að við hjónin gæfum okkur sjálfum það í jólagjöf.

Þá eru það bækurnar. Púff. Þar er af nógu að taka.

Ég bókstaflega verð að eignast Sólskinsfólkið Steinars Braga og Svartur á leik eftir Stefán Mána. Einnig er ég mjög spenntur fyrir Samkvæmisleikjum Braga Ólafssonar. Þetta er topp þrjú listinn þessi jólin.

Listinn yfir þá sem koma þar á eftir er skelfilega langur, ég mun aldrei komast yfir að lesa allt sem mig langar: Baróninn (Þórarinn Eldjárn), Bátur með segli og allt (Gerður Kristný - ég las fyrsta kaflann um daginn og hann kom mér ánægjulega á óvart), Fífl dagsins (Þorsteinn Guðmundsson), Fólkið í kjallaranum (Auður Jónsdóttir), Hugsjónadruslan (Eiríkur Örn Norðdahl), Kleifarvatn (Arnaldur), Níu þjófalyklar (Hermann Stefánsson), Vélar tímans (Pétur Gunnarsson), Ástarflótti (Bernhard Schlink), Barnið og tíminn (Ian McEwan), Ég er ekki hræddur (Niccoló Ammaniti - ef ekki bókin, þá sé ég vonandi myndina einhvern tíma), Sendiferðin (Carver), Snjórinn í Kilmanjaro (Hemingway), Eftirmál (Freyr & Njörður), Hvar frómur flækist (Einar Kára), Mynd af ósýnilegum manni (Auster).

Vitaskuld eru líka margar sem ég er ekkert yfir mig spenntur fyrir. Kannski ég tíni sérstaklega til þær sem hvað hæst ber í flóðsumfjölluninni: Bítlaávarpið (aðallega fyrir það hve illa lesinn ég er í Sundabókunum hans Einars Más), Karitas án titils (veit ekki akkurju - ég hef annars haft gaman af Kristínu Marju Baldursdóttur), Ellefu mínútur (ekki enn byrjaður á Alkemistanum), Malarinn sem spangólaði (liggur ekkert á - get beðið eftir kiljunni), Múrinn í Kína (eins og mér líkaði vel við Góða Íslendinga þá kveikir þessi merkilega lítið í mér, þrátt fyrir fína dóma), Barn að eilífu (bara... ekki fyrir mig. Hvað sem hver segir. Ókei?), Halldór Laxness, Ólöf eskimói. Ég myndi biðja um Blíðfinnsbókina, ef ég ætti ekki enn eftir að lesa þá næstu á undan. Við hjónin kaupum okkur sennilega kiljurnar einhvern tíma.

Kannski skjátlast mér - mér gætu þótt þetta frábærar bækur ef ég tæki þær upp og læsi. En. Hver sá sem á hinn bóginn gefur mér einhverja af eftirtöldum bókum á yfir höfði sér eilífa bannfæringu mína, og ef ekki vinslit, þá í það minnsta að ég lesi rækilega yfir hausamótum viðkomandi, hvað sem líður öllum góðum vilja og þeim hug sem liggur að baki:

Dauðans óvissi tími eftir Þráin Bertelsson,
Sakleysingjarnir eftir Ólaf Jóhann Ólafsson,
Kiljan eftir Hannes Hólmsteinn Gissurarson (ekki einusinni uppá djókið),
Queer Eye for the Straight Guy bókin.

Svo má geta þess að ég er nú þegar búinn að festa mér Tvisvar á ævinni eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, Smáglæpi og morð, sögur úr glæpasagnakeppni Grandrokks og hins íslenska glæpafélags, Geðbilun í ættinni og fleiri sögur eftir William Saroyan, og Heimsmetabók Guinness 2004 (ekki spyrja!).

Auk alls þessa, þá langar trúarritafíkilinn í mér einhvern tíma, eins og áður, til að komast yfir Tómasarguðspjall, Apókrýfu bækur Gamla Testamentisins og Kóraninn. En það liggur ekkert á, þar sem ég er enn stökk í spámönnum Gamla Testamentisins hvað varðar þá deildina.

Svo væru fleiri klukkustundir í sólarhringinn (og dagar í vikuna) líka sérdeilis vel þegnar, svo maður komist einhvern tíma yfir að lesa allt það sem mann langar til.

Eins og sést, þá er úr nógu að velja.
by Hr. Pez

09 desember 2004


Það er svo margt sem hryggir mig. Ekki sýknt og heilagt, en þó alltaf endrum og sinnum. Og svo sorglega oft það sama aftur og aftur.

Til dæmis:

Það er svo mikið af stefnulausri reiði í kringum okkur. Unglingsstúlkur leggja hver aðra hnífi í húsasundum. Miðaldra menn eru barðir til óbóta á sunnudagsgöngu í garðinum.

En þessi stefnulausa reiði er ekki bara eitthvað sem er allt í kringum okkur. Hún er líka inni í okkur sjálfum.

Fyrirtækjaforkólfar skammta sjálfum sér nokkurhundruð millur í kaupauka, og ráðamenn landsins fá sauðsvartan almúgann með sér í innblásið Júdasaröskur til að fæla þá ofan af því. Þeir hinir sömu ráðamenn eru varla búnir að snúa sér við í skotgröfinni þegar þeir snuða öryrkja þess hins sama lands um nokkurhundruð millur og skammta sjálfum sér í lífeyrisauka, og sauðsvartur almúginn rís upp á afturlappirnar í reiði sinni yfir hrokanum í þeirri valdastétt sem alltaf þykist öllu ráða. Eitthvað verði að gera.

Einu sinni sem oftar.

Eiturlyfjakaupmaður limlestir laganna vörð í æsispennandi bílaeltingaleik um höfuðborg óttans svo slegið er upp með stríðsletri og upphrópunarmerkjum. Fólk stingur saman nefjum og hneykslast yfir ástandinu í þjóðfélaginu í dag, hvað sé orðið okkar starf í sexhundruð sumur og hversu skelfilega vægt sé tekið á ofbeldisseggjum og sölumönnum dauðans í íslenska refsikerfinu. Eitthvað þurfi til bragðs að taka.

Einu sinni sem oftar.

Tíminn líður um sinn og sami maður - orðinn vitstola á vegferð sinni - vegur annan ógæfunnar son sem fylgt hefur svipuðum sorgarferli allt til endaloka í kvistherbergi við Klapparstíginn. Fólk er slegið yfir ótíðindunum, en lætur sér að mestu fátt um finnast og hlakkar létt í barminn yfir því að tveimur illfyglum sé færra á götum Reykjavíkur, annað hrokkið uppaf og hitt komið bakvið lás og slá. Farið hafi fé betra. Við það situr um sinn uns ungur bróðir ritar ofurlítinn og hjartnæman pistil um orðna atburði frá sjónarhóli aðstandanda, góðan pistil og þarfan, sem vekur til umhugsunar um manneskjurnar að baki þeim fréttum sem við rífum í okkur ristaðar með morgunkaffinu. Um það hvernig hliðarnar á hverju máli eru oftar en ekki fleiri en ein, og fleiri en tvær. Þá gerast þau undur og stórmerki að pöpullinn klökknar, reytir klæði sín, hár og skegg og hrópar froðufellandi af geðshræringum með tár í augum að það verði að bæta úr málefnum geðsjúkra og annarra þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það verði að gera eitthvað í þessum málum.

Einu sinni sem oftar.

Og það er sama hvert hitamál dagsins er. Mánuðir líða. Þess vegna ekki nema vikur. Jafnvel dagar.

Og loks er eins og ekkert hafi gerst.

Hver sem augu hefur, hann sjái, að téðum aðstandanda var eiður sær með skrifum sínum. Hann vildi vel. Og gerði vel. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Til viðbótar þeim sem að ofan var getið voru einnig nokkrir (en allnokkru færri) sem settu út á skrifin - fannst þau ómerkileg, ómakleg, óekta. Og fengu fyrir vikið yfir sig holskeflu svara frá fólki sem úthúðaði þeim, kallaði þá óþroskaða og tilfinningadofna, fannst skrif þeirra fyllt öfundsýki og yfirhöfuð ómerkileg, ómakleg, óekta.

Öll þessi stefnulausa reiði.

Ég get ekki að því gert, en mér finnst merkasta hliðin á þessari grein sem toggipop reit fyrir réttu ári ekki vera það hversu góður penni hann er (þótt hann sé það) eða hvað hann er mikil hetja (sem ég get sosum skilið að fólk kalli hann) eða úrræðaleysið í umönnun geðfatlaðra einstaklinga í þjóðfélaginu í dag (sem er eflaust ekki í nógu góðu ástandi, en þó ábyggilega miklum mun skárri en hún hefur lengst af verið).

Nei.

Það sem mér fannst merkilegast við þessa grein sýndist mér fara mestan part fyrir ofan garð og neðan hjá þjóðinni.

Það sem þessi pistill minnti mig hvað harðast á er hversu þarft okkur það er að rækta með okkur kærleika og skilning í garð náungans.

Já ekkert svona. Ég veit að þetta er nánast orðrétt upp úr Guðspjöllunum. En það er samt satt.

Einhverjum finnst eflaust að það sé hallærislega gærdagslegt að vera ennþá að velta sér upp úr þessum málum öllum. En er það ekki einmitt kjarni málsins? Á þessu ári sem liðið er síðan umrædd grein birtist á internetinu hefur smám saman fennt í sporin; þjóðin sem klökknaði í myrkrum síðasta desembers bauð heim nýju ári og fagnaði svo sumri með hækkandi sól og hjá henni komu brátt tímar til að snúa sér að gleðilegri og persónulegri viðfangsefnum. En leitinni að næsta sorglega máli sem hægt var að fella tár yfir við tölvu- eða sjónvarpsskjáinn (eða yfir blaðinu með morgunkaffinu) lauk ekki nema tímabundið:

Þjóðin er harmi slegin þegar ógæfusöm móðir myrðir barn sitt í sturlan og annað sleppur með naumindum.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin hneykslast þegar alræmdum flokksgæðingi er skipað á bekk í æðsta dómsvaldi Íslands, og þykir gróflega vegið að þrískiptingu ríkisvaldsins.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin logar af hneykslan þegar sannaður heimilisofbeldisseggur valsar út úr réttarsal án þess að refsing sé honum ákveðin.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin lætur af hendi rakna tár í kjöltu krabbameinssjúkra barna þegar fallin vonarsöngstjarna játar án skömmustu að hafa þegið dágóða summu til að troða upp í þeirra nafni.

Tár í þágu góðs málefnis.

Og loks er eins og ekkert hafi gerst.

Öll þessi stefnulausa reiði.

Hustler kemur bara einu sinni í mánuði (Ó! Dagar!). En Fólk með Sirrý kemur í heimsókn í stofuna á hverju miðvikudagskvöldi. Og DV er hægt að gleypa í sig hvern einasta morgun með kaffinu.

Og í sjálfu sér er ekkert að því. Fólk hefur sinn óskoraða rétt til að láta klæmast á tilfinningum sínum - rétt eins og kynhvötinni - svo lengi sem það langar til og engin lög eru brotin við framleiðsluna. En mikið væri nú indælt, þegar fólk er búið að fylgja sinni tilfinningalegu fróun til fullnægingar, ef það gæti þá numið staðar og leitt aðeins hugann að náunga sínum á bakvið fréttina, hvort sem það er harmi slegin móðir, hlunnfarinn húseigandi, eða jafnvel dæmdur ofbeldisseggur. Sölumaður dauðans.

Síðast en ekki síst gæti fólk svo athugað hvort ekki sé allt gott að frétta af þeim sem standa því nær. Heyrðu, ég sting hérmeð uppá að þú gerir það sem snöggvast. Hafðu samband við einhvern sem þú hefur ekki frétt af alltof lengi. Vittu hvort ekki sé hægt að fá ágætan klímax út úr því að finna til með þeim sem þér þykir vænt um. Sjálfs er höndin hollust.
by Hr. Pez

08 desember 2004


Ég blaðaði í gegnum Bókatíðindi 2004 um daginn og tók eftir dálitlu merkilegu þegar ég renndi augunum yfir þýddu skáldverkin, og þá sérstaklega það sem mætti kalla "sagnfræðilegar spennubækur." Lítum aðeins á nokkra þýdda titla sem koma út fyrir þessi jól:

Belladonnaskjalið.
Da Vinci lykillinn.
Danteklúbburinn.
Bulgari-sambandið (þessi er reyndar af allt öðrum toga en hinar, en vonandi gefur auga leið af hverju hún er nefnd með þeim).

Fyrir ári kom út bók í sama geira sem hét Dumasarfélagið.

Hummm. Er ekki eitthvað mynstur í gangi hérna? Er kannski lykillinn að því að ná blokkböster-upplagi á harðspjaldareyfurum í dag ekki flóknari en að velja rétta nafnið? Formúlan virðist einföld:

1) Fyrri hluti titils þarf að vera mátulega obskúr en þó spennandi nafn, helst úr mannkynssögunni.
2) Seinni hluti titils þarf helst að vísa til einhvers lags leyndardóms, launhelgar eða lokaðs félagsskapar.
3) Ákveðinn greinir eintölu er abbsolútt möst.

Ég ætti kannski að drífa í að festa mér réttinn til að þýða þá ágætu bók, Kalkútta-litninginn? Er fræðilegur séns að það gæti klikkað?

Svo er varla langt í að íslenskir höfundar fari að gefa út íslensk skáldverk sem falla að módelinu. Nei heyrðu, Viktor Arnar Ingólfsson er meir að segja löngu búinn að skrifa Flateyjargátuna, þá ágætu bók: Flís við rass.

En hvað fleira? Hvaða leyndardómar bíða þess að íslenskir skáldsagnahöfundar reyni sig við formúluna?

Reykholts-handritið?
Laxness-mafían?
Reykjavíkur-súlan?
Egils-silfrið?
Hriflu-heilkennið?

Tímaspursmál. Bara tímaspursmál.

Næst er það svo bara jólahugvekjan, ef því nafni má kalla. Hún birtist á morgun, eins og lofað var.
by Hr. Pez

07 desember 2004


Ég var að koma af mjög mikilvægum fundi. Og ég held að hann hafi bara gengið ágætlega. Og nú minnist ég ekki orði á það frekar, nema mig langi til.

Annars má nefna að kórinn minn mun syngja sína árlegu jólasöngva á laugardaginn kemur, 11. desember klukkan fimm, í Háteigskirkju. Þetta verður hefðbundið og hátíðlegt, en þó afslappað prógramm. Hinn sanni andi jólanna í fyrirrúmi. Þúsundkall í forsölu.

Sú yngri kvaddi dagmömmuna í síðasta sinn í gær. Nú er hún komin í nánast fulla vistun á leikskóla með stóru systur, og gengur vonum framar.

Að lokum vil ég benda á að þríleikur Roberts Antons Wilsonar um kött Schrödingers er besta bók í heimi af þeim sem ekki er venjan að tína til þegar taldar eru upp bestu bækur í heimi. Ég las hana fyrst fyrir um það bil tíu árum, og segi fullum fetum:

Þetta er bókin sem breytti lífi mínu.

Ég er að rifja hana upp núna, og nýt hennar jafnvel enn betur en í fyrra skiptið.
by Hr. Pez

03 desember 2004


Ég vil taka fram að mér finnst Chris Cooper alveg hreint ágætur leikari. Ekkert út af neinu sérstöku, nema kannski af því að ég hlakka til að sjá hann emúlera Döbbía í Silfurborg, nýjustu mynd John Sayles, og víst ágætlega lukkaðri. Verkum Sayles kynntist ég fyrst er ég sá Einstirnið fyrir allnokkrum árum. Sú hefur æ síðan verið í hópi minna uppáhalds, og ég hef gripið hvert tækifæri í boði til að sjá hana aftur. Annars hef ég séð færri myndir eftir kauða en mig hefur langað. Ég sá Limbó einhvern tíma fyrir margt löngu, og þótti ágæt. Töff endir.

Sveimérþá ef það er bara ekki upptalið.

Svo á ég enn eftir að komast yfir DVD-ið með sjónvarpsþáttunum Limbó. En það er nú önnur saga.
by Hr. Pez

02 desember 2004


Synd að hafa misst af honum Kidda Konn í Kastljósinu í gærkveldi. Það virðist sem þetta hafi verið heljarinnar mikil skemmtun og stjörnuhrap ársins. En stelpurnar mínar urðu jú að fá að horfa á jóladagatalið á Stöð 2.

Og eins og það væri ekki nóg að missa af Kristjáni, þá missti ég líka af frumraun Læðunnar í Íslandi í dag. Ég hef ekki séð nokkurn mann minnast á það einu orði hvernig gekk, sem getur varla þýtt annað en það að hún hafi staðið sig með stakri prýði. Eins og við var að búast.

Svo ætla ég að tilkynna hér og nú að eftir rétta viku mun ég planta hérna stærri færslu en gengur og gerist á þessum vettvangi (bæði í orðafjölda og inntaki). Þetta verða þankar sem hafa verið að brjótast um í mér allt frá upphafi árs. Það má kannski líta á það sem einhvers konar jólahugvekju.

Meira um það síðar.
by Hr. Pez

01 desember 2004


Sit hér í vinnunni og gæði mér á leifunum af Fullveldiskökunni sem étin var á deildarfundi, í tilefni af því að "today marks the 86th anniversary of Iceland breaking away from the Evil Tyranny of the Danes," eins og það var orðað í fundarboðinu. Deildarstjórinn stakk uppá að við fórnuðum Dana í tilefni dagsins, og hlaut góðar undirtektir. Allavega betri en þær sem komu við hugmynd klóks óvildarmanns míns að ég syngi íslenska þjóðsönginn undir borðum fyrir vinnufélagana.

Annað í fréttum er helst að sú yngri hóf aðlögun á leikskóla í dag, og gekk ágætlega, að mér skilst.

Já og kakan bragðast alveghreint ágætlega, takk fyrir. Þjóðlegt bragð í hverjum bita.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com