<$BlogRSDUrl$>

30 nóvember 2004


Sit hér heima yfir veikri dóttur minni (nja eða svona: hún er reyndar öll að koma til) og pikka sitthvað fyrir sjálfan mig og horfi á Robbie Williams í imbanum með öðru auganu. Og ég átta mig skyndilega á því að Robbi strákurinn á sér íslenskan tvífara í rithöfundinum Stefáni Mána. Af hverju hef ég aldrei tekið eftir þessu áður? Eða nokkur annar, ef út í það er farið?

Aldrei hef ég getað látið hann Robba fara í taugarnar á mér - eins og það leynir sér lítt að hann er algjör durgur þá er það bara einhvern veginn alltof krúttlegt eins og hann gerir það. En mikið lifandis skelfingar ósköp misþyrmdi hann Freedom illilega þarna um árið.

Eitthvað um heimsmálin og ástandið í þjóðfélaginu í dag? Hneih. Hverjum er ekki sama.
by Hr. Pez

29 nóvember 2004


Fín helgi. Á föstudagskvöldinu fór ég á uppskeruhátíð hjá Eddu útgáfu. Ég held ég sleppi að fara nánar út í það neimdroppóverkill dauðans - þar voru margir.

Á laugardagskvöldinu fengum við Magnús Teits og Einar Hafberg í kvöldmat og víðgesjón. Myndir af mannfagnaðinum má sjá á nýlegri bloggsíðu Magnúsar, sem virðist ætla að sýna miklu meira líf og fjör í raunnefnisbloggi sínu en dul-.

Talandi um. Ég var afar hrifinn af því múvi hjá kauða, og velti um stund fyrir mér að gera eitthvað svipað. En ætli það - það vita allir hver ég er hvort sem er. Og hjorvar.blogspot.com er upptekið.
by Hr. Pez

26 nóvember 2004


Ekki hef ég látið mikið eftir mér hafa þessa vikuna. Og verður svo að vera.

Upplesturinn í gærkveldi gekk ágætlega. Frúin var búin að vinna vonum fyrr svo ég missti ekki af neinu, sá meir að segja Arnald Indriða stíga fyrstan á stokk í eina upplestrinum sem hann veitir þessa vertíðina. Stefán Máni mætti þótt hann væri með flensu og stoppaði stutt. Við náðum þó að heilsast með virktum, for óld tæms seik. Lesturinn hans var stórskemmtilegur og lofar góðu fyrir bókina. Svartur á leik og Sólskinsfólkið eru efst á óskalistanum fyrir þessi jólin.

Talandi um það já. ég verð að skella hingað inn óskalista einhvern tíma í tæka tíð. Hvers ég óska. Og ekki síður, hvers ég óska ekki.

Bjössi Tóroddsen og band léku undir lestrinum. Ég bað þá um að spila eitthvað lágstemmt og módalt, því meira atónal, því betra. Þeir stóðu undir því. Þetta var tóm sýra hjá þeim strákunum. Sem hæfði lesefninu.

Annars fer þetta að verða ágætt. Ég er á leið á mannamót að nettvörka við kreðsuna.
by Hr. Pez

24 nóvember 2004


Ég var að fá í hendur höfundareintökin mín af Smáglæpum og morðum. Ef veitt yrðu verðlaun fyrir ljótustu bókarkápu jólavertíðarinnar þá myndi hún sko vinna það leikandi. Sem er við hæfi: Þetta eru reyfarar og eiga það skilið að vera búnir í pappírsmassalegan búning. Aðrar sögur en mína eigin hef ég ekki getað lesið ennþá. Geri fastlega ráð fyrir að hefja lesturinn í kvöld.

Svo er ég víst að fara að lesa upp á Grandrokk á morgun:

Árlegur upplestur Hins íslenska glæpafélags verður haldinn á Grand rokk við Smiðjustíg fimmtudaginn 25. nóv. kl. 21.00. Að vanda mun fjöldi höfunda lesa upp, djasshljómsveit Björns Thoroddsen mun spila á undan, undir og á eftir upplestri. Og boðið verður upp á fjölbreyttar veitingar í anda glæpasagna.

Höfundar sem lesa: Arnaldur Indriðason, Hjörvar Pétursson, Jón Hallur Stefánsson, Liza Marklund (þýðing), Michael Connelly (þýðing), Ragnheiður Gestsdóttir, Sigurður Sigurðarson, Stefán Máni, Þráinn Bertelsson.


Ég er bara dálítið upp með mér að vera að fara lesa upp með mikilmennunum Arnaldi og Stefáni Mána. Allir aðrir lesarar, utan einn, eru svo annaðhvort þýðendur eða meðhöfundar í úrvalsbókinni.

Dissið er ekkert alltof áberandi, er það nokkuð?
by Hr. Pez

22 nóvember 2004


Hvar voru þessir gaurar eiginlega fyrir þremur vikum?
by Hr. Pez

19 nóvember 2004


Mig langar að segja dálitla sögu úr sumarfríinu.

Þetta var í byrjun júlí og við vorum á leiðinni heim. Við vorum í Kaupmannahöfn, búin að keyra alla leið sunnan frá Ulm í Bæjaralandi, úr glampandi sólskini, upp í gegnum gervallt Þýskaland, á rétt rúmum sólarhring. Við gistum um nóttina á sveitabæ skammt frá Bergen, keyrðum morguninn eftir upp til Puttgarden og tókum ferjuna yfir til Ystad, þaðan sem við keyrðum til Kaupmannahafnar.

Það var þungt yfir og dumbungur. Dætur okkar, eins árs og þriggja, voru orðnar dálítið slæptar eftir keyrsluna. Eins og við hjónin. Það var tvennt sem sú eldri átti eftir sem við vissum að hana langaði að prófa meðan hún væri í útlöndum: Hún vildi fara í járnbrautarlest. Og þrátt fyrir að hafa skoðað fleiri dýragarða en tölu á festi í ferðinni, þá hafði hún enn ekki séð tígrisdýr.

Við komum á Kastrup, skiluðum af okkur bílaleigubílnum og komum töskunum okkar í geymslu. Enn voru fjórir tímar til stefnu áður en við skyldum tékka okkur inn. Svo við sögðum þeirri eldri að nú væri langþráður draumur að rætast: við ætluðum að fara í járnbrautarlest. Það þótti henni gaman að heyra. Stefnan var tekin á Dýragarðinn í Kaupmannahöfn, og eftir flæking á milli lesta og strætisvagna og töluverðan göngutúr í dumbungnum römbuðum við loks á aðalhlið dýragarðsins. Túrinn um hann var ánægjulegur. Hann hékk þurr lengst af á meðan við vorum þar. Stelpan sá tígrisdýr.

Minnisstæðasta augnablikið var samt skömmu eftir að við höfðum stigið inn í lestina á Kastrup, á leið niður til Kaupmannahafnar. Við vorum öll dálítið slæpt eftir þvælinginn, konan mín stóð yfir yngri stelpunni þar sem hún sat í regnhlífarkerru frammi við dyrnar. Ég sat með eldri stelpuna í kjöltu mér úti við gluggann. Hún var með báðar hendur á glerinu og hallaði enninu upp að því. Í fyrstu sást ekkert út um gluggann nema svört iður jarðar. Svo birtist glæta framundan.

-Vá, sagði dóttir mín.

Lestin brunaði út úr göngunum og rann eftir niðurgröfnum stokki með hlaðna veggi á báðar hliðar. Það rigndi.

-Váá, sagði dóttir mín.

Smám saman sléttist úr börmum stokksins og þeir breyttust í grasi gróinn aflíðandi halla. Við sáum ekkert nema þessar grasivöxnu brekkur sem teygðu sig upp í þungbúinn himininn. Rigningartaumar skriðu eftir glerinu. Þar fyrir utan var ekkert annað en skýin og sölnað grasið sem þaut hjá á ógnarhraða.

-Vááá, sagði þriggja ára dóttir mín, þetta er svo fallegt.

Og ég, sem var dálítið niðurdreginn eftir asann og rekistefnuna á flugvellinum, og hafði dálitlar (en ástæðulausar) áhyggjur af því hvort við hefðum tíma til að hendast þetta, ég gerði mér allt í einu ljóst hvað hún hafði rétt fyrir sér, að það sem skipti máli var að staldra við og njóta sinunnar undir skýjabökkunum, rigningartaumanna á glerinu með dóttur minni.

-Já, það er alveg rétt hjá þér ástin mín, svaraði ég, þetta er mjög fallegt.

Ég faðmaði hana að mér. Notaði tækifærið um leið til að strjúka á mér kinnina.
by Hr. Pez

18 nóvember 2004


Nei ég var að ljúga. Ég er hérna enn. Ég mátti fyrst til með að hlekkja á fréttina um Hina heilögu Meyjarbrauðsneið, og rifja um leið upp hugvekju sem ég birti á þessum vettvangi í árdaga.
by Hr. Pez


Jæja, ég er farinn í útgáfuteiti.
by Hr. Pez

17 nóvember 2004


Kannski ég plöggi svolítið: Nú líður að lokatónleikunum í röðinni "Ný endurreisn," sem Caput-hópurinn hefur staðið fyrir undanfarnar vikur, m.a. í samstarfi við kammerkórinn Vox Academica. Á tónleikunum verða frumflutt tvö íslensk verk: "Innsýn," svíta fyrir kammerhljómsveit eftir Báru Grímsdóttur, og Lincoln-messan ("The Lincoln Mass" ) eftir Úlfar Inga Haraldsson. Hvort tveggja afskaplega falleg stykki. Auk þess syngur kórinn nokkur smærri verk, eftir Báru ("Eg vil lofa eina þá" ), Einar Kr. Pálsson ("Barnagælu," við ljóð Dags Sigurðarsonar), Egil Gunnarsson ("Ljóð," við ljóð Nínu Bjarkar Árnadóttur) og Hróðmar Inga Sigurbjörnsson ("Skilnað," við ljóð Ísaks Harðarsonar).

Tónleikarnir verða í Neskirkju á laugardaginn kemur (20. nóvember) klukkan 17:00 og kostar 2000 krónur við innganginn. Ef einhverjum finnst þetta spennandi, þá get ég reddað miðum í forsölu á aðeins 1500 krónur í dag og á morgun. Áhugasamir geta haft samband við mig í tölvupósti, og ég get svo keyrt miðana út í kvöld eða annað kvöld.
by Hr. Pez

16 nóvember 2004


æ hvareinla málið meðessa kennaraspassa mar? akkuru geda ðeir ekki bara drulast í skólan og halt kjafti? það erigjeins og ölum sé ekki sama umðá. og ekki eins og þau geri það mikið gaggn enníveis. einsoða gedigi hver sem er gertida mikklu bedur en ðetta skídalið með littlaputta á vynstri.

annas erja farí klippíngu. það verður alveg djegt núna sko. stríbur og allt fokkin sjittið. ér so æssla flottur mar. hott hott hott. likk mæ nippúl.

(Þessi færsla var í boði átaksins "Drullum á dag íslenskrar tungu.")
by Hr. Pez

15 nóvember 2004


Bloggað gæti ég, hefði ég frá einhverju að segja.

Nei hvernig læt ég, það er allt að gerast.

Smáglæpir og morð, úrvalsbók smásagnakeppni Grandrokks og Hins íslenska glæpafélags, kemur út núna síðar í vikunni. Það er búið að bjóða mér formlega í útgáfuteiti, og gott ef ekki er inngöngu í Hið íslenska glæpafélag. Svo það styttist í það að sagan mín verði á hvers manns vörum og valdi úlfúð og deilum um gervallt þjóðfélagið. Liiiddl.

Kórinn minn heldur tónleika á laugardaginn kemur, í Neskirkju klukkan 17:00. Frumflutningur á Lincolnmessunni eftir Úlfar Inga Haraldsson og Innsýn eftir Báru Grímsdóttur. Lokaæfingarnar reka hver aðra þessa dagana og allir að fara á límingunum. En þetta stefnir í þrusukonsert.

Það er þá ekki seinna vænna en að gera sig settlegan fyrir stórviðburðina. Ég fer einmitt í ókeypis klippingu í fyrramálið.

Það gerist ekki ódýrara en ókeypis.
by Hr. Pez

12 nóvember 2004


Frúin kom heim frá Frakklandi með Camembert. Húsið er orðið undirlagt af lyktinni af honum, svo ég sé mitt óvænna að fara að byrja á honum fyrr en seinna. Bara núna á eftir.

Á leit minni að upplýsingum um þær frönsku rauðvínsflöskur sem ég hef safnað í vínkjallarann minn - með það fyrir augum að grafast fyrir um það hver þeirra passi best með vel stækum, frönskum Camembert - þá uppgötvaði ég nokkuð. Nefnilega það, að ég verð einhvern tíma, með einhverjum ráðum, að komast yfir bokku af þessu hérna.
by Hr. Pez


Ég er kominn í bindindi. Mánudaginn í síðustu viku fór ég að minnka við mig kaffineysluna (2-6 könnur yfir daginn), og trappaði mig á rúmri viku úr tveimur könnum niður í örlitla botnfyllislús í morgunsárið í fyrradag.

Þetta er nokkuð sem ég geri stundum - afeitra mig til að ganga hreinn í eina, tvær, þrjár vikur áður en ég byrja aftur. Í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta hætti ég bara einn góðan veðurdag, og uppskar höfuðverk andskotans næstu tvo sólarhringa á eftir. Síðan þá hef ég lært að trappa mig niður til að fyrirbyggja líkamleg fráhvarfseinkenni. En hitt hef ég aldrei orðið jafnáþreifanlega var við og í þetta skiptið, og það eru sálrænu fráhvarfseinkennin.

Ég er búinn að halda mér þurrum í tvo daga núna og ég man ekki til þess að hafa áður fundið fyrir þeim jafnsterkum. Og þá á ég ekki bara við hve freistandi er að falla þegar farið er með vinnufélögunum í kaffipásu og spjall. Nei, ég á líka við að ég finn langt að þegar einhver gengur hérna inn eftir ganginum með nýmalað kaffi í krús. Það eimir eftir af því í óratíma. Og vaninn er svo sterkur: Þegar ég geng inn um segulhliðin í vinnunni þarf ég að minna mig á það að það er ekki lengur fyrsta morgunverkið að ganga að maskínunni og skenkja sér. Og þegar ég stend upp frá tölvuskjánum til að rétta úr mér þá fylgir því ekki sjálfkrafa göngutúr niður að kaffivélinni.

Valur hafði rétt fyrir sér: við erum öll helvítis þrælar.
by Hr. Pez

11 nóvember 2004


Svo finnst mér rétt að fagna nýjustu viðbótinni í fánu Íslands. Það er ekki eins og við getum hreykt okkur of mikið af fjölbreytni ferkvatnsfisktegunda hér á Fróni. Veitti ekki af að bæta svolítið í hana.
by Hr. Pez


Jæja, þá er stórmennið og Íslandsvinurinn Yasser Arafat látinn, eftir langvinnt dauðastríð. Hann var náttúrulega ekki mikill fyrir mann að sjá undir það síðasta, en við munum hann jú öll eins og hann var í gamla daga, helvíti hress strákur. Sérstaklega þegar hann kom í heimsókn á skerið og skemmti sér í Atlavík. Er ekki rétt munað hjá mér að hann hafi spilað undir með Steingrími Hermannssyni?

by Hr. Pez

10 nóvember 2004


Ég er ögn meira efins um Blátt Áfram framtakið í dag en ég var í gær. Ég rakst á ágætar vangaveltur frekju nokkurrar um bæklinginn frá þeim sem fengu mig til að hugsa mig um. Og í morgun sá ég slegið upp í DV að kappið væri kannski meira en forsjáin hjá systrunum sem sjá um téðan bækling. Ekki þar fyrir, mér finnst nú reyndar sem fréttamiðillinn sé að kasta steinum úr glerhúsi. Í seinni tíð hefur borið sífellt meir á óttavæðingu (scaremongering) í íslensku dægurþrasi. Tilfinningaklámi. Í blöðum, útvarpi og sjónvarpi.

"Sonur minn er handrukkari."
"Slapp naumlega úr hópnauðgun í vinnustaðapartíi."
"Myndir þú treysta þessum manni fyrir börnunum þínum?"

Ég vil ítreka að ég er seinþreyttur til þess að rísa upp á afturlappirnar og krefjast harðari refsinga yfir glæpamönnum. Að krefjast þess að afbrotamönnum sé engin miskunn sýnd er ekki ávísun á neitt annað en miskunnarlausara þjóðfélag, fyrir okkur og börnin okkar.

Eftir stendur þó að út af fyrir sig finnst mér framtakið þarft sem ég benti á í gær, að afnema fyrningu á kynferðisafbrotum gegn börnum. Svo það er ekki eins og mér finnist til einskis barist.
by Hr. Pez

09 nóvember 2004


Það er ekki oft sem ég auglýsi þegar ég er búinn að taka þátt í hinum og þessum netáskorunum - vanalegast eru það margir búnir að gera slíkt hið sama þegar þar er komið sögu að auglýsingagildið fyrir málstaðinn sé neitt hvort eð er. En mér var að berast nokkuð í tölvupósti sem ég á enn eftir að sjá nokkurn annan vekja athygli á. Það er áskorun til alþingismanna um að staðfesta frumvarp til laga sem afnema fyrningu á kynferðisafbrotum gegn börnum. Þarfur málstaður sem rétt er að vekja athygli á. Og mér sýnist á öllu sem Blátt Áfram sé ágætis framtak yfir höfuð (og nei, þá á ég ekki við síðustu kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins).
by Hr. Pez

08 nóvember 2004


Páerlönsjið með Sjálfhælnum já. Það var skemmtilegt. Við ræddum jólabókaflóðið. Hvernig gengi að samræma þessa bévuðu skriftabakteríu daglega lífinu. Við töluðum vel um Gyrði Elíasson og Þórarin Eldjárn. Og illa. Og spjölluðum lauslega um sögu sem ég sýndi honum, eins og komið hefur fram annarsstaðar.

Rétt er að taka fram að hann hældi sjálfum sér harla lítið, ekki neitt. Við ræddum varla nokkuð um hann yfir höfuð. En tölvert mikið um mig. Enda grobbaði ég mig vitaskuld sjálfur eftir fremsta megni. Aðallega af því hvað ég skrifaði lítið. Og þekkti mikið af frægu fólki.

Á leiðinni út flettum við nokkrum jólabókum. Sjálfhællinn velti fyrir sér hvort prentunin hefði misfarist svona herfilega á nýju bókinni hans Þorsteins Guðmundssonar. Ég taldi honum trú um að þetta ætti bara að vera svona, þetta hlyti að vera partur af gríninu. En ég veit það ekki. Sennilega þarf maður bara að lesa bókina til að fatta djókið. Við hrósuðum úrvalinu af klámi í efstu hillunni á blaðarekkanum. Og skömmuðumst yfir því hvað aðgengið að klámi fyrir fatlaða væri erfitt í M&M. Svo hélt dagurinn áfram.

Það var annars voðaleg fart á manni þessa helgina finnst mér. Góðu fréttirnar þær að konan mín er komin heim aftur - við fórum og sóttum hana um kaffileytið í gær. Vondu fréttirnar þær hvað ég sé fram á að sjá hana lítið þessa vikuna - það er álagspunktur í vinnunni hjá mér. Og hún vinnur jú tölvert sjálf líka.

Ég velti stundum fyrir mér hvort ég eyði nægum tíma með börnunum mínum. Sennilega ekki - fyrst mér finnst ég þurfa að velta því fyrir mér. En svo þarf ég náttúrulega alltaf að fara í vinnuna svo ég hugsa þetta aldrei neitt lengra.
by Hr. Pez

06 nóvember 2004


Kvöldið búið að vera ágætt. Spanderað við sjónvarpsgláp, strauerí og bjórsmökkun. Trúboðsstöðin er ágæt mynd. Og Lífræna Brakspíran ágætur mjöður.

Átti ágætan hádegisfund með Sjálfhælinum. Fyrsta skiptið sem ég hitti hann eitthvað að ráði, og þótti hann bara koma vel fyrir. Ágætur viðræðu.

Jæja. Eins gott að fara í háttinn núna bara. Sú eldri er í sumarbústað með mági og öðru tengdaslegti. Ég bætist í kompaníið með þeirri yngri þegar ég er búinn að syngja á tónleikunum með hinu sænska Rómeó- og Júlíu-ansambli í Borgarleikhúsinu klukkan 15:15 á morgun, laugardaginn sjötta nóvember (og ekkert um það að það sé í dag, takk fyrir).

Þetta er orðið ágætt.
by Hr. Pez

05 nóvember 2004


Að hlusta á bíóauglýsingar er góð skemmtun. Það þyrfti jafnvel stundum að hafa aðvaranir á undan þeim: "Eftirfarandi auglýsing er ekki við hæfi þeirra sem geta misst stjórn á vélknúnum ökutækjum af hlátri."

Ég var sumsé að keyra heim úr vinnunni í gær þegar ég heyrði auglýsinguna fyrir nýjustu myndina hans Jean-Jacques Annaud, Tvo bræður (lesist með tilfinningaþrunginni strigabíóbassarödd): "Ekkert gat komist upp á milli þeirra! (dramatísk þögn) Þangað til þeir voru skildir að!"

Jájá. Ég skil. Þeir voru sumsé óaðskiljanlegir. Þangað til þeir voru skildir að. Hummm. En það sem mig langaði að vita (þegar ég var aftur búinn að ná stjórn á bílnum): eftir að þeir voru skildir að, hvað gat þá komist upp á milli þeirra?
by Hr. Pez

04 nóvember 2004


Ég var að fá "hver kannast ekki við þetta" ruslpóst sem aldrei þessu vant fékk mig til að hugsa, hei, ég kannast við þetta!

Í pósthólfið í netbankanum mínum bárust skilaboð sem byrjuðu svona:

"Gleymirðu oft aðgangsorðum sem þú notar sjaldan? Í hinu nýja Lykilorðasafni Netbankans geturðu geymt öll notendanöfn og lykilorð sem þú þarft að muna."

Hei frábært, hugsaði ég, þar sem ég man aldrei þessi lykilorð sem þarf að slá inn til að millifæra í netbankanum. Svo las ég áfram:

"Af öryggisástæðum þarft þú að stofna aðgangslykil sem er alltaf notaður þegar fletta þarf upp í safninu. "

Og þá hugsaði ég NEEEEEIIIIIII!!!!!!!!! EKKI AFTUR!

Það hljómar kannski ágætlega á rafrænum pappír að leggja bara á sig eitt númer í staðinn fyrir öll hin. En eitthvað segir mér að þetta yrði fyrir rest bara enn eitt númerið sem maður þyrfti að muna.

Kannski maður ætti bara frekar að hverfa aftur til fortíðar og fara að geyma peningana undir koddanum, eða í handraðanum á kistunni við fótagaflinn.

Nei hvernig læt ég. Ég á enga peninga.

"Já ég man nú þá daga börnin góð, þegar fólk hafði ekkert Lykilorðasafn! Og þurfti sjálft að muna öll þessi númer! Hugsið ykkur bara!"
by Hr. Pez

02 nóvember 2004


Mig langaði til að blogga, en svo langaði mig ekki lengur. Og já - það var um mál úr fréttum dagsins. Og já, ég hætti við af því að ég átti í vandræðum með að koma orðum utan um allar skoðanirnar sem ég hafði á því.

En hitt vil ég að komi skýrt fram, að mér finnst titillinn á nýjustu bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar vera mikil mistök. Ótrúlegt að hann hafi látið hana heita nokkuð annað en Leysingjar sakanna.
by Hr. Pez

01 nóvember 2004


Ég hef skoðanir á þjóðmálunum. Heimsmálunum líka. Og sjaldnast færri en tvær skoðanir á hverju máli fyrir sig, oft andstæðar. Ég finn mig bara svo sjaldan knúinn til að tjá þær. Vanalegast er nóg af upplýstu fólki með ákveðnari og jafnvel betur ígrundaðar skoðanir en ég sem er ófeimið við að útlista þær.

Það kemur fyrir að ég viðra það hvað mér finnst um ástandið í þjóðfélaginu í dag. En ekki í dag.

Í dag ætla ég bara að tala um það hvað þetta verður skrítin vika. Frúin fer á ráðstefnu til Parísar á miðvikudaginn og verður fram á sunnudag. Á meðan verð ég einstæður tveggja barna graspabbi. Að sjálfsögðu fer þetta saman við tímabil þegar verður meira en nóg að gera í vinnunni. Svo vonandi held ég geðheilsunni.

Hvaða hvaða. Auðvitað geri ég það meðan ég hef dætur mínar hjá mér. Þær eru svo miklar elskur þessar elskur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com