<$BlogRSDUrl$>

28 október 2004


Nei ég var vitaskuld að ljúga í gær. Ég er að fara í bjóð á laugardagskvöldið og alltsaman. Hjá ekki ómerkara fólki en Dr. Orra "sumarbrosi" Ingþórssyni og spúsu hans. Þar skal verða glatt á hjalla. Annars er ekki margt að frétta. Systurdætur mínar eru í bænum að gæta bróðurbarna minna í verkfallinu. Við rekum kannski inn nefið þar á eftir - sú eldri var einmitt að tala um það hvað hana langaði til að hitta þau, var frúin að tjá mér. Ætli hún hafi ekki "saknað til þeirra," eins og henni er svo gjarnt að segja þessa dagana, með dramatískri skeifu.
by Hr. Pez

27 október 2004


Í kvöld er ég að hugsa um að pússa skóna mína.
Og kannski ég kaupi mér svínafeiti í vikunni og beri á leðurjakkann minn um helgina.
Ég lifi svo villtu, trylltu lífi.
by Hr. Pez

26 október 2004


Alltaf skal raunveruleikinn vera fyndnastur.

Mér sýnist sem téður akur sé í raun mun frjórri en ég hélt í fyrstu. Lausleg eftirgrennslan með aðstoð Google leiddi í ljós að nú þegar eru til Dægurlagapönkhljómsveitin Húfa og Ofur-80's-hljómsveitin Moonboots. Ég hefði ekki getað digtað þetta betur sjálfur.

Verð að þjóta - frúin bíður í bílnum.
by Hr. Pez


Ekki fór ég á Æsland Erveivs þetta árið. Engin slagsmál. Enginn Svalborgarhnútur. Engin gyllinæð.

En ég fylgdist þó með umfjölluninni. Og staldraði skyndilega við það hvað mér finnst Úlpa flott nafn á hljómsveit. Og svo áttaði ég mig á því að það er furðulega óplægður akur að nefna hljómsveitir eftir flíkum. Rokksveitin Úlpa er mjög gott nafn - segir allt sem segja þarf. Hvað fleira væri veltilfundið?

Kannski Hipphoppsveitin Húfa?
Thrashcorebandið Blússa?
Bojbandið Bindi?
Eða jafnvel Sveitaballapoppsveitin Snyrtilegur Klæðnaður Áskilinn?
Hvað með Teknótransbandið Bolur?
Eða Alt-kántrísveitin Múnbúts?

Neeeh, kannski ekki.

Annars er ég á leið út úr húsi. Við frúin ætlum að eiga okkur rómantíska hádegisstund í Íslensku Óperunni.
by Hr. Pez

25 október 2004


Fyrir nánast réttu ári sagði ég frá því merka þroskastigi sem eldri dóttir mín hefði náð, að hafa uppgötvað töfraheima slappstikksins. Nú hefur enn bætt í, því nú er hún farin að segja fullformaða brandara. Eða, rétta sagt, einn brandara, í sífellt nýjum útgáfum.

Brandarinn sem um ræðir er sá um tómatana sem voru að fara yfir götu. Mjög fyndinn, eins og dæmin sanna.

En hér á eftir fer dæmigerður brandari upp úr dóttur minni, nánast orðrétt eins og ég heyrði hana segja hann í bílnum í gærkveldi, á leið heim úr mat hjá tengdó:

Einu sinni voru tvö... nei, einu sinni voru sex... öööh... jarðarber að labba yfir götu. Svo kom... svo kom bíll og keyrði yfir tvö þeirra. Þá voru... þá voru þrjú jarðarber eftir. Þá kom annar bíll og... og þá kom annar bíll og keyrði yfir tvö jarðarber. Þá sögðu jarðarberin sem voru eftir: Komdu þarna, jarðarberjatómatsósan þín.

Ég verð nú reyndar að játa að ég hló svo mikið að ég táraðist. Og við bæði hjónin. Sem dró sko aldeilis ekki úr minni, og í framhaldinu komu margir brandarar til viðbótar með svipaðri uppbyggingu, bara með dálitlum breytingum á fjölda frá einni sögu til annarrar, auk þess sem jarðarberjunum var skipt út fyrir, meðal annars, skaldbökur, ljósastaura, froska og Unu litlu systur.

Efnileg í gamanmálunum maður.
by Hr. Pez

22 október 2004


Síðustu mánuði hef ég fengið með reglulegu millibili boð um það að vera skráður í bók þeirra sem hafa unnið mikil vísinda- og fræðaafrek á tuttugustu öldinni (eða eitthvað þannig) frá félagi sem kallar sig International Biographical Centre, og virðist vera staðsett í Cambridge, Englandi - sjálfri vöggu mannsandans. Mér sýnist ekkert benda til þess að um neins konar gabb sé að ræða, í mesta lagi tilraun til að selja fólki þess eigin hégóma, innrammaðan og greyptan í silfurskjöld. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki haldið til haga póstunum frá þeim krökkunum í IBC í gegnum tíðina, því mér sýnist á öllu að gylliboðin gerist sífellt stærri, flottari og kræsilegri. Nú síðast var mér tjáð að nefnd sérfræðinga hefði komið saman og úrskurðað að ég væri í hópi þeirra 200 sem hvað helst ættu skilið að njóta viðurkenningar á mínu sviði, og fá veglegan skjöld því til staðfestingar. Í hjálögðu svarbréfi (RSVP) var mér svo boðið að fylla út hvaða svið ég vildi að það væri.

Hvernig orðaði Groucho Marx það aftur? Aldrei dytti mér í hug að ganga í félagsskap sem þætti ég þess verður að bætast í þeirra raðir.
by Hr. Pez


Það bönkuðu upp á hjá mér tvær litlar stelpur í gærkvöldi, með fangið fullt af eldhúsrúllum og klósettpappír. Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum kvöldum síðan lofuðum við frúin þeim að við skyldum kaupa eitt karton af hvoru á fjögurþúsundkall. Ég bauð þeim í bæinn meðan ég stökk af stað til að redda greiðslunni. Spurði hvort þær tækju ekki ávísun.

Þær litu á mig forviða.

"Þið vitið hvað ávísun er, er það ekki?" spurði ég.

Þær hristu hausinn í kór og litu hvor á aðra. Hvunnlags krimmi er þetta nú eiginlega, las ég úr augunum á þeim. Á nú að reyna að snuða okkur um bissnessinn?

Eftir að ég hafði sagt þeim að ég væri ekki með peninginn á mér í seðlum, og fengið það staðfest að þær tækju ekki kort, þá útskýrði ég fyrir þeim hvað ávísun væri og hvernig hún virkaði.

"Þið getið farið með þetta í bankann og fengið peninginn í staðinn."
"Handhafa þýðir að sá fær peninginn sem hefur ávísunina í hendinni."
"Það er hægt að stela þessu af ykkur alveg eins og alvöru peningum."
"Spyrjið bara mömmu ykkar þegar þið komið heim."

Fyrir rest þá gat ég fengið þær til að taka við þessu. En mér fannst þær ekkert alltof öruggar á svipinn þegar ég ýtti þeim aftur út í kuldann.

Kvöldið var að öðru leyti beggja blands. Sú yngri er veik eina ferðina enn. En hitt var betra, að ég hélt upp á gleðitíðindi fyrradagsins með því að fá mér einn Afvelta svartan bjöllusauð. Hann var ljúfur.
by Hr. Pez

20 október 2004


Ja mikið óskaplega gekk þetta nú vel.

Ég held ég þori loksins að fara að segja frá því núna, fyrst búið er að skrifa undir útgáfusamninginn. Orð manna í millum eru orðin að undirskriftum á löggiltum pappírum, svo héðan af verður ófeigum varla í hel komið.

Já, mikið rétt. Ég er orðinn bylgjureiðmaður í jólabókaflóðinu. Smásaga eftir mig verður gefin út í safnbókinni Smáglæpir og morð - Sögur úr glæpasmásagnakeppni Glæpafélagsins og Grandrokks, sem kemur út á vegum Almenna Bókafélagsins nú um næstu mánaðamót. Mér skilst hún verði síðasta sagan í bókinni, "The final punch," ef svo má að slettu komast. Rothöggið í bókarlok. Sem gæti komið mjög vel út, enda grunar mig að þetta sé óhugnanlegasta saga sem nokkru sinni hefur verið samin á íslenska tungu.

En ég er náttúrlega bjagður.

Samt einhvern veginn trúi ég þessu varla fyrir alvöru fyrr en ég sé það svart á hvítu, í þúsund eintökum...
by Hr. Pez


Mér finnst að þau himpigimpi sem þverskallast við að skrifa náttúrlegur ættu líka að beita þessu brottfalli sínu á fleiri samsett orð, svona upp á samræmið. Hvernig væri til dæmis að allir færu að skrifa athugsemd, eða eltingleikur. Það væri lagið.
by Hr. Pez

19 október 2004


Ég er að gæða mér á rjómatertu í tilefni dagsins.
Það eru ekki alltaf jólin.
Eins gott láta eftir sér að njóta þeirra, þá sjaldan.
by Hr. Pez

18 október 2004


Ég verð að játa að um nokkurra mánaða skeið hef ég nú verið fastagestur á Einkamálavef Íslands. Svo hart er farið að kveða að þessu að ég er búinn að bæta honum í keðjugengið.
by Hr. Pez

15 október 2004


Þessir Kanar eru klikk.

Í tengslum við það sem mér finnst vera furðufrétt dagsins á moggavefnum í dag er ég búinn að skipta um undirtitil á síðunni. Hann hefur sést hér áður - það var dagana eftir að Janet litla systir lét rífa utan af sér fatapjötlu í beinni útsendingu í sjónvarpi. Og sjónvarpsstöðvar voru dæmdar í hrannsektir fyrir, þar sem uppákoman þótti hafa gjöreyðilagt siðferði bandarísks æskulýðs.

Hvað er málið? Nei í alvörunni, hvernig rekur maður heilli þjóð löðrung og segir henni að hætta að láta svona eins og slefandi fáviti? Eins og froðufellandi bingófrænka í hvert sinn sem minnst er á nekt eða kynlíf á opinberum vettvangi?

En aftur að frétt dagsins: strákur dæmdur til tugthúsvistar fyrir að berrassast á skólaslitum. Svo dæmist það veslings strákgreyinu til refsiþyngingar að það voru börn á staðnum þegar hann framdi asnaprikið. Hvaða heilvita manni dettur í hug að nokkurt barn beri þess varanleg mein á sálinni að sjá einhvern strákvitleysing sprikla um á sprellanum? Og nákvæmlega hvernig er þjóðfélagið nokkru bættara af því að pjakkurinn er látinn dúsa bakvið lás og slá í tvö ár á eftir, í félagi við sjóaða menn í glæpabransanum?

Ætli strákurinn þurfi ekki héðan af að ganga um með stimpil upp á að vera skrásettur kynferðisafbrotamaður?

Í alvöru talað?
by Hr. Pez


From a late night train
Reflected in the water
When all the rainy pavements lead to you
It's over now
I know it's over
But I can't let go

The cigarettes, the magazines
All stacked up in the rain
There doesn't seem to be a funny side
It's over now
I know it's over
But I can't let go

From a late night train
The little towns go rolling by
And people at the stations going home
It's over now
I know it's over
But I love you so


Eitt af allrabestu dægurlögum liðinnar aldar, og ekkert með það.

Annars er rétt að taka fram að ég er í prýðilegu skapi (enda spila strákarnir í Bláu Níl þunglyndistónlist af því taginu sem gerir gott skap enn betra). Fyrir utan að ég er ekki alveg nógu hress með heilsufarið á þeirri yngri: hún er búin að vera með upp og niður til skiptis á þriðju viku núna, og jafnvel líeglöðustu foreldrum farið að lítast sífellt verr á blikuna. En þau mál eru þó öll "í réttum farvegi," "í höndum fagaðila," og öllu í sjálfu sér ljómandi vel fyrir komið, borið saman við svo marga.

Ég fékk líka svo skemmtilegan sniglapóst í hádeginu. Ekki annað hægt en að gleðjast yfir honum.
by Hr. Pez

14 október 2004


Mig langaði allt í einu til að segja eitthvað um Þorstein frá Hamri. En ég veit ekki hvað. Nema þetta, að þar fer gott skáld.

Ég fékk áðan á heilann línur úr ljóði eftir hann, þar sem hann segir eitthvað á þá leið að "Sértu einn ertu autt hús / skyndilega kveikir síminn rautt ljós." Mér hefur alltaf fundist þetta svalar línur. Og fallegt ljóð. Og bókin - Fiðrið úr sæng Daladrottningar - hún er mjög góð. Ég á hana því miður ekki sjálfur, en ég glugga í hana nánast í hvert skipti sem ég fer í heimsókn til foreldra minna, þar sem hún lúrir þess á milli og rykfellur uppi í hillu.

Mjög góð.

Hér gæti komið áframhaldandi pæling um bága stöðu ljóðsins í dag, bara ef ég hefði til þess tíma, nennu og áhuga. En ég hef engu slíku til að dreifa. Svo þannig er það.
by Hr. Pez

13 október 2004


Guð minn almáttugur, segi ég nú bara! Upp úr óminnisþoku laugardagskvöldsins skust skyndilega upp í hausinn á mér sú minning að við Dr. Schnitzel gengum þá um kvöldið undir jarðarmen og tókum það ráð fastmælum að taka þátt í keppninni um fyndnasta mann Íslands, næst er hún skyldi haldin.

Púff. En sú vitleysa sem sem maður lætur út úr sér á góðum stundum! Haaaa?!!!
by Hr. Pez

12 október 2004


Ég elska lyktina af flugvélabensíni í morgunsárið.
Það ilmar eins og... grillkveikilögur.

Annars var helgin ljómandi - afmælið hjá Ljósvakalæðunni var ljómandi vel lukkað sýndist mér. Þar var mættur rjóminn af ljósvakafréttafólkinu á landinu. Ég lamdi engan, og pikkaði ekki einu sinni fæting. Það var varla að ég ræddi við nokkurn mann. Nema ég greip aðeins inn í spjall sem Dr. Schnitzel átti á barnum við besta og frægasta bloggarann. Við skemmtum okkur vel, dönsuðum agnarögn þótt mónóið væri bilað og frúin að drepast í fótunum. Svo fórum við í kórpartí. Það var gaman líka.

Sunnudagurinn fór í fyrirsjáanlega þynnku.

Svo ég endi á upphafinu, þá var afmæli frúarinnar lágstemmt og ánægjulegt á föstudagskvöldinu. Fjölskyldan fór út að borða, og þegar heim var komið og stelpurnar komnar í ró horfðum við á þá ágætu mynd, Í snertingu við tómið. Við mælum með henni.
by Hr. Pez

08 október 2004


Þá fer helgin að byrja. Fjölskyldan fer út að borða í kvöld, og svo munum við væntanlega hafa það rólegt heimavið að því loknu.

En á morgun.

Þetta verður mikil afmælishelgi: Frúin í dag. Bróðursonur hennar þriggja ára upp úr hádeginu á morgun. Og svo þrítugsafmælið annað kvöld. Fyrir svoleiðis uppákomu mun ekki duga neitt minna en Svalborgarhnúturinn.

Aðra nótt gista stelpurnar að öllum líkindum hjá afa og ömmu, svo það verður blessunarlega hægt að sofa eitthvað út (og/eða úr sér) á sunnudagsmorgninum.
by Hr. Pez


Gleðitíðindin úr innlendum fréttum eru svo þau að konan mín á afmæli í dag. Nú erum við orðin svo mikil heilsufrík á morgnana hjónin að sú áralanga hefð að opna pakka uppi í rúmi í morgunsárið má heita aflögð nema afmælisdag beri upp á helgi. En við feðginin færðum henni í staðinn feitan pakka yfir morgunverðarborðinu þegar hún kom heim úr ræktinni: hið sígilda meistaraverk" "Frelsi til sölu," með lifandi goðsögn íslenskrar tónlistarsögu, safn allra bestu söngperla Kattarins sem kenndur er við Stefán, og stjörnumerkishlekk í armband frúarinnar, af því að stjörnuspeki er svo mikil vísindi, og konan mín svo mikil Vog.

Til hamingju með daginn ástin mín.
by Hr. Pez


Nú hlýtur að sljákka eitthvað í þessum déskotans trjáriðlum og vefjarhattasleikjum sem halda því fram að Íslandi hafi verið til eintómrar óþurftar að fylkja sér í hóp hinna staðföstu þjóða: Leiðtogi Hins Frjálsa Heims er búinn að launa okkur tryggðina með því að lýsa níunda október Dag Leifs Eiríkssonar, Sonar Íslands (og sonarsonar Noregs). Það eru svona hlutir sem skipta meginmáli, ekki einhver tittlingaskítur eins og það hvort Írak hafi búið yfir gereyðingarvopnum eða ekki.
by Hr. Pez

07 október 2004


Ég var rétt í þessu (er ég leit við á Baggalúti mér til upplyftingar) að átta mig á því hvað Skarnabær hefur verið lunkin íslenskun á vinnustað Júlla vinar Viggós Viðutans á sínum tíma. Það hefur verið skítadjobb í lagi.
by Hr. Pez


Skemmtilegu fréttir dagsins úr umheiminum eru þær að búið er að veita Ig-Nóbel verðlaun ársins, fyrir vísindaafrek sem fá fólk til að hlæja fyrst og hugsa svo. Sérdeilis verðskulduð eru friðarverðlaunin til handa Daisuke Inoue, manninum sem fann upp karókí, fyrir að veita fólkinu í heiminum áður óþekkta ástæðu til að sýna hvert öðru þolgæði og umburðarlyndi.

Skemmtilegu fréttir dagsins úr einkalífinu hafa að gera með ferðalag sem liggur í stjörnunum, ótilgreindum vini til handa. Við hjónin höfum doblað hann í mat á laugardagskvöldið til að segja okkur allt af létta áður en hann kemur með okkur út á lífið að pikka fæting.
by Hr. Pez

06 október 2004


Flestir dagar eru ágætir. Þessi er einn af þeim. Og fallegur í þokkabót.
Nú ætla ég senn hvað líður að láta gott heita í dag og ganga niður í bæ í góða veðrinu.
Þetta verður þétt pakkaður sósjall hjá okkur hjónum á laugardagskvöldið. Þegar við þekktumst boðið í gær fannst okkur endilega eins og við værum að gleyma einhverju öðru sem við værum að fara að gera. Svo rann upp fyrir mér á æfingu í gærkvöldi að það var búið að boða kórteiti sama kvöld með margra vikna fyrirvara.
Blessunarlega getur maður verið á fleiri en einum stað eitt og sama kvöldið.
Svo við munum gera það stuðreist.
by Hr. Pez

05 október 2004


Pezusinn er hress og frískur og í banastuði í dag. Ég fékk skemmtileg skilaboð áðan: Við hjónin erum að fara í þotuliðspartí á laugardagskvöldið. Ef við erum heppin gæti jafnvel komið mynd af okkur í Séð og Heyrt. Jiminneini! (lesist á innsoginu)

Það gæti líka verið gaman að pikka fæting við einhvern þjóðþekktan einstakling - einhverjar sérstakar óskir?

(Gísli Marteinn og Þorsteinn Joð eru reyndar súkkat - þeir eru alltaf svo næs við konuna mína. Neiannars, það er kannski hin fullkomna tylliástæða: hvað þeir séu alltaf næs við konuna mína.)

Gáfulegra væri þó vitaskuld að nota tækifærið til að nettvorka dálítið. Í hvaða tilgangi það ætti að vera er mér reyndar hulin ráðgáta.

Þó er líklegast að maður í mesta lagi noti tækifærið til að hella sig fullan af ókeypis áfengi.

End teik itt fromm ðer.
by Hr. Pez

04 október 2004


Hér eru orðin ætíð í tíma töluð. Ég horfði nú ekki á bandarísku ræðukeppnina á fimmtudagskvöldið. En ég tók hana upp og horfði á hana á föstudeginum, meðan ég sat yfir veikri dóttur minni. Og þetta hérna þótti mér tvímælalaust vera tilvitnun kvöldsins:

„I’ve found out in this world that it’s important to establish good personal relationships with people, so that when you have disagreements you are able to disagree in a way that is effective.“

Ég held ég þurfi ekki að taka fram hvor mælti.

Annars virðist sem dóttir mín hafi náð að smita mig. Hún er eflaust í banastuði hjá dagmömmunni núna meðan ég sit einn heima á náttsloppnum.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com