<$BlogRSDUrl$>

31 ágúst 2004


Svo var nú ekki lítið ævintýrið í hádeginu á sunnudaginn, þegar ég dró Anthony greyið með mér og Dr. Schnitzel út á Gróttu í sjósund. Þar sem Schnitzelið var ekki búið að redda sér almanaki þjóðvinafélagsins þá hittum við vitaskuld á háfjöru, sem leiddi til þess að við urðum að vaða Atlantshafið upp á mið læri hálfa leið yfir Faxaflóann áður en hægt var að stinga sér til sunds. Ég sýndi fullkominn karakter og lýtalaust samræmi við sjálfan mig með því að vera langfyrstur til að gefast upp og svamla til baka. Ég held ég hafi verið þarna úti í svona um það bil kortér, þar af heilar tvær-þrjár mínútur á sundi, eða einhverju sem mætti kannski kalla því nafni með góðum vilja.

Þetta var... öðruvísi.

Schnitzelið bauð mér að koma aftur í kvöld, í félagi við sjóaðri menn í bransanum (sjóaðri! hahaha!!!). Ég held ég sitji þetta skiptið af mér.
by Hr. Pez

30 ágúst 2004


Ég vil þakka öllum sem lögðu til málanna ágætan stuðning við framkvæmdina á föstudagskvöldið var. Þetta varð einfalt fyrir rest - við fórum út að borða á Þrjá frakka og tókum okkur góðan tíma þar. Svo fundum við Kaffibarinn eftir dálitla leit (skyldustopp, þar sem hjónin voru nýbúin að sjá 101 Reykjavík og vildu sjá barinn hans Damons). Svo gengum við niður í bæ og fengum okkur einn Guinness á Dubliner. Þá var klukkan ekki nema rétt farin að ganga tólf, en kvenþjóðin var orðin það framlág um þetta leytið að við ákváðum að halda heim á leið. Konurnar fóru fljótlega að sofa, en við karlmennirnir sátum að sumbli heimavið eitthvað fram eftir nóttu.

Hápunktar kvöldsins, í réttri tímaröð:

Á Þremur frökkum fór engill yfir salinn um leið og jakkafataklæddur Íslendingur á neðanverðum þrítugsaldrinum sagði hátt og snjallt við þjónustustúlkuna, uþb þremur borðum fyrir aftan mig: "Ég ætla að fá lambakjöt með bernessósu. Og tómatsósu í skál með þessu." Grínlaust.

Á Kaffibarnum benti ég hjónunum á að það sæti heimsfrægur Íslendingur á næsta borði við okkur: Georg Hólm úr Sigur Rós. Þau höfðu ekki hugmynd um það, og vissu meir að segja varla hvaða hljómsveit ég var að tala um.

Á leið niður Bankastrætið rákumst við á Steinar Braga, og ég kynnti hann fyrir þeim sem besta skáld sem skrifaði á íslenska tungu í dag. Og hann var bara kammó þrátt fyrir það, sagði mér ekki að éta skít eða neitt.
by Hr. Pez

27 ágúst 2004


Ef maður fari á pöbbarölt í miðborg Reykjavíkur með vini sína frá útlöndum í dag, á hvaða staði sé maður þá að fara?

Þar liggur efinn.
by Hr. Pez

26 ágúst 2004


Við fengum góða gesti í heimsókn í gær - Beth og Anthony frá Bretlandi. Þetta er í annað skiptið sem þau sækja okkur heim, þau komu fyrst fyrir tveimur árum. Í gær komu þau færandi hendi með gjafir handa stelpunum - Hrefna fékk loðið svín sem leit út fyrir að vera afskaplega krúttlegt þangað til það fór að rýta "Old McDonald had a farm" án afláts. Þá þótti mér fara af því mesti sjarminn, þótt Hrefna væri fyrir vikið jafnvel enn hrifnari af því en áður.

Bót í máli var að þau færðu mér líka fullt af bjór, bæði dollur úr fríhöfninni og síðan fjórar flöskur, hverja af sinni ensku ölgerðinni. Ég kannaðist ekki við neina þeirra tilsýndar, en hlakka til að prófa þær allar í góðu tómi. Ég setti þær upp í vínrekka og ætla að leyfa þeim að safna ryki og virðuleika í einhvern tíma.

Gestakoman í gær veitti okkur hjónum fyrstu afsökunina til að hengja út í glugga Union Jack fánann sem þau færðu okkur að gjöf í síðustu heimsókn. Hann er fallegur.

Þau dvelja á landinu í viku, sem er of stutt að mati bæði okkar og þeirra.
by Hr. Pez

24 ágúst 2004


Ég fór í raaæíghtina í mooorgun vinur. Var maaæíttur í Laugarnar klukkan sex og maaassaði kííílóin maður. Tók djeeegt á'ðí.

Annars var mesta áreynslan þegar ég var kominn aftur niður í sturtu og mátti rembast eins og rjúpan við staurinn til að ná einhverju út úr sápuskammtaranum - það var eins og ætti að varna öllum nema riðvöxnum steratröllum og svínshnökkum að sápuþvo sér á kostnað fyrirtækisins.

Djöfull er ég orðinn aumur maður.

Eða nei alveg rétt - ég hef alltaf verið það.
by Hr. Pez

23 ágúst 2004


Það þykist ég vita að félagi minn í hreintungufasismanum hefði tekið ærlega í rassinn á mér ef hann hefði heyrt í mér í hádeginu í gær, þegar ég blaðaði í gegnum sunnudagstímarit moggans og sagði stundarhátt við frúna án þess að blikna:

"Heyrðu, ég er dálítið spenntur fyrir nýja diskinum hennar Björk."

Það gerði frúin í það minnsta.

Maður!
Líttu þér nær!
by Hr. Pez

22 ágúst 2004


Ég er með góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að fjórða serían af Coupling er komin til landsins - fyrsti þátturinn var sýndur á föstudagskvöldið var. Slæmu fréttirnar eru þær að Jeff er ei meir.

Æ, mig auman!

En þess fyrir utan átti þátturinn á föstudagskvöldið var dýrðlega spretti - ég á reyndar aldrei eftir að taka "nýja strákinn" í sátt, þann er á að fylla í hið risastóra skarð sem Jeff skilur eftir sig. En þrátt fyrir það hló ég mig máttlausan - því fer víðs fjarri að þættirnir séu búnir að missa það, þrátt fyrir allt.
by Hr. Pez

21 ágúst 2004


Frúin er í vinnunni eins og er. Við feðginin erum hér þrjú heima og hlustum á Þursaflokkinn (Nú er heima!). Um leið og hún kemur heim á eftir verður að sjálfsögðu haldið niðrí bæ á listanótt.

Ég man þegar ég var lítill og fannst sem "Vill einhver elska?" væri ofsalega sorglegt lag. Sem það vitaskuld er, þannig lagað - þótt mann hlægji. Er nokkuð sorglegra en 49 ára gamall maður sem er fráskilinn og safnar þjóðbúningadúkkum?

Og hvað er verið að fara með línunni, "...og mennirnir svöruðu ekki neinu..."? Hef ég verið að misskilja þetta öll þessi ár?

Hummm.
by Hr. Pez

18 ágúst 2004


Hektísk vika.
Ég er heima með þá yngri frá átta til hálffimm, fer þá í vinnuna og er þar framundir miðnættið.
Það er nóg við að vera heimavið. En að sjálfsögðu er kveikt á imbanum og ÓL leyft að rúlla á meðan.
Af því tilefni vil ég slútta með að benda á að ef Guð hefði eitthvað á móti ljósbláu klámi þá hefði hann aldrei skapað strandblak kvenna.
by Hr. Pez

16 ágúst 2004


Hún er dálítið þétt pökkuð hjá mér, þessi vinnuvikan. Svo ég veit ekki hversu mikið ég mun færa hér inn næstu daga. Vonandi eitthvað, annað veifið. Mesta vinnuálagið á þó að verða frá á miðvikudagskvöldið.

Þessi blessuðu deddlæn, alltaf hreint. Hvað er hægt annað en elska brauðstritið.

Frúin byrjaði aftur í vinnunni og sú eldri í leikskóla í morgun. Sú yngri snýr ekki aftur til dagmömmunnar fyrr en eftir viku. Svo í dag vorum við tvö heima feðginin og vinnudagurinn hjá mér byrjaði síðan klukkan langt gengin í fimm. En við höfðum það ágætt, bæði tvö.

Í hádeginu fékk ég skemmtilegan póst, og átti í beinu framhaldi af honum enn skemmtilegra símtal. Síðan þá hef ég verið í mjög góðu skapi.
by Hr. Pez

13 ágúst 2004


Mér er mjög hætt við að finna fyrst hjá mér þörfina til að fjalla um hin ýmsustu málefni löngu eftir að þau eru fallin í gleymskunnar dá hjá öllum öðrum í bloggheimum.

Eins og þetta.

Um verslunarmannahelgina fórum við fjölskyldan í Húsafell með tengdaforeldrunum. Við gistum tvær nætur og skemmtum okkur konunglega. Á mánudeginum keyrðum við um Kaldadal (sem ber nafn með rentu) til Þingvalla og skoðuðum þar meðal annars hinn hlálega þjóðargrafreit og mælisteininn á kirkjuhlaðinu - best varðveitta leyndarmál þjóðarinnar ásamt með Paradísarhyl í Norðurárdal, en þó mun merkilegra fyrir það hve margir ganga hjá þessum steini án þess að taka eftir honum.

Við hjónin höfum farið hamförum í bíóferðum upp á síðkastið. Að kveldi þriðja í versló fórum við að sjá Ég er nú meiri þjarkinn. Það var ágæt mynd. Helgina þar á eftir - það vill segja þá síðustu - fórum við með eldri dóttur okkar að sjá Skrekk tvö með íslensku tali. Þótti mér hægt að hafa af henni allnokkurt gaman, þótt ekki hafi hún jafnast á við fyrirrennarann. Þar í millitíðinni fengum við Dr. Schnitzel í heimsókn og horfðum með honum á Prinsessubrúðina. Hún er með betri myndum.

Auk þess get ég tekið fram að það hve mjög ráðuneytið hamaðist um daginn við að taka fram að Davíð Oddsson væri í raun fullfrískur og gengi heill til skógar fór langleiðina með að sannfæra mig um það að sennilega hafi hann í alvörunni verið fárveikur greyið karlinn.

Bara svona sem dæmi.

Annars er það helst að frétta að ég bölva sjálfum mér frá því fyrir nokkrum vikum hressilega þessa dagana, þar sem mesta hitabylgjuhelgi íslensks sumars frá því mælingar hófust er mér vinnuhelgi - ég verð fastur við skribborðið meðan restin af þjóðinni sleikir hitann og sólina.

Og ekki segja að ég geti sjálfum mér um kennt - ég er að því.
by Hr. Pez

12 ágúst 2004


Sumarið í sumar er blóðrautt í fjölskyldunni. Undanfarin sumur hefur alltaf verið einhver sumartískudrykkur sem við hjónin föllum fyrir og kaupum í massavís, og hömstrum jafnvel að hausti þegar vöruna þrýtur örendi. Í fyrra og sumarið þar áður var það Mix Exotic. Í sumar er það tvímælalaust Egils blóðappelsín. Fádæma vel heppnaður sumargosdrykkur.

Það er líka svo gaman að draga orðið út og hnykkja á áherslunum: "Böölllllloooóóúðððappelsín!"

Og eins og það sé ekki nóg, þá erum við hætt að kaupa annan ávaxtasafa inn á heimilið en tveggja lítra Chiquita Vitality blóðappelsínusafa - hann er líka hættulega góður. Og kemur vel út að blanda hann í hvort heldur sem er: Kristal eða Fresca (en ekki dæet spræt, því það er ekki bragðgóður drykkur). Svalandi á heitum sumardögum.

Þessi færsla var í boði Bananasölunnar og Egils Ölgerðar.
by Hr. Pez

11 ágúst 2004


Það rifjaðist upp fyrir mér í tengslum við spekúlasjónir um það hve óhentugt íslenska kvenmannsnafnið Mist Eik sé í enskumælandi löndum, að Jón Leifs átti dóttur sem hét Snót. Og heitir eflaust enn - hún er kannski spriklandi hress ennþá konan. En ætli það hafi aldrei valdið henni vandræðum að kynna sig fyrir enskumælandi fólki ("Hello, my name is Snot")?

Ég var nú bara svona að velta þessu fyrir mér...
by Hr. Pez

10 ágúst 2004


Þetta er búinn að vera ágætur dagur. Að vísu mestmegnis deskdjobbið meðan sólin skín hinumegin við rúðuna. En upp úr stendur hádegið, þegar frúin hringdi í mig og spurði hvort mig langaði ekki til að koma niður í Nauthólsvík og borða hádegismat með þeim mæðgum í sólinni og skeljasandinum. Sem ég gerði.

Nú er ég farinn heim. Og út í góða veðrið. Ef ég man rétt á ég óopnaðan Thule einhversstaðar í ísskápnum.
by Hr. Pez

09 ágúst 2004


Nú um helgina voru samískir dagar í Reykjavík, eins og varla hefur farið fram hjá neinum. Mér þótti þetta þarft framtak, enda mikið af ranghugmyndum og vitleysu sem Íslendingar hafa fengið í arf frá forfeðrum sínum og -mæðrum um Sama og samíska menningu. Þetta tók ég meir að segja til sjálfs mín þegar við fjölskyldan tókum þátt í hátíðahöldunum á laugardaginn var og fórum í eina heljarmikla samíska skrúðgöngu þar sem gat að líta ýmsar gerðir þesslenskrar menningar. Það tvennt sem stendur upp úr finnst mér annars vegar það að þrátt fyrir litríka og fjölbreytta þjóðbúningana, þá eru Samar fyrst og fremst venjulegt nútímafólk eins og ég og þú - menn sem stunda sjóinn og spilar fótbolta, konur sem aka mótorhjólum og klæða sig upp í efnisrýra kvöldkjóla; og ekki síður hitt (sem kom mér mjög á óvart) hvað þeir tala góða og lýtalitla íslensku. Einna helst að mér þótti undarlegt að þau töluðu sífellt um sjálf sig sem "Sama-kyn," sem er kannski ekkert vitlaust, en kom mér dálítið spánskt fyrir heyrnir: "Velkomin á Sama-kynjaða daga," var síendurtekið á hátíðardagskránni. En það var gaman að þjóðdönsunum þeirra, og aldrei hafði ég gert mér grein fyrir að samísk þjóðlög hefðu verið svona rík uppspretta vinsælla smella á diskótímabilinu.

Og mikið óskaplega er þjóðfáninn þeirra fallegur - svona í öllum sínum regnbogans litum.
by Hr. Pez

06 ágúst 2004


Áfram hélt fríið. Næsta vika fór mestan part í það að slaka á heimavið eða í tíðum og löngum heimsóknum til tengdafjölskyldunnar. Veðrið var ef eitthvað var betra hér heima en það sem við sóttum til Jótlands. Svo syrti í álinn.

Stuttu eftir heimkomuna bárust okkur þau válegu tíðindi að níu ára dóttir vinafólks okkar hefði dáið í hörmulegu slysi. Ég slóst í för með Schnitzelinu til að sitja með föðurnum eina kvöldstund í vanmáttugri tilraun til að veita honum þá hluttekningu og þann stuðning sem maður fann svo sárt að hann þarfnaðist. Það voru þung spor fyrir það minnsta sem maður gat gert.

Ég gat ekki mætt á útförina - ég var búinn að binda mig til að fara með Árnesingakórnum út til Þýskalands í vikunni eftir. Það þótti mér leitt. En Árný var við athöfnina fyrir okkar hönd og bar mér fréttir af því hvernig hefði farið fram.

Daginn áður en ég flaug utan áttum við fjölskyldan yndislegan dag úti í Viðey - skoðuðum gamla þorpið og snæddum nesti á flötinni bak við Viðeyjarstofu. Við munum eflaust fara þarna úteftir aftur - ekki seinna en næsta sumar - enda eigum við allan vesturhluta eyjunnar alveg eftir.

Þarna sáum við hjálmskjóttan hest í haga. Ekki þótti mér hann fallegur.

Svo var það frægðarförin til Brimaborgar, eins og áður var getið. Það var ágæt ferð, eins og má ráða af þeim dagbókarfærslum sem ég skrásetti þar úti á sínum tíma. Á meðan fór frúin hamförum í uppgjörðum á íbúðinni - þegar ég kom heim var búið að skipta um öll opnanleg fög á suðurhliðinni, hreinsa upp og endurskipuleggja blómabeðin og fúaverja sólpallsnefnuna.

Dagurinn eftir heimkomuna var sá síðasti í fríi og fór mestan part í afslöppun. Þann daginn bar helst til tíðinda að Una fór í hjartaskoðun - þau mál eru í grófum dráttum við það sama, en fara þó heldur batnandi. Versti hnökrinn virðist hafa lagast af sjálfu sér og hinir tveir ku ekki vera til að hafa miklar áhyggjur af. Stelpan er stálslegin í öllu daglegu amstri - meir að segja varla að þetta útiloki hana frá því að taka þátt í raunveruleikaþætti um klæðskerasniðna stúlknahljómsveit þegar hún vex úr grasi.

Svo byrjaði brauðstritið. Og síðan hef ég verið hérna hjá ykkur.
by Hr. Pez

05 ágúst 2004


Ég held áfram með stílinn minn um það sem ég gerði í fríinu einhvern tíma bráðlega. En fyrst ætla ég að tilkynna niðurstöðuna mína úr gagnslausasta internetprófi í gervöllum rafheimum:

by Hr. Pez

04 ágúst 2004


En hvernig er sumarið annars búið að vera?

Jú, fyrsti í fríi fór í ágæta þjóðhátíð niðri við Tjörn - við fórum í skrúðgöngu frá Hagatorgi niður í Hljómskálagarð og væfluðumst síðan um Kvosina. Fengum okkur vöfflur með og án rjóma og sultu. Hrefna fór í hoppikastalana. Við hittum Frosta og Palla þar sem þeir sprönguðu um á hjólabuxum í sólskininu. Ég lagðist með þeim á grasflötina fyrir framan Fjölbraut í Lækjargötu og við spjölluðum saman góða stund meðan frúin fór með Hrefnu inn í einhvern rauðan strætisvagn sem var tvíhöfða áróðursskrímsli fyrir símafyrirtæki. Eða trúfélag, ég man það ekki. Hressir krakkar hlupu um og frömdu umhverfisgjörninga. Svo fórum við heim með strætó. Hrefna fékk risastóran sleikjó í tilefni dagsins. Það sá ekki högg á vatni þegar hún sagðist ekki vilja meira. Svo við hentum honum.

Daginn eftir flugum við með Kisumömmunni og fjölskyldu til Baunalands, þar sem við brenndum frá Kastrup yfir á Fjón og gistum þar á hóteli eina nótt. Áfram var haldið til Árósa á Jótlandi, þar sem leitað var uppi gamalt mylluhús sem báðar fjölskyldurnar skyldu gista næstu vikuna. Þar var dvalið í góðu yfirlæti.

Ég las þær þrjár bækur sem ég lagði upp með. Ég tala kannski meira um það seinna. En þær voru fínar, allar sem ein.

Á myllubænum voru hestar, þar af tveir sem deildu haga með fjárhóp einum miklum og ógurlegum. Það varð að vana að þegar búið var að borða kvöldmat var farið með afganga dagsins (brauð, bananahýði, spaghettí, soðnar kartöflur, lasagna, kjúklingabita...) og þeim fleygt í skjáturnar. Þær stukku upp af meltunni og fóru að jarma um leið og þær sáu okkur tilsýndar koma yfir brúna. Ekki voru það fögur hljóð.

Það var blautt á þessa viku á Jótlandi, en hékk þó vanalegast þungbúið flesta dagana. Fyrsta kvöldið fór ég í göngutúr með frúnni og við skiptumst á gjöfum í tilefni fimm ára afmælisins. Það var rómantísk gönguferð - við kysstumst í óleyfi innan girðingar á landareign sem var þéttsetin af baulandi geldneyti. Á Jónsmessu fórum við í næsta þorp og fylgdumst með þegar þorpsbúar reyndu að brenna nornina, eins og gert er víst ár hvert í þessum heimshluta. Vegna tíðarfarsins þá vildi hún ekki brenna helvítið á henni. Við gáfumst upp á biðinni í þann mund sem varaliðið renndi í hlað með logsuðutæki og aukaskammt af bensínhlaupi.

Það var mikið horft á Evrópumótið.

Eftir vikuna skildu leiðir: Hafdís og fjölskylda fóru austurum og upp á Skán, og héldu þar áfram dvöl í rigningu og almennum krankheitum. Við eltum sólina suður á bóginn og námum ekki staðar fyrr en í Ulm í Bæjaralandi, þar sem við gistum í góðu yfirlæti hjá vinafólki.

Við skoðuðum mikið af allra handa dýragörðum í ferðinni. Mjög. Mikið. Svo mikið að jaðrar við fáránleika. Þær tvær vikur sem við dvöldum í Danmörku og Þýskalandi fórum við í tvo dýragarða í fullri stærð, einn skriðdýragarð og þrjú sjávar- og vatnadýrasöfn, öll með einhverjum viðaukum af þurralífskvikindum. Þar stóð regnskógurinn í Randers upp úr. Hrefnu fannst til dæmis aðeins of spennandi að hafa leðurblökur flögrandi þar yfir hausnum á sér.

When Animals Attack!-mómentið var þó á sædýrasafninu í Ulm, þar sem annar af tveimur páfuglum tók sig til og goggaði hana í kinnina þannig að á henni sá. Það sprakk þó ekki fyrir - ekki nema á sálinni hjá henni greyinu.

Á Jótlandi var að sjálfsögðu farið í Lególand í Billund, sem var úðen tvívl með hápunktum ferðarinnar. Að degi loknum spurðum við Hrefnu hvað hana langaði til að gera daginn eftir. Og hún spurði á móti hvort við gætum ekki bara farið í annað Lególand, sem væri alveg eins. Svo þegar við uppgötvuðum að Lególand Dojsland var ekki nema tuttugu mínútna akstur frá Ulm var ekki spurning hvað við gerðum er þangað kæmi. Sem við og gerðum.

Einn af lágpunktum ferðarinnar var þegar við námum staðar á vegasjoppu við holsetalenska hraðbraut á suðurleiðinni og þurftum að fá okkur eitthvað í gogginn. Dömurnar fengu sér þýska útgáfu af hakki og spaghettíi. Ég ákvað að reyna mig við etníska matargerð og dembdi mér á kúfaðan disk af Holsteiner Sauerfleisch. Og nei, það var ekki alveg eins lystugt og myndin gefur tilefni til að ætla. Ég get reyndar sjálfum mér um kennt, eftir á að hyggja. En spaghettíið var þó ef eitthvað var hálfu ólystugra. Lexían er sú að það eru gildar ástæður fyrir því að maður rekst ekki á þýska veitingastaði utan Þýskalands. Og verið vakandi fyrir bandarískum herstöðvum þegar þið akið þýskar hraðbrautir - þá eru MacDonalds og Burger King aldrei langt undan.

En hvað um það, sólin brosti við Bæjurum og dvölin þar var ljúf. Svo var brennt aftur norður á bóg í vikulok og flogið heim frá Kastrup. Og lýkur þar útlistun á fyrri helmingi sumarfrísins.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com