<$BlogRSDUrl$>

30 júlí 2004


Ég ætla að útlista aðeins betur hvað ég var að fara í gær. Ég var fyrst að hugsa um að skella þessu í komment við færslu gærdagsins, en þetta er bara of stórt mál finnst mér - það verðskuldar sína eigin færslu.

Hugsunin í því sem ég sló fram í gær er alveg skýr, finnst mér, þótt framsetningin hafi kannski verið dálítið glannaleg. Hún snýst um það að fangelsi eru mannskemmandi stofnanir. Ef vist í betrunarhúsi stæði undir nafni, þá ætti fólk að koma þaðan út reynslunni ríkara og fullt af löngun og einlægum ásetningi til að taka framförum í jákvæðu hugarfari og líferni.

Sú er því miður sjaldnast raunin.

Sem hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að sérstaklega við fyrsta brot, nánast óháð því um hvaða brot er að ræða, finnst mér að ætti að gera fólki kleift að taka út refsingu sína utan fangelsismúra að eins miklu leyti og unnt er, með samfélagsþjónustu og skilorðsbindingu refsinga, að mestu ef ekki öllu leyti.

Fyrir nokkrum árum voru í fréttum breytingar sem mér þóttu til batnaðar, þar sem auka átti vægi samfélagsþjónustu í réttarkerfinu. Ég hef minna heyrt af þeim málum í seinni tíð - kannski er það góðs viti (orðið dagleg og ófréttnæm rútína), kannski ills (dottið upp fyrir); ég bara veit það ekki.

Fælingarmáttur fangelsisvistar er hverfandi - þeir sem ætla að brjóta af sér gera það, óháð því hvaða refsing bíður þeirra ef upp um þá kemst.

Það ætlar enginn að láta komast upp um sig.

En eitt sem kannski gæti haft fælandi áhrif væri skilorðsbinding strangs dóms til langs tíma, við fyrsta alvarlega brot: þú sleppur létt núna góurinn, en þér er eins gott að halda þig á mottunni næstu tuttugu árin eða svo ("One strike and you're still in," svo ég snúi út úr "Three strikes and you're out" martröðinni).

Nota bene: ef fólki finnst glæpamenn sleppa of vægt hýddir undan vendi laganna þá er það gott og blessað sjónarmið. En þeir hinir sömu ættu þá að gera sjálfum sér grein fyrir því að um leið er verið að segja að meginhlutverk dómskerfisins sé að refsa hinum seku, veita þeim það sem þeir eiga skilið; ekki fyrst og fremst að draga úr glæpum, skapa öruggara þjóðfélag. Þeir vilja leggja áherslu á hefndina í refsingunni. Af þessum sökum set ég ávallt dálítinn vara á mig þegar ég heyri fólk tala um að herða þurfi refsingar, því frá mínum bæjardyrum séð er stigsmunur en ekki eðlis- á því að krefjast harðari og lengri fangavistar annars vegar og dauðarefsingar hins vegar.

En það er nú kannski bara ég.
by Hr. Pez

29 júlí 2004


Ég rak augun í ágæta grein á Múrnum um tilgangsleysi refsidýrkunar. Ég er svo sammála því sem þar stendur.

Reyndar gríp ég stundum tækifærið þegar þessi mál ber á góma í spjalli við annað fólk til að færa rök að því að ef það sem við viljum sé betra og "glæpaminna" samfélag þá sé þvert á móti nauðsynlegt að innleiða vægari refsingar í íslenska réttarkerfið.
by Hr. Pez


Hvað er íslenska orðið fyrir það sem á enskunni er kallað oxymoron? Fyrir orð sem fela mótsögn í sjálfum sér? Grilla er reyndar gott og gilt íslenskt orð, en þýðir bara allt annað. Ég setti samt saman lista yfir þrjár stærstu grillurnar sem mér finnst hvað algengast að fólk gangi með í kollinum. Hann er svona, í engri sérstakri röð:

Náttúrulegt jafnvægi
Heimsfriður
Eilíft líf

Ætli ég sé að gleyma einhverju?
by Hr. Pez

28 júlí 2004


Ég er búinn að vera með svo mikinn verk í mjóbakinu síðan í fyrradag.

Rosalega er maður orðinn gamall. ("Ég er búin að vera með svo mikla vindverki," vældi kerlingarskarið.)

En fátt er svo með öllu illt - ég er búinn að enduruppgötva hvað það er yndislegt að fara í heitt bað á kvöldin.

"Hættu þessu væli," sagði frúin. "Láttu ekki svona og farðu bara í heitt freyðibað. Láttu þetta líða úr þér."

Sem ég gerði. Fékk mér vænan slurk af yfirborðsvirkandi slökun úr flösku með lofnarblómsilmi út í fjörutíuogsex gráða heitt baðvatnið. Lá svo og maríneraðist og las Philip Pullman í blómahafinu.

Það var ljúft. Bæði kvöldin.

En ætli ég fari ekki að láta gott heita. Bæði fer ég skánandi í bakinu og svo kvartar frúin svo svakalega yfir því hvað ég styn mikið og hátt og rýti eins og svín í stíu þegar ég dröslast loksins upp úr, nærri liðið yfir mig af hitasjokki.

Svo þarf ég bara að fara að hreyfa mig eitthvað. Ég er farinn að skoða hvort ég ætti ekki að kaupa mér kort einhvers staðar.

Maður hefði gott af því. Andlega og líkamlega.
by Hr. Pez

26 júlí 2004


Þetta var hreint afskaplega ánægjuleg helgi.

Á föstudagskvöldinu var þrumuafmælispartí hjá Pönnsunni. Skemmtu þar allir sér hið besta, ég drakk tæpilega af kokteili hússins, bjóri, viskíi, tekílai og lífsins B-i, vann í sjómanni og allt hvað eina. Enda víðfrægur fyrir mitt kraftalega at-gervi.

Laugardagurinn byrjaði (fyrir utan það að rífa sig upp og fylgja stelpunum á fætur) á því að ég þurfti að sendast út um hvippinn og hvappinn til að aðstoða einn góðvin minn fyndinna erindagjörða.

Mjög. Fyndinna. Erindagjörða.

Hvað fleira? Við fórum tvisvar í sund, héngum hjá tengdó, fengum nýbakaðan doktor í pönnukökur og sáum Lost in Translation á DVD.

Ágæt helgi. Alveg hreint ágæt.
by Hr. Pez

22 júlí 2004


Loksins nenni ég að taka upp pennann eftir heimkomuna. Heimferðin frá Brimaborg gekk ágætlega og var gott að koma heim. Ég tók mér frídag á þriðjudeginum til að slappa af með fjölskyldunni; við skoðuðum Íslendingasýninguna á Austurvelli og gáfum öndunum á Tjörninni brauð. Þær voru reyndar óvenju fáar; kannski var búið að stela einhverjum þeirra.

Svo byrjaði vinnan í gær; nóg að gera við að setja sig aftur inn í málin eftir langar fjarvistir. Ég er búinn að nota allt mitt frí upp til agna núna og sé fram á viðstöðulitla setu í vinnuklefanum mínum allt til næsta sumars.

Saman við heimkomuna fóru fréttir af undanhaldi ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu og skyndilegri sjúkrahúsdvöl Davíðs Oddssonar.

Greyið karlinn, segi ég nú bara. Maður óskar ekki nokkrum manni að lenda í svona löguðu.

Ég verð reyndar að játa upp á mig að er fyrstu fréttir bárust af veikindunum var ég ekki alveg sannfærður um að nokkuð væri að honum blessuðum. Ja hvur grefillinn, stóð ég mig að því að hugsa. Hvaða plotti er hann að taka upp á núna?

Já, ég veit. Það var ljótt að hugsa svona. En spunalæknarnir hafa jú löngum verið meira viðloðandi hjá honum Dabba en þeir hefðbundnu, svo mér er kannski ekki einum um að kenna að hafa verið pínu tortrygginn í upphafi.

Hvað um það, kannski verður batnandi manni best að lifa í framhaldinu. Ég man hvað hún Ingibjörg Pálmadóttir fékk skíra sýn á það sem skipti hana máli í lífinu eftir að hún fékk aðsvif í beinni útsendingu þarna um árið. Og Össur Skarphéðinsson stóð hjá og glápti forviða á eins og hann vildi segja: Það var ekki ég! Þetta er ekki mér að kenna!

Þá lýstur niður í mig: hvernig hefði farið ef Davíð Oddsson hefði fengið gallsteinakast í beinni útsendingu fyrir framan myndavélarnar í gær, og Össur Skarphéðinsson hlaupið til við að reyna að grípa hann (Ég klúðra þessu sko ekki aftur, hefði hann hugsað)?

Nei annars. Hann hefði sennilega klúðrað því öllu saman aftur.
by Hr. Pez

18 júlí 2004


Jæja, þá fer þessu að ljúka hérna í Bremen. Á eftir verður mótsslitaathöfnin og í fyrramálið leggjum við af stað til Kastrup.
 
Kórnum gekk vel, framar vonum - krækti sér í silfurviðurkenningu.
 
Í gær gekk ég milli sala og horfði á úrslitakeppnirnar, eins mikið og ég komst yfir. Úrslitin í söng karlakóra fyrir hádegið ollu vonbrigðum. Starfsmannakór Nokia var nokkuð skondinn: sumir karlarnir skjálfhentir og taktlausir og ekki alveg með á nótunum.  Ég hafði séð þá á súrrandi fylleríi niðri í bæ tveimur kvöldum áður. Þeim tókst að ræsa neyðarbjölluna á almenningssalerni aðallestarstöðvar Brimaborgar. Ég er ekki alveg viss um að allir hafi þeir verið komnir niður á jörðina í úrslitunum í gærmorgun.
 
Úrslitin í nútímatónlist eftir hádegið fóru fram úr björtustu vonum. Sérstaklega var síðasta númerið heillandi: Guangdong Experimental Middle School Choir. Tíu til þrettán ára krakkar sem gerðu hluti sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Þau mössuðu þetta. Ég hlakka ósegjanlega til að sjá þau aftur - þau troða upp sem vinningshafar á lokaathöfninni á eftir.
 
Það sem er hægt að gera.
 
Jæja. Þá er að drepa tímann með einhverjum ráðum í dag fram að mótsslitunum.
by Hr. Pez

16 júlí 2004


Jæja, þá er það búið.
 
Og mikið óskaplega gekk þetta nú vel.
 
Á eftir er ferð á vísindasafn einkurskonar, svo ætla ég mér að hlusta á meiri kórsöng af fúsum og frjálsum vilja, og loks éta allir saman í kvöldmatnum. Og drekka.
 
Annað kvöld verður sumarpartí í höllinni. Bóní Emm syngja og spila fyrir dansi.
by Hr. Pez


Jæja, þá er það stóri dagurinn. Innan við tveir tímar í keppni og ég er kominn í smókinginn.
 
Mikil lifandis ósköp var nú gott að fá símtalið að heiman sem ég fékk í gærkvöldi.
 
Obbosí, þarf að fara að græja mig fyrir rútuna.
 
P.S. stórt kúdos til Essmeröldunnar fyrir að segja mér frá íslenska lyklaborðinu.
by Hr. Pez

14 júlí 2004


Gloggur lesandi furdadi sig a thvi i hvada olympisku ithrott jeg gaeti verid ad fara ad keppa, landi og thjod til soma. Jeg, sem er vidfraegur fyrir spengilega likamsburdi og goda samhaefingu utlima og toppstykkis. Thvi er til ad svara ad jeg keppi ad sjalfsogdu i hinni aevafornu grisku ithrott er korsongur nefnist, og er hjer staddur sem session-tenor i Arnesingakornum.

Fjorid byrjadi fyrr en vid hugdum. Vid attum ekki von a ad thurfa ad performera fyrr en a fostudagsmorgun, en i morgunmatnum spurdist ut ad allur korinn skyldi koma med til innritunar klukkan niu. Fimm minutum adur en lagt var af stad var upplyst ad vid skyldum fara i korbuninga, thar sem vid aettum ad vera med tuttugu minutna skemmtidagskra a adaltorginu nu i hadeginu. Henni var svo puslad saman i sporvagninum a leidinni, thar sem keppnisprogrammid sem aeft var nadi ekki nema helmingnum af thvi.

Allt reddadist thetta nu ad sjalfsogdu.

Nu er jeg kominn ur smokingnum og i stuttermabolinn og stefni aftur nidur i bae. Aefing klukkan halffjogur og setningarathofn i kvold.

Vona ad allt sje gott heimavid.
by Hr. Pez

13 júlí 2004


Eigum vid ekki ad segja ad frii sje lokid. Jeg er a hoteli i Bremen i Thzskalandi theirra erinda ad keppa a Olympiumoti. Thvi vantar islenska stafi. Einnig er furdulegt med thzsk lzklabord ad thau vixla z og y, og hef jeg af thvi allnokkurt gaman. Naestu daga mun jeg reyna ad halda hjer dagbok eftir fremsta megni.

Buid er ad tjekka alla inn eftir langa ferd, senn verdur haldid til kvoldverdar og svo i hattinn. Tveggja tima svefninn sidustu nott fer ad segja til sin.

BeKve.
by Hr. Pez

08 júlí 2004


Ég er enn í fríi. En ég vildi samt geta þess að mér áskotnaðist um daginn tvöfaldur skammtur af Dagrenningu, kristilegu tímariti um spádóma Biblíunnar og píramítanna í Egiftalandi um Ísland og guðdómlegt hlutverk Íslendinganna í framtíðarsamfélagi þjóðanna. Safnið er nánast komplett: yfir sextíu af þeim sextíuogátta tölublöðum sem út komu. Á sama stað og af sama tilefni er trílógía Douglas Reed um ástandið í heimsmálunum um miðja öldina (Hrunadans heimsveldanna - Rödd hrópandans - Á bak við tjaldið). Einnig má nálgast danska stjörnumerkjarómaninn Beboede Verdener, eftir Flammarion. Ef enginn vill þetta þá fer það í klósettpappír.

Ekki spyrja mig hvernig mér hlotnaðist eða afhverju ég hef áhuga á efninu.

Svo bara áframhaldandi ánægjulegt sumar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com