<$BlogRSDUrl$>

15 júní 2004


Ég er farinn í sumarfrí á tölvuöld.
Bless á meðan.
by Hr. Pez

14 júní 2004


Mánuðum saman er hjakkað í sama farinu. Svo gerist heill lifandis hellingur (varúð bókablogg).

Ég kláraði í strætó nú í morgun bókina um Upprétta manninn eftir Michael Marshall, raðmorðingjakiljureyfara af dýpra/langsóttara taginu. Þetta er ósjálfstætt framhald bókarinnar um Hálmkarlana sem sló í gegn fyrir nokkru. Flakk milli sjónarhorna fer eflaust í taugarnar á sumum (til dæmis mér), en stíllinn er grípandi, þjóðfélagsrýnin á bandarískan samtíma er nístandi skörp og yfrið nóg af frumlegum hugmyndum. Heilt yfir er hrifning mín á höfundinum nöldrinu yfirsterkari. Samt vil ég að hann fari sem fyrst að skrifa alvöru vísindaskáldskap aftur (um leið og hann hefur klárað þá síðustu í trílógíunni). Hver sem hefur gaman af svoleiðis og hefur ekki lesið Áfram veginn eftir sama höfund á mikið eftir.

Svo er bókin á náttborðinu loksins að verða búin, ég stefni á að klára hana áður en fjölskyldan fer í sumarfrí. Þar er um að ræða Hin æsilegu æfintýr Hoffmanns og Leirs, eftir Michael Chabon. Það er mjög góð bók. Mjög góð. Púlítser á bakinu og hvaðeina. Ég hef þó ekki grenjað yfir henni ennþá, ólíkt því sem einhver veiklundaður ritrýnirinn játar upp á sig á bókarkápunni.

Enda er ég frægur fyrir það að hafa taugar úr stáli og steingerða tárakirtla.

Að síðustu hef ég verið að blaða í teiknimyndasögubók um fjórfingraða hanskaköttinn Frank. Það er með því sýrðara sem teiknað hefur verið. Ómissandi lesning fyrir þá sem vilja bækur með alvöru martröðum. Áhugasamir tékki til dæmis á þessu óborganlega sögubroti hérna.

Svo fer ég í fríið, og verður úr vöndu að ráða hvað fær að fljóta með. Sennilega mun ég taka Villibirtu eftir Lizu Marklund (sænskan sósíalrealismakrimma), Nóttina sem um ræðir eftir Tobias Wolff (amerískt smáraunsæi) og Þrjá píslarbletti á Pálmari Álfríkssyni eftir Philip K. Dick (kolklikkaðan vísindaskáldskap). Þá held ég að allir í hausnum á mér ættu að hafa eitthvað við sitt hæfi.
by Hr. Pez

11 júní 2004


Og síðan er það augnablikið undir upphafstónum Bítlakóversins Happiness is a Warm Gun með Breeders, þar sem einhver (sennilega Kim Deal) heyrist skerpa sér á kveikjara til að fá sér sígó rétt áður en lætin byrja. Ég segi kannski ekki að mig langi til að byrja að reykja í hvert skipti sem ég heyri þetta, en mér finnst þetta samt alltaf dálítið svalt móment.
by Hr. Pez

10 júní 2004


Á ákveðnum stað í sólóinu í hinu ágæta lagi Vamos með Pixies (Surfer Rosa útgáfunni) heyrist greinilega eins og sötrað sé úr bolla með einhvers lags heitum vökva. Alltaf þegar ég heyri þann lagstúf langar mig hreint óskaplega mikið í kaffi.
by Hr. Pez

09 júní 2004


Ja mikið óskaplega er fallegur dagur í dag.

Þeim sem nenna að hanga yfir tölvunni stundinni lengur get ég bent á bloggið hans Ágústs Borgþórs. Þar fer sko maður sem hrifsar bloggdónatitilinn af Hafdísi án þess að blása úr nös - síðasti maður sem gervallir netheimar hefðu trúað til að byrja á þessum andskota. Hann er tiltölulega nýfarinn af stað og ég hef haft gaman af honum allt frá upphafi, þótt ég sé kannski ekkert endilega sammála öllu sem hann hefur fram að færa.

En nú ætla ég að labba niður í bæ í góða veðrinu.
by Hr. Pez

08 júní 2004


Ég vil vekja athygli þeirra sem verða fjarri heimili sínu þegar forsetakosningar fara fram að hafin er móttaka utankjörfundaratkvæða fyrir þær, að minnsta kosti hér í Reykjavík. Sjálfur fór ég og kaus mér forseta til næstu fjögurra ára nú í hádeginu, þar sem ég verð fjarri góðu gamni á sjálfan kosningadaginn.

Nú stefnir allt í að davíð ætli að nauðga gervallri þjóðinni í óæðri endann með því að boða kosningar um fjölmiðlalögin um verslunarmannahelgina og krefjast auk þess að 75% þjóðarinnar mæti á kjörstað til að mark sé á þeim takandi, bara fyrir það að eitthvað svipað var sagt eiga við léttvæga skoðanakönnun um skipulagsmál Reykjavíkurborgar fyrir einhverjum árum.

Ef svo heldur fram sem horfir mun hann eflaust ná að búa svo um hnútana líka að ekki verði einu sinni hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar í það skiptið; sanniði til.

Það eina sem ég bíð spenntur eftir að sjá núna er hvernig hann mun fara að því að fella ákvæði um synjunarvald forseta úr stjórnarskránni án þess að hafa fyrir því aukinn þingmeirihluta og án þess að leysa upp þing og boða til alþingiskosninga í millitíðinni. Honum er trúandi til að finna ráð til þess.

Hvernig segir maður "Stöðvið manninn!" á latínu? Ég væri til í barmmerki með einhverju svoleiðis.

Eða "Stöðvið þjófinn!" jafnvel?

Lýðræði íslensku þjóðarinnar er davíði oddsyni sofandi fiskur í tunnu. Það er honum sleikjó í munni varnarlauss smákrakka. Það er honum mennskur pýramíti af sneyptum íröskum stríðsföngum með nærbuxur á höfðinu.

Ekki það að nokkur maður undir sólinni hafi mögulega nokkuð um þetta að segja fyrst Myrki Herrann er búinn að gera upp hug sinn. Resistance is Futile.

Á léttari nótum og talandi um sólina, þá var einn vinnufélaginn úti á brúnni við útidyrnar með sérútbúinn stjörnusjónauka sem hann hafði nappað af syni sínum. Ég fékk að kíkja á Venus í gegn um hann.

Það var falleg sjón.
by Hr. Pez

07 júní 2004


Rétt er að vara við bókabloggi.

Ég hef afkastað minna síðustu vikur og mánuði hvað varðar fjölda titla en ég er alfarið sáttur við. Þó lauk ég um daginn strætóreyfaranum Ást á rauðu ljósi, eftir Hönnu Kristjánsdóttur (öðru nafni Jóhönnu Kristjóns) og átti erfitt með að koma auga á hvað hefði átt að vera svona hneykslanlegt á sínum tíma.

Bókin? Hún var allt í lagi. Hún var látin ganga til mín, og er því ekki beint í eigu minni, þótt ég hafi hana undir höndum sem stendur. Ef einhvern langar til að taka við henni má endilega sýna áhuga í kommentum og ég kem henni áleiðis með einhverjum ráðum.

Annars er fátt nýtt að tína til síðan síðast. Ég las teiknimyndasögubókina Death - The Time of Your Life, eftir Neil Gaiman. Var ég nokkuð búinn að nefna það? Hún er ekki alveg gallalaus, og þá helst hvað reynt var að troða mörgum og miklum viðfangsefnum í fáa ramma. En það var samt gaman að henni, soleiðis. Og Dauðinn er foxý gella.

Að síðustu má geta þess að við hjónin leigðum okkur ræmu í fyrsta skipti í háa herrans tíð í gærkveldi. Fyrir valinu varð það sem mér finnst vera lakasta mynd Cohen-bræðra til þessa, en hún er þó langt langt yfir meðallagi þess sem stendur til boða almennt á leigumarkaðnum. Vel þess virði að sjá, þótt ekki væri nema fyrir nokkur gullvæg augnablik í anda þeirra bræðra.

Helgin var þess utan ágæt - við hjónin fórum í heljarinnar partí á laugardagskvöldið og svo í siglingu með stelpurnar um sundin blá á sjómannadeginum.
by Hr. Pez

03 júní 2004


Nú er hann Dabbi blessaður víst svo upptekinn við skriftir að hann hefur ekki tíma til að eltast við nýjustu tiktúrurnar í honum Óla greyinu, samkvæmt nýjustu Davíðstíðindum. En ætli hann verði nú samt ekki að gera það fyrr en seinna.

Mikið yrði það nú voðalegt ef þessi hamagangur allur yrði til þess að Davíð ynnist ekki tími til að ganga frá nýjasta hugverki sínu til útgáfu fyrir næsta jólabókaflóð. Það yrði mikið áfall fyrir íslenskt menningarlíf ef þjóðin þyrfti að bíða í heilt ár eftir nýrri bók frá Davíði Oddssyni.
by Hr. Pez


Ég er búinn að lýsa yfir ánægju minni með síðustu aðgerðir Ólafs Ragnars Grímssonar. Hvað sem líður spekúlasjónum um það hversu gott eða slæmt þetta tiltekna frumvarp til fjölmiðlalaga er, eða um það hvort málskotsrétturinn sé til í alvörunni eða ekki, eða um það hvort hann hafi með þessu aðgerðamikla aðgerðaleysi sínu verið að drita yfir alþingi eða ríkisstjórnina (sem hann sór af sér hvort tveggja) eða Davíð Oddson persónulega (sem var ekki útilokað), þá er ljóst að þarna fer maður sem seint er hægt að saka um gunguskap, hvað þá drusluhátt. Ójá, þarna fer sko enginn veifiskati.

En yfir að allt öðru.

Í hádeginu vorum við vinnufélagarnir að tala um dýr hin ýmsustu konar (erni, endur, Keikó, Keith Richards...) og einhver slengdi fram þeirri fullyrðingu að dýr sem alist hefðu upp í haldi (svo sem í dýragörðum) ættu sér ekki viðreisnar von í hinum harða reynsluheimi óspilltrar náttúru. Og studdi það þeim rökum að flest þau dýr sem alið hafa manninn í búrum alla sína hunds- og kattartíð eigi til að drepast fljótlega eftir að þeim er sleppt lausum í náttúruna.

Gott og vel, þetta má vel vera satt, og hvur veit, á kannski frekar við um sum dýr (loðnur, afríkufíla, Keikó...) frekar en önnur (skröltorma, kakkalakka, Keith Richards...). Eftirfarandi fullyrðing gildir eflaust nokkuð almennt: Dýr sem hafa alist upp undir manna höndum og sem sleppt er lausum í náttúrunni drepast vanalega fljótlega eftir að það er gert.

En, allt í einu laust niður í mig: kannski skiptir ekki nokkrum sköpuðum hlut hvort dýrin sem um ræðir hafa verið í haldi eða ekki. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi sýnt fram á að eftirfarandi fullyrðing sé röng: Villt dýr sem sleppt er lausum í náttúrunni drepast vanalega fljótlega eftir að það er gert.

Til dæmis, ef púmuynju sem alin hefur verið upp í dýragarði væri sleppt á víðavangi í kjörlendi, væri nokkuð svo víst að henni myndi farnast neitt mikið verr en tegundasystur hennar sem hefur verið fönguð, flutt til um t.d. hundrað kílómetra og svo sleppt aftur í svipuðu umhverfi? Hefur nokkur tekið sig til og prófað þessa tilgátu vísindalega? Er þetta ekki bara ein af þessum mýtum sem við tökum sem gefnar af því að við höfum aldrei hugsað út í þær, en eru í raun bara dregnar út úr endaþörmum besservisseranna sem slengdu þeim fram eins og heilögum sannleik til að byrja með?

Spyr sá sem ekki veit.
by Hr. Pez

02 júní 2004


Auk þess tek ég undir með Særúnu að það sé full ástæða til að flagga í tilefni dagsins, og hvet sem flesta til að gera slíkt hið sama:by Hr. Pez


Ja þau tíðkast sko aldeilis í dag, breiðu spjótin.

Legg þú á djúpið Óli minn. Og megi allar góðar vættir fylgja þér á vegferð þinni.
by Hr. Pez

01 júní 2004


Ég hreinsaði aðeins til í tenglasafninu hjá mér. Ég fleygði út einum sem horfinn yfir bloggmóðuna miklu. Hangi reyndar enn um sinn á öðrum sem er í ótímabundnu malaríudái. Og bætti við einni sem byrjaði um daginn og sem mér sýnist fara vel af stað.

Ég föndra kannski aðeins meira við þetta á næstunni.

Annars er helst í fréttum að við gerðum góða ferð heim í heiðarfjörðinn um hvítasunnuna. Frúin og stelpurnar flugu með kaffivélinni á fimmtudag og ég keyrði þetta svo á föstudagskvöldinu. Tvær veislur á sunnudeginum og heljarinnar fyllerí um kvöldið. Mér fannst tvímælalaust hápunkturinn þegar ég barðist ötullega fyrir því réttmæta sjónarmiði að þótt G'n'R hefðu kannski átt sæmilega spretti inn á milli, þá hefðu bæði lög þeirra og textar mestan part verið óttalegt klastur, auk þess sem Axel strákurinn væri alveg hreint glataður söngvari.

Þá hljóp sko aldeilis líf í tuskurnar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com