<$BlogRSDUrl$>

30 apríl 2004


Ænei það er óþarfi. Auk þess sem ég nenni því varla. Það verður alveg nóg að taka undanúrslitin saman í heildina að viku liðinni.

Í gærkvöldi var okkur boðið í barnaafmæliskvöldmat. Og hafði fólk af því allnokkurt gaman. Á morgun er annað afmæli (jafnvel barnaafmæli, ef menn vilja líta þannig á það). Þar mætist sami kumpánskapur að hluta til á ný.

Í kvöld er Listahátíð Voxins og verður þar án efa glatt á hjalla.

Það gefur auga leið á hvað ég ætla að horfa annað kvöld.

Á sunnudaginn förum við með þeirri eldri í leikhús að sjá eitt af klassískum meistaraverkum norrænna leikbókmennta: Dýrin í Hálsaskógi.

Og þarna inn á milli ætla ég mér að bæta minnst fimmtánhundruð orðum við söguna sem ég er að vinna að þessa dagana.

Mössuð helgi maður.
by Hr. Pez

29 apríl 2004


Þá var það við Miðjarðarhafið í Mónakó að ein ung og íðilfögur snót raulaði hugljúfa ballöðu með diskótakti. Það er liggur við allt og sumt sem ég man um það - mér líkaði vel við lagið án þess að það væri mér eftirminnilegt og mér þótti gefa auga leið af hverju Greifinn af Monte Carlo hefði valið hana Mæju litlu létta á fæti öðrum fremur. Forza, segi ég nú bara. Þar til annað kemur í ljós, eða þar til löggurnar í Mónakó vilja fá að sjá oní plastpokann sem ég held á...

Og þá tróð upp hann Sakís Røvas, gríski Ricky-Martin-vonnabíinn sem hvatti til óheftra rassaskakninga og gekk á undan með góðu fordæmi (eða afturdæmi, eftir því hvernig á það er litið) með tveimur léttklæddum og munúðarfullum drósum. Og kynhormónin ólguðu svo svakalega að ég fann svitalyktina undan órökuðum handarkrikunum á honum í gegnum sjónvarpið. (Gott ef bakraddasöngkonan var honum ekki vopnasystir í natúralismanum, þótt ég sé ekki alveg eins viss með það.) Ég vænti mikils af þessu framlagi, eða með orðum Mikjáls Dungals í hlutverki Eðlustráksins í myndinni um Skjaldborgarstræti: "Gredda er góð!"

Og talandi um greddu. Er til sú arma sál á jarðríki sem kemst ekki við af því að sjá hina úkraínsku Rúslönu skekja sig með sínum föngulega flokki í Villtum Dansi? Púff, réttið mér vasaklútinn. Það þurfa einhverjar stórkostlegar náttúruvanfarir að koma til svo Úkraínumenn geri eitthvað minna en mjög stóra hluti í ár. Og ekki spillir fyrir að lagið er líka bara alveghreint ágætt. Vonandi að náttúrusjarminn skili sér á sviðinu í Istanbúl fyrir rest þótt dansherinn verði takmarkaður við fimm manns.

Ég tek þennan fyrsta vikuskammt kannski saman í heildina einhvern tíma fyrir laugardagskvöldið, en svo heldur skrúðgangan baaara áfram.
by Hr. Pez


Ég held ég viti nákvæmlega hvað ég er að segja þegar ég segi að það sé skindlibindlaður dagur í dag.
Mér gengur bara alveg hreint ágætlega í lífi og starfi - mér hættir stundum til að gleyma því.
Og Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir Arto Paasilinna er ágætlega fyndin skrudda.
by Hr. Pez

28 apríl 2004


Þegar sú eldri var búin í baðinu sínu stóð hún uppi á klósettsetunni meðan ég reyndi að greiða flókana úr hári hennar. Þá grípur hún laust um mig annarri hendi og segir upp úr eins manns hljóði: "Ég elska þig pabbi."

Þetta var eitt af þessum ofurlitlu augnablikum sem maður vill muna alla ævi en sem gufa upp úr minningunni án þess að maður fái neitt við ráðið.

En nú er það hér, og ætti þá að rifjast upp ef ég sé þetta einhvern tíma seinna.
by Hr. Pez


Ég náði ekki að horfa til enda á portúgalska framlagið í Evróvisjón þetta árið: Eftir fyrstu mínútuna varð ég að fara fram og kasta upp vegna sjóveikibróður, eða "súmmveiki" öðru nafni. Sem er synd, því ég hefði alveg verið til í að sjá lagið allt til enda. Nei, það er L.Í.A., eða, L.Í.I.: líi, eins og Kiddi Konn orðaði það svo ógleymanlega um árið. Mér fannst ekkert varið í lagið. Ekkert varið í flutninginn. Ekkert varið í umbúnaðinn. Ekkert varið í innihaldið. Þetta var óttalegt skúffelsi allt saman. Sem er náttúrulega bara sömu fréttir og vanalega af portúgalska númerinu í Júróvisjón - þeir ríða sko engum hóffættum Flosa Ólafssyni frá keppninni þetta árið, frekar en áður. Sumum virðist alveg hreint fyrirmunað að ná því hvað gengur í pöpulinn.

Það verður þó að segjast um Möltunga að þeir eru sjaldnast alveg úti á þekju með sín lög í keppninni: þau fitta í lænöppið. Sem vill segja að vanalegast bauna þeir á okkur einhverri óttalega andlausri froðu sem fellur af dularfullum ástæðum í kramið hjá marktækum hluta almúgans. Þeir fylgja þessu plani út í ystu æsar í ár eins og svo oft áður, og um þverbak keyrði í myndbandinu þegar tölvugerðu höfrungarnir stukku yfir þau Júllu og Lúlla meðan söngkonan öskraði úr sér lifur og lungu í úbersópranlínu frá kvennafangelsinu í Kópavogi. Ég myndi nú seint kalla þetta eitt af mínum uppáhaldslögum (og þá á ég við "seint" eins og í: "kannski eftir frontal lóbótómíu") en einhver bölsýnisseggur innra með mér vill meina að þetta gæti alveg átt eftir að meika það í úrslitakeppnina.

En spyrjum að leikslokum með það, enn á ég eftir að lýsa fra... áliti mínu á þremur lögum enn frá fyrra undanúrslitakvöldinu, og þá er það seinna alveg eftir.
by Hr. Pez


Þeim sem sakna áferðarinnar af Brynjuísnum hérna fyrir sunnan er bent á gömlu uppskriftina í ísbúðinni á Hagamel. Þar er seldur ís sem er mjög góður.
by Hr. Pez


Ég var að velta þessu fyrir mér með Ísraelsmenn, í tengslum við þanka mína um geldinginn Davíð Gull-Af-Manni í gær.

Það þarf í sjálfu sér ekki að vera neitt skrítið að ár eftir ár komi eintómir friðarsöngvar í Evróvisjón frá landi með jafn fasískt stjórnarfar og raun ber vitni í Ísrael. Að einhverju leyti er fasisminn væntanlega innbyggður í stjórnarfarið, og jafnvel þjóðarsálina, og ekki bætir úr þessa dagana að landinu er stjórnað af Ariel Sharon - ísraelskum ofurmútant af Davíð Oddssyni, sem ofaní kaupið hefur leyfi til að drepa.

En vitaskuld er líka allt fullt af friðelskandi draumóramönnum í Ísrael sem annars staðar, og skal engan undra að það viðhorf sé sérstaklega ríkjandi meðal vinstrisinnaðra listaspíra (sem eru ábyggilega upp til hópa veruleikafirrtir hasshausar og úrkynjaðir undanvillingar, þar í landi sem annar staðar), sem sjá þann kost vænstan í stöðunni að mótmæla ástandinu með því að senda friðar- og ástarsöngva í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Og uppreisnar- og friðarseggurinn í brjósti hins almenna ísraelska sjónvarpsáhorfanda fær ofurlitla útrás og friðþægingu við það að veita hinum sömu söngvum brautargengi í útlöndum.

Nei kannski er ég á villigötum með þetta. En ég á samt erfitt með að ímynda mér að þeir myndu gútera Death-Metal antem með viðlaginu "Annihilate the Palestinian Scum," hvort sem það er dagskipunin í pólitíkinni hjá þeim eða ekki.

Næsti Evróvisjónskammtur kemur á eftir. Eða á morgun.
by Hr. Pez

27 apríl 2004


Svo var það blessaður Lettinn. Þar er sko atriði sem er svo rosalega í gær að Steinka Bjarna yrði stolt af því að skella sér á það með Lilla, eða Billa, eða hvað sem hann nú hét blessaður. Og heitasta óskin er sú að mér takist að sniðganga þetta helvíti það sem eftir er keppni í ár: Það er eins og Lettarnir ætli sér að feta í fótspor Finna evróvisjónsögunnar eftir velgengina fyrir tveimur árum (eða var það þremur? ég man aldrei hvort sigurlagið var eistneskt og hvort lettneskt). Fyrst var það andlausa og mislukkaða tíníbopptríóið í fyrra, og nú skal Ojrópa sigruð með rámu og raddlausu, hreðjakremjandi snjóþvegnu gallabuxnarokki með sítt að aftan og bilaðan vólúmpetal og magnara sem slefar upp í fjóra og hálfan.
Ekki misskilja mig: Það er ekkert leyndarmál að mér finnst sem Evróvisjón yrði snöggtum skemmtilegri keppni með Meira Rokki!(tm) En það þyrfti að smyrja ansi þykku lagi af Q10 á sjónvarpsskjáinn til að fela hrukkurnar á þessum steingeldu og tinnitussködduðu ellibelgjum svo þetta framlag næði að teljast til bóta.

Og talandi um geldinga, þá er einmitt skemmtileg tilviljun að næst á dagskrá er framlag Ísraelsmanna.
Hérna... ótrúlegt en satt, þá hef ég ekki minnsta snefil af löngun til að tala illa um þetta lag. Mér fannst hann Dabbi gullkálfur bara hreint ágætlega svalur, á þann yndislega hallærislega máta sem er eingöngu hægt að vera í Evróvisjón svo vel sé. Kontratenórar eru náttúrulega alltaf fáránlegir á að hlýða, en hei, hver segir að Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva sé háborg heilbrigðrar smekkvísi og rökhyggju? Þetta lag nýtur minnar velþóknunar (sagði hann upp í opið geðið á sjálfum sér).

Svo komu nýliðarnir frá skíða- og grafarbakkaparadísinni Andorru og virðast hafa náð að skrapa saman í heila hljómsveit af fólki undir fertugu. Lagið er mér ekki minnisstætt, en hún Marta blessunin er snoppufríð stelpa og hin myndarlegasta stafnkvíga. Og katalónskan er hið skemmtilegasta hrognamál á að hlýða og sjálfsagt að leyfa krökkunum að njóta forgjafar fyrir að syngja á frummálinu. Ég verð samt sennilega að hlusta á lagið aftur einhvern tíma seinna (og þá jafnvel án þess að hafa stelpuna fyrir augunum á meðan) til að mynda mér skoðun á því. Ef ég hefði verið í spekingahörmunginni á laugardagskvöldið var hefði ég eflaust gefið þessu lagi gula geisptakkann.

Á morgun velti ég mér upp úr hrakförum Portúgals og Möltu þetta árið, og fleygi jafnvel Mónakó með ofaní kaupið ef ég verð þannig stemmdur.
by Hr. Pez

26 apríl 2004


Ja mikil óskapanna skelfingar hörmung var þetta nú þarna á laugardagskvöldið. Það vill segja, blaðrið milli laga. Norrænir spekingar sátu og spjölluðu sín á milli og ýttu á takka og inn á milli gjammaði spjátrungslegur Svíapjakkur. Óskaplega sænskt alltsaman. Reyndar býsna fyndið þar fyrir, þótt sssssennnilega hafi það nú verið óvart.

Og hvað segja spekingarnir svo?

Mjööönjööö, kjöppnööön í ár ööör möð breyttööö sneeeðe frá því söm áðööör vaaar... já húrra sagði hann og klappaði saman höndum af eftirvæntingu, nú er tveggja kvölda veisla í Evróvisjón, fyrst keppa eitthvað rúmlega tuttugu lönd um tíu laus sæti á seinna kvöldinu með öðrum tíu sem tryggðu sér öruggt sæti fyrir ári síðan. Á laugardagskvöldið var farið yfir fyrri helming þeirra laga sem keppa í þessari undankeppni.

Og lögin? Þau voru hvert öðru betra.
(Það segir vitaskuld ekkert um algild gæði keppninnar, þannig lagað.)

Byrjum á byrjuninni: Ég verð að segja að ég er sammála síðustu ræðumönnum – miðað við það að Finnar hafa prófað allar tónlistarstefnur milli himins og jarðar í gegnum tíðina, allt frá þjóðbúningagauli til þungarokks í spandexbuxum, er ótrúlegt að þetta sé í fyrsta skiptið sem þeir láta sér detta í hug að senda finnskan tangó í Evróvisjón. Þótt ekki væri nema bara fyrir það eiga þeir skilið að komast áfram í úrslitakeppnina. Þetta snýst ekki um hvort lagið er gott eða ekki sem slíkt: Þetta er finnskur tangó, for kræng át lád!

Svo var það Hvíta Rússland. Ég verð bara að játa að ég hafði mjög gaman af þessu og væri alveg til að dansa af mér afturendann við hjarðmannajóðl með evrórusltakti. Víkingar að berjast var býsna fyndið – synd að þeir verða ekki með á sviðinu, það myndi bæta í fjörið. Allavega, ég er dáldið skotinn í þessu númeri.

Sem er sko aldeilis annað en hægt er að segja um falska spriklandi hárhirðslufíflið frá Sviss. Hvað er málið?! Hvað get ég mögulega sagt um þennan strák sem er nægilega mikil svívirða til að það sé öruggt að það sé honum ekki til hróss?
Hvur veit, kannski er einhver svona sveitó sjarmi sem á eftir að vinna á þegar frá líður, svona eins og með Hasta la vista og ísraelska lagið í fyrra.
Nei andskotakornið. Það þarf bara tvö orð til að lýsa þessari hörmung:
Ömur. Legt.
Svo ömurlegt að það væri hreint býsna fyndið, ef það væri fyndið.
En það er ekki fyndið.

Ég læt þetta duga í bili, svo ég geti treint mér prógrammið eitthvað fram eftir vikunni í átt að næsta skammti frá RÚV.
P.S. Ef Elín Inga og Steinunn sjá þetta: Velkomnar stelpur, gaman að sjá ykkur! Gangið í bæinn!
by Hr. Pez

21 apríl 2004


Síðasti dagur vetrar. Nú fer þetta allt að koma - það bjarmaði enn af himninum þegar ég keyrði heim af kóræfingu á ellefta tímanum í gærkveldi.
by Hr. Pez

20 apríl 2004


Annars var hápunktur hádegisins tvímælalaust að sjá tvo tjalda (tjaldapar? tjaldspar? tjaldpar?) fá sér sjortara á grasflötinni aftan við deCode Genetics, Inc.
by Hr. Pez


Ég skutlaðist og tók við bílnum af frúnni í hádeginu. Fyrir utan vinnuna hennar sá ég Pál Pétursson kjaga heim til sín. Fyrir utan vinnuna mína sá ég Sigrúnu Magnúsdóttur.

Tilviljun? Nei, það getur ekki verið.
by Hr. Pez


Stundum finnst mér við hæfi að nota íslenska framburðarritun á enskum nöfnum og frösum. Samt hefði mér fundist eðlilegra hjá moggunum að rita nafnið á módelinu sem TF103B-BI. Nema þetta hafi bara verið tæpó hjá þeim krökkunum.
by Hr. Pez


Nú fer að styttast í vorvertíðina hjá pezusnum. Ég áttaði mig á því í gærkvöldi þegar ekki ómerkari maður en Erik Hawk, vókalisti í Arsch (eða eitthvað), birtist í imbanum og blés til sóknar fyrir íslensku þjóðina. Af því tilefni vil ég taka fram það sem þingmaðurinn mælti forðum að maður verður að halda með sínu liði, jafnvel þótt manni finnist það arfalélegt og hafi enga trú á að það geti nokkuð.

Sem mér finnst að sjálfsögðu ekki. Hei, lagið er betra en Angel. Og jafnvel Það sem enginn sér (eða það sem enginn heyrir, eins og (fliss) gárungarnir kölluðu það).

Það verður líka skylda að fylgjast með Kjánanum, og það er eins og mig minni að Gambrinn hafi haft sitthvað ágætt til málanna að leggja í fyrra líka.

En fyrst og fremst þarf að hafa augun opin fyrir pezusnum, ekki satt?
by Hr. Pez

19 apríl 2004


Það situr heiðlóa á túninu fyrir framan sjómannaskólann.
*Aaahh*
by Hr. Pez


Byrjum á að árna letingja á tölvuöld heilla. Og óska einni raggeit góðrar ferðar. Mér segist svo hugur um að kauði geti nú ekki haldið sig frá þessu að eilífu, svo ég sparka honum ekki strax úr keðjugenginu. Og eitt gerði hann rétt, með orðum skáldsins frá Wigan:

"All Farewells Should be Sudden"
by Hr. Pez

16 apríl 2004


Það er orðinn óratími síðan ég bloggaði síðast um Bifflíubarninginn: ég held að ég hafi ekki minnst á hann einu orði síðan ég rýndi í Davíðssálmana í ágúst á síðasta ári. Og þó spændi ég í framhaldinu gegnum Orðskviði Salómons, Prédikarann og Ljóðaljóðin (eina ferðina enn og það með ánægju), áður en ég fór að spóla í hjólförunum í Jesaja spámanni. Þar sem ég sit reyndar fastur enn. Kannski ég geri skurk í þessum málum á næstunni.

But then again, maybe not.
by Hr. Pez

15 apríl 2004


Pósthólf dauðans. Hlýtur það ekki að vera svalasti íslenski bókartitill allra tíma? Hann ætti alla vega heima á topplista yfir þessháttar lagað. Hvaða fleiri bækur íslenskra höfunda skyldu eiga erindi á þann lista?
by Hr. Pez


Skítt með næsta James Bond. Ég vil fá að vita hvern þeir ráða til að vera næsti Keith Richards.
by Hr. Pez

14 apríl 2004


Ég fékk um daginn beiðni frá ókunnum manni um að birta mynd af skálínuhnútnum sem ég spígsporaði með um daginn. Ég er því miður ekki það tölvuvæddur að eiga rafræna mynd af sjálfum mér með þennan ágæta hnút. Ég á ekki mynd af mér með þennan hnút - basta. Yfirborðskennd leit á internetinu skilaði mér mynd af einni leið til að hnýta hann - mér finnst býsna laglegt við hana hvernig mjói endinn á bindinu er sá virki við hnýtinguna. En ég sé mig samt knúinn til að gefa uppskriftina að afbrigðinu sem ég hnýtti og gekk með um daginn; þeir sem vilja sjá með eigin augum hvernig það lítur út geta þá hnýtt það sjálfir og reigt sig fyrir framan spegil:

Byrjið með bindið á röngunni (saumurinn út) þannig að mjói (og styttri) endi bindisins liggi vinstra megin og sá breiði (og lengri) hægra megin. Breiðari endinn fer fyrst til vinstri (undir mjóa endann), út og niður í gegnum miðjuna. Nú mæli ég með því að leggja fingur ofan á hnútinn og bregða yfir hann: út til hægri, inn til vinstri, út til hægri og inn til vinstri. Gætið að því að halda fingrinum undir báðum þessum hringsnúningum, því þessu næst fer bindið upp í gegnum miðjuna og niður í gegnum gatið sem fingurinn hefur haldið til haga (tvöfalt lokabragð). Þessu næst er hnúturinn hertur, honum smokrað yfir höfuðið, snúið á hvolf, hert að aftur og lokafrágangur. Á réttunni er þessi hnútur þykkari til hægri en vinstri, en þegar hann er kominn á rönguna og búið að laga hann til og bretta niður skyrtukragann sést að það gerir ekki til - hnúturinn er til þess gerður að hann sé ósamhverfur. Eins og áður sagði er nauðsynlegt að vera í vesti utanyfir, því annars lítur maður út eins og hálfviti með bindið á röngunni. Og já, ég veit að þetta er ekki Kelvin. En trikkið virkar á hann líka.

Og að síðustu eru þeir sem enn eiga eftir að kynna sér Svalborgarhnútinn hvattir til að gera það hið allrasnarasta.

Skeleggur, dugði þetta?
by Hr. Pez


Hvað segir komminn Áki!
Það er alltaf jafnfyndið!
by Hr. Pez

13 apríl 2004


Páskarnir voru ágætir - þeim var eytt á Akureyri. Fátt bar til tíðinda - mikið sofið. Sú eldri fór á hestbak á nýja barnahesti ömmunnar og lék sér í heyinu. Sú yngri fékk líka að prófa að sitja gæðinginn. Frúin fór með þær í öll skiptin - ég lá með tærnar upp í loft á meðan og bíð bara eftir myndunum.

Sú eldri fékk Púkaegg - að sjálfsögðu. Vildi samt ekki nema púkann, enda finnst henni sælgæti ógeðslegt. Það þurfti þá ekki nema eitt egg á familíuna. Málsháttur fjölskyldunnar þetta árið: Vit er verði betra.

En kaldhæðið.

Svo var brunað heim á Páskadagskvöld og slappað af heimavið í gær. Við hjónin áttum notalega kvöldstund saman yfir Sörvævor eftir að stúlkurnar voru komnar í ró í gærkveldi.

Haha (sagði hann um leið og hann rauf Þraukaraþögnina)! Mikið rosalega getur hann Lex nú sjálfum sér um kennt! Ég er ánægður með hann Robba minn sem aldrei fyrr, en hef þó dálitlar áhyggjur af því að hann klúðri málum fyrir sig með því að yfirplotta áður en öllu er lokið. Ég óttast að hann verði kosinn út þegar fimm eru eftir - þá er síðasti séns fyrir andstæðingana, annars gengur hann nánast garanterað frá þessu með hundrað þúsund dollara í vasanum. Glefsurnar sem sýndar voru í gærkvöldi úr næsta þætti vekja manni vonir um að hann haldi sér inni eitthvað enn um sinn á sinn eigin sjálfumglaða máta.
by Hr. Pez

08 apríl 2004


FLATUS LIFIR ENN!!!

Ójá, það gladdi mitt litla hjarta að sjá það að einhverjir hafa tekið að sér að bjarga þeim menningarverðmætum sem lágu undir skemmdum í Kollafirðinum og sem við Gneistinn ræddum nú fyrr á árinu að nauðsynlegt væri að bjarga, komandi kynslóðum til ánægju. Ég tók eftir að aðeins var búið að prjóna aftan við upprunalegu upphrópunina, svo að nú stendur þar það sama og opnar þessa færslu. Að sjá það í fyrsta skipti var vissulega alveg hreint yndislega fyndið. En eftir á að hyggja tel ég að dómur sögunnar muni leiða í ljós að þessi viðbót hafi reyndar heldur verið til lýta - Flatus mun lifa um ókomin ár, og fer best að vera í sínu einfaldasta formi. Vonandi munu þeir sem taka næst að sér að forverja þessar merku sögulegu minjar sjá til þess að þær taki á sig upprunalega mynd - ég segi það fyrir mig.

En hvað sem því líður gæfi ég mikið fyrir að taka í spaðann á því fólki sem stóð fyrir þessu þjóðþrifaverki. Nema ef þetta var Gneistinn sem laumaðist til að gera þetta án þess að bjóða mér með - þá fær hann skömm í hattinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem send er hingað inn færsla úr eplamaskínu. Vonandi fer ekki allt í kerfi.
by Hr. Pez

07 apríl 2004


Nú er dymbilvikan hálfnuð og af því tilefni er öll fjölskyldan í gulu í dag. Og líka bara forr ðö hekk off itt.

Ég er í rjómagulri skyrtu og svörtu vesti með gult bindi með tíglamunstri. Fyrst ég er í vesti ákvað ég að grípa tækifærið og hnýta mér skálínuhnútinn ("Diagonal"), sem er í raun afskaplega einfaldur: Tvíbrugðinn Kelvin sem snúið er á hvolf þannig að mjórri endinn liggur ofan á. Hann er dálítið gæjalegur, svona sem tilbreyting.

Svo þar hafiði það.

Gleðilega páska, ef ég verð latur í fríinu.
by Hr. Pez

06 apríl 2004


Dr. Schnitzel er tvímælalaust fjölmiðlahetja dagsins.

Af sjálfum mér er það að frétta að ég mun halda mig heimavið í kvöld: Jóni forseta er lokað í dag vegna rafmagnsleysis.
by Hr. Pez

05 apríl 2004


Ég er nú ekki alveg bloggdauður enn.

Sú eldri kenndi mér nýja útgáfu af Gamla Nóa áðan. Við vorum að rúnta heim á leið í bílnum úr leikskólanum þegar hún byrjaði að söngla í aftursætinu:

"Gamli Nói, gamli Nói
er að strumpa strump.
Hann kann ekki að strumpa.
Lætur strumpinn prumpa..."

Þá skellti ég upp úr.

Annars skilst mér að nafnið mitt komi jafnvel í Fréttablaðinu á morgun.
Ég á nú eftir að sjá það gerast.
by Hr. Pez

01 apríl 2004


Ja mikið óskaplega gekk þetta nú vel.

Og dagurinn í dag er bara alveghreint ágætur líka. Þetta er fyrsti dagurinn minn í vinnunni eftir fæðingarorlof í einn og hálfan mánuð og hefur ekki farið í neitt annað en fundahöld, fundahöld, tiltekt í pósthólfinu, fundahöld og fundahöld. Og það er búið að vera fínt. Mér finnst sem ég hafi ekki átt svona góðan dag í vinnunni minni svo árum skiptir. Það er ágætt að vera kominn aftur í klefann sinn.

Ahh, ég var að átta mig á að ég missti af The Office í gær. Meðan ég var heima í orlofinu fékk ég á miðvikudagskvöldum vikuskammtinn af "my office away from the office," að kalla má. Ætli ég sé annars einn um það að finnast á stundum nærri því of sárt að horfa á þessa þætti?

Svo fer ég á Jón Forseta í kvöld, á samkomu hjá Rithringnum. Þar skal verða glatt á hjalla.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com