<$BlogRSDUrl$>

30 mars 2004


Tjaaaah... það var eitthvað sem ég er búinn að vera að hugsa um í allan dag að ég þyrfti að skella hér inn...

Á morgun er síðasti heimavinnudagurinn. Á fimmtudaginn mæti ég aftur í vinnuna. Þetta er líka búið að vera ágætt.

En það var ekki það...

Rosalega var hann Ísak strákurinn flottur í lok fréttatímans áðan. Ég klökknaði þegar ég heyrði í honum í fyrsta skipti. Á sunnudaginn var. Þessir tónleikar annað kvöld gætu vel átt eftir að verða rafmagnaðir.

Annað kvöld, miðvikudagskvöldið þrítugasta og fyrsta mars: Voxið og Háskólakórinn syngja Kantötu númer fjögur eftir J.S. Bach, Nótt (Night) eftir Báru Grímsdóttur og Reginhafnarsálma (Chichester Psalms) eftir Leonard Bernstein klukkan átta í Langholtskirkju. Tvösd kall við innganginn.

Já alveg rétt. Það var þetta. Ég ætlaði að plögga.
by Hr. Pez

28 mars 2004


Þetta er búin að vera ágæt helgi. Þótt ekki hafi hún byrjað sem allra best.

Í morgunsári gærdagsins hélt ég á eldri dóttur minni niður stigann af svefnloftinu í annarri hendi, og ýmiss konar nauðsynjum (dúkku, bókum og ýmsu öðru tilfallandi) í hinni. Og missti fótanna, og hlunkaðist niður stigann með afturendann á undan og fullfermi í fanginu. Marbletturinn sem spratt út á vinstri rasskinn í kjölfarið gerist nú skrautlegri með hverjum deginum sem líður en teppabruninn á olnbogunum fer skánandi. Stelpan slapp að mestu ósködduð, fyrir utan kannski einhverja marbletti á sálinni.

En upp úr hádegi fór fjölskyldan í hreint stórskemmtilegan bíltúr um Suðurnesin, með viðkomu í Fræðasetrinu í Sandgerði og krummapartískuðinu Höfnum, labbitúr yfir brúna milli heimsálfanna og rúnt niður að Reykjanesvita. Og svo var slúttað með ágætis sundsprett í Bláa lóninu.

Fall er faraheill (drrr-tsch!).

Í gærkvöldi komu Gneistinn og Eygló í heimsókn, horfðu með okkur á Popppunkt og svo var spiluð níunda áratugar útgáfan af Trivial Pursuit fram yfir miðnætti.

Hlustuðum á Engilbert Húmperdynk syngja "nýja prógrammið" með Konunglegu Fílharmóníusveit Lundúnaborgar: I'm so excited, Hello og I just called to say I love you.

Ég er ekki að gera grín.
by Hr. Pez

26 mars 2004


Það laust mig einn örlítill þanki yfir bíóauglýsingunum núna áðan. Í nýjustu myndinni sinni þarf hún Angelina Jolie að taka á honum stóra sínum í viðureign sinni við, eins og þulurinn orðaði það, "hættulegan fjöldamorðingja."

Jahhá.

Það hlýtur þá að vera borið saman við öll hin sauðmeinlausu gæðablóðin sem hafa kosið að leggja fyrir sig starfsframa í fjöldamorðum.

...

Annars er allt ljómandi að frétta.
by Hr. Pez

24 mars 2004


Ja mikið óskaplega gekk þetta nú vel. Og svo má nú alls ekki missa af Purpuraregninu á Skjá einum klukkan hálftólf í kvöld. Reyndar tökum við það upp og horfum á það um helgina. Eða kannski einhvern tíma seinna, með Gæðablóðunum eða Casablanca, sem hvárartveggju voru teknar upp á sínum tíma og bíða þannig enn.

En við hjónin eigum bæði eftir að sjá Prinsinn.

Óskiljanlegt. Alveg hreint óskiljanlegt.
by Hr. Pez

23 mars 2004


Nú verður spennandi að sjá hvernig gengur að nálgast miða á morgun. Ég er með tvær klær úti og verð sennilega bara að sjá til hvernig það dugir mér.

Og nei, ég tímdi ekki að kaupa mér miða á Kraftwerk til að gulltryggja mig. Þar dró ég mörkin.

Annars er frúin á fundi - við erum þrjú heima feðginin og hlustum á Grafið yður gröf með Eiturefnabræðrunum. Sú eldri bað um það - vildi fá rokk til að tromma við. Núna er hún hætt því og farin að sippa (eða sonaaa) á miðju stofugólfinu. Það finnst þeirri yngri fyndið.
by Hr. Pez

22 mars 2004


Já nú reka hver stórtíðindin önnur.

Fyrst og fremst: Ég gerði ekki svo mikið sem eina einustu tilraun til að kveikja í húsinu í dag.

Sjö. Níu. Þrettán.

Í morgun mætti sú litla í fyrsta sinn til dagmömmu. Það var nú ekki nema klukkutími svona til að byrja með, en mun smálengjast þessa vikuna og næstu. Svo byrjar blessað brauðstritið aftur hjá manni um mánaðamótin.

Þegar mæðgurnar komu heim úr vinnu og leikskóla skellti familían sér í sund í Árbæjarlaug. Það var nú aldeilis ánægjustund.

En stórfrétt vikunnar er náttúrulega nýja Evróvisjónlagið. Næsta stolt þjóðarinnar hefur verið kynnt með pompi og pragt. Ég hef í sjálfu sér lítið forvitnast um hvað öðru fólki finnst. En sjálfum finnst mér sem það gæti verið miklu verra.

Það vill segja: Það er skárra en Angel.

Og ekki spillir fyrir að hann Jónsi okkar Logan er býsna mikið sjarmatröll strákurinn. Hann á ábyggilega eftir að standa sig vel. Og ég er yfirmigguðslifandi feginn að það verði engin Kvasí-Jasmín að skekja sig á sviðinu með honum.

Ég hef engar stórar áhyggjur. Eins og allir vita, þá veit enginn neitt þegar allt kemur til alls. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig þetta kemur út með þessu tveggja kvölda fyrirkomulagi. Kannski verður þetta ofsalegt súkksé. Kannski óttalegt skúffelsi.

En ég er samt farinn að hlakka til.
by Hr. Pez

20 mars 2004


Jæja, hérna sit ég létt kenndur á leiðinnií háttinn og hlusta á eitt af gleymdum meistaraverkum poppsögunnar: Stórstiga, með Stebbunum í Einholti 7.

Dr. Schnitzel er fyrir nokkru farinn á djammið. Í sameiningu horfðum við fyrr í kvöld á Rósinkrans og Gullinstjarni eru hrokknir uppaf og Strokleðurshöfuð; hvort tveggja miklar ágætismyndir, hvor á sinn hátt.

Sérstaklega þar sem ég veit núna af hverju lagið heitir The Lady in the Radiator Song. Athyglisvert. Mjög athyglisvert.

Herr Doktor, þú veist að hverju skal spyrja.
by Hr. Pez

19 mars 2004


Í tilefni dagsins:

vor

úti á flóanum sól sem brýst milli bakka
bráðum mun skugginn af risinu silast heim túnið

framar læðan byltir sér enn eftir botninum
bólstrar skríða þungbúnir meðfram hömrunum

í bæjarlæknum stekkur silfrað seiði
—sjórinn laðar

ofan hlíðina röltir stuttfættur stauli
stefnir í hús — hlakkar til varmans frá ofninum

kýrnar að mestu hættar að fagna frelsinu
úr fyrsta hrauknum í tröðinni rýkur enn

við skemmuna stendur sá gamli og gáir til veðurs
býst til ferðar með bætta möskva
— brot úr hálfgleymdu lagi rýfur kyrrðina —

hann stingur við stúf undan brekkunni við ósinn
by Hr. Pez

17 mars 2004


Nú má ég bara til með að gorta mig af því að ég er hliðtengdur á ská ekki ómerkari manni en UUUNNDRI ÍÍÍSSLAAANNDS! Jamm, téður pjakkur, sá er Magnús heitir, er náfrændi konunnar minnar. En þá átta ég mig náttúrulega á því að ljúfan getur grobbað sig miklu meira af þessu en ég.
by Hr. Pez

16 mars 2004


Aldeilis góða veðrið í gær vinur: Ég gekk heim úr Kringlunni á stuttermaskyrtunni. Erindið var að kaupa nýja þolinmæðisdiskinn hans Gogga Mikjáls handa frúnni. Hún gladdist yfir því. Enda er diskurinn alveg ágætur. Og strákurinn annálaður snyrtipinni, sem er aldrei til vansa.

Síddegis í gær kom Dr. Schnitzel í kaffi og meððí og fékk Brúna eftir Iain Banks í verðlaun fyrir léttustu kvikmyndagetraun bloggheima. Svo naut ég síðustu geisla síðdegissólarinnar með einn kaldan Thule úti á palli meðan kvenþjóðin á heimilinu fór í göngutúr með tengdamömmu að liðsauka.

Um kvöldið barst mér að síðustu bréf á tölvuöld frá Tampa-Torfanum, sem fær hér með baráttukveðjur dagsins frá mér og minni fjölskyldu.

Dagurinn í dag er búinn að vera ljúfur. Í kvöld er kóræfing fyrir tónleikana þann þrítugasta og fyrsta. Ég gerist sífellt sannfærðari um að þeir verði algjört dúndur.
by Hr. Pez

15 mars 2004


Ég fór allt í einu að velta því fyrir mér hvort hið staðfasta fólk í Túvalú hljóti ekki að vera farið að hrópa á eflingu sérsveita hinnar túvölsku lögreglu í kjölfar atburðanna á Spáni.
by Hr. Pez


Á fyrsta alvöru rölti mínu um bloggheima svo vikum skipti nú í morgun fylltist ég skyndilegri löngun til að fá mér latneskt motto fyrir síðuna meðan ég var að taka próf í því hvaða víraði latínufrasi ég væri. Niðurstaðan var reyndar of víruð (eða réttara sagt, ekki nógu víruð) fyrir mig, en blessunarlega rakst ég á þennan dásamlega frasa um nytsamasta hreinlætistæki mannkynssögunnar örskömmu síðar hjá matarbloggara íslands:
Entia non sunt multiplicanda praeter necessintatem.
Mánuðinum reddað.
by Hr. Pez

14 mars 2004


Í seinni tíð höfum við áttað okkur á hversu kjörið það er að fá barnalánsamt fólk í morgunkaffi um helgar. Um níuleytið á laugardagsmorgni er dagurinn enn tölvert frá því að komast í gang hjá fólki með frjálsan vilja. En á barnabýlum er lífið búið að vera á fúlsvíng í þetta einn til þrjá klukkutíma. Svo í gærmorgun komu góðvinir okkar Orri og Þóra í morgunkaffi með börnunum sínum, þeim Ara og Írisi. Og fullorðna fólkið hafði það gott yfir drukknum og sætabrauðinu meðan krakkarnir ærsluðust uppi í herbergi og inni í stofu. Ari var leystur út með því sem við áttum af Trausti og Tryggi að skilnaði, til eigin brennslu. Og börnin skildust með virktum.

Svo komu þeir feðgar um hádegisbilið í dag til að skila lagernum með kæru þakklæti fyrir lánið. Sjarmörinn sá sem enn er rétt óskriðinn yfir fjögurra ára aldursþröskuldinn heilsaði eldri dóttur minni með þessum fleygu orðum: "Hrefna, en hvað þú ert falleg í dag." Sem hann varð að endurtaka nokkrum sinnum með sívaxandi styrk til að ná athygli hennar.

En þeir komu einnig færandi hendi, með eintak af Abbababb-diskinum hans Doktors Gunna og vina hans. Sem dóttir mín hlustaði á fjórum sinnum í dag og sofnaði útfrá í þessum orðum rituðum.

Sá diskur er klassík. Prumpulagið er þarna uppi með Eniga Meniga og Alla Kalla og Erlingi.
by Hr. Pez

11 mars 2004


Mér bárust þau leiðu tíðindi í gærkvöldi að hann Addi á Sölvabakka hefði skilið við um daginn. Þar fór góður maður. Ég var í sveit á Sölvabakka tvö sumur sem strákur og hann Addi blessaður greiddi mér fimm þúsund krónur í sumarhýruna.

Það var mikið fé í þá daga.
by Hr. Pez

10 mars 2004


Nei. Ekki hún. Hvað í spindlinum heitir hún aftur?!
Þetta er léttasta verðlaunagetraun evver.
by Hr. Pez


Nú er enn ein spennumyndin með henni... þarna... Ally Sheedy? komin á klakann. Maðurinn í auglýsingunni sagði mér að þar færi mynd sem hefði verið borin saman við Kiss the Girls og Double Jeopardy.

Ég get ekki að því gert. Ég hugsa alltaf það sama þegar ég sé þessa línu í bíómyndaauglýsingum. Sem er til dæmis ástæðan fyrir því að ég nennti aldrei að sjá, jah, til dæmis Boondock Saints, fyrir það að hún hafði víst verið borin saman við Pulp Fiction, eða eins og ég heyri það (lesist með drynjandi bíómyndaauglýsingabassa):

“Boondock Saints – ekki nærri því eins góð og Pulp Fiction!”
by Hr. Pez

08 mars 2004


Mánudagar: dagarnir sem ég reyni að kveikja í húsinu. Í dag var það ostabrauð í ofninum.
by Hr. Pez

05 mars 2004


Þegar ég fór niður með óhreina tauið í morgun virðist ég hafa rekið mig utan í sprautuna með híbýlailmi sem situr á veggnum í kjallarastiganum. Alla vega hef ég ekki angað svona svakalega síðan Frosti og Orri laumuðust inn í búningsklefa í leikfimitíma árið 1988 og spreyjuðu Williams Sport svitalyktareyðinum hans Villa Bergs yfir skyrtuna mína.

Aaaah. Freon. Það var í þá daga.
by Hr. Pez


Stórfrétt dagsins vitaskuld að Pixies séu á leiðinni á klakann. Nú dugir sko ekkert déskotans "bíða fram að hádegi" runk lengur. Það eru fleiri bönd en ég get talið á fingrum mér sem mig langar minna til að sjá en krakkana í Pixies.

Annað að frétta að við frúin förum út að borða og síðan í keilu í kvöld. Það skal verða hin ágætasta skemmtan, sérstaklega þar sem ég er í myljandi sókn í keiluleikni og setti persónulegt met þegar ég skrapp út í hádeginu að spila með vinnunni um daginn.

Heil áttatíu og fjögur stig. Vá maður.
by Hr. Pez

03 mars 2004


En hvað tíminn líður hratt. Þriðja vikan heimavið hálfnuð og mér finnst sem ég hafi verið í vinnunni í fyrradag.

Það er svo gott að vera heima hjá sér með dóttur sinni barnungri. Mér líður svo vel. Uppvask, þvottar og ryksog er allt sem þarf. Þetta er garðurinn minn sá sem er allt of langt síðan ég ræktaði síðast.

Og aldrei kom neitt rokklag febrúarmánaðar. Hverjum er ekki sama.
by Hr. Pez

01 mars 2004


Mér finnst eitthvað meira en lítið ógnvekjandi við bláa, loðna, fótalausa skrýmzlið sem á að heita að sé að hvetja fólk til kaupa á Piparsveinsins Bollasúpum. Ætli þetta virkilega virki aðlaðandi á nokkurn einasta mann?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com