<$BlogRSDUrl$>

30 janúar 2004


Í dag leik ég mér aðeins meira og bæti við tveimur hlekkjum í sérflokk sem hefur ekkert með blogg að gera. Báðir koma reyndar inn á skáldskap, og þeir sem ganga með skáldadrauma í maganum en hafa ekki tékkað á þessum síðum ættu endilega að drífa sig.

Rithringurinn er samsafn fólks sem er að reyna að taka framförum í skriftum, hvert með annars hjálp. Þar er að fara af stað smásagnasamkeppni, og þeir sem luma á góðri hryllingssögu eða treysta sér til að klára hana fyrir skilafrest á mánudaginn kemur eru hvattir til að kýla á það.

Ljóðavef Íslands hef ég náttúrulega auglýst áður á þessum vettvangi. Hlekkurinn til hliðar er á upphafssíðuna, en svo get ég líka vísað beint á lúkufylli af ljóðum eftir undirritaðan.
by Hr. Pez

29 janúar 2004


Og enn held ég áfram að auka við kvennafansinn í keðjugenginu mínu. Næst á dagskrá er kona að nafni Hjördís Óskarsdóttir sem ég veit lítil meiri deili á, utan það að hún gerir sterkt tilkall til titilsins Þraukara-bloggari Íslands. Ég mun fylgjast spenntur með rapportum hennar um stjörnuseríuna sem hefst á mánudagskvöldið kemur.

Svo veit ég ekki hvort ég bæti við hlekkjum á mikið fleiri bloggara í bili. Ég var um tíma að hugsa um að setja kannski inn tvo í viðbót, en síðan þá er annar hættur og hinn orðinn að slefandi krypplingsbloggara sem verður fyrst að sýna einhver áþreifanleg merki þess að Eyjólfur sé að hressast.

Það eru reyndar nokkrir til sem ættu allteins skilið að bætast við hjá mér, en, jæja. Þá er reyndar flesta hægt að nálgast gegnum rss-inn á Gneistanum (þetta er alltaf jafnfyndið).

Á morgun verða einhverjar frekari viðbætur og breytingar, en þær verða af öðru tagi.
by Hr. Pez

28 janúar 2004


Ein er sú stúlka dimmrödduð sem hætti sér út í bloggheima um svipað leiti og kisumamman. Sú er mér kunnug af góðu einu gegnum sönglistina. Hlekkur á hana hefur lengi verið á dagskránni hjá mér og verður nú ekki slegið lengur á frest.

Svo sakar ekki að geta þess að hún heldur úti kjaftasíðu fyrir metafýsísku tréklossana sína, fyrir þá sem geta lesið svoleiðis.
by Hr. Pez

27 janúar 2004


Á næstunni mun skrölta í keðjunni minni.
Fyrsti hlekkurinn sem bætist við er kattmóðir ein á Akureyri, og þótt fyrr hefði verið, þótt ég segi sjálfur frá.
Það á reyndar við um alla þá hlekki sem ég mun dæla hér inn á komandi dögum.
by Hr. Pez

26 janúar 2004


Ég var veikur um helgina. Það er alltaf jafnfúlt.

Annars ber mér að geta þess hvað ég á frábæra konu. Hún gaf mér bóndadagsgjöf. Og það var sko ekkert blómakjaftæði á þeim bænum, ónei. Hún gerði dauðaleit og fann handa mér síðasta bindisprjóninn í bænum. Nú verð ég bara að redda mér skyrtu með kraga við hæfi og þá verð ég mest retró náunginn í bænum.

by Hr. Pez

23 janúar 2004


Fjölskyldan skrapp í kjötsúpu til Orra og Þóru í gærkvöldi.
Þar var glatt á hjalla.
by Hr. Pez

22 janúar 2004


Jess, það var lagið!

Búið að uppfæra mig í RedHat 9 með nýrri Mozillu og alltsaman. Nú get ég loksins bloggað almennilega úr Linuxinum. Og sennilega bara alveg hætt að eltast við IE yfirhöfuð.
by Hr. Pez

21 janúar 2004


Ég strengdi eitt áramótaheit fyrir það komanda. Það er að gera úrdrátt að næsta kreisi. Allavega hjá sjálfum mér.

Nei. Ekki útdrátt. Úrdrátt.

Það vill segja, að draga úr frekar en hitt þegar ég nota lýsingarorð og er yfirhöfuð að lýsa stemmingum og tilfinningum.

Ísland er verðbólguþjóðfélag, og upp á síðkastið hefur það bitnað hvað harðast á blessuðu móðurmálinu. Verðbólga íslenskrar tungu er búin að vera slík að þessa dagana er allt annaðhvort sveitt r*ssgat eða svo snilldarleg snilld að önnur eins snilld hefur ekki sést síðan mesta snilld í heimi snillaði sér til snillvítis. Það er ekkert þar á milli lengur. Og afleiðingin er sú að sama hvaða gífuryrði maður notar til að lýsa hrifningu sinni eða fyrirlitningu, þau eru orðin gjörsneydd allri merkingu.

Hvaða mark er á því takandi nú til dags að segja að eitthvað sé gargandi pípandi snilld? Þótt mér sé sagt að eitthvað sé geðveikislega brilljant, þarf samt nokkuð að vera í það varið? Og hversu illa er hægt að tala um nokkurn skapaðan hlut þegar nánast hvaða miðjumoð sem nöfnum tjáir að nefna er farið að totta súran brund?

Það er komið tæm á gengisfellingu.

Ég vil að fólk geri sér ljóst að ef það hefur eftir mér að eitthvað sé "alveghreint ágætt," eða jafnvel bara "svona sk*tsæmilegt," að þá sé í lagi að vera dálítið impóneraður yfir því. Mér hefur gengið ágætlega að hrinda þessu í framkvæmd einn með sjálfum mér það sem af er ári og þori því orðið að opinbera heitstrenginguna.

Ég held að þetta sé málið. Að hvísla lægra og lægra þar til fólk fer að heyra.
by Hr. Pez

20 janúar 2004


Já, ég tók sumsé síðasta formlega skrefið inn í tuttugustu og fyrstu öldina á afmælinu mínu um daginn: ég er kominn með GSM-síma. Þeir vinir mínir og kunningjar sem hafa áhuga á að nálgast númerið ættu endilega að hafa samband við mig eftir einhverjum leiðum, svo ég geti komið því áleiðis.

Það fyrsta sem ég gerði - áður en ég lærði að senda SMS og áður en ég kom mér upp frumdrögum að símaskrá - var að læra á hringitónskáldið (kompóserinn) og semja minn eigin hringitón. Hann er úr lagi janúarmánaðar, Mænuhimnubólga (gerði mér gramt í geði), með hinum ágætu kumpánum í furðurokksveitinni Ween. Rétt er að vara viðkvæmar sálir og alla sem gætu tekið viðfangsefnið nærri sér að þetta lag er ekki við hæfi neinna annarra en þeirra sem þjást af svo alvarlegri sýkingu á skopskyni að jaðrar við tukthúsvist.
by Hr. Pez

19 janúar 2004


Frúin svaf í stofusófanum í nótt sem leið. Og reyndar næstu tvær nætur þar á undan líka. Og hún fær sko ekki að skríða upp í til mín aftur fyrr en í fyrsta lagi undir helgina.

Hvað hún gerði af sér? Nú vitaskuld ekki neitt, nema það hvað hún er gjörn á að vakna um miðjar nætur og viðra á sér brjóstin, það vill segja, þegar sú sex mánaða vekur okkur með orgum og óhljóðum og vill fá eitthvað fyrir snúð sinn til að sofna aftur.

Svo þessar næturnar sefur frúin svefni hinna réttlátu (sem hún hefur svo sannarlega unnið sér inn fyrir síðustu mánuði) niðri í stofusófa, á meðan ég ligg í hjónarúminu bakvið luktar dyr með koddann yfir eyrunum og sú litla spanderar nóttinni í að orga yfir mig lungum og öðrum helstu innyflum. Vonir standa til að ró verði komin á í hjónaherberginu þegar eitthvað er liðið á vikuna. Þá fær frúin kannski að flytja aftur inn.

Annars var stelpan hlustuð í skoðun í vikunni sem leið. Það heyrist ennþá í henni. Að öðru leiti dafnar hún eins og blómi í eggi.
by Hr. Pez

17 janúar 2004


Húrra. Þjóðin gaf sjálfri sér nýjan Bjarna Ara. Einmitt það sem hana langaði í.
by Hr. Pez

16 janúar 2004


Kvöldið já. Þetta gæti átt eftir að vera gaman.

Þó er ljóst að maður þarf að krossa fingur og vona það besta: að frumflutta lagið þeirra Jóns og Stebba verði þess virði að hlusta á það í þrígang sama kvöldið.

Það gæti sosum verið.

En stóra spurningin er náttúrulega hver vinnur. Öll þrjú eiga þau skilið að vera þar sem þau eru í dag. Þó ekki sé nema fyrir það að þegar þau gerðu mistök þá voru alltaf einhverjir aðrir sem gerðu þau stærri.

Hvar eigum við að byrja?

Anna Katrín Anna Katrín Anna Katrín.
Hvað á eiginlega að gera við þig stelpa?

Eins og hún fór vel af stað virðist sem smátt og smátt hafi fjarað undan henni, og náð háfjöru í sársaukafullri meðferð hennar á laginu Haltu Kjafti í síðustu viku. Já, sársaukafullri: þegar hún söng "Don't tell me 'cause it hurts," þá trúði maður henni alveg. Hún fann til stelpan.

Og þar liggur Rattatið grafið:
Á slæmum degi lætur hún mann finna til með sér.
Á góðum degi gæti hún mettað þúsundir með svitanum úr spékoppunum sínum.

Það eru allir að segja að Kalli eigi eftir að mala þetta. Svo gæti vel farið. Og hann gæti meiraðsegja átt það skilið. Hann má eiga það að hann hefur aldrei stigið feilspor, ekki einu sinni. Hann hefur reyndar aldrei boðið því heim að stíga feilspor: hann veit að honum fer best að syngja rokk og sól, og hefur aldrei lagt í að sækja vatnið yfir lækinn. En það er eitthvað í fari hans sem hefur alltaf farið ofurlítið í taugarnar á mér. Einhver herpingur; við að sjá hann verður mér oft hugsað til Stebba Hilm í Nínupósunni sinni.

Og þá er það hann Jón blessaður. Frá náttúrunnar hendi er hann sennilega sísti söngvarinn af þeim þremur. En hann hefur mjög lúmskan sjarma. Og við vitum jú öll að birtustig stjörnunnar ræðst ekki af því hve vel hún syngur. Sjáiði bara Bubba.

Voðalega finnst mér hann Kalli Bjarni spila það öruggt með Graðfolagellunni. Hann á eftir að stíga á svið, hann á eftir að standa sig vel, krádið á eftir að öskra og stappa. Stjarna máluð eftir númerum. En óvissan liggur ekki í því hvernig hann mun standa sig.

Anna Katrín syngur Pældíðí, eftir Lennon. Það er lag sem hentar henni. Vel valið. En málið er náttúrulega hvort hún muni syngja það eins vel og hún á að geta. Þar liggur efinn. Ef hún gerir það vel grunar mig að strákarnir hafi ekkert í hana, sama hve vel þeir standa sig.

Og svo er það Jón Sigurðsson. Hann er nú eiginlega orðinn minn uppáhalds. En ég er voðalega hræddur um að hann eigi lítinn séns í þetta. (Orð? Er það lagið sem ég held að það sé? Það gæti þá reyndar orðið gaman...) En þrátt fyrir allar mínar vonir er ég hræddur um að röðin í kvöld (sigurvegarinn fyrstur) verði annaðhvort Kalli - Jón - Anna eða Anna - Kalli - Jón.

En framtíðin?
Ooo sjáum til.

Hvort sem Anna Katrín vinnur eða ekki þá má vel vera að stórir hlutir bíði hennar í framtíðinni. Þannig lagað er hún búin að vinna þetta nú þegar. Því hvað ef annar hvor strákurinn sigrar? Ég er voða hræddur um að tröllin hirði þá báða áður en langt um líður.

Það er engin karladeild fyrir íslensku dívurnar.

Allavega, það sem mestu máli skiptir er að það stefnir í skemmtilegt og spennandi kvöld.
by Hr. Pez


Smá tips fyrir þá sem vilja gera dálítið grín á þorrablóti: það er pínu fyndið að halda á uppétnum sviðakjamma og segja "To baaa or not to baaa."
Allavega fékk það mig til að glotta út í annað.
by Hr. Pez


Hvað gerðist næst?

Já alveg rétt, það var kvikmyndatónlistin. Strákarnir skiluðu sínu með glans - Fimmhundruðkallinn smjaðraði sig í gegnum Hljóðsins hljóð, og dittó um Togarann sem reið Fitusmurðri Eldingu gegnum keppnina - meðan stelpurnar áttu misjafnan dag. Ardís og Anna Katrín sluppu fyrir horn meðan Tinna Marína datt út, enda gekk allt á afturfótunum hjá henni þetta kvöldið. Var alltof lengi alltof neðarlega og stressið yfir því leyndi sér ekki þegar hún loksins þrælaði sér upp á háu tónana. Grey stelpan.

Hvað um það.

Þá er komið að dómaravalsþættinum fyrir viku síðan. Um hann má kannski segja það sama og þann næsta á undan, nefnilega að hann hafi einkennst af glans penis: Kalli fleytti sér áfram á svalheitunum sem aldrei fyrr með flugugleraugu á nösum meðan Jón sigldi af öryggi gegnum enn eina ballöðuna, þótt ég fari nú að verða dálítið þreyttur á þessu falsettublæti hjá stráknum.

Margir hafa komið að máli við mig og furðað sig á því að Ardís skuli hafa dottið út í stað Önnu Katrínar. Þær furður eru sosum fyrirgefanlegar, enda söng Ardís ekki feilnótu meðan röddin í Önnu Katrínu var ollóverðögodempleis: hún minnti mig dálítið á það hvernig biluð klukka er rétt tvisvar sinnum á sólarhring.

Ég er ekki að sparka í liggjandi mann! (eða tjáningsstelpu), enda er ég yfirmáta sammála úrslitunum. Þau komu mér ánægjulega á óvart (og greinilega Önnu Katrínu líka: hún átti furðusvip ársins í sófanum þegar þau voru tilkynnt). Eitt með hana Ardísi kom sífellt betur í ljós eftir því sem leið á seríuna og var aldrei ljósara en einmitt fyrir viku síðan: Hún var einsog gjörsneydd allri karismu, öllum sjarma. Og það held ég ekki frá náttúrunnar hendi; hún gaf bara aldrei neitt af sér til skarans: það var eins og hún væri að syngja niður til hans. Hún söng sínar hendingar úr Fjallabaksleiðinni af fullkomnu öryggi, en þess á milli hætti hún að performera og starði út í tómið. Það var eins og hún væri ein í heiminum, nema hún var ekki ein í heiminum: Hún stakk í augun eins og kartnögl á líkþráum þumalfingri.

Neeeh, þetta var kannski ekki alveg svo slæmt. En það vantaði þetta grundvallarelement: hún var ekki að gefa neitt af sér.

Sem er nokkuð sem verður þó að telja henni Önnu Katrínu til tekna: Sama þótt hún hafi sungið verr en Árni Johnsen á smjörsýru þá gerði það minna til fyrir það hvernig hún bar sig: tilsýndar var hún eins og sú sem valdið hafði (þótt hún hefði það reyndar ekki); hún rétti fram lófann af stakri hugprýði og bauð okkur að éta úr honum. Sem var kannski ekki svo kræsilegt á umræddu kvöldi, en pöpullinn þakkaði þó pent fyrir boðið með því að gefa henni einn sénsinn til.

Svo hvernig fer þá í kvöld? Kannski ég bræði það eitthvað með mér fram eftir degi.
by Hr. Pez


Það er þorramatur í hádeginu í dag.
Nei en æðislegt!
(hrópaði hann og klappaði saman höndum af hrifningu án minnsta votts af hæðni í röddinni)
by Hr. Pez

15 janúar 2004


Áfram hélt skrúðgangan.

Það var diskó. Og Rannveig Káradóttir skildi við, þrátt fyrir að hafa staðið sig alveg hreint skammlaust. Einhverjir svekktu sig á því, þar með talið mágur minn einn ágætur, sem hafði haldið með stelpunni allt frá því hún var fyrst kynnt til keppni á Akureyri forðum daga. Þarna heyrðust fyrstu raddirnar sem fyrir alvöru héldu fram að Fimmhundruðkallinn hann Jón hefði nú bara átt að pakka saman og gleyma þessu. Og höfðu til síns ágætis nokkuð: hann er til dæmis ekki eins góður í að syngja falsettu og hann hefur gaman af því strákurinn. En þótt hún Rannsla hafi staðið sig ágætlega þá var samt eitthvað í því hvernig hún bar sig til líkama og raddar sem gerði þennan úrskurð svo sjálfsagðan - það var einhvern veginn eins og hún væri í annarri deild en þau hin, svona dálítill fyrirtækjakeppni-í-karókí-fílingur hjá henni. En eflaust ágætis stelpa.

Þá voru Stuðmenn. Það er sérstaklega tvennt sem er vert að geta úr þeirri keppni. Annars vegar var ég gjörsamlega ósammála dómurunum og öllum þeim sem tóku undir með þeim um það að Jón hafi verið að skíta á sig í þeirri keppni. Þvert á móti fannst mér það vera keppnin þar sem hann sprakk út og geislaði. Hann var sá eini sem hafði þor og hugmyndaflug til að velja óvenjulegt lag (hina lunknu lagasmíð Fljúgðu), jós sjarmanum út til skarans við flutninginn, og söng alveg hreint býsna vel, að slepptri vitlausri tímasetningu í einni innkomu.

Sem skipti engu máli.

Því það sem skipti máli var þetta: Hann bar sig að eins og starna; við að horfa á hann fann maður að flutningur hans á laginu var hans eigin gjöf til pöpulsins. Og endrum og sinnum í lok hendinga (til dæmis eftir "...yfir ónumin lönd") tók hann pósu sem stjörnur einar hafa á valdi sínu: hann hvarf í sviðsljósinu. Hann var svona kannski eins og ungur og ofurlítið ljótari Paul Weller.

Hins vegar féll það í hlut Helga - dúllunnar sjálfrar - að detta út. Táningsstúlkur um allt land grenjuðu sig eflaust í svefn það árið, en eins og ég hef lýst yfir áður grét ég krókódílatárum. Og hef í sjálfu sér litlu við fyrri yfirlýsingar mínar um strákinn atarna að bæta.
by Hr. Pez

14 janúar 2004


Það er skemmtileg og einföld iðja að taka fyrir raunveruleikakeppnir í blogginu sínu. Sjálfur hef ég gert það áður í kommentum mínum á Sörrvævvvorrrr (þótt ekki hafi jafnast á við detaljeraða analýsu Hjördísar á sama efni) og Evróvisjón, eins og frægt varð fyrir einhverjar undarlegar sakir.

Þegar Íslenska Íðilkeppnin byrjaði var ég ekkert yfir mig sannfærður um að ég ætti eftir að fylgjast með til enda. Áhorfið hjá mér var enda skrykkjótt framan af og ég missti af einum eða tveimur þáttum úr undankeppninni, án þess að ég kenndi mér af því teljanlegs meins. Það var fyrst í undanrásunum sem ég datt almennilega inn í keppnina og verð ég að segja að heilt yfir var ég sammála þrenningunni og "dómi þjóðarinnar;" í öllum tilvikum nema einu (meir um það síðar) voru þeir sem komust áfram efst á lista hjá mér, eða meðal þriggja mest uppáhalds.

Jókeraþátturinn var nú sérkapítuli út af fyrir sig: voðalega fannst mér asnalegt að þeir sem fengu annað tækifæri skyldu ekki fá annað tækifæri í alvörunni, heldur bara fyrsta tækifærið endurtekið. Að því slepptu var ég alveg sáttur við úrslitin úr þeim þætti: ég gat alveg unnt honum Jóni stráknum þess að komast áfram, þótt ég hefði reyndar valið á annan veg sjálfur.

Ég missti af fyrsta þættinum úr Vetrargarðinum, þar sem allir voru skikkaðir til að syngja á íslensku. Að honum óséðum vil ég segja að ég sýtti úr honum úrslitin, þó svo þau hafi kannski ekki komið mér á óvart. Kringludaman Sessý var mitt uppáhald upp úr undanriðlunum, enda fór hún þar firnavel með lagið hans Stebba Viðrinis. En sei la ví, hún var nú kannski aldrei sú líklegasta til að ná langt í þessu.

Sem er það sama og hægt er að segja um hana Jóhönnu Völu. Það var gaman að henni stelpunni meðan á því stóð, en poppstjarna? Neee ég held ekki.

Hvað um það. Fór þá að draga til tíðinda.
by Hr. Pez


Þarna klikkaði ég laglega á því maður. Temavikan er alveg að renna á rassinn.

Ojæja, farið hefur fé betra.

Ég er þó að vinna að færslu um téða keppni sem mun birtast einhvern tíma fyrir föstudagskvöldið. Þangað til og þar eftir mun ég halda áfram að tjá mig um eitthvað allt annað.
by Hr. Pez

12 janúar 2004


Það mun að mestu verða hljótt hér á pezusnum í dag. Þó vil ég lýsa yfir löngun minni og ætlan til þess að hefja hér á morgun temaviku í tilefni af lokahrinu Íðilkeppni Íslands.

by Hr. Pez

09 janúar 2004


Þar kom að því. Það er búið að ræna útibúið hennar tengdamömmu. Einhverjir myndu kannski segja að þetta væri glæpur sem hefði legið í loftinu.

Frúin hringdi og færði mér þær fréttir að tengdó sé heil og ósködduð, svona þannig lagað. Heill sé goðunum fyrir það.

En ekki skal þetta vera auðvelt.
by Hr. Pez


Í dag er kistulagning. Amma mín Fríða skildi við fyrir réttri viku síðan.

Þar fór góð kona.
by Hr. Pez

08 janúar 2004


Gærdagurinn gekk alveg lygilega vel, bæði hjá frúnni undir hnífnum (sem kom heim nú í morgun) og familíunni á heimavígstöðvunum. Einna helst að eitthvað sé af manni dregið eftir mjólkurpásurnar sem sú litla tók sér með reglulegu millibili gegnum nóttina, en ég er ekki þess umkominn að kvarta; þetta hefur spúsan nú lagt á sig upp á hverja nótt svo mánuðum skiptir og virðist samt ennþá geta fúngerað í mannlegu samfélagi.

Frúin mín er Svartur Riddari í kvenmannslíkama. Ef Artúr konungur byði henni panódíl eftir að hafa hoggið af henni helstu útlimi væri hún vís með að svara að það væri nú jarðhnetur í svínskjaft við hliðina á að takast lyfjalaus á við fæðingu á átján mörkum. Hún bar sig vel þegar við heilsuðum upp á hana á sjúkrabeði klukkan átta í gærkvöldi.

Á leiðinni heim frá téðri heimsókn á spítalann þurfti ég að skjótast út úr bílnum og kaupa mjólk fyrir morgunmatinn. Yngri dóttirin var sofandi en sú eldri vildi ólm fá að koma með. Hún fékkst til að bíða en setti mér það skilyrði að hún fengi þá að hlusta á "mikið rokk" á meðan (eflaust inspíreruð af Snakkpakks-laginu hans dr. Gunna sem hljómaði á Rás 2 akkúrat í þeim orðum töluðum). Sem ég samþykkti. Illu heilli kláraði Doktorinn áður en við renndum í kaupstaðinn og fóru að renna á stelpuna tvær grímur þegar Jónsi Í Svörtum Fötum tók til við að kyrja sykurætan ástaróð í framhaldinu ("Þú... sem eeert... mér aaaaallt..."); hún ætlaði sko ekki að sitja þegjandi undir svona déskotans vemmilegheitavæli og öskraði "MEIRA ROKK!" úr aftursætinu. Loks tókst mér að friða hana með því að skella Double Dare með Bauhaus í spólarann, sem kláraðist í þann mund er ég sneri aftur. Í stað þess að verða við óskum stelpunnar um að fá að heyra það aftur pumpuðum við upp í græjunum og leyfðum snældunni að rúlla áfram í gegnum In the Flat Field restina af heimleiðinni.

Var þá kyrrt á heimavígstöðvunum það sem eftir lifði ferðar.
by Hr. Pez

06 janúar 2004


Það er bara tvöfalt afmæli hjá manni þessa dagana.

Ég trassaði að blogga á eins árs bloggafmælinu mínu í gær. Ojæja. Þá blogga ég bara á þessu í dag í staðinn. Ég fékk GSM-síma í rúmið í morgun, svo enn mjakast ég skref fyrir skref inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

Nú síðdegis byrjar sú eldri á sundnámskeiði. Sú yngri byrjar á framhaldsungbarnasundnámskeiði um komandi helgi. Á morgun verðum við feðgin ein heima, þar sem frúin þarf að leggjast inn til að láta fjarlægja úr sér innyfli.

Og þætti þá sumum nóg að frétta.
by Hr. Pez

04 janúar 2004


Voðalega er maður hægur í gang eftir hátíðirnar.

Allavega, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com