<$BlogRSDUrl$>

28 nóvember 2003


Já þetta gekk bara ljómandi vel þarna í gærkveldi.

Ég var fyrstur á prógramminu, og mannaði mig ekki uppí að vera alveg eins pönkaður og mig langaði (kjúklingurinn ég). En ég sagði þó "pungur" og fékk pöpulinn til að skella uppúr. Og þætti þá sumum til einhvers barist.

Bókin er flott. Ég mæli með henni.

Hvað fleira? Vinnan fer á jólahlaðborð í kvöld. Sveitastelpan á deildinni ber mikinn kvíðboga fyrir því að þurfa að eyða kvöldi í "Skopparakringlunni." Við ráðlögðum henni að taka sjóveikipillu fyrst hún óttaðist svona að riðan færi með sig. Að vísu spurning hversu vel það færi ofaní borðvínið.

Vinna spúsunnar fer líka á jólahlaðborð í kvöld. Og spúsan þar með.

Sjálfur ætla ég að eyða kvöldinu heimavið með dætrum mínum. Og hlakka til, eftir annríki liðinnar viku. Kem þeirri eldri í ró, og kannski þeirri yngri líka, sé til hvort ég næ að strauja yfir Íslensku Íðilkeppninni, sem verður með endurtekið efni aðra vikuna í röð. Hversu lélegt sjónvarp er það nú eiginlega?

Kannski ég taki mér bara eitthvað vídeó í staðinn.

Ef hér inni er einhver sem er með æluna uppí hálsi yfir sykurhúðuðu smáborgarahamingjuvæmninni í mér, þá má sá hinn sami éta skít mín vegna.
by Hr. Pez

27 nóvember 2003


Ekki svæfi ég í kvöld.

Ég er á leið á útgáfukvöld. Hinn íslenski ljóðavefur er að gefa út bók, þar sem undirritaður á eitt ofurlítið innlegg, og ég hef verið fenginn til að vera með uppistand á útgáfukvöldinu sem ku byrja á Hressó á eftir klukkan átta.

Annars fór vinnudagurinn einhvernveginn í klósettið. Eintómar fundasetur og kjaftæði frá níu til fimm, og ekki nema svona klukkutími eða tveir yfir allan daginn sem hægt var að gera eitthvað af viti.

Ojæja, svona gengur það stundum.
Þannig ganga kaupin fyrir sig í mýrinni.
by Hr. Pez

26 nóvember 2003


Annríkir dagar...

Í kvöld ætla ég að svæfa dóttur mína. Ég ætla að setjast með henni upp í hennar eigið rúm, lesa fyrir hana eins mikið og okkur langar til, fara með eina litla bæn eða tvær, og kyssa hana svo góða nótt.

Ég. Hlakka. Svo. Til.

Ég hlakka til vegna þess að þetta hef ég ekki gert síðan fyrir síðustu helgi. Og ég sakna þess svo ósegjanlega. Það hefur einhvern veginn alltaf verið eitthvað annað til að kalla mig frá því það sem af er þessari viku (yfirvinna, slagsmál, kóræfing...), en í kvöld skal ég gera þetta. Dóttir mín er búin að lofa mér að ég fái það.

Svo ætla ég að fara aftur niður í stofu og horfa á imbann með öðru auganu meðan ég strauja. Það er orðið ennþá lengra síðan ég straujaði síðast. Ég held ég hafi varla straujað nokkuð síðan við ösnuðumst til að kaupa okkur þurrkarann um daginn. Ekki misskilja, það voru alveg stórfín kaup. En gallinn er að það þarf varla nokkuð að strauja á heimilinu lengur.

Straujun er stórlega vanmetin aðferð til slökunar. Fátt hreinsar hugann eins vel og að strauja sængurver, nema ef vera skyldi skyrtukragar og herðastykki. Og svo er þetta að sjálfsögðu karlmannsverk, rétt eins og að þrífa klósettið.

Ég hef nú reyndar varla þrifið klósettið síðan ég fór aftur að vinna og frúin hélt áfram í fæðingarorlofi.

Ojæja.

Svona gengur það.
by Hr. Pez

25 nóvember 2003


Í morgun sá ég (og heyrði) í fyrsta skiptið útgáfu hennar Margrétar Eirar á Wuthering Heights. Og ég verð reyndar að játa að mér finnst þetta ekki alveg eins kolómögulegt áheyrnar og ég óttaðist að það yrði. Hún gerir þetta ágætlega stelpan. En eftir stendur þó tvennt. Annars vegar að Margrét Eir hefur fullmikla rödd í þetta lag.

Já, fullmikla. Manni finnst einhvern veginn eins og það eigi að syngja þetta lag með skerandi rödd, þannig að manni líði eins og verið sé að tattóvera á manni hljóðhimnurnar með demantsoddi. Ekki eins og verið sé að strjúka af þeim með mjúkum klút.

Hitt er að ég hef í seinni tíð verið að gera mér ljóst að maður verður með einhverjum ráðum að komast yfir The Kick Inside. Sú plata hlýtur bara að vera algjört meistaraverk. Ótrúlegt að maður eigi ekki neitt með Kate Bush. Ótrúlegt.

Ætli það hljóti ekki að vera hægt að finna eitthvað með henni í Nice Price rekkanum...?

Annars er helst í fréttum að ljómandi skemmtun hlaust af fundinum í slagsmálaklúbbnum í gærkveldi. Þó skyggði heldur á að mér bárust fyrr um kvöldið uggvænlegar fréttir af einu skyldmenni mínu.

Nú er hugurinn heima. Og vonandi að vel fari.
Þeir sem ekki þekkja fjölskyldu mína verða bara að sætta sig við að vita ekkert um hvað ég er að tala.
by Hr. Pez

24 nóvember 2003


Í kvöld verður sko gaman.

Eins og komið hefur fram annarstaðar í rafheimum er Hr. Tampa á landinu, við annan Grasvesturíslending. Af því tilefni er búið að stefna saman fríðum hópi ofbeldisseggja sem mun berjast til síðasta blóðdropa fram eftir kvöldi.

Ég hef fengið staðfest að minn uppáhalds, hinn snarklikkaði Yoshimitsu, verði á sínum stað í persónuleikagalleríinu.

Í kvöld verður sko gaman.
by Hr. Pez


Dr. Schnitzel var sá sem loksins náði að grísa á Iggy Pop. Þar fer mikil rokkhetja (leyfum ambígúítetinu að njóta sín). Þeir sem vilja vita meira ættu endilega að glugga í þessa stórskemmtilegu grein sem ég sá á Rolling Stone. Allar tilvitnanir getraunarinnar koma hráar úr henni og er þó nóg eftir enn.

Hvað varðar umbunina munum við doktorinn gera hana upp okkar á milli, en ég tel mig vera með tónlistarverðlaun sem eru klæðskerasniðin á hann.
by Hr. Pez

23 nóvember 2003


Stilltu þig fræðingur!

(Afsakið þögnina; ég stakk af frá eigin getraun og brá mér út í sveit yfir nóttina.)

Sumsé, eins og ég lét getið í kommentum þá hafa margir komist býsna nærri með það hver mælti. Nú þegar er auk þess ljóst að viðkomandi er af bandarísku bergi brotinn, auk hins augljósa að hann er karlkyns (og má reyndar geta að hann þykir frámunalega vel vaxinn niður).

Ég leyfi fólki að síðustu að japla á einni ágætri lýsingu af tónleikum sem viðfang getraunarinnar hélt eitt sinn með hljómsveit sinni. Þetta er hreinn ritstuldur; höfundi er haldið leyndum til morgundagsins.

"It was a very star-studded, Jack-and-Anjelica-and-Warren night. He was waiting for his dealer, to cop, intent on getting his shot of heroin before he went on. But he had no money. So he went to the VIP booths one at a time and explained the situation. He said, 'Look, you're here to see me, and I can't go on until my dealer is here, and he's waiting to be paid, so give me some money so I can fix up, and then you'll get your show.' He got more than enough money. He stood off to the side and shot up. The lights went down, the music went up, he stood onstage and collapsed. Without a note being sung. He'd OD'd in front of everyone. And had to be carried off."

Vel bragðbættur áhorfandi lét hafa eftir sér um téða tónleika:

"I think that was one of his greatest shows ever. It was so minimally perfect. It just says a very great deal."

Já mikið rétt. Þetta segir heil andskotans reiðinnar býsn.
by Hr. Pez

21 nóvember 2003


Ég er í ágætu skapi í dag.

Ég er í svo ágætu skapi að ég hef ákveðið að skella fram verðlaunagetraun úr heimi rokksins. Hún er svona:

Hvaða heimsfrægi og áhrifamikli listamaður mælti þessi fleygu orð um það að marka sér svæði í veröldinni:

Well, I don't use the toilet much to pee in. I almost always pee in the yard or the garden, because I like to pee on my estate.

Ef nokkur maður veit þetta á sá hinn sami skilin bóka- eða tónlistarverðlaun úr hendi undirritaðs.
by Hr. Pez


Þegar ég steig út úr bílnum í morgun hékk mánasigðin yfir eystra bílastæðahúsinu. Það var enn aldimmt úti og í myrkrinu sá ég glóa af skuggahlið tunglsins.

Það var töfrandi stund.

Ég verð alltaf dolfallinn á þeim augnablikum þegar manni vitrast kraftaverkið í því hvernig heimurinn er. Ég sá, svart á svörtu, að tunglið er kúla sem endurvarpar skini sólarinnar. Og að jörðin er sömuleiðis kúla sem endurvarpar skini sólarinnar á skuggahlið tunglsins.

Það er svo mikil fegurð í veröldinni. Og mesta fegurðin finnst mér að allt sé þetta sprottið af sjálfu sér.
by Hr. Pez

20 nóvember 2003


Nei andskotakornið hvernig læt ég.
Hún Una litla tók fyrstu tönnina sína í gær.
Það eru ekki fréttir.
Það þykja mér tíðindi!
by Hr. Pez


Einhver heljarinnar bloggdoði yfir mér þessa dagana.
Vonandi að hristist af mér.
by Hr. Pez

18 nóvember 2003


Jahérnahér.

Ég var að uppgötva að krosstrén bregðast sem önnur og nú er svarinn bloggdóni farinn að leika sér að þessu, og fer bara vel af stað.

by Hr. Pez

17 nóvember 2003


Helgin var róleg, að slepptu brjáluðu kórpartýi á föstudagskvöldinu sem ég staulaðist heim úr undir morgun. Ég man að ég flissaði eitthvað voðalega mikið þegar ég var að brölta upp í til spúsunnar en er búinn að steingleyma hvað var svona fyndið. Frúin rumskaði og spurði mig að því en ég man ekkert hverju ég svaraði. Það var ábyggilega einhver andskotans vitleysa og fyllerísröfl.

Þynnka á laugardeginum, ekki það slæm að ég kastaði upp í innilaugina í Grafarvogi, en hún var þó næstum búin að kosta mig nistið sem frúin fékk að aldarfjórðungsafmælisgjöf frá tveimur þrumum. Það hefði verið dýrt spaug.

Á sunnudeginum bar hvað helst til tíðinda að það datt augnbotninn úr samstarfsmanni mínum öðru megin.

En hvað ég vona að ég eigi aldrei eftir að lenda í svoleiðis hremmingum.
by Hr. Pez

14 nóvember 2003


Ekki náði ég í miða í tæka tíð.
Allt uppselt áður en maður var búinn að snúa sér við.

Ojæja, það var sosum viðbúið.

En það verður ábyggilega hægt að gera eitthvað annað skemmtilegt við tímann og peningana í staðinn (sagði hann í máttlausri eftirhermu af Pollýönnu).

Og allavega hægt að kæta sig við það að ég er að fara í partý í kvöld.
by Hr. Pez


Ja mikið óskaplega gekk þetta nú vel.
by Hr. Pez

13 nóvember 2003


Nú fer ég að dóla mér í strætó heim á leið. Mun væntanlega hrella þá sem leið eiga um Vatnsmýrina með gaulinu í mér á leið út á stoppistöð.

Þessir tónleikar í kvöld leggjast alveg hreint ágætlega í mig.

P.S. Þeir gestir og gangandi sem hafa húmor fyrir slíku ættu endilega að tékka á býsna skondinni þýðingasamkeppni hjá Dr. Schnitzel.
by Hr. Pez

12 nóvember 2003


Ég sagði aldrei frá viðburðum helgarinnar sem leið.

Eftir ungbarnasundið á laugardeginum brenndi fjölskyldan upp í sumarbústað í Brekkuskógi, en þar hafði mágur minn boðið okkur að dveljast með fjölskyldu sinni, sem við þekktumst. Laugardagskvöldið fór í grill og spilaspilerí.

Hápunktur helgarinnar var samt strax á föstudagskvöldinu þegar Schnitzelið leit í heimsókn til að horfa með okkur á Íðilkeppnina. Yfir Osbourne-fjölskyldunni fórum við kumpánar af einhverjum ástæðum að rökræða um daglegt líf hins metrósexúalíska karlmanns, sem við ákváðum síðan að upplifa af eigin raun með því að skella á okkur fílapenslanefhreinsiplástrum frá Nivea, og hreinsa á eftir með tónísku húðvatni.

Doktorinn malaði mig í fílapenslafjöldanum, eins og svo mörgu öðru um ævina.

Tvímælalaust eitt af þessum gullvægu "Male Bonding" mómentum sem gefa lífi nútímakarlmannsins gildi.
by Hr. Pez

11 nóvember 2003


Ég stenst ekki mátið.

Í stíl fallinnar hetju bara verð ég að vekja athygli á fyndnustu umræðum internetsins í dag, en þær eiga sér stað í kommentakerfi náriðilsbloggara ársins (Gneisti, nóteraðu hjá þér fyrir verðlaunin árið 2004).

Já ég veit.
Bloggið sjálft er vitaskuld ekki svipur hjá því sem það var þegar hetjur riðu um héruð og blessaður Kaninn kom með viskí og sígarettur í skóinn.
En kommentin eru hvert öðru betra.
by Hr. Pez


Jæja. Þá fer ég heim. Eins og áður er getið er dagurinn í dag eins og dagurinn í gær (hvernig er það líf...).

Æfingin í gær gekk ljómandi vel, þetta stefnir í stórgóða tónleika, það er góður hljómur í Seltjarnarneskirkju (nema þegar vind hreyfir um of svo syngur í þakinu í kapp við flytjendur). Verst að við höfum nánast ekkert æft sólóið mitt. Það verður vonandi gert í kvöld.
by Hr. Pez

10 nóvember 2003


Vinnudeginum að ljúka.

Það verður farið seint að sofa í kvöld. Eftir kvöldmat fer ég á aukaæfingu fyrir tónleikana á fimmtudaginn, og þegar ég kem heim geri ég ráð fyrir að horfa á upptöku af Söörrvævvorrr. Annað kvöld verður væntanlega alveg eins, nema þá verður það Kapphlaupið Ógurlega.

Maður horfir kannski of mikið á sjónvarp...
by Hr. Pez


Mig langar á tónleikana með Muse.
by Hr. Pez

07 nóvember 2003


Nú ætla ég að plögga svolítið.

Þannig er nefnilega mál með vexti að kammerkórinn sem ég syng í, Vox academica, mun halda tónleika með Rússibönunum, Diddú og Sigrúnu Eðvaldsdóttur í Seltjarnarneskirkju fimmtudagskvöldið 13. nóvember kl. 20:00.

Ef lænöppið kemur kunnuglega fyrir sjónir þá er það vegna þess að nú skal endurflytja (vegna gífurgóðra undirtekta áhorfenda og gagnrýnenda og fjölda áskorana) prógramm sem frumflutt var í Salnum í Kópavogi á Pálmasunnudag í vor sem leið. Tónleikarnir samanstanda af tónlist úr ýmsum áttum: klezmer, íslenskum þjóðlögum og napólítönskum söngvum, en hápunkturinn er tvímælalaust hið stórskemmtilega verk "Hjörturinn," eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, við sjö ljóð eftir Ísak Harðarson (nema ef vera skyldi sóló undirritaðs í kvæðinu "Ó mín flaskan fríða," þar sem ort er um það hvernig ábyrgðarlaus fjölskyldufaðir fer með barnabæturnar á heimili sínu).

Miðum fer ört fækkandi svo áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við mig, eða mæta í Tónastöðina Skipholti 50d fyrir miða í forsölu. Miðinn kostar tvöþúsundkall.
by Hr. Pez

06 nóvember 2003


Í dag er gaman.

Áðan fékk ég inn um bréfalúguna kvittun frá íslenska ríkinu með áfastri þrjúþúsund króna ávísun frá Seðlabankanum, að mér skilst eitthvað út af leiðréttingu á barnabótum.

Húrraaa!

Af því tilefni fer ég nú strax eftir vinnu, skipti ávísuninni í næsta banka, og brenni svo beinustu leið í Ríkið og kaupi mér brennsa fyrir peningana sem ríkissjóður ætlar mér í uppeldi dætra minna.

Mééér hlakkar svo tiiiiil...

by Hr. Pez

05 nóvember 2003


Furðufrétt dagsins kemur tvímælalaust úr vísindageiranum, og hefur að gera með nýuppgötvaðan samskiptamáta meðal fiska sem hefur hlotið hið mjög svo viðeigandi nafn: Fast Repetitive Tick (FaRT). Hugsa sér ef maður gæti nú þróað með mér að nota búkhljóð sem samskiptaform. Þá væri sko gaman að lifa. Og tala saman.

by Hr. Pez

04 nóvember 2003


Það eru margir búnir að ergja sig við mig yfir því hve snemma jólaskreytingarnar eru settar upp nú til dags. Þær fyrstu sáust um daginn þegar enn voru tveir mánuðir til jóla.

Einu sinni var ég sama sinnis. En ekki lengur. Nú til dags finnst mér bara ágætt að sjá jólaskreytingarnar svona snemma. Þær lífga upp á annars litlausa og dauðyflislega borgina.

Hitt þykir mér öllu verra að enn eru nokkrar vikur í það að við förum að heyra blessuð jólalögin í útvarpinu. Til að bæta úr því finnst mér tilvalið að leyfa rokklagi nóvembermánaðar að vera jólalag. Þá höfum við eitthvað að hlusta á meðan við bíðum eftir að holskeflan byrji á síbyljunni. Og allir svo að taka undir með Dáðadrengjum: "Mééér hlakkar svo tiiiiil..."

P.S. Ég vil taka fram að hver sá safndiskur með jólalögum sem fólk gæti verið að setja saman í heimahúsum væri ekki svipur hjá sjón ef þetta lag vantaði.
by Hr. Pez


Obbosí. Ég steingleymdi mér bara. Allt brjálað að gera í gær.

En þetta var nú ljómandi helgi. Upprifjunin á ánægjulegum kynnum við Evil Dead 2 og Braindead lukkaðist ljómandi vel, og höfðu allir af þessu þónokkurt gaman.

Á laugardeginum var performans með Vox Academica á sænskri menningarhátíð. Hann gekk framar björtustu vonum. Um kvöldið var matur heima hjá tengdó og spiluð kínversk skák fram undir miðnættið. Þegar við komum heim var læðan að heiman og lét ekki sjá sig allan sunnudaginn. Það er mjög ólíkt henni, því vanalega bregður hún sér ekki af bæ lengur en svona klukkutíma í senn. Ég var búinn að slá föstu að einhver hefði smurt henni yfir malbikið og frúin ætlaði að hringja í Kattholt í gær (síðasta hálmstráið), en svo mjálmaði greyið við útidyrnar um þrjúleytið í fyrrinótt. Henni var fagnað eins og týnda syninum, nema í stað þess að slátra kálfinum sem við ölum niðri í þvottahúsi gáfum við henni í morgunmat afganginn af soðnu ýsunni frá því í síðustu viku.

Verst að kettir geta ekki talað. Ég vildi svo gjarnan fá að vita í hvaða ævintýrum hún lenti.

Ég er að prófa að senda þetta inn með Konqueror. Vonandi fer ekki allt í hakk.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com