<$BlogRSDUrl$>

29 ágúst 2003


Það er kominn föstudagur í Reykjavík, borg óttans.

Svo rættist reyndar úr gærkvöldinu. Kjötflykkið með prófgráðuna bauð mér upp á Schnitzel og svo fórum við og syntum saman í Vesturbæjarlauginni á eftir vinirnir.
by Hr. Pez

28 ágúst 2003


Ætli það sé til eitthvert íslenskt orð yfir tennis?
by Hr. Pez


Ég verð einn heima í kvöld.

Mæðgurnar eru sem stendur allar á leið norður í land.
Svo það verður sennilega bara rólegt kvöld hjá mér og Madditi.

*dæs*
by Hr. Pez

27 ágúst 2003


Ég heyrði Sigurjón Kjartansson nota býsna skemmtilegt nýyrði áðan. Eða nýmerkingu.

Orð dagsins er: Lekandi.
Í merkingunni: Innherji sem lekur viðkvæmum trúnaðarupplýsingum.
Eins og í: "Það lítur út fyrir að Árni Snævarr sé lekandinn í þessu máli..."

Þeir eru skemmtilegir, uppvakningsbræður.
by Hr. Pez

26 ágúst 2003


Það er eitt um Foo Fighters sem er ekki á allra vitorði.

Nefnilega það að eitt þeirra frægasta lag, Everlong, ætti með réttu að ritast svona:

E. Furlong

Jamm, ég hef það nefnilega eftir öruggum og tvístaðfestum heimildum að Everlong sé ástaróður og lamentasjón Dave Grohl til barnagoðs cúm smakkhauss Edward Furlong:

"Hello, I've waited here for you, E. Furlong."

Við þessa túlkun tekur hið ágæta myndband við lagið skyndilega á sig nýjar víddir.by Hr. Pez

25 ágúst 2003


Konan dró mig í búðaráp um helgina.

Fyrst fórum við og keyptum eitt stykki raftæki, en síðan dró hún mig með sér að skoða.
Frúin spurði mig einu sinni álits, og ég gat með góðri samvisku sagt að mér væri í raun alveg sama.
Spurningunni var varpað fram í Húsasmiðjunni, og snerist um það hvort við ættum heldur að kaupa þrjátíuogfimm eða fjörutíu millimetra skrúfur fyrir nýju borvélina hennar.
by Hr. Pez

22 ágúst 2003


Jerry was a Race Car Driver með Primus.

Djedl var orðið langt síðan ég heyrði það síðast vinur.
Skonrokk: Spindill í görn.
Og það má hafa það eftir mér.
by Hr. Pez


Þessi fer út til karlæga gamalmennisins.
Svandís, ég vona að þú sért enn á meðal vor, þó ekki sé nema til að hafa gaman af þessu hérna.

Forðum var mér bent á einn sjónumhryggan Drottins riddara sem lagði á sig að telja alla þá staði sem orðin gleðjumst og fögnum koma fyrir í Orði Guðs. Það reyndist vera, að mér skilst, 44 sinnum, og þótti mikið efni til að gleðjast og fagna. Það er víst svona um það bil einu sinni á fimmtugustu hverri blaðsíðu held ég, að meðaltali.

Vá.
Ég er impóneraður.
Litl.

Um daginn blaðaði ég í gegnum hina 150 sálma er við Davíð konung eru kenndir og fannst sum orðin (og heilu frasarnir ef út í það er farið) koma hreint býsna oft fyrir, það vill segja oftar en á fimmtíu blaðsíðna fresti.

Ef við erum dáldið líbó í'essu og leyfum ýmsar myndir eins og gleði, glaður, gleðjast usw, þá koma orð sem hafa eitthvað með glaðning að gera svona oft fyrir í Sálmum Davíðs:
80 sinnum.
Og ekki er skorið við nögl hve oft fögnuður og að fagna kemur fyrir heldur:
81 sinni.
Nonnoh. Orð eins og sæll og sæla koma svona oft fyrir í sömu söngbók:
29 sinnum.
Og síðast en ekki síst koma orðin kærleikur, ást og elska samtals svona oft fyrir:
56 sinnum.

Jah, þetta er hreint ekki sem verst.

Þar til bent er á að orðið óvinur kemur svona oft fyrir í Davíðssálmum:
84 sinnum.
Illska og orð sem henni tengjast koma svona oft fyrir:
92 sinnum.
Hatrið hristir sinn ljóta haus svona oft:
43 sinnum.
Og reiðin lætur svona oft á sér kræla:
51 sinni.

Og upptalningin gæti vitaskuld haldið áfram beggja vegna borðs ad nauseam, því heilt yfir fannst mér Sálmarnir fyrst og fremst býsna klifunarsöm og þreytandi lesning (og allrækilega nojuð á köflum). Kannski var ekki við öðru að búast: þetta eru sálmar, for kræng át lád. Þó var, sérstaklega undir restina, nokkuð af ágætum sálmum sem áttu sína spretti (... 131, 139, 144...). Ég fann meir að segja aftur versið sem ég held ég hafi tekið mér við ferminguna forðum og var búinn að gleyma hvað var. Það er fallegt, þótt ég hafi sennilega misskilið það herfilega á sínum tíma.

Ég vil vekja sérstaka athygli á sálmi númer 137, sem lesist með þýskan kalýpsónegródiskótakt á sándtrakkinu ("Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum..."). Hann endar líka á svo myndrænum og hugljúfum nótum. Liddl.

Einn er þó sá sálmur sem ber af eins og gull af eir.
Sá er auðvitað langfrægastur.
Hann fær að vera mannakorn dagsins í fullri lengd:

23 Davíðssálmur.
Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

5 Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég
langa ævi.


Hrein fegurð, hvað sem hver segir, og undirritaður þar með talinn.

Gangið í Guðs rennusteinum, og hægt um gleðinnar etc...
by Hr. Pez


Ég stillti á Skonrokk í gær.
Þar heyrði ég í fyrsta skipti í allt of langan tíma hið stórskemmtilega lag, Whip it! með Devo.
Svo fer senn að líða að því að ég berji um mig með bókinni góðu.
by Hr. Pez

21 ágúst 2003


Hehe.

Þennan er hvorki hægt að þýða á ensku né íslensku:

Hardiness is standing your ground. Laxness is resting in it.
by Hr. Pez


Þá hef ég enn frekar steinsteypt mér stall í röðum hönnunarbryndinga.
Ég var ekki alveg nógu sáttur við sjátátið, svo ég fleygði því. Vonandi kemur eitthvað skárra einhvern tíma.
Þeir sem hafa eitthvað við þessar gjörðir mínar að athuga verða bara að hafa samband við mig eftir öðrum leiðum.
Þið vitið hver þið eruð, og hvernig þá.
by Hr. Pez

20 ágúst 2003


Ég gerði dáldið fallegt fyrir konuna mína um daginn.

Alltaf endrum og sinnum kemur hún til mín með bæklinga sem lauma sér inn um lúguna, frá Hagkaupum, Bónus, ByKó, Victoria's Secret... (Þá dagana er sko hæ þar á hóli.)
Allavega, um daginn kom hún og otaði framan í mig einum svona snepli, opnaði, benti og sagði: Mig langar í svona.
Og mér leist bara ágætlega á, svo í fyrradag fórum við í Húsasmiðjuna og ég splæsti í höggborvél fyrir konuna mína.
Ég spurði hana hvort þetta gæti ekki beðið þangað til hún ætti afmæli, en hún vildi endilega drífa í þessu meðan birgðir entust.

Ojæja.
Kannski ég gefi henni þá bara slípirokk í afmælisgjöf.
Eða smergel.
by Hr. Pez

19 ágúst 2003


Í tilefni af því að kumpánar mínir tveir sem hófu vefjarskráningu um helgina virðast ætla að halda dampi eitthvað áfram hef ég dúllað við hlekkina mína hér að ofan. Einnig bætti ég inn Gambranum, sem hefur víst hlekkjað mig við sig frá því er frægðarsól mín reis hvað hæst í vor sem leið.

Það hryggði mig að sjá að Gamla Maddamman sem var hvað fyrst til að veita mér athygli hérna þykist vera hætt að blogga. Ojæja, fólk verður víst ekki barið til internets. Ég held henni þó inni um sinn, í von um að hún sjái að sér.
by Hr. Pez

18 ágúst 2003


Bloggheimum bættist nýverið liðsauki sem gæti reynst býsna öflugur er fram líða stundir.

Minn ágæti vinfjandi, Dr. Helmut Schnitzel, hefur hafið að skrá sína innstu þanka í vefjardagbók. Hann fer vel af stað, og heldur vonandi dampi er frá líður.

En ætli tíminn verði nú ekki að skera úr um það.

Og þeim sem þekkja Hr. T vil ég benda á að sá hinn sami hefur hafið hliðstæðar þankafærslur á eigin síðu.

Farnist þeim báðum hið allra besta á tölvuöld.
by Hr. Pez

15 ágúst 2003


Jæja, þá er maður kominn aftur.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að tengja heimilistölvuna við netið þessa dagana, svo þetta er hripað í tíu mínútna skrepp í vinnuna. Læt mér nægja að segja að sumarfríið var ljómandi fínt, vissulega skin og skúrir (aðallega skúrir) en margt gott viðetta.

Gangið hægt um gleðinnar dyr.
by Hr. Pez

08 ágúst 2003


Þegar ég var lítill og las fiskabók AB mér til fróðleiks og yndisauka fannst mér alltaf eitthvað fyndið við orðið Kampalampi.

Kampalampi! Pæliðíðí!!!

Ég upplifði ekki fyndnara rækjugrín fyrr en í sjávarvistfræðikúrsinum sem ég tók í háskóla. Bekkjarsystur minni, henni Öggu sem kom á mölina frá Ísafirði, fannst eitthvað vandræðalegt þegar við rýndum vísindagreinina "Um kynlíf Öggu í Ísafjarðardjúpi." Okkur hinum fannst það ofsa fyndið grín.

Sennilega hefðuði þurft að vera þarna.

Hmmmjá, það gæti orðið eitthvað hljótt um mig hérna næstu dagana, en hafið engar áhyggjur. Ég sný aftur.
by Hr. Pez

07 ágúst 2003


Æjá alveg rétt hann heitir víst Guttormur.

Hverjum er ekki sama.
by Hr. Pez


Ég skil í sjálfu sér að þau hafi áhyggjur.

En ef við stöldrum við, er ekki þokkalega mikil hræsni í gangi hérna? Ég meina hei, við förum með dóttur okkar í Húsdýragarðinn að skoða Guttólf og komum svo heim og borðum piparsteik í kvöldmat. Og finnst það eðlilegasti hlutur í heimi.

Það er eðlilegasti hlutur í heimi!

Dýr geta bæði verið skemmtileg á að horfa og góð á bragðið.

Það er nákvæmlega engin þversögn í því að fara fyrst í hvalaskoðunarferð og fá sér síðan vel matreitt hrefnukjöt á eftir. Gott og vel, það gæti verið erfitt að markaðssetja það, en það er bara af því að markhópurinn er samsafn af veruleikafirrtum og hugsanalausum hengilmænum með rökstuðning á brauðfótum.

Og líka grænmetisætum. Þær hafa kannski reyndar málstað að verja.

Svo lengi sem þær bojkotta Húsdýragarðinn líka.
by Hr. Pez

06 ágúst 2003


Rokklag mánaðarins er til heiðurs horfnum tíma.
Eða allavenna til heiðurs tíma sem hverfur brátt, ef allt fer á þann besta veg sem horfir. Og að sjálfsögðu tileinkað öllum þeim góðu drengjum sem eru stökk í Keflavík og vilja fara heim. Verði þeim sem fyrst að ósk sinni.

Svo sáum við Keilu fyrir Columbine í gærkveldi. Ómissandi mynd. Alveg hreint ómissandi.
by Hr. Pez

04 ágúst 2003


Anda inn um nefið og út um munninn.

Ég er ekki hættur, ég var bara í sumarfríi. Fjölskyldan skrapp norður í land yfir verslunarmannahelgina. Gaman gaman.

Gott að enginn saknaði mín.

Sumarfríum er ekki lokið, en við skulum hafa áhyggjur af því þegar þar að kemur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com