<$BlogRSDUrl$>

26 júlí 2003


Æ mig auman!

Vitaskuld gleymdi ég að þulurinn segir: "Jafnvel bestu laufin eru tormelt."
by Hr. Pez


Mikil endurnýjun á náttborðinu þessa dagana.

Kláraði um daginn fína bók, White Noise eftir gauk að nafni Tom DeLillo (framb. Tondeleyjó). Að mörgu leyti svona tuttugu árum á undan sinni samtíð. Hin óskiljanlegu lokakomment úr síðustu færslum eru henni að kenna.

Og nokkru síðar Ísrael, eftir Stefán Mána. Sammála síðasta ræðumanni.

Andaði léttar í gær er ég uppgötvaði við nánari yfirferð að diskurinn með strákunum sem hafa viðtæki í stað líkamsafkima var uppi í hillu eftir allt saman.

Er sem stendur aftur farinn að klæmast á þjóðháttaþörfinni, en meir um það síðar.

Og vissir fastakúnnar geta farið að hlakka til þess að senn styttist í umfjöllun um sálma þá er við Davíð eru kenndir, meðan aðrir krossa sig eflaust og ésúsa af leiðindum eða fyrirlitningu.

Svo tökum við hjónin leikhlé í kvöld, fáum mág minn og svilkonu í ammríska tacoveislu og horfum á veruleikafirringu úr Spielberg á eftir. Enda fengum við yfirskammt af raunveruleika í gærkvöldi undir nýjasta snilliverki Lúkasar Moodyssonar: Lilju að eilífu.

Þá er þetta bara upptalið held ég.
by Hr. Pez

24 júlí 2003


Má til með að geta þess að nýi titillinn er fenginn úr eftirfarandi ljóði eftir Þórberg:


Fjórtán ára

Ljúfasta fegurð fljóða!
Fegursta blómið mitt!
Að eilífu vildi' eg una
við ódáinsbrosið þitt.

Séð hef ég svanna fríða,
sá aldrei líka þinn,
angandi æskublómið!
Ódáinsgeislinn minn.

Leiki þér allt í lyndi,
ljúfasta barnið mitt!
Og láttu' ekki sorpið sverta
syndlausa brosið þitt.


En þetta var sumsé sungið við skírnina hennar Unu.
Og reyndar líka við skírnina hennar Hrefnu.
Og í brúðkaupinu okkar Árnýjar.
Því við þetta er til lag eftir Egil Gunnarsson sem hentar við öll tækifæri frá vöggu til grafar. Þeir sem það hafa heyrt vita við hvað er átt.

Annars er heimilið án sjónvarps í kvöld. Ég fór loksins að láta gera við fjarstýringuna í dag.
Svo útvarpið segir bara: "Gerum ferðalagið enn skemmtilegra!"

by Hr. Pez

23 júlí 2003


Hann er kominn aftur!

Jamm, okkar ágæti og schknarklikkaði P.M. er snúinn til baka, líkastil úr sumarfríi, og leggur undir sig alla fréttatíma með sínum vanalegu heddlænfrösum, bara svo við vitum að allt sé orðið eins og það var.

Talandi um það.

Ég var í gær að leita að nýjustu plötunni með Útvarpshausunum ("Heill sé þjófnum"), og má til með að geta með sorg í hjarta að var án árangurs.

EN!

Í staðinn fann ég tvo gimsteina sem ég var búinn að gleyma að ég ætti og hafði meir að segja aldrei hlustað á, nebbninlega "Brennimerktur," með flauelsbarkanum Isaac Hayes, og safnplötuna "Krullur," með hamingjupoppsveitinni Gleðideildin. Það var tvöföld óvænt ánægja.

Og svo óskum við að sjálfsögðu pönnsunni hjartanlega til hamingju með "ðö bigg tú-næn!"
by Hr. Pez

21 júlí 2003


Og hratt flaug stund.
Skírn í gær og sprundin heitir Una.
Og græjurnar segja: "Rokk er betra en fúltæm djobb o-ó!"
by Hr. Pez

17 júlí 2003


Ég sá hana hérna Önnu Pálu á förnum vegi í gær. Stelpuna í spurningakeppnisliði MH. Og ég velti fyrir mér hvort hún væri farin að drekka kók aftur. Mig langaði til að stoppa og spyrja hana að því.

Áðan var ég að kaupa inn. Og þótt ég hafi síðustu mánuði fundið hinar ótrúlegustu nýlenduvörur sem upp eru runnar annars staðar frá en Banderíku, þá hef ég sömuleiðis uppgötvað hina undarlegu vöruflokka sem manni er fyrirmunað að kaupa öðru vísi en með því að brjóta odd af oflæti sínu. Úr leskidrykkjadeildinni höfum við hjónin enduruppgötvað hina ágætu drykki Mix og Egils Grapefruit, auk þess sem hægt er að svolgra hið ágæta Mix Exotic yfir sumarmánuðina (en þó bara í hálfslítravís). Og þótt ótrúlegt megi virðast er hægt að kaupa örbylgjupopp sem ekki er flutt inn að vestan.

En það er ómögulegt að finna Alfredo. Og eftir að Valur bakkaði út af markaðnum er útilokað að finna óamméríska tómatsósu. Nóg til af sinnepi: SS, Bähnkes, Slotts (var það ekki einhvern tíma líka tómatsósa?). En ekkert ketsjúp. Nema Ketjap Manis, en það er nú allt annar handleggur og passar ekki oná pylsu með öllu.

En ég fór að velta þessu fyrir mér því það rifjaðist upp fyrir mér að hún sagðist hætt að drekka kók þar til stríðinu væri lokið. Og ég velti því fyrir mér hversu margt af öllu liðinu sem sagðist hætt að kaupa bandarískar vörur væri farið að kaupa þær aftur, því jú, eins og Ameríkóar hafa sjálfir lýst yfir: “Stríðinu er lokið.”

Fyrir margt löngu ritaði ég pistil um þetta efni og lýsti reyndar engu ótvírætt yfir um breytta viðskiptahætti. Gaf reyndar í skyn með það nokkru síðar er ég óskaði eftir barmmerki með áletruninni: “Ég kaupi ekki alveg eins mikið af bandarískum vörum og ég gerði einu sinni.” Og ég stend við það enn. Enda er stríðinu enn ekki lokið. Stríðinu gegn stríðinu gegn hryðjuverkum getur einungis lokið á einn veg. Með falli ofríkisstjórnar GWB. Sem þýðir að öllum líkindum að ég mun halda óbreyttum innkaupaháttum í að minnsta kosti eitt ár í viðbót. Jafnvel fimm. Jafnvel lengur, ef ekki tekur skárra við. Og ég stend við það sem ég áður sagði, að þeir sem fóru að kaupa ammerískt um leið og Banderíkin lýstu því yfir að stríðinu væri lokið eru hræsnarar.

Hræsnarar.

Og sjónvarpið segir: “Saga sem mun aldrei gleymast.”

by Hr. Pez

13 júlí 2003


Ég sá Leifturdans í gærkvöldi. Hún var bara miklu betri en ég þorði að vona. Ég man að mér fannst hún æðislega meiriháttar þegar ég sá hana á mínu fjórtánda ári í denn. Tvisvar. En myndir sem maður sér á sínum yngri árum eiga til að eldast misvel í minningunni og raunveruleikanum. Gaman að uppgötva að þarna færi undantekning. Og rifja upp langþráð kynni við atriðið þegar hin annars tilþrifalitla Jennifer Beals fór úr brjóstahaldaranum án þess að fara úr peysunni. Sem reyndist miklu saklausara en mig minnti og bara hreint afskaplega fallegt. En sosum skiljanlegt að þrettán ára peyi með hormónana á fullu hafi gengið af göflunum yfir þessu.

Í mörg ár eftir að ég sá Leifturdans átti ég mér draum um að eiga heima í yfirgefinni vöruskemmu.

Annars vil ég vekja athygli fjölskylduvina á því að Gneistinn og Spúsa komu í heimsókn fyrir giska mörgum dögum og tóku heila dopíu af myndum. Fyrir þá sem er farið að lengja eftir því að sjá hvernig krílið lítur út vil ég benda á að þau komu örlitlu broti af afrakstrinum fyrir á internetinu.

Svo erum við farin að leggja drög að skírnarathöfn. Meira um það síðar.
by Hr. Pez

10 júlí 2003


Voðaleg bloggleti er þetta.

Það er að renna upp fyrir mér að það er fúltæmdjobb að vera heimavinnandi. Það er heill haugur af óstraujuðu stöffi hérna við hliðina á mér, óhreint uppvask í vaskinum, efri hæðin óryksuguð, enn eftir að setja í sosum eins og eina vél og klósettið óþrifið (og já, ég þríf klósettið. Ég hef alltaf þrifið klósettið. Það er karlmannsverk). Og ég nenni bara ekki að gera meira í dag. En það kemur dagur eftir þennan. Þetta verður þarna ennþá í fyrramálið.

Annars er allt ágætt. Ég nenni bara ekki að gera meira í dag.

Ekki einu sinni þetta.
by Hr. Pez

07 júlí 2003


Þá er nú ekki seinna vænna en að demba á ykkur lagi mánaðarins.

Og í ljósi síðustu atburða finnst mér tilvalið að það verði þetta hérna.

Þetta er nú eitthvað sem kemur öllum í gott skap. Alltaf.
by Hr. Pez

06 júlí 2003


Jæja, við komum heim síðdegis í dag. Fáum ljósuna í fyrstu vitjun á eftir.

Annars er ég að horfa á 24 með öðru auganu. Þetta er alltof spennandi. Krefst þeirra beggja.

Bless bless.
by Hr. Pez

05 júlí 2003


Jæja, þá varð nú loksins avvðí!

Jamm, klukkan tæplega tuttugu mínútur gengin í tíu í morgun leit dagsins ljós yndislegt og alheilbrigt kríli, rétt tæpar átján merkur á þyngd og fimmtíu og fimm sentimetrar á lengd. Fæðingin gekk alveg hreint ágætlega takk fyrir, séssdagglega miðað við að móðirin þrælaði þessu út án nokkurrar utanaðkomandi deyfingar (hetjan!). Bróðir hennar og mágkona voru viðstödd og þótti báðum nóg um á tímabili (og undirrituðum líka) en enginn rankaði þó við sér með Danfossmerkið á enninu.

En yfir að allt öðru.

Um daginn var ég að rifja upp fyrir sjálfum mér hina ágætu mynd Bandarísk Geðveiki, bíóútgáfuna af samnefndri bók eftir banderíkóann Bret Easton Ellis. Ég get sjálfur vitnað um að transformeringin tókst framar björtustu vonum, og ekki nema ein sena í bókinni sem ég saknaði úr myndinni. Það var þegar söguhetjan mætti Tom Cruise í lyftu og mælti hin fleygu orð: "Ég var hreint býsna hrifinn af myndinni þinni: Bar-þjónn," við hverju Tómas Skemmtisigling fyrtist allnokkuð og svaraði að skilnaði: "Hana-stél. Hún hét Hana-stél."

Jæja allt í lagi. Ég skal ekki draga það lengur (og snerillinn fer á fullt)...

Krílið er í bleiku (trrrtsch!).
by Hr. Pez

02 júlí 2003


Mig langar að koma með eitthvað svona trívíalt blogg núna. Verst að ég er alveg tómur.

Ég hef aldrei talið mig mikinn fantasíuaðdáanda, en þó er ég dottinn oní Belgariad-bálkinn eftir David Eddings. Hann er betri en ég hélt. Ég er núna að klára aðra bók af - að mig minnir - fimm, og hef gaman af. En bölvuð dellerettanúsamt.

Það eru allir alltaf að stoppa okkur á förnum vegi og spyrja hvort þetta sé nú ekki að koma hjá okkur. Við erum að verða dálítið þreytt á þessu hjónin og frúin er farin að upplifa sig sem vanhæfa móður áður en króginn hefur svo mikið sem litið dagsins ljós.

En þetta er nú allt í góðu samt.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com