<$BlogRSDUrl$>

30 júní 2003


Kærar þakkir til Gneistans fyrir það að síðan sé aftur komin í mannsæmandi horf.

Annars er þetta ókomið enn. Við höfum verið á appelsínugulu í tæpan sólarhring núna. Það hlýtur að fara að sjá fyrir endann á þessu.
by Hr. Pez

28 júní 2003


Rjett ad baeta vid ad thar sem jeg er nu kominn i fri verdum vid fjolskyldan hvad helst i sambandi i thessu postfangi hjerna.
Og nei, thad er okomid enn.
by Hr. Pez

26 júní 2003


Jaeja. Thar for thad. Einhverjar hugmyndir?
Their sem thaer hafa mega endilega hafa samband vid mig.
by Hr. Pez


Eitt ættu allir að gera sem standa í sporum okkar hjóna.

Fyrir síðustu jól kom út bókin Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð - Fæðingarsögur íslenskra kvenna. Ég get ekki mælt nógsamlega með þeirri bók til aflestrar fyrir fólk sem á von á barni, eða er að hugsa um að fá sér eitt svoleiðis takk. Það vill segja, fyrir þá sem geta yfirhöfuð feisað það sem verið er að fara út í. Hún inniheldur svona um eða yfir sjötíu sögur með lýsingum á meðgöngum og fæðingum sem fara langleiðina í hundraðið.

Fjölbreytnin er lygileg. Þarna eru fæðingar sem ganga vel og fæðingar sem ganga illa. Þarna eru lýsingar á planeruðum og akútt keisurum, inngripum, gangsetningum og deyfingum ýms konar, og einnig náttúrulegum fæðingum, vatnsfæðingum og heimafæðingum (planeruðum, og líka einni sem kom óvænt). Og meir að segja einni ættleiðingu. Heill mýgrútur af litlum krílum sem líta dagsins ljós, ein og sér eða tvö og tvö í senn, langoftast alheilbrigð, en inn á milli stuðar náttúran væntingarnar: fyrirburar, Downs-heilkenni, blinda, andvana fætt. Mæðurnar eru líka af öllum stærðum og gerðum og af ýmsum aldri, og af og til segir frá heyrnarlaus móðir, eða með vöðvarýrnunarsjúkdóm, eða sykursýki, eða háþrýsting, eða meðgöngueitrun. Og meir að segja einn pabbi.

Það sem eftir stendur er það að hver einasta fæðing er einstök. Verðandi foreldrar sem lesa bókina læra því ekki hvað síst tvennt. Annars vegar að það er ómögulegt að spá fyrir um á hverju er von. Allt getur gerst. Hitt er það að meðgangan og fæðingin (og, get ég vitnað um, áframhaldandi uppalelsi á króganum) á eftir að verða þeim ógleymanlegur viðburður sem breytir þeim fyrir lífstíð. Til hins betra. Mig grunar að akkúrat þær konur (og þeir verðandi feður) sem hvað síst geta hugsað sér að lesa þessa bók séu þær sem hvað mest geti grætt á henni.

Í heimsókn til ljósunnar í gærmorgun gluggaði ég líka aðeins í Pabba, bók fyrir verðandi feður, eftir Ingólf V. Gíslason. Mér sýnist hún ekki svo galin lesning heldur fyrir menn í mínum sporum. Eeen ég þarf að skanna hana aðeins betur.

Þetta eru náttúrulega bækur sem eru fyrst og fremst ætlaðar sínum þrönga markhópi, en fyrir þá sem honum til heyra eru þær gulls ígildi.

by Hr. Pez

25 júní 2003


Og talandi um íslenskanir!

Af hverju í ósköpunum er ekki talað um "MÖNDULVELDI HINS ILLA!!!"?

Alltaf þegar ég tala um þetta sem öxul fæ ég smurolíubragð í munninn.

Hvað klikkaði strákar? Haa?
by Hr. Pez


Datt allt í einu í mig:

Af hverju heitir höfuðborg Egiftalands ekki Kæró?

Ég bara spyr.
by Hr. Pez

24 júní 2003


Allt við það sama.
by Hr. Pez

23 júní 2003


Tíhíhí.

Gaman að vita að ég er ekki eini hérlendi aðdáandi hjaðningavígapenna kúm rugludalls par exelens, Njáls Af Ætt Pólverja. Enda þykir mér dámur af honum dreginn.

Annars er allt rólegt og við það sama. Eins og gefur að skilja erum við hjónin orðin dálítið spennt.

Svo las ég um daginn Samsærið, aðra bókina í Artemis Fowl seríunni, í þýðingu fagmannsins Guðna Kolbeinssonar. Skemmtileg bók fyrir þá sem eru ungir í anda. Aðrir hrista eflaust hausinn yfir vitleysunni. Þriðja uppáhaldsbarnabókaserían mín, af þeim sem enn er verið að bæta í.
by Hr. Pez

20 júní 2003


Nú fer þetta bráðum að verða búið.

Ég mæli með Sumarhúsi, seinna, eftir Judith Hermann. Þýtt í Neonseríunni hjá Bjarti. Stútfullt safn af sögum sem lauma sér undir hörundið, af venjulegu fólki sem gerir óskiljanlega hluti en er samt svo auðvelt að skilja.

Ég hef í seinni tíð sannfærst sífellt betur um fánýti þess að þvinga smásögur í spennitreyju upphafs, riss og úrlausnar. Og það öngstræti sem leiðir af því að reyna sífellt að láta sindra af stórum sögum og atburðum og tilfinningum í brennipunkti örlítils andartaks. Það verður svo fljótt eitthvað svo jórtrað og endurunnið.

En - en - hvað vil ég þá?

Kannski ég reyni að svara því með analógíu. Mörgum bestu smásögum sem ég hef lesið í seinni tíð (og þar með má telja þær í ofangreindu safni) má einna helst lýsa með vísun í bestu málverk Hrings Jóhannessonar. Byggingin fastákvörðuð og geirnegld en óhefðbundin, og umlykur viðfangsefnið ekki nema að hluta, ef þá yfir höfuð nokkuð. Mótífið að mestu utan rammans. Þannig get ég hugsað mér framhaldslíf smásögunnar.

Formið er dautt. Lengi lifi formið.
by Hr. Pez

19 júní 2003


Og að lokum reikna ég fastlega með að Dr. Schnitzel taki undir með mér þegar ég óska öllum legrembufasistum íslenskum hjartanlega til hamingju með daginn.

Í dag er góður dagur.
by Hr. Pez


Við hjónin eigum afmæli í dag.

Jamm, ég fékk sjálfur að velja daginn. Ekki fyrir mína femínísku tendensa (amk ekki eingöngu) heldur að sjálfsögðu fyrir það hversu auðvelt yrði að muna hann. Og hef ekki klikkað á því enn, þrátt fyrir fjögur tækifæri til þess, sjö níu þrettán.

Ég færði frúnni bleikan pipar í rúmið í morgun, í tilefni dagsins. Svo fékk ég pínu sjokk þegar ég uppgötvaði að ég var búinn að henda bleiku skyrtunni sem ég ætlaði að vera í í dag. Ég er í annarri sem er ekki alveg eins bleik, en til áréttingar er ég með bleikan áherslupenna í brjóstvasanum.

Svo dreymdi mig eitt fyndið í nótt. Mér fannst ótækt að ekki væri til almennilegt íslenskt orð yfir erkitýpu (archetype). Og datt það snjallræði í hug að þýða það með orðinu bígerð. Sem ég var að fletta upp núna áðan og komst að því að það þykir víst ekki par fín íslenska heldur.

Ojæja.
by Hr. Pez

18 júní 2003


Nonnoh.

Hver ætli þetta sé? Það koma heilir sex manns til álita. Ætli það sé "Gaukur á bassa!" eða annar hvor frænda minna Pálssona úr hinni skammlífu sveit Kristur og systur? Eða kannski Magnús (ekki kjötstykkið með prófgráðuna) eða annar hvor kaupfélagsstjóratvíburanna úr hinni ögn lengur harkandi grúppu Piflon Kyd, hljómsveit ársins 1991!?

Ef ég ætti að veðja myndi það vera á fyrsta kostinn. Annars verð ég bara að bíða eftir frekari upplýsingum frá Gneistanum áður en ég stend frekar fyrir máli mínu.

Spurning hvort maður ætti að hóa í eitthvað af þessu liði og lauma djeðveiku rokklagi í næsta Evróvisjón, svona upp á grínið. Hahahaha.
by Hr. Pez

16 júní 2003


Endalausar smásögur eru þetta alltaf hreint.

Gneistinn er voða hrifinn af Neil Gaiman, og ég verð að segja að eftir að hafa fengið að láni hjá honum og lesið smásagna- og ljóðasafnið Smoke and Mirrors, þá tekur Pezusinn undir. Þetta er heillandi safn og skemmtileg lesning. Magnaður hápunktur í restina þegar ævintýrinu um Mjallhvíti er snúið á haus, vonda stjúpan í rauninni góði karlinn og Mjallhvít náföl blóðsuga sem læðist um skógana. Þessutan mikið leikið með vampírutemu, og einnig varúlfa, riddara hringborðsins og tröllið undir brúnni. Og ekki má gleyma káta karlinum Nikulási gamla. Happafengur fyrir unnendur hrollvekju- og fantasíubókmennta.

Áður hafði ég lesið eftir höfundinn hina kynngimögnuðu Kóralínu, auk Good Omens, sem hann reit í kompaníi við Terry Pratchett, einnig frábæra bók, þaðan sem mér er sérdeilis minnisstæð neðanmálsútskýring á breska myntkerfinu. Ég hef enga ástæðu til að rengja þá sem halda því fram að maðurinn sé skyldulesning eins og hann leggur sig.
by Hr. Pez

14 júní 2003


Orð dagsins er tvímælalaust "Paraskevidekatriaphobia."

Það hefði reyndar frekar átt að vera orð dagsins í gær, því þetta ku vera fræðiheitið yfir ótta fólks við föstudaginn þrettánda, sem var jú einmitt í gær (í framhaldi af umræðum um fóbíur á bloggum víða um rafheima).

En orðið er flott engu að síður.

Sjálfur er ég víst haldinn nokkrum fóbíum, og þar á meðal er víst ekki ótti við hvali, eins og ég laug annars staðar í spjalli á tölvuöld. Nei, ef ég á að velja þá skrýtnustu, þá er það sennilega "Heimis-Steinssonar-syndrómið," einhvers konar vægur innri ótti við sjálfan mig, við það sem mig grunar stundum að ég gæti verið ef ég væri ekki svona siðmenntaður og vel upp alinn góður drengur.

Fríkað maður.

Og svo þarf ég alltaf að fleygja salti yfir vinstri öxl mér ef það sóðast á borðið.

Gangið svo bara hægt um gleðinnar dyr.
by Hr. Pez

13 júní 2003


Áfram skal haldið, og það heldur upp á við.

Um daginn renndi ég í gegn um "Slóðir mannanna," safn af ljóðum og smásögum sem í gegn um tíðina hafa hlotið viðurkenningar í samkeppnum Menningarsamtaka Norðurlands (MENOR). Mér er málið skylt þar sem ég á sjálfur sögu í téðu safni. Hún sómir sér alveg skammlaust í þessum félagsskap sýnist mér, þótt hún sé kannski ekki það besta sem hefur birst eftir mig á prenti. Í það heila tekið var ég hrifnari af ljóðunum en smásögunum, og vil ég þar sérstaklega nefna Erling Ernuföður frá Grænavatni og frænda minn Hjalta í Ártúni, sem báðir eiga fleiri en einn entrans í safninu.

Að lunganum til bentu sögurnar til að höfundar skyldu halda deidjobbinu, og mín þar hvergi undanskilin. En þó voru inn á milli nokkrar ágætar aflestrar.

Þetta er vandfundið safn, en brjálaðir aðdáendur ljóða og smásagna (þeir eru til og ég er einn af þeim) sem ná að hnusa það uppi hafa margt verra við tímann fyrir svefninn að gera en glugga í það.
by Hr. Pez


Þetta þykir mér fyndin frétt, ef sönn reynist.

Þótt mér finnist reyndar að fjóreykið ætti frekar að sækja í eftirnöfnin og kalla sig GAAH!!!
by Hr. Pez

12 júní 2003


Merkilegar þessar litlu uppgötvanir.

Í gærkvöldi var ég að klára að flísaleggja forstofuna með tengdapabba þegar ég fékk skyndilega hina ágætu dægurperlu "China In Your Hand" með þeirri gagnmerku sveit T'Pau á heilann (hver man ekki eftir þeim).

Nema hvað, allt í einu rann upp fyrir mér ljós.

Ég áttaði mig á að sennilega væru þau ekki að syngja um landið Kína í lófa mér, eins og ég beit í mig er ég heyrði sönginn fyrst á táningsskeiði og hafði aldrei hugsað út í að endurskoða síðan þá. Og skyndilega fannst mér allt smella er ég áttaði mig á að meiningin hlyti að vera sú að fara sér ekki of geyst, því draumar og væntingar séu jú sem ofurviðkvæmt posturlín í höndum vorum. Því til staðfestingar ákvað ég að fletta þessu upp á ofanhlekkjaðri heimasíðu og komst að því að nei, þarna væri víst verið að syngja um Mary Shelley, höfund sögunnar um skrímsl Frankensteins.

Já það skýrir alltsaman.

Erettekki merkilegt.
by Hr. Pez


Jæja, þetta virðist að mestu komið í lag, og þökk sé þeim sem hana eiga inni...

Ég tók þó eftir að stöku færslur virðast hafa lent "milli stafs og kirkju" í geymslunni hjá mér. Til dæmis sakna ég sárt dómsins um Nehemíabók, og eins samantektarinnarinnirinnar sem ég reit í tilefni íslenskrar undankeppni Evróvisjóns (þó mig minni að ég eigi hana annars staðar).

Svo ákvað ég að prófa að lauma inn nokkrum hlekkjum hér fyrir ofan og sjá hvernig kemur út. Það eru nokkrir vefbókhaldarar hérlendir sem ég les til viðbótar, en þeir eiga velflestir sameiginlegt að vera teknir í rss af Gneistanum, sem ég óska til lukku með nýja heimilið á tölvuöld.
by Hr. Pez

11 júní 2003


Svo virðist sem skjalageymslan mín sé tóm frá mánaðamótunum mars-apríl. Ef einhver mér klárari (sem þarf ekki mikið til) býr yfir túkalli um þetta mál má hann alveg hafa samband við mig og ráðleggja.
by Hr. Pez

10 júní 2003


Þá er það annar Matthildarbróðir. Og hann fær lítið skárri meðferð.

Einhvern tíma um daginn spurði yfirmaður minn útlendur mig út í hæfileika forsætisráðherra okkar á ritlistarsviðinu, og ég tjáði honum að án þess að hafa lesið neitt eftir hann sjálfur skildist mér að hann væri alveg slarkfær annars flokks smásagnahöfundur.

Ég dreg þessi ummæli mín til baka. Þau báru honum of vel söguna. Ég myndi ráðleggja honum að halda í dagvinnuna, bara ef mér þætti hann standa sig nokkru skár á þeim vígstöðvunum. Þvert á móti finnst mér, þegar ég hugsa mig um, að hann ætti að leggja smásagnaskriftirnar fyrir sig. Þá væri að minnsta kosti auðveldara að sniðganga hann.

Um daginn lauk ég nefnilega við hans nýjasta smásagnasafn: Stolið frá höfundi stafrófsins. Að mörgu leyti má segja það sama um þessa bók og þá síðustu sem ég tók fyrir, utan að hér fer höfundur sem ekki hefur sannað sig með sínum fyrri verkum. Upp til hópa eru þetta afskaplega litlar og meinlausar sögur, oftar en ekki með sama undirliggjandi temaöi: "Hæðst að litla manninum." Sem þarf reyndar ekki að koma á óvart úr þessari áttinni. Nokkrar blaðsíður teknar í að setja upp fyrir brandarann þar sem hlegið er að söguhetjunni í restina. Sem vill segja að þetta safn er kannski ekki svo leiðinlegt aflestrar, bara dálítið deprímerandi og ristir grunnt.

Slúttum þessu á "einum kennt, öðrum bent" lexíu. Þeir sem hyggjast hafa Norðlending sem sögumann í hugverkum sínum ættu að hafa hugfast að í huga norðanmanna eru "fram dalinn" og "út dalinn" tvær andstæðar stefnur. Í sögu sinni um Rúnkudys bregður höfundur sér í gervi manns að norðan, sem lýsir fjalli einu með þeim steingeldu orðum að það standi "framan við dalinn," og ræðst af samhengi að það ku eiga að vera í dalsmynninu, en ekki ofan við dalbotninn, eins og ætla mætti ef sögumaður væri að norðan.

Sem minnir mig á.
Dægurlagið fornfræga væri bara ekki það sama ef sungið væri: "Inn í heiðanna ró..."
by Hr. Pez

06 júní 2003


Jæja, byrjum áessu.

Þetta er fyrsti pósturinn af svona um það bil fjórum til sex um smásagnasöfn sem ég hef lesið upp á síðkastið.

Um síðustu helgi brenndi ég í gegn um nýjasta smásagnasafn Þórarins Eldjárns: Eins og vax. Það hryggir mig að segja frá, en safnið atarna olli mér verulegum vonbrigðum. Það var þunnt á hillusentimetrana, hraðlesið, og samanstóð, fannst mér, af sögum og skissum sem hefðu sumar hverjar getað sómt sér sem sæmileg uppfylling í þykkari og innihaldsríkari pakka, en sem komu saman til að fýra hreint óvenjuþunnan þrettánda í safninu sem um ræðir. Inn á milli grillir í hnyttnina og þá óvæntu sjónvinkla á mannlífið sem hafa lengstum verið aðalsmerki Þórarins, eins og í molanum um hlendi, og jafnvel á köflum í titilsögunni, en heildarmyndin er máttlausari og snöggtum innihaldsminni en maður átti von á úr þessari átt. Hálfótrúlegt að þarna fari maðurinn sem á að baki slíkar perlur formsins sem Síðustu rannsóknaræfinguna, Lífheim borðtuskunnar og... hérna... hvað hét hún aftur. Sagan um manninn sem tók til við að skrásetja "upp í rútu" og "niður í Landróver." Man það ekki. Hún var býsna góð líka.

Hvað um það.

Sorglegt til þess að hugsa að þarna fer maður sem vitað er að getur gert svo miklu miklu betur. Næst þegar Þórarinn Eldjárn verður með efni í líkingu við þetta í höndunum og tekið að styttast í jólavertíðina, þá myndi ég ráðleggja honum (ef ég hefði nokkurn skapaðan hlut um að segja) að gera það fyrir aðdáendur sína að leggja því um ár, bæta í sarpinn og hreinsa til. Höfundur sem vanalegast er biðinnar virði á það inni hjá pöpulnum að hann láti bíða eftir sér.
by Hr. Pez

05 júní 2003


Ég gluggaði í "besta og frægasta bloggara landsins" í gær og þótti skondið að sjá þýðingarvilluna úr Mogganum. Rifjaðist þá upp fyrir mér að ekki ómerkari maður en Goggi Bússein framdi sömu falleringu fyrir allmörgum mánuðum, er hann mælti hin fleygu orð: "I'm concerned about rouge nations and leaders that may try to hold the United States or our allies hostage."

Hallelúja, amen, Guð blessi Banderíku og fimmþúsund mínútna þögn meðan við biðjum fyrir hetjunum sem berjast fyrir frelsinu í heiminum og förum svo í leikinn "Hvað er ólíkt með þessum orðum":

Rogue (eins og Dr. John Reid orðaði það)
Rouge (eins og Dr. George Schn. Bush orðaði það)

Jú, mikið rétt. Rogue ("róógg") kallast sá sem er óviðurkvæmilega slóttigur, illa innrættur eða á annan máta orðmælanda ekki til geðs, jafnvel ótó ellegar lúsablesi. Rouge ("rúúsj"), eins og frelsarinn orðar það, er á hinn bóginn einfaldlega ensk frönskusletta fyrir rauðan lit, vanalegast af þeirri sort sem yngismeyjar bera í kinnar sér á tyllidögum.

Ljóst má vera að seinna orðið veldur mörgum manninum ruglingi og slettir sér fram þar sem síst skyldi.

Má til með, fyrst það er skammt að sækja það, að taka undir með Stefáni um fyndniskort Ladda. Verð þó að játa upp á mig þá skömm að teljast í hópi þeirra sem fannst hann fyndinn einu sinni.

Það vill segja, einu sinni.

Það var á plötunni Látum sem ekkert c, sem hann gerði í kompaníi við Halla bróður sinn og Gísla Rúnar upp úr miðjum áttunda áratug síðustu aldar. Platan sú var til á barnæskuheimili mínu og ég man að hún þótti þá allnokkuð fyndin, og teningaspilið á innsíðunum skemmtilegt. Síðan hefur leiðin vissulega legið niður á við.

Heyrði þó Grínverjann aftur einhvern tíma um daginn og hló mig allt í einu máttlausan, eins og ég hataði helvítið út af lífinu þarna í denn. En ég gat ekki að þessu gert. Þetta var lífrænt viðbragð, lengst neðan úr þindinni. Svakalegasta dæmi sem ég hef nokkru sinni orðið fyrir af gerðinni "svo ófyndið að skyndilega var það orðið hreint ógeðslega fyndið."

Allt í lagi þá, tvisvar.
by Hr. Pez


Nú ætlar pezusinn að taka til við sína metafórísku tepoka á næstunni. Áður en það byrjar, en þó ekki úr öllu samhengi - þar sem bókmenntir munu spila stóra rullu hér í þessari skrásetningu næstu dagana - vil ég fyrst vekja athygli á hreint ansi skemmtilegu manifestói sem ég rakst á eftir eðalmennið Steinar Braga á tölvuöld.

Jájá ég veit það. Hann á víst að vera sjálfur andkristur tölvudagbókhaldara af því að hann hnýtti eitthvað út í þessa ágætu iðju þarna um árið. Og hverjum er ekki sama. Það ríkir málfrelsi á Íslandi og fólki er fullfrjálst að troða hverjum þeim um tær sem því þóknast. Og fast að helmingurinn af sjarmanum við strákinn er kjafturinn á honum.

Ég er ekki alveg sannfærður að niðurstaðan sé fyllilega rökstudd af því sem á undan gengur, en leiðin að henni er skemmtileg aflestrar. Til dæmis hafði ég mjög gaman af skotunum á Ólaf Jóhann Ólafsson.

Og mér finnst Stefán Máni fínn líka. Hvað sem hver segir.

Ég ætti kannski að skrifa fallega hugvekju um yfirborðskennd kynni mín af þeim og kalla "Mikkarnir mínir"...
by Hr. Pez

03 júní 2003


Þá er komið að ROKKLAGI DAGSINS!!!

Rokklag dagsins (og jafnvel mánaðarins, ef þetta virkar og ég nenni að gera það að föstum lið) er að sjálfsögðu tileinkað Gneistanum með þakklæti fyrir hreint ágæta ferðasögu. Hann átti að vísu ekki í vandræðum með að finna Vopnafjörð strákurinn, og því miður fylgdi ekki sögunni hvort hann stoppaði í Staðarskála á leiðinni.

En sagan er góð eigi að síður.

Ég heyrði þetta lag (og það akkúrat þennan flutning flipppönksveitarinnar Enn Einnar Sólarinnar) þegar ég var að renna að sunnan inn á Akureyri seint um kvöld fyrr í vor. Og hafði einmitt stoppað í Staðarskála á leiðinni. Það var akkúrat ein af þessum stundum sem lifa í sælli minningunni, ásamt með kjötsúpunni sem ég fékk í náttverð á áfangastað.

Þetta lag er í boði rokk.is.
by Hr. Pez

02 júní 2003


Færslan í dag er um klóak.

Jamm, það er verið að endurnýja skólplagnirnar í raðhúsinu okkar þessa dagana. Kjallarinn sundurbrotinn og -grafinn með tilheyrandi ryki og dásemdarilmi. Og nábúakrytum eins og gengur. Von til að þetta standi í svona viku eða tvær í viðbót við þær þrjár sem eru liðnar.

Hei, þetta er bloggið mitt hérna, ég má skrifa um það sem mér þóknast. Hvers vegna ekki að skrifa um það sem helst er að frétta. Eftir á að hyggja geri ég nú ekkert of mikið af því.

Jæja, hættur og farinn.
by Hr. Pez

01 júní 2003


Loksins hrökk minn maður í gírinn.

Skemmtilegum kappakstri lokið í Mónakó, og allir sáttir.
Spennan í hámarki og gaman gaman.
Nú fer fjölskyldan bráðum í búðir og svo að heilsa upp á frænkur og langömmur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com