<$BlogRSDUrl$>

30 maí 2003


Mig dreymdi dálítið skrýtinn draum um daginn.

Vanalegast man ég ekki nema í besta falli brot og brot úr draumum þegar ég vakna. Þetta skipti var mjög dæmigert fyrir það. Mig dreymdi að ég væri að lesa bók. Hvusslags bók þetta var man ég ekki, nema að það voru í henni handteiknaðar myndir. Eins og eftir börn. Óli prik og svoleiðis. Og svo var einhver texti þarna líka, en ég man ekkert um hvað hann fjallaði.

En í hvert skipti sem ég hafði klárað niður blaðsíðu, þá reif ég hana úr og stakk henni upp í mig. Og át hana.

Þegar ég vaknaði mundi ég enn þetta draumbrot, og áttaði mig á því að þetta var ekki fyrsta skiptið sem mig dreymdi þetta sama.

Mig dreymir reglulega að ég éti bækur!

Hvað í ósköpunum ætli þetta þýði?
Langar einhvern að reyna sig við að ráða?
by Hr. Pez

29 maí 2003


Ég var að fá skýrslu frá umferðarlögreglunni minni fyrir liðna viku.

Í síðustu vikulok varð hér mikil umferðarsprenging sem náði hámarki á laugardaginn. En ég hef engar áhyggjur af varanlegri frægð, strax eftir helgi var þetta dottið aftur niður í þessar tuttugu þrjátíu hræður sem reka hingað inn nefið að staðaldri.

Þakka ykkur fyrir komurnar, hver sem þið eruð.

Svo tók ég eftir því nú í vikunni að einn að því er virðist ágætur maður sem kallast Herra Kjáni átti líka fín skrif um Evróvisjón er fárið reið yfir. Hann hefur náttúrulega eðlilegustu afsökun í heimi fyrir sínum áhuga.

Ég er bara frík.
by Hr. Pez

27 maí 2003


Áður en ég blaðra meira um Evróvisjón vil ég benda á að farið er að styttast í næsta Persaflóastríð.

Af því tilefni vil ég benda áhugasömum á túkall frá besservissernum Neal Pollack, sem hittir naglann á höfuðið með þetta eins og svo margt annað.

Annars kviknaði sú hugmynd milli okkar hjóna í gærkvöldi að gaman gæti verið að setja saman Evróvisjón-drykkjuleik fyrir keppnina að ári. Með það fyrir augum ætla ég næsta árið að safna saman lista yfir þessi týpísku Evróvisjón-augnablik sem koma upp á í hverri keppni. Leikurinn myndi svo að sjálfsögðu felast í því að þátttakendur þyrftu að fá sér sopa í hvert skipti sem, til dæmis:

Keppnislag hækkar upp um hálfan
Keppnislag er með bullnafni og/eða -viðlagi (sopi fyrir hvert skipti sem bullið kemur fyrir)
Dansarar stíga á stokk (sopi fyrir hvern dansara sem syngur ekki múkk)
Einhver á sviðinu fækkar fötum (sopi fyrir hverja flík sem fleygt er)
Gísli Marteinn talar um að breyta þurfi litnum á RÚV-merkinu í horninu
Gísli Marteinn kvartar yfir að Ísland hafi ekki fengið stig frá þessari eða hinni þjóðinni
Kynnarnir, Gísli Marteinn eða stigagjafarnir segja mislukkaðan brandara
Ísland fær stig
Ísland lendir í sextánda sæti
Grikkland og Kýpur gefa hvort öðru tólf stig
Breska númerið strumpar falskt (hahahahaha)

Svo þarf sennilega líka að vera fríspil fyrir öll orgínal Evróvisjón-augnablikin (afsakið þversögnina) sem við þekkjum um leið og við sjáum þau, eins og þegar diskógallinn fór að blikka í Wadde Hadde Dudde Da um árið. Áhugasamir mega alveg endilega hafa samband við undirritaðan ef þeim finnst eitthvað augljóslega vanta á listann hér að ofan. Mig langar að koma þessu í umferð fyrir næstu undankeppni.
by Hr. Pez

26 maí 2003


Þegar upp er staðið þá fór þetta nú allt á besta veg.

Evróvisjónspartíið ágætlega lukkað, Gneistinn var þar, en kærastan fjarri góðu geimi. Ég slátraði loksins Drottningarbjórnum mínum, og bæði tengdapabbi og mágur krossuðu sig og jesúsuðu yfir villimennskunni að tíma að opna þetta. En ég sagði þeim að drekka bara það sem úti frysi, enda löngu orðinn leiður á að gorta mig af þessum dýrindis umbúðum sem ég hef átt í bráðum ár og vera spurður í hvert einasta skipti sem þeim er flíkað hvernig veigarnar bragðist án þess að geta svarað múkk til. Og þetta var bara ljómandi fínt, týpískt enskt brúnöl sem rann ljúft niður kverkarnar. Flaskan að sjálfsögðu opnuð undir framlagi Stóra Bretlands. Mikið rosalega var það nú fyndið númer maður. Nærri því eins fyndið og að halda því fram að núllarinn hafi sprottið af pólitískum ástæðum.

Íslenska þjóðin stóð uppi stolt af henni Birgittu sinni og Birgitta glöð að hafa verið landi og þjóð til sóma. Og allir eru vinir. Ég játa að hafa verið of svartsýnn fyrir hennar hönd (en ekki mikið samt) og finnst ánægjulegt að hafa frekar skjátlast á þann veginn en hinn.

En hvað um restina?

Jújú, enginn af fjórum efstu kom mér á óvart, og síst af öllu Belgía. Þar fór formúla sem er gefið að á að geta fiskað vel. Það fór jafnvel enn verr en ég óttaðist með sænsku keppendurna, en bætir úr skák að sjá lönd eins og Möltu, Lettland og Portúgal fá akkúrat það sem þau áttu skilið. Annars á ég erfitt með að rökstyðja andúð mína á lettneska framlaginu fram yfir, jah, til dæmis það slóvenska (sem er mitt stærsta skjátl þetta árið, enda sviðsframkoman um kvöldið ekki upp á marga fiska) eða það gríska (sem ég man ekki enn eftir að hafa heyrt og þarf ekki að útskýra af hverju). Mér fannst það bara einhvern veginn of mikill Angel.

Gleðilegt að sjá óvæntan árangur Austurríkis og Úkraínu, þó mig gruni að úkraínska þjóðin þjáist af dálitlum yfirdrætti í Gleðibankanum og eigi eftir að líta fjórtánda sætið sömu augum og við sjáum það sextánda um ókomin ár. Einnig kom Rúmenía mér ánægjulega á óvart með því að ná tíunda sætinu, sérstaklega þar sem hún Nicola hrifsaði síðasta örugga sætið af írska Ólsen-nauðgaranum. Mínir menn frá Eistlandi fengu engin ósköp af stigum, meðan sá ísraelski flaut lygilega langt á góða skapinu.

Svo er þetta bara búið núna. Ég á ábyggilega eftir að skrifa eitthvað meira seinna um poppsögulega nauðsyn þess að senda Mínus í Evróvisjón, en það bíður um sinn.
by Hr. Pez

24 maí 2003


Gvuð nú fór ég hjá mér.

Logi og Gísli búnir að benda fólki hingað með sérstöku komplimenti.

Nújæja, undirritaður þakkar pent og biður fólk að njóta vel.

Annars vorum við feðgin á Cremaster-opnuninni með Magnúsi. Ég var ekkert yfir mig impóneraður yfir vaselínskúlptúrunum. En myndirnar virðast vera býsna flottar á köflum. Mig langar að sjá þær einhvern tíma í góðu tómi, eina í einu, frekar en allar í belg og biðu í einu sentrúmi.

Við sáum auteurinn sjálfan í því sem við gengum að Nýlistasafninu. Hann var að fara, og virtist vera á leiðinni út í sjoppu að fá sér pulsu með öllu eða sígarettupakka eða eitthvað. Óhugnanlega lítið furðulegur maður í útliti fyrir svona víraðar hugmyndir.

Svo er maður farinn að hlakka til partýsins hjá Guðmari á eftir, svo látum gott heita.

Og fyrst ég gleymdi því í gær: Gangið hægt um gleðinnar dyr í kvöld elskurnar.
by Hr. Pez

23 maí 2003


Ég meinaða.

Má til með að gauka inn ógeðfelldustu Evróvisjónsögu dagsins.
by Hr. Pez


Þá skulum við nú aðeins taka þetta saman væna mín ;)

Þetta stefnir í að verða bara alveg ágætlega skemmtileg keppni á morgun.

Í ljósi þess að ég hef áður verið með sterkar yfirlýsingar um úrslit keppninnar er á hreinu að ég verð aðeins að draga í land. Nú er ég búinn að heyra og sjá öll lögin og undirbúningurinn hjá keppendum kominn slíka ögn á veg að hægt er að hafa til hliðsjónar. Að því sögðu stendur eftir að pedópoppdúettinn Tatú er enn sterkur kandídat sem erfitt er að sniðganga, en ég er hreint ekki eins sannfærður um sigur þeirra og áður. Sérstaklega fyrir það að (eins og Logi Bergmann orðaði það svo hnyttilega) "þær eru ekki alveg að dansa."

Ef ég ætti að tína til einhverja fleiri vildi ég fyrst nefna tvær þjóðir sem hingað til hafa staðið flestum öðrum framar í þeirri göfugu íþrótt að verma botnsætið. Tyrkir eru með býsna grípandi lag með seiðandi takti í ár og ef atriðið annað kvöld kraumar af þeim kynþokka sem hinn þjóðlegi magadans þeirra býður upp á þá er aldrei að vita nema Ottómanska heimsveldið standi með pálmann í höndunum að aflokinni keppni.

Þótt hressir Evrópoppfroðuslagarar hafi lagt í vana sinn að hirða verðlaunin hin seinni ár þá gerist það engu að síður inn á milli að hunangssætar ballöður enda á toppnum öllum að óvörum. Líklegasti kandídatinn í ár finnst mér tvímælalaust koma frá "frændum vorum Norðmönnum," því bæði er lagið ágætt og hann Jósteinn litli svo ógeðslega mikil knúsídúlla. Þótt konan sé mér eflaust ósammála vil ég nefna að ef einhver önnur ballaða gæti komið á óvart þá væri það sú franska. Það verður bara að ráðast af frammistöðunni annað kvöld og því hvoru þeirra gengur betur að hösla gagnstæða kynið.

Hollenska lagið var afskaplega hress slagari af þeirri meinlausu sort sem hirðir bikarinn reglulega, svo þótt ég muni ekkert hvernig það lag var né hafi fundið út á hvað það minnir mig, þá spái ég þeim góðu gengi. En heilt yfir, ef ég ætti að leggja undir, þá myndi ég hengja mig utan í Slóveníu. Sérstaklega ef kóreógrafían vekur lukku. Og ekki spillir fyrir líkunum að vera með síðasta lag á prógramminu, auk hins fornkveðna: Ber er hver að baki nema sér Júgóslavíublokk eigi.

Eins er þess reiðskjóta myrkursins enn ógetið sem mér þykir hvað helst geta komið á óvart. Þar fer belgíska lagið. Það eru orðin einhver sjö ár síðan keltneski fílingurinn sigraði síðast, og svo gæti vel farið að þau yrðu verulega ógnandi annað kvöld. Spurning hvort þeim reiknast sem kostur eða löstur að syngja á vonlensku. Spáni hefur verið spáð góðu gengi af mörgum, en ég er ekki svo sannfærður um að naglkvendið atarna hefji sig mikið upp fyrir miðjumoðið.

Svo veltur þetta vitaskuld allt á framkomunni á kvöldinu sjálfu.

Hvað þá varðar sem ég tel eiga eftir að falla úr deildinni, þá er Ísrael sko alveg garanterað. Pottþétt. Frámunalega hallærislegt lag frá þjóð sem á sko ekki upp á pallborðið hjá hinni símavæddu grasrót Evrópu þessa dagana. Rúmenska lagið verður líka ábyggilega í einhverju af allra neðstu sætunum. Svo hryggir mig að segja það, en ég er hræddur um að bæði hinn austurríski Alf Poier og hinn úkraínski Olexander eigi eftir að ríða helsveltum húðarbikkjum frá Evróvisjón í ár. Önnur lönd sem mig grunar að eigi eftir að bera skarðan hlut frá borði eru Kýpur (þrátt fyrir gríska bakhjarlinn: sá kýpverski hefur ekkert í Jóstein) og Portúgal.

Meðal laga sem ég óttast að muni farnast mun betur en mér finnst þau eiga skilið eru það maltneska, það írska (hvílík hörmung), það sænska og það lettneska.

Annars vil ég geta þess að óháð líkum á góðu eða slæmu gengi þá koma mín uppáhaldslög þetta árið frá Eistlandi, Austurríki (það er bara ekki annað hægt) og Úkraínu (dittó). Rétt er að vekja athygli á mínum fyrri játningum um lítilmagnaþráhyggjuna. Svo jú, allt í lagi þá. Bætum Ísrael á listann. Það er bara svo fyndið.

En hvað blessunina hana Birgittu varðar, þá held ég að henni eigi eftir að ganga alveg hreint ágætlega, þrátt fyrir það (og ef allt smellur, einmitt vegna þess) að hún stígur fyrst á svið. Ástæður þess hef ég rakið áður, og ég hef styrkst í trúnni með þær ef eitthvað er síðan það var ritað. Gott væb, gott væb. Svo ég held að allt upp í tólfta sætið sé vel raunhæfur möguleiki, en allt undir því nítjánda yrðu vonbrigði. Ekki með hana Birgittu, heldur yfir óréttlætinu í veröldinni. AF HVERJU VIÐ?!!!

Jújú, hið illa getur tekið á sig ýmsar myndir.

Svo finnst mér að allar rokksveitir mörlandans ættu að rotta sig saman nú þegar og leggja drög að þátttöku að ári. Ég hef sko ekki sagt mitt síðasta orð um það.
by Hr. Pez

22 maí 2003


Hér kemur hann þá, eftirlegupakkinn.

Mikill hroðalegur rólegheitapakki er þetta: Grikkland, Noregur, Frakkland og Pólland. Öll í röð, hvert öðru væmnara.

En þá meina ég að sjálfsögðu væminn í bestu merkingu þess orðs.

Grikkland var búið fyrir (eða segjum það, annars verð ég að hætta aftur), svo snúum okkur beint að Nojurunum. Þeir eru sko í góðum málum, með bestu ballöðuna og hann Jósteinn litli dúlla svo sætur að ég gæti bitið af honum hausinn. Hann á eftir að fiska grimmt út á það strákurinn.

Svo kemur Frakkland með næstum því jafn góða ballöðu og sæta söngkonu í þokkabót. Ég er hrifnari af þessu lagi en konan mín, enda sá hún nú ekki víðgesjónina. Þetta verður vonandi einhvers staðar um miðbikið, líður dálítið fyrir að það talar enginn frönsku í ár nema Frakkar (og jú að vísu einhverjir Belgar) og svo er þetta undir restina á ballöðuslagsíðunni, þar sem allir verða orðnir nokkuð slæptir og farið að þyrsta í smá stuð hérna vinur. Eftir á að hyggja má reikna það Lettum til tekna.

Og svo Pólland. Meinar voða vel og rosa sætt og allt það, en ég veit samt ekki hversu margir kaupa þetta, þrátt fyrir friðarbylgjuna sem hefur farið eins og vofa um Evrópu síðustu mánuði. Gætu samt vel fengið einhver samviskuatkvæði frá Þjóðverjum og Rússum. Og myndi hleypa fjöri í gleðskapinn að mæta með þrýstivatnsbyssuna á svið og láta vaða.

Ljúft er að láta sig dreyma.

Þá er allur listinn upptalinn. Ég ætla að sofa á þessu öllu saman áður en ég ræðst í úrslitapalladómana.
by Hr. Pez


Þættinum hefur borist fyrirspurn.

Til að greiða úr er rétt að ég bendi á að hægt er að nálgast hljóð- og víðgesjónsupptökur með því að smella á einstök lönd á listanum undir eftirfarandi hlekk á heimasíðu keppninnar.
by Hr. Pez


Jæja, þá er búið að spila síðasta skammt.

Hvað var þetta nú aftur? Jamm, byrjum á að drita yfir Rúmmeníu (svo).

Ænei, ég get það ekki. Þau voru svo bernsk í eftirvæntingunni. En hvað það verður leiðinlegt fyrir þau að sitja eftir á laugardagskvöldið. Og hún Nicola sem er með fullkomna uppskrift að sigri. Liiiitl.

Þá eru það frændur okkar Svíar með Rod Stewart lúkk- og sándalæk, og eina af þessum týpísku sænsku ljóskum í hvítu dressi af því tagi sem vinnufélagar frúarinnar kalla snípsídd. Gimjabreik. Verst hvað þau eru aftarlega á merinni með flutninginn, sem vanalegast hefur í seinni tíð þýðst yfir í slatta forgjöf í stigakeppninni. Þau fljóta eflaust eitthvað á því upp töfluna, því miður. Ná samt vonandi ekki eins langt og hún Lillemor Svensson, eða hvað sem hún hét þarna gínan sem stal sigrinum af henni Selmu um árið. Vont vont vont.

Þá er það bara lokalag kvöldsins, Slóvenía. Það verður býsna hátt uppi held ég, og kemur þar sitthvað til. Í fyrsta lagi er þetta síðasta lagið sem fólk heyrir áður en stigakeppni hefst. Það skiptir máli. Ekki spillir fyrir að það lætur vel í eyrum, sækir dálítið í kántrípoppsveiflu alla Sjönu Tvein og fleiri slíkra og hrærir saman við nettan evrópopptakt. Síðast en ekki síst er þetta skásta lagið úr Júgóslavíublokkinni, svo telja má garanteruð 24 stig frá Króatíu og Bosníu-Hersegóvínu.

Ég ætla að sjá til hvort ég geti ekki hlustað á þau þrjú lög sem ég á óheyrð á eftir og færi þau þá inn seint í kvöld. Svo langar mig að koma á morgun eða hinn með einhvers konar lokayfirlit, spá í það hverjir verði í toppslagnum, hverjir sitji eftir með sárt ennið, og síðast en ekki síst, hvernig henni Birgittu blessaðri reiði af í sirkusnum.
by Hr. Pez


Æ þetta var nú óheppilegt.

Ég missti af Evróvisjónlögunum í fyrradag. Var á kóræfingu og víðgesjónsupptakan mislukkaðist. Svo þegar ég ætlaði að horfa á þetta í rólegheitum á heimilistölvunni í gær þá náðist ekkert samband og svo fraus maskínan. Þess vegna tjáði ég mig ekki múkk um þau mál í gær.

Jæja, ég reyni aftur á eftir. Og linni sko ekki látum fyrr en ég verð búinn að hrópa palladóma um norska, franska og pólska lagið. Engar áhyggjur.

En í gærkvöldi sá ég Eistland, Lettland og... Belgíu. Og þótti það hinn vænsti pakki.

Ég var reyndar ekkert voða impóneraður yfir lettneska laginu og gæti alveg eins trúað að það verði "Goodbye to Mars" fyrir þau í ár. Afskaplega sætir krakkar og sæmilega syngjandi (ef ekki dansandi), og lagið meinlaust í eyrum. Og þar liggur Rattatið grafið. Afskaplega lítt eftirminnilegt lag og þrátt fyrir nánast garanteraða tólf stiga forgjöf frá Eistlandi er ég ekkert voðalega bjartsýnn fyrir þeirra hönd.

Belgíska lagið var hins vegar allt annar handleggur, seiðandi og þjóðlegt (þótt deila megi um hvort þjóðin sem þar um ræðir sé Belgar). Seiðandi og þjóðleg lög eiga sér farsæla sögu í Evróvisjón (sérstaklega ef þau sækja í keltneska arfinn) og hafa unnið að minnsta kosti í tvígang (einu sinni fyrir Írland og einu sinni fyrir Noreg). Ég veit reyndar ekki með sigurinn núna, en Belgar eiga eftir að lenda miklu ofar en í neðsta sætinu sem einhverjir spá þeim.

En hvað mér létti að sjá eistneska lagið. Lag sem heitir "Eighties coming back" býður upp á skelfilegri möguleika í smekkleysu en orð fá stamað í óttablöndnum hryllingi. Blessunarlega var níundi áratugurinn sem hér um ræðir ekki áratugur Flock of Seagulls, Thompson Twins og Miami Sound Machine, áratugur sítt að aftan, rifinna gallabuxna, neonbleikra grifflna og spandexgalla. Onei. Þetta var sko níundi áratugur Madness, Joy Division og XTC. Að minnsta kosti hvað lúkkið varðaði ("It's such a fine line between stupid, and clever..."). Þetta netta hallæri sem forðum var svo meistaralega orðað sem "dálítið væld, en samt þannig að snyrtimennskan sé ávallt í fyrirrúmi." Lagið bara hreint ágætlega skemmtilegt á gamaldags máta, og ekki minnkaði sjarminn undir broguðum framburðinum. Ég var dágóða stund að fullvissa mig um að strákurinn syngi á ensku. Eitt af mínum uppáhaldslögum í ár, og á kannski eftir að farnast ágætlega, sérstaklega fyrir lettnesku tólf stiga forgjöfina.

Vonandi kemur síðbúinn afturbataskammtur einhvern tíma á eftir.
by Hr. Pez

20 maí 2003


Má til með að bæta við:

Nauðsynlegt fyrir þá sem eru innréttaðir í líkingu við mig að tékka á heitasta blogginu þessa vikuna.
by Hr. Pez


Þá er nú farið að síga á seinni hlutann af prógramminu, en samt er sko nóg eftir enn!

Jeminneini-dúettinn ætlar greinilega að dansa af sér ra***atið fyrir hönd Stóra Bretlands. Eins og alþjóð veit hefur Stóra Bretland af einhverjum ástæðum átt á brattan að sækja síðustu árin, jafnt í Evróvisjón sem öðrum alþjóðlegum keppnum, þrátt fyrir oft á tíðum mjög svo frambærilega kandídata. Takið sem annað dæmi frammistöðu hins ágæta landsliðs Stóra Bretlands í knattspyrnu, sem ár eftir ár má lepja dauðann úr grasi, þrátt fyrir dyggan stuðning kryddpía sem kóngafólks. Í Evróvisjón sendir Stóra Bretland ár eftir ár mjög svo frambærileg lög sem standa sig ekki nema rétt svo, og hirðir ekki bikarinn nema sendar séu út karlægar risaeðlur eins og Katrín og Veifiskatarnir. En Jemani-dúettinn (eftir síðustu nafnabreytingu) mun eflaust sigla lygnan sjó um fimmta sætið og una glaður við sitt, nokkrar vikur í neðri hlíðum vinsældalista og svo aftur að vinna í fiski.

Talandi um það. Ég verð að segja að Úkraína er með einn af mínum uppáhaldskeppendum þetta árið. Allir geta andað léttar yfir því að með sé lag sem heldur uppi heiðri Finnlands í ár hvað varðar nett yndislega hallærislegar lagasmíðar, enda Finnar því miður fjarri góðu gamni sjálfir. Ég hef einhvern veginn alltaf verið þannig hneigður að halda með lítilmagnanum móti ofureflinu. En ég er býsna hræddur um að Úkraína sé á leiðinni að taka sér árs pásu frá keppninni. Blessunarlega verða Finnar snúnir aftur til að halda uppi merkjum hallærispoppsins að ári: Hasta La Vista, Baby!

Frá Grikklandi mætir einhver Cher-lookalike og syngur... Bíddu. Ég man ekki snefil af þessu lagi. Það var voða rólegt... og meinlaust... og, ef mér skjöplast ekki (enda benda líkur til) leiðinlegt... og tók sáralitla athygli frá því að mæna á brjóstin á manneskjunni. Jamm, sem sannur karlmaður gat ég ekki haldið nema einu skilningarviti í gangi undir þessari miskunnarlausu árás.

Hvað er að gerast hérna.

Heyriði, ég held ekki einbeitingunni. Ég verð bara að hætta þessu. Ég er ofsóttur af brjóstunum á grískum tvífara Cher.

En gerið ráð fyrir tólf stigum frá Kýpur.
by Hr. Pez

19 maí 2003


Og áfram marserar Evróvisjónskrúðgangan.

Æ hvað á maður að segja um þær Tatú-stöllur rússnesku. Það skiptir náttúrulega engu hvað mér eða nokkrum öðrum finnst um lagið eða þær sjálfar og allt húllumhæið þar í kring. Þær geta alveg eins bara fengið verðlaunin afhent nú þegar og sparað grey Lettunum ómakið að þurfa að standa í að halda þetta. Ég horfði á þetta lag með vænum hóp af fólki, og mér fannst það nú skárra en flestum. Öllu verra finnst mér daðrið við barnaklámið sem gegnsýrir alla ímynd dúósins. Ég var hálfsjokkeraður að horfa á þetta. En virtist vera einn um það, svo ég hjéélt bara kjaaafti. En ég geri það sko ekki lengur! Ég fæ ekki orða bundist!

Gott og vel. Tatú eru unglingabóla sem verður kreist í einhverja mánuði til viðbótar þar til hún springur. Og sannið til, allir verða búnir að gleyma þeim áður en hægt er að snúa sér við og segja "kynlífsþrælkun." En fætur okkar verða þá enn grafnir ökkladjúpt í þann jarðveg sem þær spruttu úr. Og sem gerist sífellt frjórri ef eitthvað er. Streitist á móti og sökkvið dýpra.

En lagið? Jújú, ég vil taka fram að mér finnst þetta ekki eins vont lag og mörgum öðrum. Og það á ábyggilega eftir að vinna keppnina. Seiseijú.

Hvað næst? Spánn. Ibiza-taktur á fullu undir flamengógítar og gerðarlegri snörlkonu með hárklepra og málmstaut í meltingarveginum. Uppáhaldslag sumra sem ég þekki, en þeir um það. Ég myndi frekar benda áhugasömum á Ibizaremixalbúmið með DJ Paarty, flúrstautar og snuð ekki innifalin.

Ísrael maður. Rosalega var það fyndið. Nærri því eins fyndið og misskildi snillingurinn Alf Poier (sem vex stöðugt í áliti hjá mér eftir því sem ég sé fleiri þátttakendur), en ekki alveg samt. Og ekki alveg eins viljandi. Og Flugleiðir geta bara alveg hætt að skammast sín fyrir Dirty Weekend og bent og sagt "Sjáið þarna! Við erum sko ekkert verri en hver annar!"

Svo var það þetta með lagið frá Hollandi. Það er alveg nákvæmlega eins og eitthvað lag sem ég hef heyrt áður. Ég er bara ekki búinn að átta mig á því ennþá. Svo hér með efni ég til verðlaunalausu samkeppninnar "eins og hvaða lag er lagið sem Holland er með í Evróvisjón í ár?" Sem vill segja að þetta er alveg hreint ágætt lag. En ég hefði frekar kosið að Hollendingar legðu á sig að semja sitt eigið lag sjálfir.

Þá er þetta bara ágætt þar til næst.
by Hr. Pez

18 maí 2003


Aldeilis veislan í gærkvöldi maður. Fjögur lönd, og eins og stóð á plötuumslaginu forðum daga (hvaða?): Allt heil lög!

Portúgal. Leiðindi leiðindi leiðindi. Enn ein Júrópáerballaðan. Þær tröllríða þessari keppni ár eftir ár og sýna ekki á sér nokkurt fararsnið. Hávaxna dökkhærða dívan í flegna kjólnum fær þó prik fyrir að syngja á frummálinu.

Hvað kom næst? Króatía já. Enn einn stuldurinn, í þetta sinn frá Britney Spears, bara hallærislegra. Ekki furða að þeim sé spáð góðu gengi.

Svo kom kýpverski hálfguðinn Stelios Constantas og tryllti kvenþjóðina. Liiitl. Hefði mátt vera meira af aflituðu stelpunni sem skók sig milli erinda. Neiannars, það hefði engu breytt. Gerið ekki ráð fyrir breytingum á því að Kýpur fái fullt hús stiga frá Grikklandi.

Jú það er alveg satt, þrátt fyrir að ætla mætti annað þá hef ég mjög gaman af þessu.

Því til sönnunar vil ég grípa tækifærið til að hæla þýðverska laginu á hvert reipi. LET’S GET HAPPY! Og samkynhneigðir allrar Evrópu góla með og greiða atkvæði, enda áratugir síðan nokkur notaði orðið Gay í söngtexta eða nokkru öðru samhengi í merkingunni eru ekki allir í stuði! Maður verður svo sannarlega gay við það að hlýða á þetta hressa stuðlag sem kemur öllum í gott skap. Búið ykkur undir að sjá þetta lag ofarlega á lokalistanum. Besta þýska lagið eftir Wadde Hadde Dudde Da.

Annars horfðum við á þetta með Magnúsi Teits og síðan á hina ágætu hrollvekju The Others á Stöð 2. Eftir það gerðum við Magnús heiðarlega tilraun til að horfa á Waking Life, en gáfumst upp eftir fjörutíu mínútur af samhengislausum eintölum og loftkenndum samtölum, en kjúið til að hætta þessu var þegar ein lofthænan mælti hin fleygu orð: “Það minnir mig á það sem Benjamin Anderson sagði um sjálfsmyndina, nefnilega að bla bla bla bla bla...” eða eitthvað svoleiðis. Að mörgu leyti flott mynd, bara skelfilega leiðinleg, og ekki nema fyrir þá sem eru annaðhvort á herðablöðunum af hassi eða að skrifa hátimbraðar póstmódernískar ritgerðir um hluti eins og tengsl reðurtákna í teiknimyndasögunni Preacher og undirskilvitlegrar beitingar á móðurímyndinni í American Pie 2 við helvíti Dantes og notkun stofnfrumna úr eyddum fóstrum við þróun á geðdeyfðar- og kynörvandi lyfjum, samkvæmt hugmyndum Marshall McLuhan um tölvuna sem rökvísa framlengingu á miðtaugakerfinu.

Svo er það matur hjá tengdó í kvöld, sennilega horfum við á dagskammtinn þar en til öryggis stilli ég á upptöku.
by Hr. Pez

17 maí 2003


Jæja, ég sá bara eitt Evróvisjónlag í gærkvöldi. Það var Waterloo með ABBA, sigurvegari Evróvisjón í London 1974, ef mér skjöplast ekki.

Jamm, við hjónin sáum West End söngvarana troða upp með Symfóníunni í Laugardalshöll, troðfullt prógramm af ABBA-lögum. Ég hafði meira gaman af þessu en ég þorði að vona, enda voru þeir jú flinkir strákarnir, þeir Björn og Benni. Þó saknaði ég sárt að þau skyldu ekki taka Voulez-Vouz, óumdeilanlega besta lag kvartettsins. En það er nú þegar búið að gera af því besta kóver sem er mögulegt í heiminum, svo ef þau hefðu reynt hefði það náttúrulega fölnað í samanburðinum.

Galli að ég skyldi missa af Evróvisjónþætti gærkvöldsins. Mér sýnist sem ég hafi misst af Tyrklandi, Möltu og Bosníu-Hersegóvínu. Bæði Tyrkland og Bosnía-Herzegóvína eru að skora grimmt hjá fanatíkerunum sem skora þau allt upp í annað og fjórða sætið. En hversu mikið mark er takandi á kollektífi sem segir að djös Írland sé með fimmta besta lagið? Ég bara spyr. Ef sú er raunin þarf Rauði Krossinn að ræsa út heimsálfuátak til varnar fjöldasjálfsmorði af leiðindum á Evróvisjónskvöldið.

En mikill er máttur tækninnar. Nú er ég bara að hlusta á þetta í gegnum internetið. Tyrkneska lagið virðist vera í sama bummp og grind fíling og þriðjasætislagið í heimakeppninni. Betur sungið, en en ekki miklu samt. Fá prik fyrir austurlandafílinginn. En annað besta lagið? Það er svo erfitt að segja...

(smá hlé meðan ég saga af mér löppina)

Um það að missa af Möltu hef ég bara eitt að segja: Farið hefur fé betra. Tómt bévað hrat frá þeim alltafhreint. Og engin breyting á þeirri reglu í ár.

Gaman með þetta lag frá Bosníu-Herzegóvínu hvað þeim tekst vel að emúlera eitís-fílinginn. Nei, bíddu. Sennilega er þetta bara í fúlustu alvöru hjá þeim krökkunum. Eurotrash. Ekki endilega slæmt, en samt. Eurotrash.

Nú skal ég reyna að taka mig á og koma með detaljeraða analýsu á hverju einasta lagi sem eftir á að spila í sjónvarpinu fram að keppni, eins og skorað hefur verið á mig að gera. Fylgist með.
by Hr. Pez

16 maí 2003


Þá er Evróvisjónfárið hið síðara að bresta á.

Sat og horfði með dóttur minni á fyrsta skammtinn í gærkvöldi.

Förum aðeins yfir þetta.

Svo hún Birgitta okkar blessunin fær að opna prógrammið. Ég verð að segja að tíminn læknar öll sár og álit mitt á laginu hefur mýkst frá því ég tjáði mig um þessi mál síðast. Af þeim þremur sem komu í gærkvöldi var það besta lagið. Sem segir reyndar ekki mikið. En þó svo að það komi til með að standa uppi yfirlýst sem eitt af allrabestu lögunum í keppninni þetta árið (sem gæti gerst, ekki vegna gæða lagsins, heldur skorts á þeim hjá öllum hinum), þá er ég ekki neitt voðalega bjartsýnn fyrir hönd hennar Birgittu. En eitt hefur hún þó með sér sem var víðsfjarri í Angel-fíaskóinu, og það er alveg hreint gífuregur yfirskammtur af persónutöfrum (les: kynþokka?) sem geisla af henni hvernig sem hún stendur sig. Og hvernig sem hún stendur. Haha. En að horfa á hana vekur upp minningar um stjörnur sem hafa ekki sést síðan á sjöunda áratugnum. Audrey Hepburn. Nancy Sinatra. Enda leynir sér ekki að hún ýtir undir það með sterkum sixtís-tónum í lúkkinu.

Tilviljun? Held ekki.

En vegna þess er ég reiðubúinn að halda þeim möguleika opnum að hún fleyti íslenska laginu yfir þröskuldinn sem þarf til að halda áfram að ári. Kannski svona fjórtánda til átjánda sæti.

Þeir sem þekkja mig vita að þetta er ekki lagið sem ég hefði kosið til að fara þarna út, en það kemur keppni eftir þessa. Og ég á mér draum.

Ég á mér draum!

Ég á mér draum um að allar spennandi hljómsveitir sem vettlingi geta valdið taki sig til og sendi lag inn í forkeppnina að ári. Botnleðja stóð sína pligt með að ríða á vaðið, svo ég er ekki viss um að þeir myndu fást til að endurtaka leikinn strákarnir (þó vissulega væri það gaman). En mig langar að sjá Mínus. Búdrýgindi. Brain Police. Singapore Sling. Jafnvel Jagúar. Eða Slowblow. Eða þess vegna einhverja efnilega og óþekkta eins og Dáðadrengi, Snafu, Suð, Innvortis, Diktu, Coral, Lokbrá, Betlehem... en fyrst og fremst Mínus. Það væri mitt fyrsta val.

Það bráðvantar alvöru kick-ass rokk í þessa keppni.

Og þá væri vitaskuld flottast að syngja þetta bara á íslensku. Annað væri stílbrot.

Nóg um það að sinni og áfram skal haldið.

Hvað var þetta eiginlega með austurríska lagið?! Mér fannst það nú dálítið fyndið. En ekki mjög samt. Gleymum þó ekki að verra gæti það verið, sem leiðir hugann að næsta keppanda...

Það fyrsta sem ég hugsaði undir því írska var að hvað sem öllu liði væri Ísland alla vega ekki með stolnasta lagið í keppninni í ár. Strax í fyrstu línu fyrsta viðlags fór ég að raula "Fly on the wings of love," með hinum geðþekku Ólsen-Ólsen bræðrum, og sá enga ástæðu til að hætta því það sem eftir lifði lags. Þetta er ógeðslegt. Og flytjandinn auk þess eins og snýttur út úr nösinni á Johnny Logan, sem NOTA BENE myndi snúa sér við gröfinni undir þessu helvíti, bara ef væri hann dauður.

Því miður stefnir í að ég missi af Evróvisjón-þættinum í kvöld. Frúin er að draga mig á ABBA-tónleika með Symfóníunni. Getur þú nokkuð tekið hann upp fyrir mig Óli minn?
by Hr. Pez

15 maí 2003


Aaaaahh!

Blessunarlega skjátlaðist mér í gær með síðasta þáttinn í þriðju seríu Pörunar. Það er heill þáttur eftir enn, eftir viku. En sá í gærkveldi var yndislegur, og aldrei þessu vant kom hápunktur kvöldsins ekki úr munni hins kexruglaða Jeff ("Women remember, Steve. It's like they've got minds of their own."), heldur frá hinum rúðustrikaða Steve, sem hélt þrumuræðu um klósettið sem Musteri Einverunnar í huga karlmannsins. Með orðum Hómers: "It's funny cos it's true!"
by Hr. Pez


Nohh!

Grísinn bara kominn í hnapphelduna.

Þá getur hann boðið sig fram aftur án þess að vera sakaður um að lifa í synd þegar þar að kemur.

Og allir saman nú:
TIL HAMINGJU ÓLI MINN!
JORINNÐEMONNÍ!!!
by Hr. Pez

14 maí 2003


Síðasti þátturinn í hinni geðveikislega fyndnu seríu Pörun (þriðja sería) verður á Stöð 2 í kvöld.

Æ en leiðinlegt.

Bót í máli að Cold Feet byrjaði fyrir viku. Það eru ágætis þættir líka.

En ég á eftir að sjá fullt af þáttum úr eldri seríum af Coupling, enda var ég fáránlega lengi að gera mér grein fyrir hvað þetta væru góðir þættir. Vona bara að hægt sé að nálgast þá á einhverjum vídeóleigum. Ef svo er mæli ég óhikað með þessum þáttum og hvet hvern sem heyra vill til að taka þá. Nóg af hlátri fyrir alla.
by Hr. Pez

12 maí 2003


Ég las dálítið magnað um daginn (þetta er ekki bókablogg!).

Í fríi fyrir norðan blaðaði ég gegn um dagbækur sem afi minn og nafni heitinn hélt allt frá búskaparárum sínum sem ungur maður (sú elsta er frá því í seinna stríði) og fram á dánardægrið. Mestan part voru þetta veðurlýsingar og útlistanir á því hvenær gengið var til gegninga. En inn á milli voru færslur eins og 20. mars, 1945, þegar hann segir eitthvað á þessa leið:

"Sigurður í Torfufelli kom við í dag eftir bæjarferð til Akureyrar. Hann færði mér þær fréttir að Torfhildur hafi alið okkur dóttur í fyrrakvöld. Bæði móður og dóttur heilsast vel."

Þetta er ekki orðrétt, heldur skrifað eftir minni. En Torfhildi þessa þekkti ég betur sem Hillu ömmu, og dóttirin nýfædda varð seinna meir móðir mín. Hátt á annan sólarhring leið frá því hún fæddist á Akureyri þar til faðir hennar frétti af því þar sem hann sinnti búskap í innsveitum Eyjafjarðar.

Svo voru færslurnar þar sem hann sagðist hafa farið á næsta bæ að spila á spil fram undir morgun, eða á gömlu dansana í Samkomugerði. Og ég gerði mér ljóst að þetta var ritað af 26 ára gömlum pilti sem átti allt lífið framundan (og jú, það átti hann) og hafði gaman af að skemmta sér eins og ungs fólks er háttur. Og það kom mér á óvart hvað það var erfitt að gera sér það í hugarlund. Maður sér afa sinn alltaf fyrir sér sem sjötíu ára, jafnvel þegar maður reynir að hugsa sér hann sem ungan mann.

Annars voru þessar dagbækur ekki hvað síst athyglisverðar fyrir það sem ekki var sagt í þeim. Aldrei var minnst á heims- eða landsmálin. Í mesta lagi sveitarstjórnarmál í Saurbæjarhreppi. Og aldrei var skrifað um innri líðan. Stundum um veikindi já. Eins og þegar amma tók krabbann sem seinna meir dró hana í gröfina. Og þegar afi enn síðar lenti sjálfur í því sama. En varla stakt orð um áhrifin af því á sálarlífið. Yfir öllu alltaf þessi stóíska ró sem var yfir honum sjálfum í lifanda lífi og sem ég held að hljóti að hafa búið í hverju hans beini.

Mögnuð lesning.
by Hr. Pez

11 maí 2003


Greinaflokkur um Jobsbækur, þriðji hluti: Þau komu úr öðrum heimi!!!

Já, ég er dáldið svag fyrir vísindaskáldsögum, og stundum gauka kunningjar að mér góðum bókmenntum úr þeim geiranum. Ein sem ég var einmitt að lesa um svipað leyti og Jobsbók og Ég lifi var trúfræðireyfarinn Job: A Comedy of Justice, eftir karlrembuna Robert A. Heinlein. Þar fer bók sem er allt í lagi að lesa. Hún byrjar á hinu alkunna vísindaskáldskaparkonsepti um hliðlæga alheima (parallel universe) og heldur dampi á því fram yfir miðja bók, en þá gengur hún alveg fram af manni þegar heimsendir kemur og hinir frelsuðu fara til himnaríkis. Þar er reyndar ekki alveg jafn mikil sæla og ætla mætti, sérstaklega þar sem englarnir eru upp til hópa merkikerti sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn og eru eins og snúið roð í hund við frelsaða lýðinn. Aðalsöguhetjan er þegar þarna er komið sögu búin að týna ástinni sinni og leggur upp í mikla leit um eftirlífið að henni.

Dáldið eins og hin vemmilega What Dreams May Come, nema bara fyndin og yfirfull af heimaleikfimi. Sosum allt í lagi fyrir þá sem fíla svona lagað, en eins og með fyrstu Jobsbókina næ ég ekki alveg hvað það er sem öllum finnst svona meiriháttar við höfundinn.

Svo skulum við muna að taka lífinu með ró og jafnaðargeði, það koma kosningar eftir þessar. Og ekki útséð með hvernig stjórnarkurlin skila sér til grafar. Vonum bara að ef Ríchisstjórnin verður áfram undir handleiðslu Fohringjans (eins og ein Tíkin orðaði það kinnroðalaust fyrir framan alþjóð í gærkveldi) verði ekki farið kerfisbundið í að senda okkur öll til Auschtfjarða.
by Hr. Pez

09 maí 2003


Greinaflokkur um Jobsbækur, annar hluti: Svona gengu kaupin fyrir sig á gettó-eyrinni (alveg satt); betur þekkt sem Ég lifi. Skrásett hefur Max Gallo.

Jamm, raunasaga Martins Gray er mikil og svakaleg. Fyrstu tveir þriðju hlutar bókarinnar, og þeir átakanlegustu, segja frá lífsbaráttu hans sem táningspilts gegn um helförina í Póllandi. Sagt er frá veru hans í Varsjárgettóinu og Treblinka í grafískari lýsingum en svo að hægt sé að lesa ósnortinn. Einnig flótta hans og baráttu með pólsku andspyrnunni og Rauða Hernum uns stríði lýkur, þegar hann stendur uppi einn eftirlifandi úr stórri fjölskyldu.

Síðasti þriðjungurinn fjallar svo um hvernig hann kemur undir sig löppunum í Nýja Heiminum, græðir fullt af pening, eignast konu og börn sem hann, jú, alveg eins og Job karlinn forðum, glatar á voveiflegan máta, stofnar sjóð í þeirra minningu og fær sögu sína skráða.

Í það heila tekið er þetta mögnuð lesning. Eftir sögunni var gerð mynd fyrir svona um eða yfir tuttugu árum, með hjartaknúsaranum Michael York í aðalhlutverki. Hana hef ég ekki séð, en gæti vel hugsað mér það.

Annars finnst mér voðalega dularfullt að hvergi virðist hægt að finna nokkurn skapaðan hlut um það hvað varð af Martin Gray eftir að skrásetningu lauk. Það virðist sem jörðin hafi gleypt bæði hann og minningarsjóðinn. Þeir sem hafa upplýsingar um afdrif hans eftir bókarlok eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirritaðan.

Svo bara góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr. Ég hef verið latur að færa inn þessa vikuna, en gæti vel átt eftir að hripa eitthvað niður í hjáverkum nú um helgina, til dæmis:

Jobsbók III: Þau komu úr öðrum heimi!!!
by Hr. Pez

06 maí 2003


Þá er komið að greinaflokki um Jobsbækur.

Sú fyrsta sem ég tek fyrir er að sjálfsögðu Orgínallinn, Jobsbók í Bifflíunni, og maður lifandi, sú er sko hevví.

Ég játa það fyrir þér hér og nú, ég botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í henni. Jú gott og vel, hún byrjar á hinu alkunna stefi, Job er fyrirmyndarmaður sem á allt sem hugurinn girnist og svo, af því Guði og Djöflinum leiðist eitthvað svo þeir starta á milli sín veðmáli, þá er allt tekið frá grey karlinum í einu vetfangi. Svo situr hann og barmar sér og klórar sér í kaununum meðan þrír vinir hans reyna að halda uppi einhverjum samræðum. Svo kemur sá fjórði og les yfir hausamótunum á þeim öllum, og loks sá fimmti, sem er Guð sjálfur mættur í kompaníið eins og þrumuský í framan (í orðsins fyllstu) og heldur yfir þeim þrumuræðu sem veldur því að Job segir hei, ógeðslega er ég vanþakklátur að vera eitthvað að ybba gogg, vertu velkominn og láttu fara vel um þig blessaður og fyrirgefðu mér þessa vitleysu sem ég er búinn að vera að blaðra um þig. Og Guð segir bara hei ekkert mál og skaffar honum nýja fjölskyldu og helmingi fleiri úlfalda en hann átti áður og lætur hann fá allt til baka sem frá honum var tekið með hundrað prósent vöxtum og allir skilja bara nokkuð sáttir, enda var þetta bara grín, bara saklaust veðmál og allt í gúddí.

Hvað er málið? Af hverju er þetta kallað mesta meistaraverk heimsbókmenntanna? Ég bara næessekki. Hún er að vísu yfirfull af innblásnum versum:
"Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu?"
"Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?"
"Því að eyrað prófar orðin, eins og gómurinn smakkar matinn."
En það er meðalmanni vonlaust mál að reyna að komast til botns í því sem ætlunin er að koma til skila. Jú, í grunninn þykist maður vita að mórallinn sé að það rigni eldi og brennisteini jafnt yfir réttláta sem rangláta, en þessar endalausu ræður fram og til baka eru eintómt stefnulaust moðfok.

Já! Ég sagði það!!! Moðfok!!!!!

Eða kannski er ég bara að lesa hana eitthvað vitlaust og þarf að reyna aftur og aftur og aftur þangað til þetta smellur og fer að meika sens. Og það má vel vera að svo fari; mér er minnisstætt hvað mér fannst Bókin um veginn fáránleg þegar ég las hana fyrst fyrir sautján árum ("Að stjórna stóru ríki er eins og að sjóða litla fiska...") en svo varð ég bara að játa að eftir því sem ég las hana oftar, þeim mun meiri hugljómun var í henni.

Svo kannski ég ætti að leyfa Jobsbók I, Spekingar Spjalla, að njóta vafans enn um sinn.

Næst, Jobsbók II: Innblásið af Atburðum sem Gerðust í Alvörunni (Sönn Saga).
by Hr. Pez

02 maí 2003


Eitt er það tónverk sem ég held mikið upp á.

Mér finnst yfirhöfuð of fáir vita að það sé til.

Það er Dona Nobis Pacem, eftir Ralph Vaughan Williams.

Þetta er, ja, ef ekki ádeila, þá allavega hugvekja um hörmungar stríðs. Textar koma úr Biblíunni, Walt Whitman um borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum, og Krímstríðinu. Kannski víðar að, ég man það ekki.

Gegnumgangandi eins og rauður þráður um allt verkið er sópransóló sem ákallar: "Dona Nobis Pacem," gef oss frið. Williams samdi þetta undir lok fjórða áratugar síðustu aldar, þegar stríðstrumburnar glumdu sífellt hærra um meginland Evrópu og um Austurlönd fjær. Varð náttúrulega ekki að ósk sinni, en verkið er magnað engu að síður.

Þeir sem vilja brjóta odd af oflæti sínu geta nálgast prýðisgóða upptöku gegn um hlekkinn á ameríska innkaupasíðu hér að ofan, en einnig var einhvern tíma hægt að kaupa þetta í 12 tónum á Skólavörðustíg.

12 tónar já. Það er sko frábær búlla. Allt of langt síðan ég rak inn nefið þar síðast.

Góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr.
Hr. Pez
by Hr. Pez

01 maí 2003


Og að lokum skulum við óska Frosta til hamingju með daginn:
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN FROSTI!!!
by Hr. Pez


Ég er greinilega eldri en Þruman, ef eitthvað er.
Sagðist um daginn vera eldri en tvævetur.
Og áðan notaði ég orðið kostgangari.
Það er gamalt.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com