<$BlogRSDUrl$>

22 apríl 2003


Loks skal þögnin rofin.

Við feðgin héldum norður í land fyrir réttri viku og skemmtum okkur þar konunglega með frændsystkinum, afa og ömmu. Hápunkturinn var ferð í Mývatnssveit á Föstudeginum Langa í algjörri rjómablíðu, þar sem meðal annars var baðast í Bláa Lóninu hinu nyrðra og snæddur dagverður í tuttugu stiga hita í Dimmuborgum.

Svo komum við heim á laugardegi með beðregíðerinn í farteskinu og skruppum í Bláa Lónið hið syðra á Páskadag.

Annars er ánægjulegt að sjá hvað Þruman hefur tekið við sér meðan ég var í burtu, hún er bara farin að blogga upp á hvern einasta dag. Vonandi heldur hún dampi. Ég mæli sérstaklega með draumunum, og mun hér myndast við að ráða þann síðari.

Skiptir hér frásögn yfir í aðra persónu eintölu.

Hrönnsa mín, ég vil vekja athygli á því sem mér var eitt sinn sagt (og hef sannreynt að stendur heima) að draumar um flug og svífandi léttleika eru merki um ákveðna líffræðilega vannægju. Augljóst er af ofangreindu að þú berð í brjósti holdlegar fýsnir í garð Ármanns Jakobssonar, og þráir fátt heitar en að gilja gaurinn. Ekkert til að skammast sín fyrir, enda maðurinn fjallmyndarlegur og gæfumaður í hvívetna. Þessum löngunum er þó haldið landfræðilega föngnum í hlekkjum rafheima, en þrá þín til að brjótast úr viðjum tölvualdar (samanber flóttann úr hinum reðurtáknandi turni) ber í sér fögur fyrirheit um ávöxt, þar sem blómin springa út og fuglarnir syngja í hinni iðjagrænu borg raunheima, hvar draumarnir rætast. Svo kýldu á það og hafðu samband við strákinn.

Þessi var nú léttur. Og ekki dugir fyrir hina dönnuðu Þrumu að skella skuldinni á sendiboðann, því þessi draumur á sér bara enga aðra túlkun, hann liggur í augum úti.
Hr. Pez
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com