<$BlogRSDUrl$>

31 mars 2003


Ég glímdi við þjóðveginn um helgina.

Ég keyrði norður í land við fyrsta mann á föstudaginn var. Ekkert mér til dægrastyttingar nema gömlu spólurnar sem ég tók upp með REM, Pixies og Tom Waits í gamla daga. Hlustaði nánast eingöngu á The Sundays (mín meðmæli). Og jú, Músíktilraunir er leið á kvöldið.

Verst að missa af úrslitunum í Gettu Betur.

Ojæja, með mér, spúsunni og dóttur á suðurleiðinni var einmitt einn bessergisserinn, og höfðu allir af því allnokkurt gaman.

En á Akureyri var ánægjulegt að venju, Hrefna komst á hestbak, við skoðuðum krílið þeirra Hafdísar og Mumma, og þræddum bæinn í heimsóknum.

Að síðustu:
Fylgist vel með á morgun, því þá verð ég sko með stórfrétt.
Hr. Pez
by Hr. Pez

27 mars 2003


Við vorum að keyra heim úr vinnunni í gær þegar við heyrðum dóttur okkar, tveggja og hálfs, byrja að söngla í aftursætinu:

"Ekkeh bló fi ollíu,
Ekkeh bló fi ollíu,
Ekkeh bló fi ollíu..."

Þessi mótmælasamkoma í síðustu viku hefur greinilega brennt sig inn í barnshugann.

En mér fannst þetta sumsé dáldið skondið, rétt eins og um daginn þegar hún bað um að fá að hlusta á "mikið rokk". Og hún kann sko að rokka. Hún rokkar eins og moðfeykir, ef þið skiljið hvað ég er að fara.

Stúlkan sú á ábyggilega eftir að gera foreldra sína mjög hreykna einhvern daginn (og gerir það reyndar upp á hvern einasta dag nú þegar. En þannig er það víst með þau öll, þessi litlu kríli, og heyrir varla til tíðinda),
Hr. Pez
by Hr. Pez

26 mars 2003


Já, frúin manaði mig að deila með ykkur þessari lífsreynslusögu hérna:

Það var þungbúinn sumardagur fyrir svona tveimur, þremur árum. Ég var í strætó á leið vestan úr bæ niður á Lækjartorg og enginn í strætónum nema ég og bílstjórinn. Ég ýti á bjölluna og stend upp, strætóinn stoppar, ég stíg niður tröppurnar að aftan, halla mér ögn fram og ALLT Í EINU! þá skellast dyrnar aftur hraðar en ég fæ áttað mig og klemmast akkúrat um kinnarnar á mér og gagnaugun. Og þarna stend ég skyndilega pikkfastur í dyragættinni eins og illa gerður hlutur og byrja að öskra eitthvað út á planið: "AAAAAA HVAÐ ER ÞETTA ÞARNA!!!" Þetta heyrðist vitaskuld ekkert fram í bíl en maður sem gekk framhjá strætónum í þungum þönkum með hendur í vösum hrökk við og hélt greinilega fyrst að ég væri að öskra á hann. Eitthvað danglaði ég í dyrnar líka svo loksins (sennilega var þetta nú ekki nema svona tvær, þrjár sekúndur) leit bílstjórinn aftur í, sá hvernig í öllu lá og opnaði aftur. Ég rauk út og strunsaði fram með strætónum til að lesa sko aldeilis yfir hausamótunum á honum. En í því sem hann opnar að framan sé ég hversu niðurbrotinn hann er yfir þessu og svo biðst hann innilega fyrirgefningar, hann hafi bara óvart rekið sig í takkann, þetta hafi aldrei komið fyrir sig áður. Og það bara var ekki hægt að æsa sig við hann greyið, enda var hann gráti næst og mér strax farið að finnast þetta dálítið fyndið og verkurinn í kinnum og gagnaugum varla neitt sem tárum tók hvort eð var.

Dæmi um það hvernig lífið apar upp eftir listinni að ég hef sjálfur lent í að upplifa brandarann: "Viltu opna að aftan?"
by Hr. Pez

24 mars 2003


ÞÚ HEFUR VERIÐ KÝLDUR Í MAGANN!!!

Já, það var súrrealísk upplifun að sjá mótmælendur brenna íslenska fánann í Kaupinhöfn í sjónvarpinu í gær. Eins og að taka þátt í ógeðslega fyndnum brandara, nema, rétt eins og í Fóstbræðrum forðum, felst grínið í því að maður er kýldur í magann.

Hvernig ætli þeir hafi komist yfir íslenska fánann? Mín samsæriskenning er konvolúteruð mjög en kúlminerast í því að sökudólgurinn sem reddaði dulunni sé enginn annar en Mikael Torfason.

En af hverju? Hverjum er ekki sama um ísland? Öllum stendur á sama um ísland. Við erum svo lítil að það ætti að lögbinda að skrifa nafnið á landinu með litlum staf.

Nei, mig grunar að þeir hafi tekið feil á íslenska fánanum og Union Jack. Þeir eru býsna líkir. Ég var alltaf að rugla þeim saman þegar ég var lítill.

Þetta er allavegana mín kenning.
by Hr. Pez

21 mars 2003


Ég hef verið að hugsa um þetta með að sniðganga bandarískar vörur.

Það er hreint ekki svo galin hugmynd. Ég er að hugsa um hana sjálfur.

Það var gaman að Gettu Betur í gærkvöldi. Og sérlega gaman hafði ég af því þegar hún Anna Pála hvatti alþjóð til að hunsa bandarískar afurðir í innkaupum. Þetta er ungt og með skoðanir. Og þannig á það að vera.

En fólk ætti að hugsa út í hvað það er að gera og af hverju. Hver er tilgangurinn? Það að sniðganga allt það sem ammrískt er allt til enda stríðs er sosum gott og blessað og fær fólk til að líða vel með sjálft sig og það að taka afstöðu. Og svo slúttar stríðinu, jafnvel fyrir lok næstu viku, lunginn af strákunum fær að fara heim og leppstjórn tekur við fyrir rest í Bagdað og Gubbinn (BÚSSEIN! eins og hann var svo skemmtilega uppnefndur á samkundunni í gær) situr við sinn keip og við getum aftur farið að elska ammrískt alveg þar til svo dettur í hann hvar þurfi að hreinsa til næst. Og aftur skal þá sniðganga allt ammrískt svo okkur líði vel með það að taka afstöðu í næsta sex daga stríði. Og allt er það til einskis.

Ég endurtek:
Allt. Til. Einskis.

Nei. Tilgangurinn er nefnilega ekki sá að taka afstöðu í verki, heldur fyrst og fremst að klekkja á bandarískum stjórnvöldum. Fáum dylst hugur um að Bandaríkin eru mesta herveldi heims. Þá sem andmæla því verð ég að fría vits. En Bandaríkin eru einnig efnahagslegt stórveldi. Og stríð eru einnig háð í viðskiptum.

Hver sá sem tekur þessa ákvörðun ætti að gera sér grein fyrir að með því er hann sjálfur að segja viðskiptastórveldinu Bandaríkjunum stríð á hendur. Ekki í þeim tilgangi að ná sér niðri á bandarísku þjóðinni, eða til að gorta sig af því á interneti eða í sjónvarpi, heldur með það að lokamiði að bola George W. Bush og Haukunum hans frá völdum Og því stríði mun sennilega ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi í næstu forsetakosningum vestan hafs, eftir ár héðan í frá. Þetta, sýnist mér, ætti að vera höfuðástæða og endamið þeirra sem kjósa sér að hætta að kaupa bandarískar vörur. Og fyrr ættu þeir sem hunsa bandarískar vörur ekki að láta af baráttu sinni. Allt annað, sýnist mér, er hræsni.

Ég endurtek:
Allt. Annað. Er. Hræsni.

Ástæðan ætti sumsé fyrst og fremst að vera efnahagsleg, og snúast því fyrst og fremst um það fyrir hvað maður hættir að borga. Það að taka afstöðu er bara bónus. Nokkrar erfiðar ákvarðanir sem því myndu fylgja:

Að hætta að skipta við þær bandarísku heimasíður sem rukka gjald eða stunda viðskipti á internetinu (bless bless Amazon).
Að hætta að fara á bandarískar kvikmyndir í bíó, og sömuleiðis að leigja þær á myndbandi eða DVD (halló Jean-Paul Belmondo).
Að hætta að drekka Kók (það yrði erfitt. Rosalega yrði það erfitt).

En sumsé, ég er enn að bræða þetta með mér.
Hr. Pez
by Hr. Pez

20 mars 2003


Átti eftir að geta þess að ég kláraði um daginn Science of Discworld. Hún snýst meira um "Science" heldur en "Discworld," en er skemmtileg aflestrar fyrir því. Minnisstæð kvótering (mannakorn dagsins?):

"If you want to reduce atmospheric carbon dioxide *permanently*, and not just cut short-term emissions, the best bet is to build up a big library at home, locking carbon into paper, or put plenty of asphalt on roads. These don't sound like 'green' activities, but they are. You can cycle on the roads if it makes you feel better."

Og látið ykkur þetta að kenningu verða.
Hr. Pez
by Hr. Pez

19 mars 2003


Það er rétt sem sagt er að innrás sé nauðsynleg.

Haukar í heimsmálum hafa bent á að ástandið í dag sé svipað því sem var á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld. Nú, eins og þá, er sérdeilis öflugu ríki stjórnað af leiðtoga með mikilmennskubrjálæði á háu stigi, sem braust til valda með aðferðum sem hafa lítið sem ekkert að gera með lýðræðislega stjórnarhætti. Hann og ógnarstjórn hans halda þjóðinni í gíslingu og ógna í skjóli gjöreyðingarvopna gervallri heimsbyggðinni, í trássi við alþjóðasamþykktir, og fara sínu fram sama hvað líður veiklulegum mótmælum alþjóðasamfélagsins.

Því er augljóst að nauðsynlegt er að grípa inn í áður en illa fer.

Af því tilefni vil ég lýsa furðu minni á tregðu alþjóðasamfélagsins til að blása til innrásar í Bandaríkin.

Eða um hvaða land hélduði annars að ég væri að tala?
by Hr. Pez


Mig dreymdi í nótt að mig dreymdi heimsendi.

Orð dagsins er: Konvolúteraður.

Eins og í: "Konvolúteraður draumur maður."

Þótt endalokin í draumnum í draumnum hafi verið af náttúrulegum orsökum, þá grunar mig að ég hafi í honum í honum verið undir áhrifum af áhyggjum mínum af ástandinu í heimsmálunum í dag. Sem mig langar að segja nokkur vel valin orð um við tækifæri.

P.S. Afsakið þessa óvenjulöngu þögn sem verið hefur á mér. Ég hef bara haft um annað að hugsa rétt þessa dagana.
by Hr. Pez

14 mars 2003


Ég átti ánægjulegt miðvikudagskvöld sem var.

Eldhúsdagsumræður? Guð nei biddu fyrir þér.

Onei, onei, oneinei, onei, onei. Ég rifjaði sko upp kynni mín af hinum klassíska, góða og gamaldags vestra Shane, sem ég sá síðast á barnsaldri fyrir svona tuttugu árum. Árum saman höfðu setið í mér senur, brenndar inn í barnshugann (sérstaklega lokasenan: "SHAAAAANE! COME BAAAAACK!") og var ánægjulegt að sjá aftur. Eftir það hélt ég áfram upprifjuninni og las aftur smásögu úr bók sem ég keypti fyrir nokkrum árum eftir mann að nafni Richard Bausch, en hann hefur einmitt gefið út ágæta skáldsögu um tema vikunnar. En smásagan sem um ræðir nefnist Old West, og fjallar akkúrat um það þegar Shane snýr aftur í dalinn eftir átján ára fjarveru, og hvaða áhrif það hefur á strákinn sem varð eftir og er þá orðinn að ungum manni. Frábær mynd, frábær saga, allt alveghreint meiriháttar.

Látum gott heita.

Svo eru hamingjuóskir til Hafdísar og Mumma með frumburðinn.

Annars er ég að fara í partí annað kvöld og ætla að reyna að ganga sem hægast um gleðinnar dyr.

Og það vona ég að þið gerið líka,
Hr. Pez
by Hr. Pez

13 mars 2003


Esterarbók sagði hann já.

Loksins loksins, eftir mikla eyðimerkurgöngu gegn um Síðari Konungabók, Krónikurnar, Esra og Nehemía, já loksins kom bók þar sem að minnsta kosti var verið að segja sögu af einhverju tagi. Esterarbók er, sýnist mér, eina bók biblíunnar sem gerist á persneska tímabilinu, þ.e. í útlegðinni eftir herleiðinguna til Babýlonar. Ester er lítil munaðarlaus gyðingastúlka sem verður drottning, og allt eins og klippt út úr ævintýrum Disneys þar til vondur ráðgjafi plottar að myrða alla Gyðinga í persneska heimsveldinu. Föðurbróðir Esterar kemur með sterkan mótleik, og til að gera langa sögu stutta er vondi karlinn hengdur í hæsta gálga (sem hann hafði sjálfur átt frumkvæðið að að reisa og fann þar með upp dramatíska íróníu), og svo taka Gyðingar sig til og drepa alla þá sem nokkru sinni hafa haft eitthvað á móti þeim og liggja vel við höggi, alls eitthvað á áttunda tug þúsunda manna. Svo slá þeir upp mikilli veislu og allt fer vel að lokum, óvinum þeirra gjöreytt af yfirborði jarðar og allir eru glaðir. Eiginlega mesta furða að ekki sé enn búið að gera úr þessu yfirsensasjónalíseraða teiknimynd fyrir alla fjölskylduna með dulbúnum vísunum fyrir fullorðna fólkið og fyndnum sædkikk fyrir kómíska upplyftingu.

Mannakornið er að sjálfsögðu í stíl við tema vikunnar:

16 En aðrir Gyðingar, þeir er bjuggu í skattlöndum konungs, söfnuðust saman og vörðu líf sitt með því að hefna sín á óvinun sínum og drepa sjötíu og fimm þúsundir meðal fjandmanna sinna - en eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra -
17 hinn þrettánda dag adarmánaðar, og þeir tóku sér hvíld hinn fjórtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi.

Gangið í Guðs friði,
Hr. Pez
by Hr. Pez

11 mars 2003


Viðvörun: Tema dagsins er ofbeldi.

Auk þess sem áður var getið bar helst til tíðinda um helgina að herra Manngintez kom í mat og víðgesjón á lau-kvöldið. Eða réttara sagt stafræna víðgesjónsplötu. Maturinn var góður og myndin um lesbíur. Sem voru að gera það sem lesbíur gera.

Jáneinei. Ekki svoleiðis.

Þetta er fyrsta rómantíska gamanmyndin sem ég hef séð í háa herrans tíð sem er bæði fyndin og rómantísk. Hún heitir Kissing Jessica Stein, og fær meðmæli jafnt frá mér, frúnni sem Magnúsi. DVD-útgáfan sem fæst á myndbandaleigum fær þó ekki meðmæli frá okkur, enda vantar á hana íslenskan texta. Sem var sérlega bagalegt þar sem þetta var kjaftatífumynd mikil og skipti höfuðmáli að hanga á hverju einasta orði. Okkur til bjargar var enskur texti fyrir heyrnarskerta sem var reyndar fyrirmyndarvel af hendi leystur en ekki fyrir tilstilli íslenskra útgefenda. Af því tilefni vil ég öskra LÚALEGU LETINGJAR, LYDDUR OG LÆVÍSU LÚÐULAKAR!!! til þeirra sem sjá um útgáfu á DVD-myndum á Íslandi. Fyrst þeir nenna að prenta íslenskan texta aftan á hulstrin, af hverju geta þeir ekki hunskast til að planta íslenskum texta á diskinn sjálfan?

Orð dagsins er Rippoff.

Eins og í: "Að gefa út DVD-myndir án íslensks texta á Íslandi er svívirðilegt rippoff sem ætti ekki að líðast og þá sem það stunda ætti að kjöldraga, slægja og hengja á rá."

En þetta var nú bara svona sem dæmi, enda leysir ofbeldi engan vanda.

Og talandi um ofbeldisfulla gjörninga. Ég kláraði í fyrrakvöld níundu bókina um hina ógæfusömu Baudelaire-ómaga. Þetta er alveg hreint skelfileg lesning og ég get ekki ráðlagt nokkrum öðrum en þeim sem hafa stáltaugar að ráðast í lestur þessarar óhugnanlegu seríu. Og jafnvel þeim myndi ég benda á að reyna sig frekar við eitthvað sem er ekki alveg eins ógnvekjandi. Ég meina, hvernig getur nokkur maður með réttu ráði kosið sér að lesa bækur þar sem fólk lætur út úr sér hluti eins og: "I just love violence. Especially when it is combined with sloppy eating." Ég bara spyr.

Næst: Esterarbók, sem gæti allt eins heitið "Sagan af enn einu fjöldamorðinu sem gyðingar til forna frömdu í nafni og velþóknun Drottins Guðs Almáttugs."

Svo tema dagsins mun teygjast eitthvað inn í vikuna.

Svo er það bara kóræfing á eftir og hlakka til.

Kveðjur,
Hr. Pez
by Hr. Pez

10 mars 2003


Við hjónin fórum í leikhús í gærkvöldi.
Við sáum Manninn sem hélt að konan sín væri hattur.
Það er góð sýning.
Það spillir ekki fyrir (les: það er betra) að vera búinn að lesa bókina.
Þá held ég maður sýkist síður af þetta-eru-nú-meiri-fríkin syndróminu.
Frammistaða Gunnars Hanssonar í hlutverki Tourette-sjúklings sannfærði mig endanlega um að hann er frábær leikari.
Gott í dag,
Hr. Pez
by Hr. Pez

07 mars 2003


Þá er liðið að lokum temavikunnar "Ofsækjum Forsætisráðherra" hér á síðunni, enda nóg komið af svo góðu í bili. Meir að segja Hreinn Loftsson hefur komist að þessari sömu Sjálfstæðu niðurstöðu án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar, og hefur undirritaður ákveðið algerlega upp á sitt eindæmi að hnýta tagl sitt sömu hnútum.

Enda kom hann mér á óvart við Alþingishúsið í gær Karlinn, mætti brosandi og allt að því skömmustulegur og tók við skjalinu, lét líka út úr sér nokkur orð án þess að fella styggðaryrði um nokkurn mann (eða fyrirtæki eða stjórnmálaflokk), kom prúðmannlega fyrir í hvívetna og ég held svei mér þá að ég hafi bara ekki séð hann svona gjörsneyddan dónaskap svo árum skiptir. Kannski batnandi manni sé best að lifa.

Í hnotskurn: ég tek heils hugar undir með Gneistanum að þeir sem ekki hafa séð Rashomon nú þegar ættu að drífa sig.

Nóg um það og ekki orð um það meir.

En ég kláraði sumsé um daginn endurminningabókina Glímt við Múrinn, eftir Nehemía spámann. Ég var ögn nær því að gútera Esrabók eftir hana, enda er um ósjálfstætt framhald að ræða og nauðsynlegt að lesa báðar í samhengi. Ísraelsmenn snúa aftur úr útlegð frá Babýlon og svo Persíu til Fyrirheitna Landsins, endurreisa borgarmúrinn og musterið í Jerúsalem og koma sér yfir höfuð ágætlega fyrir. Örlítið gefið undir fótinn með undirferli og væringar, en heimkoman gengur nánast bardagalaust fyrir sig. Í heildina ágætlega fræðandi en þó ögn þurrkuntuleg lesning. Sennilega dálítið svipað og ef hægt væri að lesa endurminningar mannsins sem hafði yfirumsjón með að veita Öxará í Almannagjá: Já það er rosalega flott að þetta hafi verið gert og svaka fín söguleg heimild og allt það, en, hei, hversu gaman getur verið að lesa um einhverja karla að bera grjót úr einum stað í annan?

Ritningarlesturinn og mannakorn dagsins er undir blárestina í Nehemíabók, þar sem spámaðurinn játar í réttlátri reiði og trúarhita:

25 Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: "Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður..."

Af hverju eru engir svona prestar í umferð lengur? Mér er sem ég sæi hann séra Pálma blessaðan ganga í hús í hverfinu og draga þá menn út á hárinu og kýla í götuna sem hafa leitað sér kvonfangs í önnur trúarbrögð. Eða ég veit það ekki, þegar ég hugsa mig um þá eru Snorri í Betel, Gunnar í Krossinum og þeirra lagsmenn allir kannski ekkert svo fjarri þessu.

Annars skilst mér að Formúlan sé að hrökkva í gang núna um helgina. Ég hlakka til og vona að þetta misseri verði að minnsta kosti ögn meira spennandi en það síðasta (eins og það þurfi mikið til).

Svo bara góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar.
Hr. Pez
by Hr. Pez

06 mars 2003


Ég vil byrja á að fagna því að enn skuli vera von fyrir mína menn. Ef allt fer á besta veg yrði það enn ein vísbendingin um að frumefnið söguþráðíum sé til í alvörunni.

En spyrjum að leikslokum.

Ég hef haldið mig að mestu utan mótmælakreðsanna það sem af er veru minni í bloggheimum en nú verður breyting á. Ég vil vekja athygli á mannréttindabaráttu sem farið hefur lágt á skerinu. Það er ákveðinn hluti Íslendinga sem hefur mátt sæta því að réttur þeirra til að fá opinbera viðurkenningu á tungumáli sínu hefur verið fótum troðinn og látinn reka á reiðanum í íslenska stjórnkerfinu svo árum skiptir.

Það eru heyrnarlausir.

Klukkan hálfsex á eftir efnir Félag Heyrnarlausra til mótmæla fyrir framan Alþingishúsið. Þar á að afhenda forsætisráðherra áskorun um að íslenska táknmálið verði viðurkennt formlega í lögum svo réttur heyrnarlausra til túlkaþjónustu sé tryggður. Síðustu tíu ár hafa fimm nefndir velt málinu á milli sín án þess að nokkuð hafi gerst, og á meðan hafa heyrnarlausir mátt gera sér að góðu skertan rétt til menntunar, opinberrar þjónustu og yfir höfuð til þátttöku í íslensku samfélagi.

Það er ekki alveg garanterað, en má vera að ég mæli mér mót við konu mína og barn þarna niðri á Austurvelli á eftir.

Sem er sennilega líklegra en að Herrann sjálfur leggi sig niður við að taka á móti bleðlinum í eigin persónu. Alltaf skulu þessir horngrýtis minnihlutahópar vera að þvælast fyrir manni. Er ekki réttast á þau að láta þau bara norpa þarna úti í nepjunni og naga þröskuldinn?

Hér ætlaði ég að skrifa dálítið enn svíðingslegra í framhaldinu en minntist þá spaklegra orða einnar pólitískrar maddömmu um graftarbólur. Og ákvað að sitja á strák mínum.

Svo er það bara Gettu Betur í kvöld og góða skemmtun.

Á morgun: Endurminningar Nehemía.
Svo þú getur farið að hlakka til Svandís.
by Hr. Pez

04 mars 2003


Góður draumur maður.

Við þetta er svo að bæta að þeim sem vilja horfa á sjónvarpið til að fræðast um miðaldra karla sem þurfa að hittast undir fjögur augu án nokkurra vitna á læstum hótelherbergjum til að plotta drög að framtíðinni er bent á RÚV, reyndar ekki strax að loknum kvöldfréttum, heldur eftir tíufréttir á mánudagskvöldum.

Bæðövei: Það hefur farið furðulega lágt undanfarið að auk þeirra þriggja sem alþjóð veit um nú þegar, þá sat máltíðina um kvöldið föngulegur hópur íslenskra flugfreyja, sem hver og ein getur vitnað um að rétt er haft eftir Landstjóranum.
by Hr. Pez


Auðvitað trúum við honum öll!

Það er augljóst að það er ekkert mark á þessum Hreini takandi. Við getum ekki tekið hans orð fyrir nokkrum sköpuðum hlut, og sérstaklega ekki því hvað sagt var á tveggja manna tali í Lundúnum. Því þar var því sko aldeilis fleygt að nú skyldi kaupa æðsta embættismann þjóðarinnar fyrir litlar þrjú hundruð milljónir. Og það í fúlustu alvöru. Hann hafði það eftir Hreini Loftssyni, og ekki lýgur það gæðablóð, eða hvað?

Og svo er reynt að beina athyglinni frá Kjarna Málsins með því að einhverjir blaðamenn sem vita ekki einu sinni sjálfir fyrir hverja þeir eru að skrifa vaði uppi með Gróusögur og slúður. Það getur ekki hver sem er komist upp með svoleiðis.

Eða eins og hann orðaði það svo hnyttilega sjálfur (enda vel máli farinn): "Ég veit það af reynslunni hvað það er erfitt að skrökva."

Hér er ég mættur með þennan stein í beina útsendingu.
Og oná hann set ég annan.

Úbbs, hann datt.
by Hr. Pez

01 mars 2003


Jæja, sit hér og dúlla mér í vinnunni á laugardagskvöldi. Í dag var lokaæfing fyrir tónleikana á morgun. Ég held að þetta leggist bara vel í mig.
Ójamm.

by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com