<$BlogRSDUrl$>

27 febrúar 2003


Ég átti alltaf eftir að geta þess að á föstudaginn var kláraði ég Stellu Blómkvist: Morðið í Stjórnarráðinu.

Það fer nú bráðum að þynnast hjá henni þrettándinn með opinberu byggingarnar. Búin með stjórnarráðið, sjónvarpið og alþingishúsið.

Hún getur kannski skrifað Morðið í Ráðhúsinu og Morðið í Háskólanum.

Og hvað svo? Spurði hann efins. Morðið í Dómkirkjunni? Já, kannski. En svo er það bara Morðið á Hafrannsóknastofnun. Að ógleymdu Morðinu í Landbúnaðarráðuneytinu.

Ég bíð spenntur eftir hvað kemur næst.
Jæja, gott í dag.
by Hr. Pez


Fjölskyldan fór í leikhús á sunnudaginn var.

Karíus og Baktus.

Það var mjög gaman, og dóttir okkar sat hugfangin allan tímann út í gegn. Hún hvarf inn í leikritið.

En upp fyrir mér sjálfum rifjaðist sjónvarpsleikgerðin sem var sýnd með reglulegu millibili þegar ég var lítill. Mikið man ég vel hvað ég var rosalega hræddur við þá karlana. Nærri því jafn hræddur og við risastóra tannburstann.

Mig langar að sjá þá leikgerð aftur einhvern tíma.
by Hr. Pez

26 febrúar 2003


Jæjajá.
Svo þú segir það.

Það er komið nýtt hugverk á ljóðavefinn. Ég er ekki viss um að ég planti mikið meiru þarna í bili. Kannski einu sinni eða tvisvar einhvern tíma seinna, en vikulegar færslur þarna inn eru sennilega á enda runnar að minni hálfu, enda óþarfi að ana út í að hella öllum þeim baunum sem maður býr yfir.

Túdlíú,
Hr. Pez
by Hr. Pez

25 febrúar 2003


Ég verð að nota tækifærið til að plögga svolítið:

Sunnudaginn 2. mars blása Háskólakórinn og Vox Academica (kórinn minn!) til stórtónleika í Langholtskirkju undir stjórn Hákons Leifssonar. Hátt í hundrað kórmeðlimir flytja hið þekkta og fallega verk Gloriu eftir Antonio Vivaldi, ásamt kammersveitinni Jón Leifs Cammerata, konsertmeistari Sigrún Eðvaldsdóttir. Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) og Sesselja Kristjánsdóttir syngja einsöng í verkinu en að auki mun Diddú syngja tvö lög, Ave Maríu eftir Caccini og Vókalísu eftir Rachmaninov. Kórarnir flytja einnig verkin Little Requiem for Father Malachy Lynch eftir Tavener og Miserere eftir Allegri. Svo syngja stúlkurnar Um nóttina ég svíf eftir Szymon Kuran sem tekur djeðveigt sóló.

Í fyrra fluttu kórarnir í sameiningu Carmina Burana við gríðarlega góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda.

Tónleikarnir hefjast kl. 16:00 og vara í um eina og hálfa klukkustund. Miðaverð er 2000 krónur en nemar, ellilífeyrisþegar og öryrkjar greiða 1800 krónur.

Ekki missa af þessum stórviðburði!

Það verða aðeins einir tónleikar og miðar af skornum skammti. Svo ef þið hafið áhuga skuluð þið ekki hika við að hafa samband við mig og fastna ykkur miða í forsölu.
by Hr. Pez

24 febrúar 2003


Ég var að hugsa um það hvernig tíminn líður.

Fyrir tuttugu og fimm árum var ég sex ára. Þá fórum við strákarnir í götunni meðal annars í þykjustuleik þar sem við vorum geimfarar á tunglinu. Svifum í þyngdarleysi yfir klettaborgunum úti við Krossanesveginn. Í þá daga fannst okkur ógeðslega langt síðan fyrsti maðurinn steig fæti á tunglið. Það var eins og það tilheyrði öðru skeiði í mannkynssögunni. Ég meina hei, þá strax var það fyrir heilum tíu árum síðan.

Eins var með Bítlana. Þegar ég var sex ára var ógeðslega langt síðan Bítlarnir hættu. Þeir höfðu þá ekki komið saman í átta ár.

Í dag finnst mér býsna skammt um liðið frá Flóabardaga í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Og þó það séu komin sjö ár frá því uppáhalds hljómsveitin mín gaf út sinn síðasta disk, þá finnst mér enn eins og það hafi bara gerst í gær. Njah, eða kannski í hitteðfyrra.

Og ég velti fyrir mér: Hvernig ætli foreldrum mínum hafi orðið hugsað til lendingarinnar á tunglinu þegar ég var sex ára? Hvaða augum ætli þeir sjái hana í dag? Mig langar að spyrja þá að því næst þegar ég heyri í þeim. Maður gerir of lítið af því að tala við foreldra sína um svona lagað.

Og ég vil mana sem flesta til að spyrja foreldra sína eða jafnvel afa og ömmur eða hvaða fólk okkur eldra sem við þekkjum vel um eitthvað sem veitir innsýn í það hvernig fólk sá heiminn á yngri árum, miðað við daginn í dag. Og hvernig því í dag verður hugsað til fortíðarinnar. Ég held að fæst okkar læri eins mikið af okkur eldra fólki og okkur stendur til boða.

Gömul sannindi?

Já auðvitað.

En það er ekki þar með sagt að fólk geri nógu mikið af að taka mark á þeim.

Kveðjur,
Hr. Pez
by Hr. Pez

21 febrúar 2003


Ja hérna hér.

Ég var að horfa aftur á upptöku af Gettu Betur frá því í gærkvöldi (NÖRD!) og sá þá greinilega að hann Stefán Einar var víst með þverslaufu blessaður drágurinn.

Ojæja.
by Hr. Pez


Já, ég er koffeinfíkill.

Föstudaginn fyrir réttri viku fékk ég mér síðasta botnhylinn af kaffi fyrir bindindi og ætlaði að halda mér frá því í að minnsta kosti sjö daga. En það tókst ekki. Ég er fallinn. Núna áðan fékk ég mér kaffibolla. Kominn á sjöunda og síðasta dag. Settist og drakk hestaskál með vinnufélögunum.

En hvað er einn kaffibolli sosum á milli vina.

Jamm.

Sá annars Gettu Betur í gærkvöldi og hafði gaman af. Ætli ég sé ekki einn af fáum milli tvítugs og sjötugs sem reynir að missa ekki af þætti. Þótti betra liðið vinna. Varð fyrir dálitlum vonbrigðum með títtnefndan "smjörkúk" sem tekið hefur á sig slagsíðu af góðlátlegu gríni af vinstri væng bloggheima upp á síðkastið (og er ábyggilega hæstánægður með það). Hann var ekki einu sinni með þverslaufu. Og virtist bara býsna kurteis og geðugur strákur. Og þeir allir.

Hvað er að gerast hérna. Er ekki hægt að halda á móti neinu liði lengur með góðri samvisku?

Ég heimta endurgreiðslu.
by Hr. Pez

20 febrúar 2003


Snúinn aftur eftir nokkurra daga þögn.

Að heiman ber það helst til tíðinda að ég hef klárað ekki eina heldur tvær! bækur síðustu vikuna. Fyrst ber að telja að á föstudagskvöldið var kláraði ég LoveStar eftir Andra Snæ MagNason. Hún verkaði á mig sem hálfgilding barnasaga, bara bönnuð börnum. Blái Hnötturinn fyrir fullorðna lesendur. Að mörgu leyti á ferð svipaðar pælingar um marseringu tæknihyggjunnar og sigur mannsandans með viðbættri skvettu af heimsósóma, klámi og ofbeldi. Skemmtileg aflestrar. Svo gæti farið að Andri Snær eigi eftir að verða stimplaður sem krónískt skemmtilegur höfundur, en meinlaus. Sem væri synd, því ég held að það sé meira bit í honum en svo.

Svo brenndi ég um helgina í gegnum fimmtu bókina í hrakfallasagnabálkinum um Baudelaire-ómagana, eftir höfuðsnillinginn Lemony Snicket. Sería sem ég óttaðist að væri að festast um of í þægilegri formúlu með fjórðu bókinni (sem var samt mjög skemmtileg). En ótti minn var að ástæðulausu, formúlan er brotin skemmtilega upp í fimmtu bókinni og svo þróuð áfram í þeirri sjöttu sem ég er á kafi í núna. Stórskemmtileg sería. Látið hana ekki framhjá ykkur fara.

Ha? Þetta með Birgittu? Æ hún á ábyggilega eftir að standa sig skammlaust þarna úti blessunin. En hitt hefði óneitanlega verið frumlegra og skemmtilegra og blásið meira lífi í keppnina. Látum þó gott heita.
Ég er ekki viss um að það komi ljóð í þessari viku. Sjáum til. Allavegana pottþétt í þeirri næstu. En það gæti orðið það síðasta um sinn.
Svo bara góðar stundir.
Hr. Pez
by Hr. Pez

18 febrúar 2003


...afsakið hlé...
Ég færi eitthvað hér inn seinna í vikunni.
by Hr. Pez

15 febrúar 2003


Þrjú orð:
Mistök mistök mistök.
by Hr. Pez

14 febrúar 2003


Jæja, þá er loksins komið að því.

Ég er búinn að strengja þess dýran eið að vera Evróvisjónfrík fyrir þetta æsilega forat og er þó varla búinn að eyða á það nokkru orði fyrir utan þessi þrjú augljósu (LTL!). Svo þar sem nú er tæpur sólarhringur þar til keppnin brestur á (og hvað er þetta: innan við fimmtán tímar þar til kosningar byrja — humm...) er ekki seinna vænna að koma með detaljeraða analýsu á keppendum í foratinu fyrir Sýn Evrópu 2003. Einnig tek ég fyrir líkurnar á að lögin hali inn sigur annað kvöld og leggist í austurvíking (engin núll!), og á að þau muni lifa um ókomin ár í minningu þjóðarsálarinnar (enda fjöldamörg lög úr forkeppnunum sem enn lifa góðu lífi og eru rifjuð upp á hverju ári). Ég tek flytjendur fyrir í sömu röð og mér skilst þeir keppi annað kvöld:

Hvar sem ég enda — Þóra Gísladóttir: Hin íslensku Corrs eru mætt á sviðið! Alveg hreint ágætt lag þannig lagað, en voðalega finnst mér verið að reyna mikið. Strákurinn sem barði bumbuna var samt býsna skondinn. Takið eftir honum annað kvöld ef þið misstuð af honum áður. Fer nú varla út, en það er marktækur minnihluti sem fílar Keltastemminguna.
Líkur til Lettlands: 1%, líflegheitaskor til langtímavinsælda: 20%

Ferrari — Ragnheiður Gröndal: Já, ég er alltaf dálítið svag fyrir svona gamaldags og djössuðu. En hérna, þetta með vörumerkið og frasana, þarf ekki alveg örugglega að fá leyfi fyrir svona löguðu? Það er kannski málið. Ég held að þetta lag gæti selt helling af rakspíra í undirspili fyrir réttu sjónvarpsauglýsinguna (vrúmm vrúmm). Læknar sem gutla í hjáverkum raka nú varla inn mörgum atkvæðum utan sinna nánustu en lagið gæti lifað, eins geðþekkt og það er.
LTL: 1%, LTL: 40%

Þú — Hreimur Örn Heimisson: Þetta er nú svo asgodli mikill Motown að það vantar bara kúabjölluna. Kveikir blossann og skjálfta í kálfunum. Hreimur á sér sitt krád, þótt því sé eflaust deilt að stórum hluta með sveitastúlku að norðan.
LTL: 3%, LTL: 50%

Sögur — Ingunn Gylfadóttir: Hvað væri Evróvisjónforatið ef ekki væri lag með henni Ingunni okkar? Og hver gladdist ekki í hjarta sér þegar þessi fyrrum barnastjarna steig aftur fram í sviðsljósið í forkeppninni hérna um árið? Keppnin væri ekki sú sama án hennar. Það er slatti af fólki sem ég þekki sem styður hana grimmt í ár, en ég hhheld að eins og svo oft áður vanti þau skötuhjúin herslumuninn.
LTL: 2%, LTL: 60%

Í nótt — Eyvör Pálsdóttir: Hvaðan kom þetta?! Ég sem hélt að þeir hefðu hætt að semja svona perlur fyrir áratugum síðan. Ég hef ekki verið svona nálægt því að gráta við fyrstu hlustun á lagi síðan ég hlustaði á Ágætis Byrjun. Konan mín heldur því fram að ég haldi bara upp á lagið fyrir það hvað flytjandinn er vel vaxinn fram, en það er sko alveg satt að það er ekki satt. Nú læt ég sko allt flakka: Mér finnst þetta besta lagið í ár. En það er löng og farsæl hefð fyrir því að besta og langlífasta lagið vinni ekki í forkeppninni að Evróvisjón.
LTL: 10%, LTL: 100% (allavegana hjá mér)

Með þér — Hjördís Elín Lárusdóttir og Guðrún Árný Karlsdóttir: Evróvisjónpáerballaða í óverdræfi. Og ekki dregur úr áhrifunum að hafa íslenska Celine Dion í tvíriti. Mjög smekklegt, en kannski ekki alveg minn tebolli.
LTL: 1%, LTL: 10%

Engu þurfum að tapa — Regína Ósk Óskarsdóttir og Hjalti Jónsson. Önnur páerballaða, meira svona í Kjöthleifsáttina og ættuð að norðan. Uppáhald frúarinnar og ég virði það, enda er hann Einar mikill indælis strákur. Og parið er það flottasta sem sést hefur í keppninni lengi. Það gneistar af þeim náttúrusjarminn (í öllum merkingum sem hægt er að leggja í frasann).
LTL: 2%, LTL: 50%

Eurovísa — Botnleðja: Sko. Þetta er hrein gargandi snilld. Þeir hreinlega verða að fara þarna út, bara til að hrista upp í liðinu. Þetta yrði stærsta númer Íslands síðan Paul Oscar klæmdist yfir gjörvalla álfuna um árið. Lagið sparkar í g**n og kanínubúningarnir eru yndislegir. En ég verð þétt drullumallssvekktur ef þeir vinna hér heima til þess eins að taka upp á þeim óskunda að syngja á útlensku í Lettlandi. Vonum það besta.
LTL: 40%, LTL: 90%

Segðu mér allt — Birgitta Haukdal: Og páerballöðurnar streyma eins og sósusullið forðum norðan yfir heiðar. Þetta er stærsti ógnvaldur minna manna, og réttilega svo, enda er lagið geðþekkt með eindæmum og B.H. með stærsta költ nokkurs íslensks poppara nú um stundir. Ég ber ekkert nema fallegar hugsanir til Halla karlsins, enda hef ég raulað ódauðlegt listaverk með honum sjálfur. En munið eftir Angel! MUUUNIÐ ANGEL!!! Fyrsta sætið eða böst getur bara endað á einn veg þegar litið er raunsætt á málin. Haa?
LTL: 30%, LTL: 80%

Ást á skítugum skóm — Rúnar Júlíusson: RÚNNSLI JÚLL FOR PRESIDENT!!! RÚNNSLI JÚLL FOR PRESIDENT!!!!!
LTL: 5%, LTL: 60%

Sá þig — Þórey Heiðdal: Þetta er í sjálfu sér afskaplega mátulega greddulegt bummp og grind með lunknu og lúmskt grípandi viðlagi. En mikið skelfilega fer vælukjóatónninn í mínar fínustu. Ég veit að það eru fleiri sem deila með mér þessari skoðun. Og hérna, hvar er útgeislunin?
LTL: 1%, LTL: 10%

Mig dreymdi lítinn draum — Hreimur Örn Heimisson: Hreimur karlinn mættur aftur en ég er hræddur um að sénsinn hans liggi í sálarslagaranum. Frikki Karls þarf nú aðeins að fara minnka við sig gingsengið og græna teið. Og fleygja gosbrunninum úr forstofunni.
LTL: 1%, LTL: 10%

Tangó — Ragnheiður Eiríksdóttir: Þetta er nú bara besta lag sem ég hef nokkru sinni heyrt með henni Heiðu. Og ekki skemmdi hvernig hún var klædd í upptökunni. Þótt ótrúlegt megi virðast. Hlakka til að sjá hana í nýju dressi annað kvöld. En ég og hún, við erum sammála um að sssennilega verði hún ekki fyrir valinu.
LTL: 1%, LTL: 70%

Allt — Höskuldur Örn Lárusson: En helt fantastisk bugglåt. Eftir margra ára eyðimerkurgöngu hefur þjóðin loksins eignast nýjan Geirmund Valtýsson. Húrra sagði hann og klappaði saman höndum af ánægju. Liiitl. En þetta gæti átt eftir að lifa í prógramminu í gömludansakreðsunum.
LTL: 1%, LTL: 30%

Þú og ég (er ég anda) — Jóhanna Vigdís Arnardóttir: Jájá, fagmannlegt lag og fagmannlegur og ljúft rennandi texti hjá Stebba Hilm og ofurfágaður flutningur og fagmannlega sungið af henni Jóhönnu. En mikið lifandis skelfingar ósköp er þetta nú steingelt allt saman.
LTL: 1%, LTL: 10%

Jamm. Það er nú svona sem ég lít á málin. Svo er bara fyrir öllu að skemmta sér vel og styrkja gott málefni eins og þrisvar eftir að línur opna (LTL!).

P.S. Og skemmtu þér nú vel Elsa mín.

by Hr. Pez

13 febrúar 2003


Velkomin á tölvuöld.

Nú dregur að lokum hins æsispennandi ökuljóðs sem hefur verið að mjatlast inn á ljóð.ís, og þrátt fyrir fjölda áskorana er ég ófáanlegur til að skrifa framhald (ekkert Alien 4 kjaftæði hérna væni minn). Eða eins og skáldið sagði: "Komið er að endastöð, þú ættir nú að kveðja."

Svo byrjar Gettu Betur í kvöld. Húrra húrra sagði hann og það meiraðsegja mikiðtil laus við kaldhæðni í rómnum. Það rekur nú bara hvert nördafestivalið annað í kassanum mínum þessa dagana. En hvað það er nú gaman.

Og að lokum legg ég til að Leðjan leggi Lettland í eyði. Var það annars ekki einhvern veginn svoleiðis ha?
by Hr. Pez

12 febrúar 2003


Svo kláraði ég tvær bækur um helgina.

Ég hafði mjög gaman af Leiðinni til Rómar eftir Pétur Gunnarsson. Mér leiðist reyndar alltaf þegar bækur eru auglýstar sem "sjálfstætt framhald." Ef maður er búinn að lesa fyrri bókina er óþarfi að lesa þá seinni því Hey! hún er sjálfstætt framhald. Og ef ég er ekki búinn að lesa þá fyrri er það ábyggilega vegna þess að ég hef ekkert gaman af höfundinum hvort eð er. Mér þætti gaman ef einhver bók yrði einhvern tíma auglýst sem "ósjálfstætt framhald." Þá yrði maður að lesa hana ef maður væri búinn með þá fyrri. Og ef ekki en mann langaði til, þá þyrfti maður að redda sér þeim báðum.

En nei. Það er svo ósöluvænlegt geri ég ráð fyrir.

Sjáiði í anda Hilmir Snýr Heim auglýsta sem sjálfstætt framhald Föruneytisins og Tvítyrnisins? Mér er bara spurn.

(Þeir sem geta lesið milli línanna sjá eflaust skýrum stöfum að ég er ólærður í bæði viðskipta- og auglýsingasálfræði)

En bókin já, ég hafði gaman af henni. Og hún var mjög sjálfstætt framhald. Rakti mestan partinn sögur af Íslendingum sem fóru suður til páfastóls fyrr á öldum. Rétt undir blárestina voru svona tvær blaðsíður um einhvern strák á Interrail eða eitthvað sem ég held að sé sá sami og kom eitthvað við sögu í fyrri bók sem nefnist Myndin af heiminum, en ég er ekki alveg viss, enda löngu búinn að gleyma öllu úr þeirri bók.

Svo kláraði ég Esrabók. Botnaði ekkert í henni. Byrjar á því að Gyðingar fá að fara heim úr skammarkróknum í Persíu til Jerúsalem að endurreisa musterið, og eftir dálítið japl, jaml og fuður er kynntur til leiks titilkarakterinn sem manni finnst eiga að leika höfuðrulluna í því sem á eftir kemur. Nokkrum hjónaböndum rift við heiðnar konur. Og svo er hún bara allt í einu búin! Kapútt!!! Fínító!!!!!

Furðuleg bók.

Að lokum legg ég að sjálfsögðu til að við sendum LEÐJUNA TIL LETTLANDS!!!
by Hr. Pez

11 febrúar 2003


Úpps, og ég gleymdi:

LEÐJUNA TIL LETTLANDS!
by Hr. Pez


Ég gleymdi að skella þessu hérna inn í gær.
Það var nú aldeilis blessuð blíðan.

Ég er að trappa niður við mig kaffineysluna þessa dagana.
Jamm, ég játa. Ég er í harðri neyslu. Ég er kaffifíkill. Fimm bollar á dag, þar til á föstudaginn var. Síðan þá hef ég verið að minnka þetta við mig, var í tveimur bollum í gær, stefnan tekin á einn bolla í dag og í mesta lagi hálfan á morgun. Svo ætla ég í tímabundið bindindi, hanga þurr í það minnsta í viku, kannski út mánuðinn.

Af hverju? Tjah, ... !

Við spiluðum Viltu Vinna Milljón Krónur við Gneistann og Eygló á laugardagskvöldið var, ég held ég hafi komið honum Óla greyinu úr stuði með því að vinna fímm mílljónír strax í fyrstu tilraun.

Orð dagsins er "Glópalán."

Kveðjur,
Hr. Pez
by Hr. Pez

07 febrúar 2003


Góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar.
Að lokum vil ég leggja til að við sendum LEÐJUNA TIL LETTLANDS!!!
Hr. Pez
by Hr. Pez

06 febrúar 2003


Þrjú orð (og slatti af upphrópunarmerkjum):

LEÐJUNA TIL LETTLANDS!!!!!
by Hr. Pez

05 febrúar 2003


Annan daginn í röð verð ég að vekja athygli á Gneistanum. Ég svoleiðis gæti ekki verið honum meira sammála. Endrum og sinnum fáum við að heyra um Íslendinga sem stoltir gætu keppt um Darwin-verðlaunin fyrir hönd þjóðarinnar, bara ef þeir væru dauðir.

Annars er mér sagt að frábær þáttur hafi hafið göngu sína á RÚV á miðvikudaginn í síðustu viku: Skrifstofan (The Office). Ég veit það ekki, kannski finnst vinnufélögunum þetta bara gaman af því að þeir vinna sjálfir á skrifstofu (MÚHÖHAHAHAHA). Alliravegana er lunginn úr samstarfsfélögunum húkkaður á Dilbert. Sem er snilld. En ég tékka kannski á þessum skrifstofuþætti í kvöld. Ef ég nenni að vaka svo lengi.

Kveðjur og skindl,
Hr. Pez
by Hr. Pez

04 febrúar 2003


Byrjum á því að óska Gneistanum til hamingju með daginn.

Svo heldur hið æsispennandi framhaldsljóð áfram á ljod.is.
Hvað gerist næst?!

Og ekki gleyma Evróvisjón-keppninni í kvöld. Annar þáttur af fimm. Horfði á fyrstu þrjú lögin í gær og ákvað að gerast Evróvisjónfrík í ár, í fyrsta skipti í langan tíma (og jú, það vill segja miklu meira en tvö ár!). Held með Heiðu enn sem komið er. Mig grunar að uppáhaldslagið mitt sé óspilað enn, en ég tek undir með henni að ef uppáhaldslagið mitt vinnur ekki þá vil ég Heiðu. En ég verð að fá frúna til að taka þátt kvöldsins upp, þar sem ég verð á kóræfingu.
by Hr. Pez

03 febrúar 2003


Æ ég vil ekki tala um helgina.
Sérstaklega ekki laugardaginn. Nema laugardagskvöldið var ágætt. Við tókum lélega B-mynd (ÁTTFÆTTAR ÓKINDUR!!!) á myndbandi og skemmtum okkur konunglega.

En í gær kláraði ég Stellu Blómkvist: Morðið í Alþingishúsinu.

Hún Stella er nú alltaf Stella.

Einu sinni grunaði mig að Stella Blómkvist væri í raun Auður Haralds.
En í dag er ég kominn á sömu skoðun og konan mín: Stella Blómkvist er karlmaður.

En reyfarinn var alltílæ.
Og ég tek Stellu í sakamálum fram yfir Stellu í framboði "enní tæm."

Svo vorum við hjónin að koma úr sónar. Allir líkamspartar á sínum stað og stefnt á að þeir skili sér í heilu lagi í heiminn 24. júní. Og ætli ég slútti ekki bara með það í dag.
Hr. Pez
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com