<$BlogRSDUrl$>

13 desember 2006


Jæja. Þetta er orðið ágætt. Farið frekar yfir á truflun fyrir nýtt internetegó. Allt mjög hrátt og ekkert búið að gera. En það kemur alltsaman.
by Hr. Pez

05 desember 2006


Bloggdoðinn undanfarið útskýrist að ofurlitlum hluta með bloggdeyð. En aðallega því að bloggerinn virðist hættur að gútera færslurnar mínar. Að minnsta kosti að heiman, þaðan sem ég hef reynt að senda sömu færsluna svona eins og annað hvert kvöld síðasta mánuðinn. Sjáum hvort þetta gangi betur - ég sendi þetta úr vinnunni.

Mig grunar að þetta standi í tengslum við það að ég þráast við að skipta yfir í nýju bloggerversjónina: ég nenni ekki að fá mér google account. Ég fer eiginlega bara að gefast upp á þessu. Hvað segirðu Óli, var þér alvara þegar þú nefndir truflun við mig um daginn?
by Hr. Pez

16 nóvember 2006


Ég gleymdi að gá eftir þessu í blöðunum í morgun. En ég sé að dagur íslenskra kvikmyndatitla er að minnsta kosti ekki á internetinu:
Samanber.
Samanber.
Samanber.

(Þó finnast undantekningar. Sé leitað.)

Svo að öllu sé nú haldið til haga ákvað ég að skella hér inn mínum eigin þýðingum á titlum þeirra kvikmynda sem sýndar eru í kvikmyndahúsum borgarinnar í dag. Ég leitaðist eftir fremsta megni við að halda í heiðri þær hefðir sem löngu voru fullmótaðar í æsku minni þegar enn tíðkaðist að íslenska kvikmyndatitla upp á hvunn einasta dag: Þriggja eða fjögurra orða nöfn með annaðhvort "í" "á" eða "og" um miðbikið. Stuðlar og innrím þóttu aldrei til lýta. Minna máli skipti hvort nokkur tenging væri við enska heiti myndarinnar. Eða við efni hennar yfir höfuð. Þeir lesendur sem hafa betri hugmyndir en neðangreindar eru eindregið hvattir til að liggja ekki á tillögum sínum.

Adrift - Allt á floti allsstaðar
Flyboys - Hasar í háloftunum
Open Season - Byssuleyfi og bjarnargreiðar
Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan - Borat: Menningarlegir lærdómar af Bandaríkin til góðs glæsileg þjóð Kazakhstan
The Departed - Bræður munu berjast
The Last Kiss - Hinsti kossinn
Fearless - Hasar í háloftunum
Barnyard - Í koti kátt
The Devil Wears Prada - Pilsvargar og prentsverta
Material Girls - Systur í slæmum málum
Jackass: Number Two - Asnakjálkar: Aftur í rassinn gripið
The Wild - Ævintýri í óbyggðum
The Queen - Í höllu drottningar
The Guardian - Hvert örstutt sundtak
Mýrin - Morð í Norðurmýri
Börn - Börn í borg óttans
by Hr. Pez

15 nóvember 2006


Ó!
Dagar!
Þið sem allir!
Eitt sinn voruð!
Dagar íslenskrar tungu!
by Hr. Pez

14 nóvember 2006


Ég átti alltaf eftir að benda á ágætt opið bréf frá Kolbeini Óttarssyni Proppé til Jónínu Bjartmarzz Umhverfisráðs og Einars K. Guðfinns Sjávarútvegsráðs í Mogganum á sunnudaginn var. Þar lagði hann út af eftirfarandi orðum Einars, sem finna má á heimasíðu hans:

Eða hvernig litist mönnum á ef ég segði; þessa tegund má veiða, en ekki þessa. Þetta vil ég friða – og af því bara. Það sjá allir fáránleikann í slíku; - nema auðvitað nokkrir íslenskir kaffihúsaspekingar.


Í framhaldinu benti Kolbeinn á það að við getum ekki leyft okkur að hafna tilfinningarökum meðan við ræðum veiðar á einni tegund en um leið tekið þau góð og gild sem ástæður til að taka ekki upp veiðar á öðrum tegundum. Og tók sem dæmi: á Íslandi eru fuglastofnar af stærð sem myndi vel veiðiálag í hóflegum mæli. Fuglastofnar sem veitt er úr á meðal margra nágrannaþjóða okkar og þykir þar sjálfsagt mál. Fuglastofnar eins og heiðlóa og spói. Ef við afskrifum alla nítjándu aldar rómantík og "ég-á-bú-í-berjamó" tilfinningavellu þá er með vísan í ofangreind orð ráðsins ekkert því til fyrirstöðu að selja veiðikort á kvikindin.

Ansvítans. Ég hefði viljað koma auga á þetta sjálfur fyrst. Og tek hatt minn ofan fyrir bréfritara fyrir vikið.
by Hr. Pez

10 nóvember 2006


Það er eitt sem ég hef ekki séð eða heyrt marga ræða eftir niðurstöður síðustu skoðanakannana.

Við getum kallað þetta góðar fréttir/slæmar fréttir.

Ef úrslit næstu kosninga yrðu í líkingu við niðurstöður síðustu skoðanakannana þá væri meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn.


Só far, só gúdd.

Hvað raunhæfasta mögulega tveggja flokka stjórnin samanstæði þá af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra.

Það finnst mér dálítið ógnvekjandi tilhugsun.
by Hr. Pez

08 nóvember 2006


Pissusálmur nr. 51

Í Listaháskólanum
er logagyllt sturtubað.
Og fólkið loggar sig inn
og fylgist með fréttunum
til þess að dæma um það.

Það er haust í lofti
og himinninn loðinn og grár.

Þetta er lagleg stúlka
með stert í hnakka
og stensluð skapahár.

Og maður með silfur í vöngum
segir við mig:

"Skyldi stúlkan nokkuð hafa faglegar og listrænar forsendur
til að láta míga á sig?"
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com