<$BlogRSDUrl$>

27 október 2006


Ja sjaldan er ein báran stök. Frúin hringdi í mig í gær og sagði mér að kötturinn væri horfinn. Það er ómögulegt, sagði ég. Þetta er inniköttur sem hefur ekki farið lengra en út á svalir á þriðju hæð (þegar veður leyfir) síðan við fluttum í Grafarvoginn. Og var reyndar orðin hálfgerður inniköttur fyrir - henni líkaði ekkert alltof vel við heiminn þarna úti, jafnvel þótt hún kæmist út til að skoða hann.

En reyndin er þessi. Hún er horfin. Gufuð upp. Jörðin búin að gleypa hana. Ekki einu sinni brosið eftir. Möguleikarnir eru þrír:
1) Hún gæti hafa sloppið fram á gang meðan ég skrapp að ná í dagblöðin í gærmorgun. Og þaðan út um útidyrnar seinna um daginn án þess að nokkur hafi tekið eftir henni. Ólíklegt.
2) Hún gæti hafa sloppið út á svalir í gær þegar Logi var settur út í vagninn. Og stokkið þaðan niður þrjár hæðir. Enn ólíklegra.
3) Hún gæti verið inni í skáp eða undir einhvurslags mublu. Ólíklegast af öllu, þarsem ekki hefur heyrst múkk í henni í vel á annan sólarhring núna. Nema hitt komi í ljós, að við finnum hana þá fyrst þegar hún fer að lykta.

Þetta. Er. Óskiljanlegt.

Hún var ekki einusinni með ól um hálsinn. Þess þurfti ekki. Hún fór aldrei út.

Allavega. Ef þú ert að þvælast í Grafarvogi og rekst á lítinn, feitan, gráan kött sem lítur nokkurnveginn svona út (ekki alveg samt (nefni sérstaklega að hún hefur hvíta skellu vinstra megin á snoppunni) - ég er ekki með rafræna mynd af henni við höndina) þá má viðkomandi... tjah... bara gleyma því. Þú nærð henni aldrei, held ég. Hún er fælin. Hún fælist... allt.

Þetta er hálfvonlaust eitthvað.

Annars skilst að það sé einhverslags alþjóðlegur bangsadagur í dag. Eygló með glænýja sendingu af böngsum á bókasafninu sínu og Hrefna átti að gjöra svo vel að mæta með bangsa í skólann í morgun. Í tengslum við það rakst ég á frétt um bangsavígin miklu sem voru framin í Englandi núna síðsumars.

Á dögum sem þessum kætir mann alltaf ofurlítið að geta lesið um ófarir annarra.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com