<$BlogRSDUrl$>

25 október 2006


Sorgarfréttir: Hún Gotta er dauð, blessuð kerlingin. Karl faðir minn gróf hana frammi í Reit í fyrradag. Stelpurnar fengu fréttirnar undir kvöldið í gær. Ég var því miður fjarri þegar það var en þær ku víst hafa tekið því af karlmennsku. Við Una ræddum þetta svo aðeins í morgun. Henni þótti þetta eðlilega mikil tíðindi.

Nú er tómlegt í Bakkahlíðinni og foreldrum mínum ku þykja skrýtið að heyra kvikindið ekki lengur bægslast frammi í þvottahúsi. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hundleysisástand vari lengi.

Ég man að foreldrar mínir eignuðust Gottu um svipað leyti og við Árný byrjuðum saman. Svona líður tíminn. Í denn tíð var Gotta fjörmikill svartur Labradorhvolpur. Undir það síðasta var hún afgamalt skar og skildi við södd lífdaga.

Þannig gengur það.

--Þannig gengur það.

Smá fróðleiksmoli að síðustu: Ef ég man rétt þá hét hún í höfuðið á bátnum sem flutti fyrstu hreindýrin til Íslands. Síðar var sá bátur fyrsti róðrarbáturinn sem faðir minn var munstraður á sem ungur maður.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com