<$BlogRSDUrl$>

13 september 2006


Ýmsir hafa verið að velta fyrir sér því þegar Kastljósið sýndi upptöku úr öryggismyndavél á mánudagskvöldið var: af unglingsstrák sem lagði öryggisvörð á bensínstöð rýtingi í bakið.

Ég spurði sjálfan mig að því undir téðum Kastljóssþætti hvort mér þætti þetta bara allt í lagi. Ég læt vera með myndbirtingar úr öryggismyndavélum af fólki sem "lögreglan óskar eftir að veiti aðstoð" (nudge nudge) í óupplýstum sakamálum. En við einmitt þessa myndbirtingu stakk mig þetta tvennt: aðdragandi og framkvæmd hnífsstungu voru sýnd í sjónvarpi allra landsmanna, hnífsstungu þar sem gerendur voru þegar búnir að gefa sig fram við lögreglu. Málið fastaðþví upplýst. Hvert var fréttamatið sem lá að baki sýningu myndskeiðsins? Hverju erum við nær við að sjá nákvæmlega hvernig öryggisvörður í Breiðholti var rekinn rýtingi í bakið?

Ég ræddi þetta við konuna mína og hún benti mér á að þetta hefði jú verið í stærra samhengi: að búið var að beina Kastljósinu að daglegu amstri lögreglumanna í Reykjavík alla helgina. Fyrir rest fannst mér að það væri kannski hægt að sjá í gegnum fingur sér með þetta eins og á stóð. En ég var samt með hálfgert óbragð í munninum yfir þessu. Það er auðvelt að verða hált á svellinu í grennd við svonalagað.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com