<$BlogRSDUrl$>

20 september 2006


Ég hef fylgst með fréttum af valdaráni hersins í Tælandi.

Ég get ekki að því gert: Það er eitthvað næstum því sætt við land þar sem leikreglur valdaráns eru svo skýrar að meiraðsegja undirleikurinn er fyrirfram gefinn.

"Næst mun sinfóníuhljómsveit ríkisútvarpsins leika valdaránskonsert fyrir þríhorn og pípuorgel eftir Plúmp, ópus 32."

Valdaránstónlist. Orð dagsins.

---

Annað orð dagsins: Frumtvíkímblöðungar.

Já, ef ég vissi þetta einhverntíma fyrir, þá var ég búinn að gleyma því: Lítill hluti dulfrævinga (magnólíur, lárviður og nokkrar tegundir í viðbót) fellur utanvið hina hefðbundnu skiptingu blómplantna í ein- og tvíkímblöðunga. Erettekki merkilegt.

---

Bíllinn okkar var á verkstæði yfir nóttina. Einhver aftursætispúki kveikti á dyraljósinu afturí í fyrrakvöld. Ekki var nóg með að bíllinn væri straumlaus þegar við vöknuðum í gærmorgun, heldur hrundi blessað nýmóðins tölvukerfið þegar rafmagnið tæmdist af geyminum. Það þurfti að draga bílinn niður í umboð til að "ríbútta."

Þar fór tuttugogfimmþúsundkall í eitthvað sem í þá gömlu góðu daga var hægt að leysa með startköplunum einum saman. Vill einhver selja okkur Lödu Sport? Fólksvagenrúgbrauð? Trabant?

Púff.

Hálfasnalegt annars að ekki sé hægt að hanna bíla eins og fartölvur og GSM-síma: að hugbúnaðurinn fari í neyðarlokun áður en allt er búið úr batteríinu.

---

Á leiðinni heim með strætó stóð ég með þeirri yngri á Hlemmi þegar Eyþór Arnalds skokkaði hjá á stuttbuxum og strigaskóm. Hann leit ósköp vel út karlinn, fyrir utan baugana. Mér skilst að hann hafi lést um einhverja tugi kílóa síðan í vor sem leið. Ég bíð spenntur eftir Séð-og-heyrt fyrirsögninni: "Ökuleyfismissirinn það besta sem hefur komið fyrir mig! Sjáið myndirnar! Fyrir! Eftir!"
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com