<$BlogRSDUrl$>

29 september 2006


Hálfa myrkrastundin í gærkveldi var geðþekk. Við hjónin slökktum ljósin og opnuðum út á svalir. Heyrðum "VÁÁÁ" í unglingunum sem ráfuðu um hverfið með vasaljós þegar götuljósin slokknuðu. Samt dró næsta lítið niður í menguninni: Kveikt á ríflega öðruhverju svalaljósi í næstu húsum og bílar að leggja og taka af stað frá stæðunum í grennd. Við horfðum fyrst á hina meintu myrkvun í sjónvarpinu. Það var svo "meira ekta svoleiðis," eins og skáldið sagði. Sáum viðtal við Andra Snæ gegnum innrauða linsu: "Maður á nú eftir að venjast þessu." Svo slökktum við á því líka. Kveiktum á útvarpinu. Og slökktum. Fórum út á svalir og mændum upp í appelsínugula skýjahuluna. "Jú þarna uppámilli. Sjáðu. Fjórar stjörnur. Nei fimm. Horfðu til hliðar við þær, þá sérðu, voða daufar." Fórum inn. Lokuðum. Sátum í stofusófanum í rökkrinu og pískruðum hálfum hljóðum. Þögðum. Pískruðum. Þögðum. Ég missti af götuljósunum kvikna aftur; alltíeinu voru þau bara þarna. "Litlu munaði," sagði músin.

Það var kósí. Það var næs. Maður ætti að gera meira af þessu: að slökkva á öllu heima hjá sér, bara til að njóta myrkursins innan eigin veggja. Líma svarta plastpoka á rúðurnar eins og Hakinn gerði á Nýja Garði forðum daga.

---

Þegar ég bjó á Nýja Garði kom fyrir að ljósin í sturtuklefanum voru óvart slökkt utan af gangi meðan ég var í sturtu. Það var niðamyrkur. Ekki handa sinna skil. Stundum kallaði ég fram og bað um að kveikja. Sjaldnast nennti ég því. Það var eitthvað óútskýranlega þægilegt við að standa undir rennandi vatninu í kolniðamyrkri. Sjá hvorki sjálfan sig né nokkuð annað. Það kom fyrir að ég sleppti að kveikja ljósið áður en ég fór inn og læsti að mér. Tróð handklæði uppað þröskuldinum. Einusinni rak einhver sig í takkann frammi og kveikti. Ég gekk ekki það langt að kalla fram og biðja um að slökkva aftur.

Þetta er ábyggilega eitthvað mjög freudískt: Vatnið og myrkrið. Leitin að móðurkviði eða eitthvað. Vottever: Vott. Eilíft.

---

Púff. Slakaðu á í táknrænunni hérna maður.

---

Ástæðuna fyrir Magnatoppnum má finna hér og líka hér (með mynd): Ég leik gamla geit í einþáttungi í dagskrá Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum á þriðjudags- og fimmtudagskvöldið í næstu viku. Allir hvattir til að mæta, vitaskuld.

---

Þegar ég gekk upp landganginn yfir Mýrina hans Ólafs í morgun var ég rétt á eftir einum úr lögfræðingateymi fyrirtækisins. Hann var með þykkan skjalabunka í úttroðinni möppu undir handarkrikanum; hafði greinilega þurft að taka vinnuna heim með sér. Í smástund langaði mig til að spyrja hann hvort ekki hefði verið sniðugra að afrita þetta fargan bara á harðan disk og taka með sér heim. Ég er ekki viss um að honum hefði þótt það fyndið.

---

Meistari, hvernig fannst þér semíkomman?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com