<$BlogRSDUrl$>

21 september 2006


Einhverjir hafa verið að ergja sig yfir hugmyndum Jónínu Bjartmarz um að flytja Náttúrufræðistofnun og Náttúrugripasafnið á Keflavíkurflugvöll.

Mér finnst þetta frábær hugmynd.

Það er nú orðinn dágóður tími síðan ég las Draumalandið. En ef ég man rétt þá eyddi Andri Snær þar tölverðu púðri í að velta upp ýmsum skemmtilegum möguleikum sem hægt yrði að koma í framkvæmd á Miðnesheiði þegar herinn færi. Það var augljóst á máli hans að listinn var ekki tæmandi; hann var ekki einusinni tæmanlegur.

Að taka Náttúrufræðistofnun og Náttúrugripasafn úr sínum niðurdrepandi rottuholum við Hlemm og gefa hvártveggju allt það rými sem þarf úti á Miðnesheiði finnst mér vera besta hugmynd sem ég hef heyrt í tengslum við brotthvarf hersins frá upphafi umræðna um herlaust Ísland. Það vita allir sem vilja að Náttúrugripasafnið er ömurlega í sveit sett þar sem það er. Áratugum saman erum við búin að barma okkur yfir því hversu illa sé komið fyrir því. Og Náttúrufræðistofnun. Ég hef komið inn á Náttúrufræðistofnun. Þeir geta notað plássið þar líka, krakkarnir.

Það á að reisa "þekkingarþorp" í Vatnsmýrinni. Troða niður "upplýsingarhverfi" í Kópavogi. "Fræðasetri" að Hvammi í Dölum (nei reyndar ekki, en samt...). Og á meðan bíður allt þetta rými eftir að verða tekið í notkun fyrir eitthvað séníalt. Algjörlega brilljant. Hví ekki að nota akkúrat þetta tækifæri til að veita Náttúruminjasafninu sömu yfirhalningu og Þjóðminjasafnið fékk fyrir nokkrum árum? Í nánast hvert einasta skipti sem ég fer til útlanda reyni ég að snapa uppi náttúruminjasafnið á staðnum og sjá hvernig útlendingurinn gerir þetta. En ég hef aldrei komið á Náttúruminjasafnið við Hlemm. Ég bara get ekki hugsað mér að leggja það á mig. Ég skammast mín dálítið fyrir að hafa ekki farið, en ekki nándar nærri jafn mikið og ég óttast að ég myndi skammast mín sem Íslendingur fyrir lífsreynsluna ef ég færi.

Hugsið ykkur túrismann. Ég sé fyrir mér vísinda- og fræðahring um Suðurnesin sem yrði engu ómerkari en "Gullni Hringurinn" (sic) um Suðurlandið: Það yrði stoppað að sjávarsetrinu í Sandgerði og fræðst um lífríki sjávarins. Svo yrði brennt upp á Keflavíkurflugvöll til að skoða nýtt og stórglæsilegt Icelandic Natural History Museum. Með í hringnum væru, til dæmis, hverasvæðin við Reykjanesið eða Krísuvík. Það væri hægt að benda á náttúruperluna í Straumstjörnum í Straumsvík: einu ferskvatnstjarnirnar á vesturhveli jarðar þar sem gætir sjávarfalla. Það yrði stoppað hjá brúnni milli heimsálfanna (eins ómerkilegt gimmikk og það annars er, þá svíngengur það í túrhestana). Og svo yrði náttúrulega farið í sund, annað hvort í The Blue Lagoon eða í "Vatnagarðslífsreynslunni" í Keflavík.

Það eina er að ég er dálítið gáttaður á að þessi frábæra hugmynd skuli koma úr herbúðum Framsóknar, af öllum stöðum. Sennilega höfum við Jónína bara verið að lesa sömu bækurnar upp á síðkastið.

En það gildir einu hvaðan gott kemur. Mér finnst við ættum að stökkva á þetta.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com