<$BlogRSDUrl$>

19 september 2006


Ég var að keyra í bæinn onúr Grafarvoginum um kvöldmatarleytið einn ofur venjulegan vikudag. Rétt ofan við Ártúnsbrekkubrúnina færði ég mig yfir á vinstri akrein til að síga framúr einum sem skömmu seinna beygði svo upp rampinn uppá brúna við Húsgagnahöllina. Annars var hvergi bíll í sjónmáli. Ég lá uppundir níutíu - gætti þess að halda mig ekki hærra yfir leyfilegum hámarkshraða en svo að hettumáfinum þætti ekki taka því, jafnvel þótt hann vakti oní Elliðaárdalnum. Í versta falli slyppi ég með "jæja væni minn, hvað á þetta nú að þýða."

Í því sem ég ek undir Ártúnshöfðabrúna tek ég eftir að í baksýnisspegilinn er skyndilega kominn sportlega vaxinn bíll. Með sportlega vaxinn ökumann við stýrið. Það var eitthvað óþreyjufullt við svipinn á kauða - honum fannst ég vera fyrir sér.

Sem ég var.

Og hann blikkaði mig. Bað mig sumsé með atferlistáknmáli ökutækja allranáðarsamlegast að vera ekki fyrir sér - ég ætti að drulla mér frá. Svo ég færði mig yfir á hægri akrein og horfði á hann þruma á undan mér niður Ártúnsbrekkuna, sennilega eitthvað yfir hundraðinu.

Í smástund var ég argur og forviða yfir aksturslaginu á ungdómnum í dag: Hvað er þetta að gera með próf á drápstæki og svona. Svo hugsaði ég að kannski væri hann bara að flýta sér útaf einhverri voða góðri ástæðu - kannski lá honum lífið á. Ég vissi það ekki. Ég gat ekki dæmt um það.

Það sem ég gat dæmt um var það hvernig hann tók framúr mér. Hann hefði getað lagst á flautuna fyrir aftan mig. Hann hefði getað tekið framúr mér hægra (les: öfugu) megin og jafnvel steytt hnefann í áttina að mér í leiðinni. En nei, hann blikkaði á mig háuljósunum í tvígang: "Þú ert fyrir mér. Þú hefur ekkert að gera hérna vinstra megin væni minn." Sem var alveg rétt hjá honum: ég lúrði á vinstri akrein meðan sú hægri var alveg marauð. Reyndar ekki nema örfáar sekúndur, en samt.

Svo eftir á að hyggja var ég bara dálítið ánægður með hann strákinn. Óskaði honum allra heilla í hverjum þeim erindum sem hann átti.

Leiðin var greið alla leið vesturúr.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com