<$BlogRSDUrl$>

29 júní 2006


JAHÚÚÚ! ÆÐISLEGT! MEIRIHÁTTAR!

Ég er í sjöunda himni. Ég trúi þessu varla. Throwing Muses eru að koma og spila á Innipúkanum. Þetta er nokkuð sem maður má telja sig heppinn að gerist einu sinni á ævinni.

Það flækir málin reyndar aðeins að frúin er sett á nánast sama dag og þau eiga að spila...

En ég er samt búinn að kaupa miða. Þetta verður þá bara að fara einhvernveginn. Ég verð með gemsann á mér og passa mig að standa nærri útganginum. Nema náttúrulega að allt verði brostið á - þá verður jú svo að vera og gleðin engu minni fyrir vikið. Kannski ég auglýsi miðann þá gegn vægu endurgjaldi á síðustu stundu. Eða bara gefins.

---

Svo er ég líka að fara að sjá Ham á Nasa í kvöld. Þetta er brjálað tónleikasumar hjá manni - þeir verða minnst (vonandi) fernir tónleikarnir þegar upp verður staðið.

En varla fleiri - þá fer þetta nú sennilega að verða gott.

---

Hrefna er í sumarbúðum þessa vikuna hjá Ömmu Fríðu með Fríðu Björgu frænku sinni. Eintóm hamingjugleði og fer ekkert fyrir þeim efasemdum lengur sem hrjáðu hana fyrir síðustu helgi. Á laugardaginn rennum við Una norðureftir og sækjum þær stöllurnar. Una kemst á bak í leiðinni og frúin fær rúman sólarhring til að liggja uppi í rúmi og hvílast.

---

Helgina sem leið var annars ættarmót að Hrafnagili. Sofið í tjaldi og leikinn Kubbur. Ættarmót eru ósköp sjarmerandi, á sinn indælis hallærislega máta.

---

Annað í fréttum: Í dag er sjötti í kaffipásu. Nú loks er mér farið að finnast eins og það versta sé búið. En enn á ég til að gleyma mér og byrja vinnudaginn á að ganga í átt að maskínunni í mötuneytinu.

Þetta kemur alltsaman.

---

Að lokum fyrir þá sem eru svangir: Niðursoðnir kettlingar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com