<$BlogRSDUrl$>

16 júní 2006


Ekki stefnir í björgulega þjóðhátíð hérna sunnanlands. En samt skal haldið niðrá Austurvöll í fyrramálið. Verst að það verður sennilega fullblautt á því fyrir almennilega fánabrennu. Innan stundar legg ég af stað á sumarhátíð á leikskólanum. Það verður aldeilis gaman að grilla í blíðunni.

Með orðum skáldsins: Svo kemst ég ekki aftur í vinnuna! Fyrr en á mánudaginn!!!

---

Aftur leið vika. Og í þetta skipti ögn meira meðvitað en síðast. Það er sumar. Þetta blogg er komið á sumartíma og keyrir því á umþaðbil fjórðungsafköstum fram í ágúst. Þá gæti það orðið enn stopulla um stund áður en þéttist á ný.

---

Rithöfundardraumar liggja í láginni sem stendur (fyrst spurt var) - ég hef varla skrifað stafkrók af viti í rúmlega ár (fyrir utan (að mér fannst) skemmtilegar tilraunir á upptækt-blogginu og ofurlitla leikfimi í framhaldi af því). Ég er reyndar þessa dagana að reyna mig við að skrifa tvær af sögunum mínum upp sem einþáttunga - þetta er hugmynd sem kviknaði í framhaldi af þátttöku minni í Hugleik í vor sem leið. Annar yrði um 10-15 mínútur fyrir tvo leikara, hinn yrði tragíkómískur einleikur uppá umþaðbil þrjú kortér.

Mig hefur alltaf langað til að prófa að skrifa leikrit.

Annars stressa ég mig ekki svo mikið á þessu - ég er á fullu við skemmtilegar og spennandi pælingar í dagvinnunni sem stendur en gæli við að taka mér tíma til skrifta næsta vetur og vor. Ef ekki, þá það.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com