<$BlogRSDUrl$>

26 maí 2006


Það var hringt í mig úr leikskólanum í morgun: Hrefna var með gat á hausnum eftir að hafa fengið grjót í ennið. Ég fór með hana í leigubíl upp á slysavarðstofu (henni fannst mikið sport að fara í leigubíl - alltaf gaman að prófa svonalagað í fyrsta skipti þótt kringumstæðurnar séu ekki þær skemmtilegustu) þar sem saumuð voru í hana tvö spor.

Hún stóð sig eins og hetja. Ég á varla orð til að lýsa hörkunni og dugnaðinum í stelpunni.

Núna er hún heima með móður sinni - henni var lofað súkkulaðikexi eftir spítalaferðina og hún er eflaust búin að taka það út. Verst að hún missir af sundtímanum sínum núna síðdegis. En hún verður fær í flest klórblandað vatn strax eftir helgi.


Í gær bar helst til tíðinda að stigagangurinn tók sig saman, ruttaði út úr hjóla- og dótageymslunum og málaði geymslusvæðið í kjallaranum hátt og lágt, í hólf og gólf. Góða skapið réði ríkjum og verk unnust fljótt, vel og í miklu bróðerni. Þetta var eins og í hinum bestu ódýru dagsápum.

(Graaannaaar, allir þurfa góða graaaannaaaaa...)

Allt kláraðist (og meira til) nema seinni umferðin af lakki á gólfið - hún verður tekin í kvöld. En þá verð ég staddur í Færeyjum.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com