<$BlogRSDUrl$>

02 maí 2006


"Our goal was simply to push back self-imposed limits on expression that seemed to be closing in tighter."
- Flemming Rose, ritstjóri Jótlandspóstsins í Washington Post, nítjánda febrúar síðastliðinn.


Sjálfsritskoðun. Orð sem var mjög í umræðunni fyrir nokkrum vikum og mánuðum. En nú er öllum orðið sama aftur.

Það hversu hörð við erum við sjálf okkur dæmist vitaskuld ekki af því hversu auðvelt við eigum með að níðast á launhelgum annars fólks. Heldur af því hversu órög við erum að níða launhelgar okkar sjálfra.

Svo í kjölfar moldviðrisins fyrir margt löngu í kringum Múhameðsmyndir Jótlandspóstsins (sem ég er deildra meininga um sjálfur, sé punktana beggja vegna borðs og togast dáldið á milli þeirra) fór ég að hugsa: Hvað er mér tabú?

Sá sem vill í alvörunni gera tilraun í sjálfsritskoðun ætti í upphafi ekki að gera hana á neinu öðru en því sem honum sjálfum er heilagt. Þetta ætti að vera nokkurs konar "fyrsta fasa" tilraun. Í framhaldi af því gæti viðkomandi kannski farið að æfa sig í rétti sínum til að gera grín að öðru fólki.

Svo ég spurði sjálfan mig: Er til nokkurt það tákn svo heilagt að ég gæti hneykslast ef það yrði svívirt? Það má ekki vera hvað sem er - táknið sjálft verður að vera virðislaust í sjálfu sér. Verknaðurinn verður að vera skaðlaus í þeim skilningi að ekkert líf ber skaða af. Engar peningalegar eignir (a.m.k. ekki verulegar) mættu spillast við gjörninginn. Þetta útilokar tildæmis myndbirtingu barnakláms í fjölmiðlum, einsog Eiríkur Örn Norðdahl ræddi í grein sinni um málfrelsið og Gunnar í Krossinum. Þetta útilokar skemmdir á táknrænum byggingum eða listaverkum sem eru tákn í sjálfu sér: Hallgrímskirkju. Útilegumanninum. Standmyndinni af Óla Thors við Tjarnargötuna (þótt það yrði reyndar mikil guðsblessun ef einhver tæki sig til og bræddi þann dómadagshrylling í tannfyllingar).

En hérna er eitthvað að potast: We might be on to something.

Við erum jú dálítið svag fyrir þjóðernisstoltinu.

Reykjavík Grapevine gerði á sínum tíma mun athyglisverðari tilraun með málfrelsið en Jótlandspósturinn nokkru sinni, þegar það birti mynd af þeldökkri fjallblökkukonu á forsíðu sinni. Íslenska þjóðdansafélagið og aðrir þúfnapálar supu hveljur og þær raddir heyrðust í fúlustu alvöru að "svona gerði maður ekki!" Þetta væri til háborinnar skammar.

Muniði þetta ekki?

En þetta er nú samt hálfgert súkkat: Hin meinta árás á þetta tákn íslensks þjóðernisstolt var jú gerð af "aðkomumönnum," þetta var nú varla tilraun með sjálfsritskoðun þannig. Undir vissu sjónarhorni lenti þessi tilraun á bási með Múhameðsmyndunum.

En athyglisverð tilraun engu að síður.

Hvað annað er hægt að gera? Hvurt annað tákn er okkur heilagt?

Íslenski fáninn?

Ég man enn þegar það birtust myndir í vikunni eftir upphaf seinna Íraksstríðs, af ungmennum að brenna íslenska fánann á Ráðhústorginu í Köben: Mér leið dálítið eins og ég hefði verið kýldur í magann.

Af hverju? Nú er í sjálfu sér ekkert ólöglegt við að brenna íslenska fánann. Ekki nóg með það: Samkvæmt sautjándu grein reglugerðar um notkun og meðferð þjóðfána Íslendinga ("Reglur fánanum til verndar") er til dæmis helber skylda hvers þjóðrækins Íslendings að brenna íslenska fánann, ef hann hefur spillst svo að ekki verður annað að gert.

Eftir því sem ég kemst næst.

Gerum núna dálitla Gedankenexperiment:

Hver sá sem reddar sér krambúleruðu eintaki af íslenska fánanum getur í raun farið með hann á einhvern góðan stað undir berum himni (tjah, til dæmis Austurvöll), úðað yfir hann grillkveikilegi og kveikt í öllu heila klabbinu á almannafæri. Þetta þyrfti ekki að vera nein óvirðing við fánann þannig lagað og því ekki ólöglegt: Skemmdir fánar skulu brennast. Um leið er notað tækifærið til að gera athyglisverða tilraun með sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi. Sumum fyndist kannski hálffurðulegt að gera tilraun með rétt sinn til að segja ekki neitt. En það er engu síður nauðsynlegt en að kanna réttinn til að segja það sem brýtur í bága við almannasamþykki - ef þú mátt ekki segja hluti án inntaks, afhverju ættirðu þá von á að mega segja það sem fer fyrir brjóstið á öðru fólki?

Þá er það spurningin: Ef maður léti boð út ganga að á þessum eða hinum tímanum ætli einn eða fleiri að mæta á opinberan stað og brenna íslenska fánann, myndi það vekja viðbrögð?

Kannski hneykslun einhverra. Reiði jafnvel? Ég er heldur ekki sannfærður um að lögreglan myndi láta uppátækið afskiptalaust ef hún hefði veður af því. Og það athyglisverða var að um leið og ég fór að hugsa um þetta sem eitthvað sem hægt væri að gera, að það væri hægt að tala um þetta í einhverju meira en djóki, þá fór ég um leið að ritskoða sjálfan mig: "Nei maður gerir ekki svona er það," spurði ég mig. "Einhverjir myndu ábyggilega vilja kæra mann eða eitthvað, hringja í mann um nætur og hafa í hótunum."

Samt ekki eins og ég óttaðist að æstur múgur færi að grýta byggingar eða neitt. Ekki svoleiðis, við gerum ekki þannig. Allavega ekki síðustu sextíu árin.

En ég fann það á sjálfum mér að ég var ragur við að viðra þessa hugdettu. Ég tvísté með hana í nokkrar vikur og var loks nærri búinn að gleyma henni. Sem segir mér allavega eitthvað um sjálfan mig, þótt ekki sé nema.

En hér er hún komin. Sem leiðir að minni seinni spurn:

Myndir þú, fyrir tilraun í tjáningarfrelsi og sjálfsritskoðun, vera til í að brenna íslenska fánann?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com