<$BlogRSDUrl$>

18 maí 2006


Kvöldið í kvöld verður skemmtilegt á að horfa. Mér sýnist allt stefna í það.

En hvernig fer þetta svo?

Bosnía/Hersegóvína er algjörlega garanteruð áfram - það er útilokað að balkneska rómantíkin klikki. Finnsku skrímslarokkararinir eiga líka að vera nokkuð öruggir með þetta - þótt ég sjái nú ekki í hendi mér að Evróvisjón verði í Helsinki árið 2007 ætti finnska númerið að hafa næga sérstöðu og költstatus til að verða meðal 10 efstu í kvöld.

Evróruslið er enn það sterkt að ég held að nokkur lög úr þeim skólanum ættu að komast áfram. Hún Tina Karol ku vera að gera góða hluti fyrir Úkraínu og fer nokkuð örugglega áfram. Hún er líka svo mikill, öh, listamaður. Sennilega munu lögin frá Tyrklandi, Belgíu, Makedóníu og Slóveníu komast áfram líka. Dima Bilan er nokkuð öruggur áfram með sitt rússneska pródúsentapopp. Og ég gæti alveg trúað armenska númerinu til að koma á óvart.

Það er eitt risastórt spurningamerki hvernig henni Silvíu Nótt verður tekið. Hún gæti átt eftir að taka kvöldið með trompi. En hún gæti líka lent í sextánda sæti. Samt, með henni er ég kominn með lista yfir þau tíu lönd sem ég spái áfram eftir kvöldið. Þótt svo fari ekki verð ég samt yfir mig ánægður ef númerið verður annaðhvort a) skemmtilegt eða b) risavaxnasta fíaskó sem sögur fara af frá upphafi. Hvorttveggja í senn er líka ánægjulegur möguleiki.

Maður þarf ekki að lifa í voninni. En stundum er það bara skemmtilegra svoleiðis.

Ég vek athygli á að sænsku drottningarnar tvær eru úti í kuldanum. Ég held að Karóla verði Selma ársins. Og Sandra Oxenryd mun ekki ná að abba sér og Eistlandi yfir á laugardagskvöldið (Er riffið ekki alveg örugglega úr "Does your mother know?" Eða er þetta kannski "Voulez-Vous" riffið á helmingi minni hraða?). Önnur hvor þeirra gæti þó sloppið inn á kostnað einhvers úr evróruslpakkanum (nema Úkraínu).

Mér finnst írska lagið hreinasta hörmung. En hann Bwian gæti samt stolist inn á kostnað einhverra af sætu strákunum (Armeníu eða Slóveníu), sérstaklega ef evróvisjónömmurnar nenna að hringja inn og senda SMS. Hann er alveghreint right up their alley. Svo hugsa ég til þess með skelfingu að það er ekki útilokað að kýpverska bimbóið komist áfram.

Aðrir held ég að geti bara fengið sér rettu og gleymt þessu.

Sérstök persónuleg uppáhöld sem komast pottþétt ekki áfram en sem enginn ætti að missa af eru frá Andorra, Albaníu og Litháen. Ef hin íturvaxna Jennifer syngur í roðagyllta korselettinu er ég alvarlega að íhuga að taka upp á víðgesjón fyrir sjálfan mig. Það stefnir í að hinn albanski Luiz Ejlli verði svo hallærislegur að það verði dýrðlega krúttlegt. Og litháenska númerið held ég í alvöru að verði mjög skemmtilegt (og flott í tauinu): í sanngjörnum heimi væri möguleiki að LT United gæti stolið húmorsætinu af henni Silvíu.

Annað er frá því að vera afskaplega óinteressant og lítt spennandi pissupásupopp (Portúgal, Holland, Mónakó) yfir í það að vera svo slæmt að það væri glæpur gegn lágmenningunni að missa af því (Pólland, Búlgaría, Hvíta Rússland).

Og þá er það upptalið.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com