<$BlogRSDUrl$>

21 apríl 2006


Jæja alltílagi. Gleðilegt sumar.

Páskafríið var fínt - við dvöldumst fyrir norðan í góðu yfirlæti. Hittum suma og höfðum spurnir af öðrum. Sáum afskaplega ómerkilega (en ekki endilega alvonda) mynd í bíó.

Una var fljót að uppgötva að hjá ömmu Fríðu eru lásar á hurðum. Hún lék sér með það óspart. Einu sinni var hún búin að læsa sig inni í vinnuherberginu hennar ömmu sinnar og ég óttaðist mest að hún gæti ekki opnað sjálf aftur. Var búinn að ná mér í lykil.

"Una mín," kallaði ég til hennar. "Viltu ekki opna?"

"Nei!" svaraði hún, ósköp létt og glöð í bragði. Eftir dálitla þögn fannst henni greinilega að hún þyrfti að skýra mál sitt aðeins betur:

"Ég er ósanngjörn!"

Svo leið ofurlítil stund í viðbót og hún opnaði sjálf. Birtist glottandi í gættinni.

Æ síðan hefur mér þótt þetta góð afsökun fyrir þann sem hegðar sér ekki eins og hann veit að hann ætti að gera.

"Fyrirgefðu en ég ræð ekki við þetta. Ég er bara svona ósanngjarn."
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com