<$BlogRSDUrl$>

28 apríl 2006


Fyrir utan að ég var nærri búinn að gleyma: táknrænan í armenska myndbandinu heillaði mig á einhvern illskiljanlegan, martraðarkenndan máta. Hvað var málið með þessa silunga í 69-stellingunni og logandi granatepli? Vegg af hvítum, misopnum skúffum...?

...það var eitthvað óhugnanlega dáleiðandi við þetta.

Eða bara fyndið, ég veit það ekki alveg.
by Hr. Pez


Evróvisjónsblogg?

Eiginlega ekki, ekki þannig.

Ég sá þáttinn síðasta laugardag og vil nú ekki vera að fara of nákvæmlega yfir þetta. Þó segi ég að uppáhaldslögin mín úr þessum fyrsta fjórðungi koma frá Andorra og Albaníu. Albanski fimmhundruðkallinn hefur yfir sér mikinn indælis sveitasjarma. Vonandi koma frændur hans með honum til að gaula undir og spila á etnískar flautur. Og frá Andorra kemur kynþokkafyllsta kona keppninnar það sem af er. Sem syngur líka ágætlega.

En vitaskuld fer hvorugt þeirra áfram.

Frekar myndi maður veðja á svíatrassið frá Belgíu og hvítrússneska klámpoppið. Jafnvel sæta strákinn með hárgreiðslurnar og standpínukragann frá Slóveníu. Annað var hörmung - kýpverska Mariah-Carey-lúkkalækið opnaði eyru mín fyrir því að það er ekki hægt að kaupa góða söngrödd með því að sprauta sílikoni í raddböndin. Hvað þá lagasmíðahæfileika með skammti af því sama í innra eyrað. En um tíma hefði ég reyndar þegið sílikontappa í hlustirnar. Írska lagið var svo grátlegt að það var fyndið. Þau frá Armeníu og Búlgaríu voru skárri, en óintressant.

---

Tónleikarnir í gær? Þeir voru meiriháttar. Æðislegir. Besta brúðkaupsgjöf sem ég hef fengið í nærri sjö ár. David Gedge er mikill listamaður. Það voru mikil gleðitíðindi og blessun fyrir rokksöguna þegar hann hætti að vera hamingjusamlega giftur og varð aftur einhleypur, óhamingjusamur og ástlaus nörd og minnipokamaður.

---

Tónleikarnir á morgun leggjast vel í mig. Um kvöldið verður árshátíð kórsins, svo frúin verður að taka upp úr kassanum fyrir seinni tíma.
by Hr. Pez

25 apríl 2006Það var spjallað á Jómfrúnni í hádeginu við sjötta mann. Og gerður góður rómur. Í leiðinni skrapp ég í 12 tóna og náði mér í miða á Wedding Present tónleikana á fimmtudagskvöldið kemur.

Þetta verður gaman.

Svo nota ég tækifærið og vek athygli á hinum tónleikum vikunnar, þeim á laugardaginn (sjá mynd). Það verður líka gaman. Fyrsta æfing í Langholtinu var í gærkveldi og ég held ég hafi bara aldrei heyrt kórinn hljóma betur. Og þá er allnokkuð sagt.
by Hr. Pez

24 apríl 2006


Afsakið að ég sé ekki með neitt Evróvisjónsblogg í dag.

Ég er ósanngjarn.
by Hr. Pez

21 apríl 2006


Jæja alltílagi. Gleðilegt sumar.

Páskafríið var fínt - við dvöldumst fyrir norðan í góðu yfirlæti. Hittum suma og höfðum spurnir af öðrum. Sáum afskaplega ómerkilega (en ekki endilega alvonda) mynd í bíó.

Una var fljót að uppgötva að hjá ömmu Fríðu eru lásar á hurðum. Hún lék sér með það óspart. Einu sinni var hún búin að læsa sig inni í vinnuherberginu hennar ömmu sinnar og ég óttaðist mest að hún gæti ekki opnað sjálf aftur. Var búinn að ná mér í lykil.

"Una mín," kallaði ég til hennar. "Viltu ekki opna?"

"Nei!" svaraði hún, ósköp létt og glöð í bragði. Eftir dálitla þögn fannst henni greinilega að hún þyrfti að skýra mál sitt aðeins betur:

"Ég er ósanngjörn!"

Svo leið ofurlítil stund í viðbót og hún opnaði sjálf. Birtist glottandi í gættinni.

Æ síðan hefur mér þótt þetta góð afsökun fyrir þann sem hegðar sér ekki eins og hann veit að hann ætti að gera.

"Fyrirgefðu en ég ræð ekki við þetta. Ég er bara svona ósanngjarn."
by Hr. Pez

14 apríl 2006


Föstudagurinn langi og flaggað í hálfa stöng út um alla Agureyris.

En þetta er það sem ég vildi vita:

Skyldi flaggað í Borgarnesi í dag?
by Hr. Pez

07 apríl 2006


Ég er farinn í páskafrí.
by Hr. Pez


Látinn er í Skotlandi Svanur Svansson, atvinnuferðalangur og sveimhugi. Svanur var að ljúka vetrardvöl sinni á Bretlandseyjum og var tekinn að tygja sig til heimferðar þegar H5N1, hið mannskæða afbrigði fuglaflensunnar dró hann til dauða, langt fyrir aldur fram.

Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.

Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hans er bent á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þó svo ekki hafi nokkur maður hingað til smitast beint af farfuglum er engu að síður rétt að taka fram að niðursoðnar kjötvörur, hrökkbrauð og átappað vatn fást í takmörkuðu upplagi í öllum betri nýlenduvöruverslunum.
by Hr. Pez

06 apríl 2006


Nú er slétt vika síðan ég lauk lestri á Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason.

Við þá sem enn hafa ekki lesið hana er ekki hægt að segja neitt annað en drífa sig. Þetta er mikilvægasta bók sem rituð hefur verið á íslenska tungu svo áratugum skiptir. Ég sá einhvern leita aftur til Atómstöðvarinnar eftir Nóbelskáldið og þótti ekki galið. Þetta er bók sem krefst þess af lesandanum að hann taki afstöðu - ekki endilega með sér eða á móti (sem er einmitt eitt af mörgu sem hún gagnrýnir - þessi þröngvun orðræðunnar í hverju máli í átt að tveimur andstæðum pólum) heldur að hann marki sér sína eigin. "Hugsaðu," segir hún. "Ekki láta aðra segja þér hvað þér finnst. Stattu fyrir máli þínu." Vangaveltur hennar um veru og brotthvarf bandaríska hersins af Miðnesheiði eru sérdeilis skondnar í ljósi þeirra tíðinda sem urðu í sömu viku og hún kom út ("þetta var allt planað," sagði hann, "ég stólaði á þetta"). Og hrópin eftir álveri í Helguvík í kjölfarið hálfu meira hrollvekjandi fyrir vikið ("hvað á allt þetta fólk að gera?").

Þessi bók er Gúlageyjaklasi íslenskra bókmennta. Bilív ðö hæp - lestu hana strax ef þú átt það eftir.
by Hr. Pez

05 apríl 2006


Nú fyrst enginn vildi segja neitt þá varð ég bara að segja mér það sjálfur: Samkvæmt fréttum og hljómleikaskrá á heimasíðu hljómsveitarinnar er ljóst að The Wedding Present munu leika á Grand Rokk fimmtudagskvöldið 27. apríl næstkomandi.

Ég er nú þegar búinn að panta mér fjóra diska sem nauðsynlega vantaði í safnið: George Best, Úkraínsku sessjónina, Take Fountain og Bizarro (sem ég átti ekki nema á vinyl og hef ekki heyrt í fimmtán ár eða þarumbil).

Bandið hefur tekið dálitlum breytingum frá í gamladaga, þótt að helftinni til séu gamlir félagar enn til staðar. Og þetta er náttúrulega ekkert flókið: Sjö ár eru græskulaust daður. JFK er eplabaka. Gedge er The Wedding Present.

Fyrir. Eftir.

Svo er bara vonandi að kvöldið hjá mér sé ekki bókað í eitthvað annað. Er ég eini nördinn sem verður á svæðinu (fyrir utan þá í bandinu, vitaskuld)?
by Hr. Pez


David Beckham er hetja dagsins. Að segja það er meira en að segja það. Ef ég hefði hatt þá tæki ég hann ofan fyrir honum.

Samt skondið ef gervalla metrósexúalbylgjuna er hægt að skrifa á þráhyggjukennda erfiðleika eins manns með að hætta að þvo sér.

Ég lá fyrir á mánudeginum. Og gærdagurinn var allur á öðrum endanum þegar í vinnu var komið.

Þaráður sáum við Ronju ræningjadóttur á laugardeginum. Það var miklu betri sýning en ég átti von á - óhætt að mæla með henni. Stelpurnar sátu dolfallnar.

Svo er ekki nema rétt rúm vika í að þær sjái Kardimommubæinn.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com