<$BlogRSDUrl$>

28 mars 2006


Seinni sýning gekk ljómandi vel í fyrrakvöld. Meðan ég beið eftir sexunni heim niðrá Lækjartorgi var ég spurður um "bus number thirteen," hvort hann væri kominn. Sá sem spurði var túristi frá Egiftalandi ("you know, with the pyramids"), á leið heim í gistinguna úti á nesi. Ég spurði vitaskuld há hí lækd æsland og hann lét vel af - var búinn að vera hérna í fimm daga og átti uppundir tvær vikur eftir. Hann spurði mig hvort ég væri í alvörunni Íslendingur; honum fannst ég eitthvað dökkur yfirlitum. Ég útskýrði fyrir honum að þetta væri útbreiddur misskilningur, við Íslendingarnir værum nefnilega mun "darker breed" en fólk gerði sér grein fyrir - við værum sko engir ljósfextir Svíadjöflar. "Just see Unnur Birna, Most Beautiful Woman in the World, she has dark hair." Fyrir utan náttúrulega allt rauða hárið, "our Celtic heritage, you know."

Mér fannst hann nú helstil ljós yfirlitum sjálfur, af Egifta að vera. En vildi nú samt ekkert vera að bera það uppá hann. Kannski ég hefði átt að gera það; kannski eru Egiftar mun "fairer breed" en umheimurinn gerir sér grein fyrir. "Our Greek heritage" eða eitthvað.

Svo kvöddumst við með virktum þegar bus number thirteen kom fyrir hornið af Hverfisgötunni. Skömmu seinna var ég sjálfur á minni leið uppí Grafarvoginn. Þegar ég steig út uppá Borgarholtinu glitruðu norðurljós yfir borginni meðan Jónsi söng í æpoddinum að það besta sem Guð hefði skapað væri nýr dagur. Ég hefði lagst í móinn og horft á þau dansa dálitla stund við hugljúfan undirleik ef ég hefði ekki verið í svona voðalegum hlandspreng eftir bjórinn úr Kjallaranum. Mér leið eins og ég væri aftur orðinn sex ára á harðahlaupum heim utanaf klettunum við Krossanesið, með hlandrák á buxunum niður innanlærið og loðnumjölið ilmandi í blænum.

Kannski Guð sé bara loðnubræðsla eftir allt saman.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com