<$BlogRSDUrl$>

16 mars 2006


Allt brjálað í fréttum í gærkveldi maður.

Fjölskyldan fór reyndar í sund undir kvöldfréttunum í gær, svo það var ekki fyrr en í morgun að ég frétti það helsta. Ég ætla ekkert að segja um Baugsmál. Og ekki heldur um herinn. En fréttir af því hve illa fór með fyrstu tilraunir á lyfinu TGN1412 í Bretlandi sitja í mér.

Það er ljóst að það sem átti að vera tíðindalaus dagur í lyfjaprófun leystist upp í hreint helvíti á jörð.

Ónæmiskerfið í okkur er býsna öflug maskína. Það er nokkuð sem maður hugsar ekki um dagsdaglega, meðan maskínan malar. Við gleymum því hversu langan tíma náttúran hefur haft til að fínstilla vélina og töpum okkur í áhyggjum yfir magni baktería í ísvélastútum og förum á límingunum þegar börnin okkar éta sand og drullu. Berum á okkur sótthreinsandi áður en við kjáum framan í þau.

En maskínan er þarna og hún virkar. Bara stundum á annan hátt en við eigum von á. Það sjáum við í dæmum eins og þessu, þar sem lyf sem er sérstaklega hannað til að hafa áhrif á ónæmiskerfið hefur vægast sagt önnur áhrif á það en til var ætlast. Þar sem innspýtingin virðist hafa rokið í botn vegna þessa óvænta áreitis og vélin setið föst í hundraðþúsund snúningum.

Málið er auðvitað stærra en sem nemur þeim sex mannlegu harmleikjum sem eru þarna í uppsiglingu. Afleiðingarnar gætu átt eftir að verða mjög víðtækar. Innan næstu vikna fáum við væntanlega að vita eitthvað meira um ástæðuna - hvað fór úrskeiðis. Líklega er um að ræða eitthvað af þrennu:

1) Mannleg mistök við framkvæmdina sjálfa - rangur skammtur, framleiðslugalli, efnamengun... Ekki vildi ég vera í skóm þess sem hefði eitthvað slíkt á samviskunni.

2) Ófullnægjandi úrvinnsla á niðurstöðum vinnu af tilraunastofu og úr dýratilraunum. Fréttir eru sem stendur misvísandi um það hvaða dýr voru notuð til tilrauna og hverjar niðurstöðurnar voru (óstaðfestar fregnir um að hundur hafi drepist í kjölfar forprófana verða að dæmast sem sögusagnir á þessu stigi málsins).

Hvorttveggja er vitaskuld nógu alvarlegt útaffyrir sig og gefur meira en fulla ástæðu til að endurskoða alla prótókolla sem viðhafðir eru við lyfjaþróun í dag (svipað yfirhalningunni sem kom í kjölfar þalídómíð-barnanna fyrir fjórum áratugum síðan, þarsem vísbendingum um fósturlát í kanínum var m.a. stungið undir stól, ef ég man rétt). En ég hef séð þriðja möguleikanum velt upp á internetinu, og sá er jafnvel sá mest ógnvekjandi:

3) TGN1412 er "klæðskerasaumað" lyf, það fyrsta sem skyldi miðað á sérstaka boðleið í tjáskiptaferli T- og B-frumna ónæmiskerfisins í mannfólki. Það má vera að niðurstöður dýratilrauna hafi einfaldlega gefið rangar væntingar um virknina í fólki. Ekki fyrir það að neitt væri að tilraununum sjálfum, heldur þvertámóti fyrir það að lyfið væri jafnvel bara of vel hannað - að sérhönnuð áhrif þess á mennskar frumur hafi verið ófyrirsjáanleg í því líffræðilega umhverfi þar sem það var skoðað í hundum/rottum/öpum/kanínum.

Sé svo, þá er það illt viðfangs. Því hvernig á þá að vera hægt að svo mikið sem byrja að meta það hvaða áhrif mögulegt framtíðarlyf hefur á þá sem taka það?

Illt viðfangs.

Öllu gleðilegri tíðindi úr vísindageiranum: Núna er hægt að búa til broskalla úr DNA. Og kort af heiminum líka, þessvegna (ef hlekkurinn krefst áskriftar má sjá frétt um það sama hjá Nýja Vísindamanninum).

Annars fórum við í sónar í morgun og allt leit vel út. Allt á sínum stað og ekkert sem vantaði. Eins og blessaður Kaninn segir: "Count your blessings."
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com