<$BlogRSDUrl$>

15 febrúar 2006


Hún Eygló var að spyrja mig:
Má fólk ekki bara kaupa blóm og súkkulaði og semja rómantísk ljóð þann 14. febrúar ef það vill?


Svar: Vitaskuld, rétt eins og hvaða dag annan sem því dettur í hug. En þrjú síðustu orðin í spurningunni eru lykil-.

Kona ein ágæt sem vinnur með mér sagði mér í hádeginu ágæta dæmisögu, sem reyndar gerist ekki á Valentínusi, heldur á hinum ágæta og alíslenska konudegi (sem okkur hjónum er báðum kært til). Sagan var nokkurn veginn svona:

Það var í hádeginu á konudeginum fyrir nokkrum árum. Maðurinn minn var inni í stofu að hlusta á útvarpið. Og það buldu á honum auglýsingarnar frá blómasölum út um hvippinn og hvappinn: Segðu það með blómum; láttu blómin tala; karlar munið konudaginn. Það kom loksins að því að hann gat ekki setið undir þessu lengur, svo hann kemur inn í eldhús til mín og spyr: "Langar þig til að ég gefi þér blóm í dag?" Og ég var náttúrulega með svarið á reiðum höndum: "Ég vil ekki að þú gefir mér blóm af því hvaða dagur er. Ég vil að þú gerir það af því að þú elskar mig." Þá svaraði hann: "Nújæja, þá skulum við bara gleyma þessu," og labbaði aftur inn í stofu.


Útlegging er skilin eftir til æfingar fyrir lesandann. En sagan er góð engu að síður.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com