<$BlogRSDUrl$>

27 febrúar 2006


Um daginn í útvarpinu heyrði ég lag. Svokallaða ábreiðu.

Þetta var í bílnum, fjölskyldan var á leið heim, við keyrðum upp Ártúnsbrekkuna og í útvarpinu upphófst sá hræðilegasti níunda-áratugar-hryllingur sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ekki minnkaði skelfingin þegar við áttuðum okkur á því að lagið sem um ræðir var gamli Gleðideildar-slagarinn "Ástin mun rífa okkur í tætlur."

Í flutningi Paul Young.

Nú er frúin enginn sérstakur Joy Division aðdáandi. En tók undir með mér að téð hljóðritun væri ekkert minna en glæpur gegn mannkyni.

Það er á stundum sem þessum sem mér er skapi næst að lýsa yfir stuðningi við stofnun sérstakrar öryggislögreglu. Nema hún ætti að heyra beint undir menntamálaráðherra og hverjum þeim sem yrði uppvís að tilraun til menningarhryðjuverka af þessu tagi ætti að vera hægt að varpa í myrkustu dýflissu án lögfræðilegrar aðstoðar í ótiltekinn tíma meðan menningaröryggislögreglan gengur úr skugga um að starfsemin sé upprætt að fullu og öllum afurðum hryðjuverksins komið í lóg á tryggilegan máta.

Við hvaða hitastig bráðna geisladiskar?
by Hr. Pez

24 febrúar 2006


Jæja, þá er það (nokkurnveginn) ákveðið - við komum saman aftur og gerum eitthvað meira. Við mætumst í næstu viku til skrafs og ráðagerða og hefjum vonandi æfingar í vikunni þar á eftir. Það stefnir í að lænöppið haldi sér og alltsaman. Ein stærsta spurningin verður eflaust hvort við eigum að halda nafninu eða finna okkur nýtt. Af því tilefni er í fyrsta skipti sett inn könnun hér til hægri. Lesendur eru hvattir til að vera ekkert að skafa utanaf því.
by Hr. Pez


Ég bara verð að plögga þessa lærðu vísindagrein. Skyldulestur á föstudegi eins og þessum.

"Somewhere in the cosmos, along with all the planets inhabited by humanoids, reptiloids, walking treeoids, and superintelligent shades of the colour blue, a planet is entirely given over to spoon life-forms."

Já, við þurfum að gæta okkar á að eyðileggja ekki hið viðkvæma vistkerfi teskeiðanna okkar. Það er lexía dagsins. Og með það er ég farinn með bollana mína niður í mötuneyti.
by Hr. Pez

23 febrúar 2006


Móðir eins vinnufélaga míns fékk eitt sinn far í bíl með tengdadóttur sinni, mágkonu þess er söguna sagði mér og öðrum nú í hádeginu. Sú gamla var dálítið gefin fyrir líkkistunaglana, og þegar búið var að keyra nokkra stund skrúfaði hún niður rúðuna og kveikti sér í.

Tengdadóttir hennar þagði við nokkra stund en sagði síðan, með augun á veginum: "Veistu það tengdamamma, við hjónin höfum það fyrir reglu að við reykjum aldrei í bílnum."

Sú gamla leit yfir til hennar, saug á og mælti svo um leið og hún blés frá sér: "Já veistu, þetta er ágætis regla hjá ykkur."

Svo sló hún af út um gluggarifuna áður en hún saug að sér á ný.

Síðan þá skilst mér að þetta mál hafi ekki verið til umræðu í fjölskyldunni.
by Hr. Pez

21 febrúar 2006


Gærkvöldið var örlítil bót í máli fyrir fyrradaginn. Það sem mér þótti verst var að ég var í vinnunni lungann úr sunnudeginum og gat því ekki dekstrað við frúna eins og mig langaði. Kom ekki heim fyrr en hún var sofnuð.

Stundum eru svona dagar.

En sumsé, mér leið ögn betur í gærkvöldi þegar hún kom heim um tíuleytið, dauðþreytt eftir langan dag, og ég hafði til reiðu handa henni heitt vatn í kamillute, niðurskorið mangó, jarðarber, banana og After-eight með þeyttum rjóma meððí.

Áttum við þá notalega kvöldstund saman í stofusófanum og fylgdumst með framvindu mála í glæparannsóknum í Las Vegas.
by Hr. Pez

20 febrúar 2006


Hápunktur helgarinnar: Laugardagskvöldið, vitaskuld. Kom náttúrulega rosalega á óvart. Hrefna kaus lagið hennar Silvíu Nóttar (þetta er svo fyndið!). Foreldrar hennar kusu lítilmagnann í öðru sætinu.

Lágpunktur helgarinnar var konudagurinn. Ég var voðalega óalminlegur við konuna mína. En mundi þó fyrir rest að skila til hennar kveðjunni frá föstudeginum.
by Hr. Pez

17 febrúar 2006


Ég rakst á Helenu Eydal við kaffivélina í morgun. Ekki þessa með stokkinn heldur dóttur hennar og nöfnu. Við vorum bekkjarfélagar í Glerárskólanum fyrir margt löngu. Og einnig samtíða síðar á menntabrautinni. Nú erum við sumsé orðin vinnufélagar. Eða soleiðis.

Þetta voru fagnaðarfundir. Hún bað að heilsa þér Árný mín (ef ég skyldi gleyma þessu áður en við hittumst í kvöld).
by Hr. Pez

15 febrúar 2006


Hún Eygló var að spyrja mig:
Má fólk ekki bara kaupa blóm og súkkulaði og semja rómantísk ljóð þann 14. febrúar ef það vill?


Svar: Vitaskuld, rétt eins og hvaða dag annan sem því dettur í hug. En þrjú síðustu orðin í spurningunni eru lykil-.

Kona ein ágæt sem vinnur með mér sagði mér í hádeginu ágæta dæmisögu, sem reyndar gerist ekki á Valentínusi, heldur á hinum ágæta og alíslenska konudegi (sem okkur hjónum er báðum kært til). Sagan var nokkurn veginn svona:

Það var í hádeginu á konudeginum fyrir nokkrum árum. Maðurinn minn var inni í stofu að hlusta á útvarpið. Og það buldu á honum auglýsingarnar frá blómasölum út um hvippinn og hvappinn: Segðu það með blómum; láttu blómin tala; karlar munið konudaginn. Það kom loksins að því að hann gat ekki setið undir þessu lengur, svo hann kemur inn í eldhús til mín og spyr: "Langar þig til að ég gefi þér blóm í dag?" Og ég var náttúrulega með svarið á reiðum höndum: "Ég vil ekki að þú gefir mér blóm af því hvaða dagur er. Ég vil að þú gerir það af því að þú elskar mig." Þá svaraði hann: "Nújæja, þá skulum við bara gleyma þessu," og labbaði aftur inn í stofu.


Útlegging er skilin eftir til æfingar fyrir lesandann. En sagan er góð engu að síður.
by Hr. Pez


Auk þess má geta að konan mín fékk engin blóm og ekki horngrýtis neitt frá mér í gær. Hinsvegar fékk hún þennan líka fína rósavönd frá manni sem hefur yfir mér að segja. Hann lét mig meiraðsegja um að koma honum til skila.

Ég veit nú ekki alveg hvað mér á að finnast um það...
by Hr. Pez


Í fyrsta skipti sem konan mín heyrði Benna Hemm Hemm syngja "Til eru fræ" var hún sannfærð um að þetta væri Páll Óskar.

Ég skil hana mjög vel.
by Hr. Pez

14 febrúar 2006


Með orðum Guðmundar Inga Þorvaldsonar:

Valentínus, hommalínus,
hunskastu heim til Ameríku.
by Hr. Pez

13 febrúar 2006


Hápunktur helgarinnar: Fertugsafmæli bróður míns á laugardagskvöldið. Það var... veglegt.
by Hr. Pez

10 febrúar 2006


Húrra! Það er bloggleikur!

Fjarkinn

Fjórar vinnur sem ég hef unnið um ævina:
- Bréfberi
- Þjónn
- Afgreiðslumaður á vélsmiðjulager
- Handlangari í múrverki

Fjórar bækur sem ég gæti lesið aftur og aftur:
- Heimurinn okkar
- Yfir heiðan morgun, eftir Stefán Hörð Grímsson
- Fiðrið úr sæng Daladrottningar, eftir Þorstein frá Hamri
- Af skáldsögum: kannski Íslenskur aðall, eftir Þórberg. Annars sé ég lítinn tilgang í að endur- og síendurlesa heilu skáldsögurnar frá upphafi til enda (nema það sé í einhverslags stúdíutilgangi). En góð ljóð er gaman að sækja heim aftur og aftur.

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
- Akureyri
- Blönduós
- Hólar í Hjaltadal
- Brno

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég reyni að missa ekki af:
- Kvöldfréttir Sjónvarpsins
- Geimferðakapphlaupið
- Bráðavaktin
- Öh, Evróvisjón

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- Neepawa
- Ulm
- Norðymbraland
- Karlovy Vary

Fjórar síður sem ég skoða daglega:
- Mogginn
- Gneistinn (sem klukkaði mig)
- Hungursetrið
- NationStates

Fernt matarkyns sem ég held uppá:
- Mexíkönsk matargerð
- Indversk matargerð
- Ítölsk matargerð
- Íslensk matargerðarlist

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
- Í leikhúsi. Eða bara bíó. Eða í strætó, að lesa góða bók
- Við Paradísarhyl í Borgarfirði
- Í Reitnum frammi við Torfufell
- Hvar sem er með konu minni og börnum

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
- Magnús Teitsson
- Tampa-Torfinn
- GEN
- Þruman í Íþöku
by Hr. Pez

09 febrúar 2006


Orð dagsins eru tvö, borin fram eins og skrifuð nánast á sama máta, en hafa hvort sína merkinguna.
aibophobia: Sjúkleg hræðsla við vélhyndi.
aibohphobia: Sjúkleg hræðsla við orð sem eru stöfuð eins afturábak og áfram.

Vonandi fékk enginn hland fyrir hjartað við að lesa þetta.

Annars er mjög jákvæður dómur frá Jónasi Sen í Mogganum í dag um tónleikana í fyrrakvöld. Klappa sér á bakið fyrir það.
by Hr. Pez

07 febrúar 2006


Það stefnir í magnaða tónleika í kvöld - þetta small allt á lokaæfingunni í gærkveldi. Þarna verða nokkrar gullfallegar perlur sem fá fullorðna karlmenn til að gráta (a.m.k. þá sem brotna yfir Bangsímon) og ég held að einhverjir eigi eftir að skella uppúr yfir síðasta verki á dagskrá - jarðneskar leifar Snorra Sturlusonar munu snúa sér við í gröfinni, hver í sínu lagi, yfir því hvernig farið er með textann hans.

Pældi ekki í því fyrr en ég sá það hvítt á svörtu, en það hittist þannig á að slatti af bloggurum verður með sóló: GEN, BIRD, Vælan og undirritaður, ásamt með fleirum.

This one comes highly recommended indeed.
by Hr. Pez

03 febrúar 2006


Plögg!
by Hr. Pez

02 febrúar 2006


Rétt í þessu var sendur út innanhússpóstur um það að "Kvennamanns leðurhanski" hefði fundist hér fyrir utan í morgun.

Eigandanum er bent á að hann geti nálgast hann hjá stúlkunum í móttökunni.
by Hr. Pez

01 febrúar 2006


Alveg ótengt öllu því sem sett getur heiminn á annan endann langar mig til að vísa á hlekk sem sýnir túlkun 20 ólíkra listamanna á Davíð Oddsyni.

Vonandi móðgast enginn.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com