<$BlogRSDUrl$>

27 janúar 2006


Tíðindalítil vika á enda runnin. Nóg við að vera í deidjobbinu og hugðarefnin sitja á hakanum.

Og þó.

Kóræfingin á þriðjudagskvöldið var skemmtileg. Ég og GEN vorum skikkaðir í sóló í einu verkinu sem frumflutt verður á tónleikunum eftir eina og hálfa viku, sem leiddi til þess að Bjössi Bassi var sjanghæjaður í sólóið sem losnaði (láttekkisona Björn, þig langaði víst til þess!).

Þetta verður stórskemmtilegt verk. Og, sýnist mér, býsna flottir tónleikar.

Stelpurnar eru á einhverju mótþróaskeiði þessa dagana. Það verður að siða það úr þeim með öllum tiltækum ráðum.

Ég átti skemmtilegar samræður við vinnufélagana í einu hádeginu núna fyrr í vikunni. Það var verið að ræða laugardagskvöldið síðasta (í tengslum við Evróvisjónkeppnina). Þá tók samtalið þessa stefnu:

HP: "...Annars verð ég nú að deila með ykkur hvað ég átti yndislegt kvöld þarna á laugardaginn."
Vinnufélagar: "Nú, hvað gerðirðu?"
HP: "Bara, ég var heima með konunni, við áttum indæla kvöldstund saman."
VF: "Er það já...?"
HP: "Já. Við prófuðum nefnilega dálítið sem við höfðum aldrei gert áður."
VF: "!!!"

Það vill segja, skyndilega litu allir á mig stórum augum og virtust bíða í óttablandinni þögn eftir því hvað ég segði næst. Sem var lýsing á því hvernig við gáfum stelpunum mat við þeirra hæfi um kvöldmatarleytið og leyfðum þeim síðan að vaka yfir Evróvisjón. Svo meðan ég kom þeim í rúmið og Spaugstofan malaði inni í stofu eldaði frúin dýrindis folaldasteik og við hjónin áttum okkur rómantíska kvöldstund við kertaljós, tvö saman í eldhúsinu. Sátum og spjölluðum fram á miðnæturstundina og fórum þá að hátta.

Indælt kvöld. Við ætlum að gera þetta aftur.

Einhverra hluta vegna kvörtuðu vinnufélagarnir hástöfum yfir sögunni. Fannst hún ekki alveg standa undir væntingum.

Svona lið.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com