<$BlogRSDUrl$>

09 janúar 2006


Eruði hálfvitar?! Er ekki allt í lagi heima hjá ykkur?!!!

Bandarískur kvikmyndaleikstjóri og -framleiðandi kom í heimsókn upp á skerið í tvígang á síðasta ári og eyddi hér áramótunum í góðum fíling og félagsskap. Íslendingar virtust almennt afskaplega upp með sér og stoltir yfir því ástfóstri sem Tarantínó virtist hafa tekið landi og þjóð. Svo líða nokkrir dagar og hann skýtur upp kollinum í spjallþætti vestanhafs og deilir þessari reynslu sinni með samlöndum sínum, svona eins og hún kom honum sjálfum fyrir sjónir. Og þá ætlar allt vitlaust að verða. Grey strákurinn er sakaður um pungrembu, kvenfyrirlitningu og gott ef ekki samsæri með FL Group og Svanhildi Hólm Valsdóttur um að hvetja til skipulagðra kynlífsferðalaga uppá klakann. Og það sem verst er af öllu: hann er lýstur sekur um slæma landkynningu. Það er bara dörtí víkend ollóveragen.

Exkjús mí.

Maðurinn kom hingað fyrir orð og tilstilli vinar síns og félaga með litlar hugmyndir um það hvers væri von. Hann var á leið til landsins þaðan sem Svartidauði kom, allt annað var bónus. Og hann var svo ánægður með dvölina að hann ákvað að koma að vörmu spori aftur og slá upp kvikmyndapartíi fyrir þá sem langaði. Og öðru af hefðbundna taginu á Rex á nýársnótt. Bara af því hann fílaði landið. Liðið sem hann hitti og svona.

Só far só gúdd.

En bojóboj, svo opnar maðurinn á sér trantinn og tjáir sig um reynsluna, alveghreint í sjöunda himni með þetta alltsaman. Ælovitt. Og þakið fýkur af íslensku þjóðinni í vanþóknan.

Sem leiðir talið að upphafsorðunum. Hvað í anskotanum kemur ykkur eiginlega við þótt Quentin Tarantino deili því með Ammríku að hann hafi verið í alveg ógeðslega skemmtilegu áramótapartýi? Hvað varðar ykkur um það?

Vots itt tú jú?!

Má maður ekki lengur segja sínar ferðasögur í friði fyrir þurrkuntulegu mussuliði beggja kynja? Hvað hefur eiginlega breyst síðan Damon Albarn var rifinn upp á sjálfsvorkennandi þunglyndisrassgatinu sínu og dreginn í partý á Kaffibarnum fyrir tíu árum? Hvar voru hneykslunarraddirnar þegar hann "Deimon okkar" sagði NME og Melody Maker að skemmtilegustu partý í heimi væru haldin í Reykjavík?

Förum aðeins yfir sönnunargögnin.

QT lýsir því að hann hafi verið að tala við íslenska stelpu sem sagðist skammast sín fyrir það hvað kynsystur hennar væru miklar fyllibyttur og slæmar með víni þegar ein Reykjavíkurmærin gengur hjá og fellur kylliflöt á andlitið fyrir framan nefið á þeim. Dregur einhver í efa að nokkuð eins og þetta geti hafa átt sér stað í nýárssamkvæmi í miðbæ Reykjavíkur? Haldiði virkilega að hann hafi þurft að smyrja á í lýsingunum?

Ég minni á að um svipað leyti og þessi vanþóknunarumræða stóð sem hæst birtist myndasería í DV (þar sem ekki fór minnst fyrir hneyksluninni á honum Tarantínó greyinu) af konum og körlum í drukknum fjöldaslagsmálum á Hótel Íslandi á nýársnótt. Og einni aumkvunarverðri stúlku sem virtist hafa ælt oní glasið sitt. Og svo drepist oní það alltsaman.

Eru Íslendingar ekki sjálfum sér verstir?

Hvað sagði hann fleira? Jú, þetta: "Íslendingar drekka oftast mjög mikið en á gamlárskvöldi missa þeir gjörsamlega stjórn á sér og þá sérstaklega konurnar. Þær verða alveg geðveikar og drekka heil ósköp."

Já ókei, hann tekur sérstaklega fram hvað sér hafi þótt um kvenfólkið. Só vott? Hann er gagnkynhneigður karlmaður á besta aldri sem stendur slétt á sama um það hvernig drukknir karlmenn hegða sér í fjarlægum löndum. Við skulum lýsa hann sekan um að vera Kani: Hann virðist ekki vanur því að konur séu þær sjálfar. Löndur hans eru kannski of uppteknar við að horfa á Batchelorinn og Swaninn og Opruh Winfrey og prísa sig sælar yfir því hvað þær hafi það gott, really, til að geta leyft sér að standa uppá borðum og öskra hvenær þetta helvítis partý ætli eiginlega að fara að byrja hédna?!!!

Þeim leyfist greinilega ekki að gera slíkt í Ameríku. Sem leiðir af sér tvær spurningar:

1) Gefur það okkur ástæðu til að hengja Quentin Tarantino í hæsta gálga?
2) Rétt upp hend sem vill skipta.

Eins og hann spurði sig sjálfur: "Hvar hef ég eiginlega verið allt mitt líf?" Svarið við þessari spurningu útskýrir margt af því sem hann lét útúr sér: Svona kom Ísland frægum Bandaríkjamanni fyrir sjónir. Er einhver undrandi?

Really?

Líka þetta: Hann er greinilega ekki aðeins að lýsa því sem hann sá sjálfur. Hann er einnig að deila með öðrum þeirri mynd sem Íslendingar hafa af sjálfum sér. Hinn almenni Íslendingur, sá sem mannar sig upp í að spjalla við Quentint Tarantino og deila með honum áliti sínu á landi og þjóð í gúddí fíling á gamlárskvöldi. Frá hverjum hefur maðurinn það sem hann viðrar eins og viðtekna skoðun, að Íslendingar drekki oftast mjög mikið? Frá Hannesi Smárasyni? Svanhildi Hólm Valsdóttur? Ferðamálaráði? Ópru Vinfrí?

Sjálfum sér verstir, anyone?

Gett óver itt. Manninum er fullfrjálst að tjá sig um reynslu sína eins og hann sjálfur kýs. Það er ekki eins og hann sé á launum hjá Ferðamálaráði. Ef hann nennir ekki að tala um að hann hafi farið upp á jökul á vélsleða þá er það hans mál. Einskis annars. Og þegar bent er á að hann hafi ekki minnst á það einu orði ber það ekki vitni um vanþakklæti hans, heldur hrokann og yfirlætið í okkur sjálfum.

Allir þeir sem hafa hneykslast yfir þessum ummælum Íslandsvinarins, upphátt eða í hljóði, eru hér með lýstir dómadags ekkisens lúðar.

Ekkisens, eins og í ekki-sens: Þið bara meikið ekki sens!

Eruði virkilega að meina þetta?! Eruði hálfvitar?!!!
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com